Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2018 September

07.09.2018 22:55

Suðurey ÞH 9 seld utan og farin af stað

Um kl 16:30 í dag sigldi Suðurey ÞH 9 frá Vestmanneyjum áleiðis til Agadir í Marokko en hún hefur verið seld Svíum sem gera þaðan út.

Það er áætlað að siglingin þarna niður eftir taki um það bil 10 sólarhringa segir Tryggvi Sigurðsson sem tók þessa mynd í dag.

2020. Suðurey ÞH 9 ex VE. © Tryggvi Sigurðsson 2018.

07.09.2018 17:17

Börkur NK 122 og Vilhelm Þorsteinsson EA 11

Hér koma tvær tölvugerðar myndir af Berki NK 122 og Vilhelm Þortseinssyni EA sem skipasmíðastöðin Karstensen A/S í Skagen mun smíða fyrir Síldarvinnsluna og Samherja. Vilhelm er með smíðanúmer 452 og Börkur 453. Skrokkarnir verða smíðaðir í skipasmíðastöð í Gdynia í Póllandi sem danska stöðin á.

Börkur NK 122. Tölvugerðar myndir af heimasíðu Karstensen A/S 

 

Vilhelm Þorsteinsson EA 11. Tölvugerð mynd af heimasíðu Karstensen  A/S

07.09.2018 08:15

Nýr Vilhelm Þorsteinsson EA 11

Samherji hefur samið um smíði á nýju uppsjávarskipi við Karstensen Skipsverft í Skagen, Danmörku.  Skipið sem á að afhenda um mitt sumar árið 2020 verður vel búið í alla staði, bæði hvað varðar veiðar og meðferð á afla, sem og vinnuaðstöðu og aðbúnað áhafnar.

Burðargeta skipsins verður um 3.000 tonn af kældum afurðum.

Á heimasíðu Samherja segir að nýsmíðin mun leysa af hólmi núverandi Vilhelm Þorsteinsson EA 11 sem kom nýr til landsins fyrir 18 árum.  Samningar voru fullfrágengnir þann 4. september en þann dag hefðu tvíburabræðurnir Baldvin og Vilhelm Þorsteinsssynir orðið 90 ára gamlir, Baldvin lést 21. desember árið 1991 og Vilhelm þann 22. desember árið 1993.

Afmælisdagur þeirra bræðra, 4. september, hefur áður tengst stórviðburðum í sögu fyrirtækisins. Þann 4. september árið 1992 var nýsmíði Samherja, Baldvin Þorsteinssyni EA 10, gefið nafn og  3. september árið 2000 var núverandi Vilhelm Þorsteinssyni EA 11 gefið nafn.  Ástæðan fyrir 3. september var sú að 4. september bar upp á mánudag.

Hjátrú hefur lengi fylgt lífi sjómannsins þar sem haldið er í hefðirnar til að reyna að tryggja farsæla heimkomu og góðan afla og voru þeir bræður engin undantekning. Á tímabili þegar Baldvin starfaði sem skipstjóri þurfti hann iðulega að fara í ákveðna peysu áður en nótinni var kastað en peysuna hafði hann erft eftir mág sinn, Alfreð Finnbogason, hinn mikla aflaskipstjóra.

Samherji heldur í góðar hefðir líkt og bræðurnir Vilhelm og Baldvin gerðu. Til að mynda skulu skip ekki fara til veiða á nýju ári á mánudegi né nýr starfsmaður að hefja störf. Það er því engin tilviljun að gengið var frá samningum um smíði nýs skips á þessum degi 4. september.

Lesa meira á heimasíðu Samherja

 

       Tölvuteikning af Vilhelm Þorsteinssyni EA 11 af heima síðu Samherja.

 

Icelandic fishing and processing firm Samherji has commissioned the building of the Vilhelm Thorsteinsson EA, a new pelagic vessel at Karstensen Shipyard in Skagen, Denmark. 

The vessel is expected to be delivered by mid-summer in 2020 and will be well-equipped in terms of fishing and the handling of catches, as well as the working facilities and crew equipment, the company said.

The capacity of the ship is around 3,000 metric tons of chilled products.

The new vessel will replace the existing Vilhelm Thorsteinsson EA 11. (Intrafish.com)

06.09.2018 18:16

Ísborg II ÍS 260

Hér liggur Ísborg II ÍS 260 klár til brottfarar frá Akureyri til nýrrar heimahafnar á Ísafirði. Áður Klakkur SK 5, SH 510 og VE 103. Smíðaður1977 í Gdynia í Póllandi.

1472. Ísborg II ÍS 260 ex Klakkur SK 5. © Haukur Sigtryggur 2018.

 

05.09.2018 22:28

Gnúpur GK 11

Frystitogarinn Gnúpur GK 11 hélt til veiða frá Grindavík í kvöld og Jón Steinar tók þessa mynd með drónanum sínum.

1579. Gnúpur GK 11 ex Guðbjörg ÍS. © Jón Steinar 2018.

04.09.2018 18:36

Nýr Börkur verður afhentur í árslok 2020

Stjórn Síldarvinnslunnar hefur samþykkt að ganga til samninga við danska skipasmíðafyrirtækið Karstensens Skibsværft AS um smíði á nýju uppsjávarskipi. Mun skipið fá nafnið Börkur og verður það væntanlega afhent Síldarvinnslunni í lok árs 2020. Þessi nýi Börkur mun leysa af hólmi núverandi Börk sem verið hefur í eigu Síldarvinnslunnar frá árinu 2014, en nýsmíðin verður fimmta skipið í eigu fyrirtækisins sem ber þetta nafn.

Karstensens er með höfuðstöðvar sínar í Skagen í Danmörku,  en auk þess rekur fyrirtækið skipasmíðastöð í Gdynia í Póllandi. Gert er ráð fyrir að skrokkur skipsins verði smíðaður í Póllandi.  Skipið verði síðan dregið til Danmerkur þar sem það verður fullklárað.  Karstensen hefur verið leiðandi í smíði uppsjávarskipa undanfarin ár en fyrirtækið hefur verið að afhenda 6-7 skip ári að undanförnu.

Hinn nýi Börkur verður smíðaður fyrir flotvörpu- og hringnótaveiðar. Lengd skipsins verður 88 metrar, breiddin 16,6 metrar og dýptin 9,6 metrar. Stærðin er 4.100 brúttótonn. Aðalvélar verða tvær 3200 kw hvor vél og rafall skipsins verður 3500 kw.   Þá verður í skipinu 820 kw hjálparvél.  Tvö kerfi, hvort um sig 1.500 kw, verða í skipinu til að kæla aflann, en samtals verða kælitankarnir 13 talsins og eru þeir alls 3.420 rúmmetrar. Vistarverur í skipinu verða fyrir 16.

Lesa nánar á heimasíðu Síldarvinnslunnar

Börkur NK 122 - Tölvuteikning af heimasíðu Síldarvinnslunnar.

 

Börkur NK 122 - Tölvuteikning af heimasíðu Síldarvinnslunnar.

 

Börkur NK 122 - Tölvuteikning af heimasíðu Síldarvinnslunnar.

03.09.2018 19:13

Polar Nataarnaq

Haukur Sigtryggur tók þessa mynd af grænlenska togaranum Polar Nataarnaq í aprílmánuði 2016 en þá hafði hann verið í slipp á Akureyri. Kom síðan við í sinni gömlu heimahöfn Dalvík til að taka kör. Já þetta er Fyrrum Bliki EA 12 sem keyptur var til Dalvíkur árið 1997 frá Grænalnadi þar sem hann hét Natarnaaq.

Í Morgunblaðinu þann 5. mars 1997 sagði svo frá:

Nýr togari, Bliki EA 12, í eigu hins nýja útgerðarfyrirtækis BGB liggur nú í heimahöfn á Dalvík.

Togarinn var keyptur frá Grænlandi og kemur í stað eldri Blika sem bíður þess að verða seldur. Útgerðarfyrirtækið BGB varð til nú um síðustu áramót með sameiningu útgerðanna Blika hf. á Dalvík og GBen sf. á Árskógsströnd.

Hinn nýi Bliki var endurnýjaður í Slippstöðinni á Akureyri og settur í hann sá búnaður sem íslensk lög og reglur kveða á um. Togarinn er 1734 rúmmetrar að stærð og verður gerður út frá Dalvík. Ráðgert er að Bliki fari í sína fyrstu veiðiferð fyrir nýja eigendur á morgun, fimmtudaginn 6. mars.

Bliki var seldur úr landi árið 2001.

Polar Natarnaaq ex Nova Gale. © Haukur Sigtryggur 2016.

02.09.2018 16:55

Kristján HF 100, nýr 30 bt. bátur frá Trefjum

Útgerðarfélagið Kambur ehf. fékk í sumar afhentan nýjan yfirbyggðan Cleopatra 46B beitningavélarbát frá Trefjum.

Í tilkynningu segir að nýi báturinn heiti Kristján HF 100. Báturinn er 14 metrar á lengd og mælist 30 brúttótonn og leysir af hólmi eldri Cleopatra bát með sama nafni.
Skipstjórar á bátnum eru Atli Freyr Kjartansson og Sverrir Þór Jónsson.

Aðalvél bátsins er af gerðinni Doosan 4V222TI 880hö (22L) tengd frístandandi ZF 665 V-gír.
Rafstöð er af gerðinni Scam/FPT/Linz 84kW (60kVA) frá Ásafli.
Báturinn er útbúinn siglingatækjum af gerðinni Furuno frá Brimrún ehf.
Báturinn er einnig útbúin með vökvadrifnum hliðarskrúfum að framan og aftan sem tengdar eru sjálfstýringu bátsins.
Báturinn er útbúinn til línuveiða.  Beitningavél, rekkakerfi og línuspil er frá Mustad í Noregi.
Búnaður á dekki er frá Stálorku.
Ísvél og forkælir er frá Kælingu ehf.
Löndunarkrani á er af gerðinni TMP frá Ásafli ehf.

Lífbátar og annar öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking.

Rými er fyrir allt að 72stk 460lítra kör í lest.  Millidekk er lokað með aðgreindu dráttarrými.  Í bátnum er upphituð stakkageymsla fyrir 6manns.  Stór borðsalur.  Salerni/sturta.  Þvottavel og þurrkari.  Svefnpláss er fyrir sex í lúkar í 4 aðskyldum klefum.
Fullbúið eldhús er um borð með öllum nauðsynlegum búnaði.  S.s. eldavél, bakarofni, örbylgjuofn, ísskáp og uppþvottavél.
Báturinn er útbúinn til lengri útiveru ef þarf og aðbúnaður um borð fyrir áhöfn í takt við það.

Framkvæmdastjóri Kambs er Hinrik Kristjánsson.

2961. Kristján HF 100. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

2961. Kristján HF 100. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

2961. Kristján HF 100 © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

2961. Kristján HF 100 í Hafnarfjarðarhöfn. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

02.09.2018 12:29

Sólberg ÓF 1 með mestan kvóta

Frystitogarinn Sólberg ÓF 1 er með mestar aflaheimildir íslenskra skipa á nýhöfnu kvótaári.

Þetta kemur fram á sjávarútvegsvef Morgunblaðsins, 200 mílum, í dag.

Þar segir jafnframt:

Sam­tals er kvóti skips­ins 12.392 tonn. Í öðru sæti er tog­ari Brims, Guðmund­ur í Nesi RE, með 11,594 tonn. 

Í 3. og 4. sæti eru Sauðár­krók­stog­ar­arn­ir sem Fisk ger­ir út; Málmey SK frá Sauðár­króki með 8.711 tonn og Drang­ey SK  með 8.588 tonn. Viðey, tog­ari Granda er í 5. sæti, en þeim tog­ara er heim­ilt að veiða 8.439 tonn á nýhöfnu kvóta­ári.

Breki VE frá Vest­manna­eyj­um er í 6. sæti, Björgólf­ur EA í því 7., Vigri RE er núm­er átta í röðinni, Björg EA í 9. sæti og loks í 10. sæt­inu er Eng­ey RE.

 

Hér koma myndir af þessum togurum sem um getur í fréttinni og í þeirri röð sem aflaheimildirnar segja um, þ.e.a.s  Sólbergið fyrst og svo koll af kolli.

2917. Sólberg ÓF 1. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

2626. Guðmundur í Nesi RE 13 ex Hvilvtenni. © Óskar Franz 2017.

 

1833. Málmey SK 1 ex Sjóli HF. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

2893. Drangey SK 2. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

2895. Viðey RE 50. © Óskar Franz 2018.

 

2861. Breki VE 61. © Tryggvi Sigurðsson 2018.

 

2892. Björgúlfur EA 312. © Haukur Sigtryggur 2017.

 

2184. Vigri RE 71. © Óskar Franz 2017.

 

2894. Björg EA 7. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

2889. Engey RE 1 ex RE 91. © Gundi 2017.

01.09.2018 17:18

Sandfell SU 75 slær met

Línubáturinn Sandfell SU 75 frá Fáskrúðsfirði er aflahæsti báturinn í  krókaaflamarkskerfinu á nýloknu fiskveiðiári með 2400 tonna afla. Er það mesti afli sem bátur í þessu kerfi hefur fiskað á einu fiskveiðiári frá upphafi þess.

Á heimasíðu Loðnuvinnslunnar segir að útgerð Sandfellsins hafi gengið langt umfram væntingar enda var litið á línubátaútgerð sem svolítið tilraunaverkefni þegar hún hófst en annað hefur aldeilis komið á daginn eins og áfhöfnin á Sandfelli hefur sýnt og sannað.

Hér má lesa frétt á heimasíðu Loðnuvinnslunnar um þennan glæsta árangur Sandfellsins

2841. Sandfell SU 75 ex Óli á Stað GK. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

2841. Sandfell SU 75 ex Óli á Stað GK. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

2841. Sandfell SU 75 ex Óli á Stað GK. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

01.09.2018 14:10

Lukka ÓF 57

Ég hef áður birt mynd af Lukku en þá var hún SI að mig minnir. Hér er hún ÓF en upphaflega hét hún Guðbjörg ÍS 46, smíðuð á Akranesi 2001 og hefur verið lengd síðan. Hún fékk síðar nafnið Lukka og var ÍS 357, síðan SI 57 og nú ÓF 57. Útgerð Siggi Odds ehf. 

2482. Lukka ÓF 57 ex SI. © Hafþór Hreiðarsson 2018.
Flettingar í dag: 155
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 1100
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 9395896
Samtals gestir: 2007465
Tölur uppfærðar: 8.12.2019 03:34:52
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is