Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

25.06.2017 12:15

Bjarmi

Þetta er að ég held eina myndin sem ég tók af Bjarma ÞH 277 frá Húsavík og það á fermingarmyndavélina. Bjarmi var seldur úr bænum haustið 1980 sem var einmitt árið sem ég byrjaði til sjós og ef ég man rétt er þetta tekið í lok vertíðar. Við vorum að mála Skálabergið þegar Bjarmi kemur að landi. Þá áttu Bjarma Örn Arngrímsson og Ásgeir heitinn Þórðarson sem þeir höfðu keypt hann sumarið 1978 og seldu síðan vestur á Patreksfjörð um haustið 1980 eins og fyrr segir.

Bjarmi var smíðaður hjá Nóa bátasmið á Akureyri fyrir Hermann Jónsson í Flatey og syni hans Ragnar og Jón. Báturinn hét Bjarmi TH 277 með heimahöfn í Flatey. Bjarmi sem síðar varð ÞH 277 var 6 brl. að stærð.

Á Patreksfirði hélt báturinn Bjarmanafninu en varð BA 277,  Árið 1985 var báturinn seldur suður í Sandgerði þar sem hann fékk nafnið Logi GK 121. Báturinn var afskráður og tekinn af skipaskrá 3. maí 1993 og stóð lengi upp á landi í Sandgerði og gerir kannski enn.

330. Bjarmi ÞH 277 ex TH 277. © Hafþór Hreiðarsson 1980.

25.06.2017 11:53

Njörður

Hér kemur mynd af Nirði EA 208 sem upphaflega hét Guðmundur Þór SU121. Smíðaður hjá Trésmiðju Austurlands hf. á Fáskrúðsfirði 1973.

Samkvæmt miða frá Hauki er nafnasaga bátsins svona: Guðmundur Þór SU 121, Fiskanes NS 13, Fiskanes NS 37, Guðmundur Þór SU 121, Sigurbára VE 249, Njörður EA 208, Haukur EA 208 og Haukur SF 208. Haukur SF 208 sökk 11. apríl 1997, mannbjörg varð.

Njörður var 17 brl. að stærð en hans helst mál voru þessi: lengd 13,89 m., breidd 3,74 m. og dýpt 1,61m. 

1312. Njörður EA 208 ex Sigurbára VE. © Hafþór Hreiðarsson.

25.06.2017 11:13

Björgúlfur og Hjalteyrin

Haukur Sigtryggur á Dalvík tók þessa mynd á dögunumþegar nýi BJörgúlfur EA 312 kom til heimahafnar á Dalvík. Gamli Björgúlfur, sem í dag heitir Hjalteyrin EA 306, sigldi til móts við arftaka sinn og fylgdi honum síðasta spölinn en sá gamli verður fertugur á þessu ári.

2892. Björgúlfur EA 312 - 1476. Hjalteyrin EA 306. © Haukur Sigtryggur 2017.

25.06.2017 10:27

Auðbjörg II

Auðbjörg II SH 97 kemur hér að landi í Ólafsvík. Báturinn var smíðaður á Skagaströnd 1976 og hét upphaflega Árnesingur ÁR 75. Svo segir m.a í 4. tbl.  Ægis 1977:  

2. október á sl. ári afhenti Skipasmíðastöð Guðmundar Lárussonar hf. á Skagaströnd 30 rúmlesta eikarfiskisskip. Skip þetta, sem hlaut nafnið Árnesingur ÁR 75, er nýsmíði nr. 10 hjá stöðinni og er fimmta skipið af þessari stærð sem stöðin byggir. Eigandi skipsins er Jóhann Alfreðsson, Selfossi og er hann jafnframt skipstjóri.

1982 er Árnesingur seldur Herði Jóhannssyni á Eyrarbakka og fékk hann nafnið Sædís ÁR 14. Í febrúarmánuði 1984 kaupir Enni hf. í Ólafsvík bátinn af Fiskveiðasjóði og fær við það það nafn sem hann ber á myndinni, Auðbjörg II SH 97 en fyrir átti útgerðin Auðbjörgu SH 197.

1991 verður hann Reynir AK 18, 1995 fær hann nafnið Vestri BA 64 og síðar BA 63. Því næst  Diddó BA 3 árið 2001 og síðan ÍS 13 áður en hann fær núverandi nafn árið 2006. Það er Guðný ÍS 13 og er hún skráð sem skemmtibátur.

1464. Auðbjörg II SH 97 ex Sædís ÁR. © Hafþór Hreiðarsson.

24.06.2017 13:55

Þeir tveir

Þegar Sólbergið nýja kom til heimahafnar í síðasta mánuði fórum við saman að mynda það Haukur Sigtryggur á Dalvík og Óskar Franz sem kom úr borginni. Hér eru kapparnir með skipið glæsilega í baksýn nýkomið að bryggju og við ánægðir með dagsverkið. Það er ekki laust við að maður kynnist mörgum í gegnum þetta bátamyndastúss og þá aðallega gegnum netið en það er alltaf gaman að hitta þessa snillinga í eigin persónu.

Haukur Sigtryggur og Óskar Franz á Siglufirði. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

24.06.2017 13:40

Oddeyrin

Hér koma tvær myndir af Oddeyrinni EA 210 sem nú er að hverfa af íslenskri skipaskrá. Seld til Noregs og hefur fengið nafnið Kagtind II. Fyrri myndina tók ég þegar Oddeyrin kom fyrst til heimahafnar á Akureyri þann 11. febrúar 2007 en seinni myndina tók Haukur Sigtryggur. Eins og sjá má af myndunum var togarinn lengdur á þessum tíma sem Samherji átti hann en það var gert í Póllandi árið 2012. Lengingin var upp á rúma tíu metra.

2750. Oddeyrin EA 210 ex Andenesfisk II. © Hafþór Hreiðarsson 2007.

 

2750. Oddeyrin EA 210 ex Andenesfisk II. © Haukur Sigtryggur.

24.06.2017 12:31

Salka

Salka enn og aftur en nú er það stjórnborðið sem snýr að ljósmyndaranum. Rúm fjörutíu ár eru síðan skipasmíðastöðin Dröfn í Hafnarfirði afhenti bátinn frá sér en hann teiknaði Sverrir Gunnarsson skipasmiður. Smíðaár bátsins er 1976:  

28. janúar s.l. afhenti Skipasmíðastöðin Dröfn h.f. í Hafnarfirði nýtt 37 rúmlesta eikarfiskiskip, sem er nýsmíði nr. 36 hjá stöðinni, og hlaut skipið nafnið Hafsúlan SH 7. Eigandi skipsins er Halldór S. Sveinsson, Reykjavík og er hann jafnframt skipstjóri. (Ægir 3. tbl. 1977)

Hafsúla SH 7 var upphaflega skráð með heimahöfn á Rifi en síðla árs 1977 er heimahöfnin orðin Reykjavík og báturinn RE 77.

1470. Salka ex Pétur afi SH. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

 

23.06.2017 12:05

Oddgeir

Oddgeir ÞH 222 skammt undan höfninni í Ólafsvík um árið, sennilega 1987 en hann var yfirbyggður að fullu 1985. Smíðaður í Hollandi 1963 fyrir Gjögur hf. á Grenivík. Hét Baldur Árna ÞH 222 síðustu árin á íslenskri skipaskrá en var seldur til Kanada 2009.

158. Oddgeir ÞH 222. © Hafþór Hreiðarsson.

 

 

 

23.06.2017 11:14

Arnarnes

Hér er togarinn Arnarnes SI 70 á toginu á rækjuslóð norðan við land 1988 eða 9. Albert GK 31 í fjarska. Arnarnes var þarna í eigu Sæmundar Árelíusarsonar en síðar Þormóðs Ramma á Siglufirði en hét upphaflega Rán GK 42 á íslenskri skipaskrá. Hét áður Boston Wellvale og strandaði við Arnarnes í Ísafjarðardjúpi og komst í eigu íslendinga eftir það. Saga hans er nú flestum kunn en héðan fór hann til Mexíkó nítján hundruð níutíu og eitthvað.

1128. Arnarnes SI 70 ex ÍS. © Hafþór Hreiðarsson.

23.06.2017 10:44

Fróði II

Hér er Fróði II ÁR 38 að koma til hafnar í Grindavík á dögunum. Eins og kom fram hér á síðinni fyrir nokkru hét Fróði II áður Endeavour III og var smíðaður árið 1998 í Macduff Yard í Skotlandi.  fróði II er 27,41 metrar að lengd og 8,52 að breidd. Rammi hf. keypti það í lok árs 2007 og kom það til landsins um miðjan apríl 2008.

2773. Fróði II ÁR 38 ex Endeavour III. © Jón Steinar 2017.

22.06.2017 12:03

Mary - Nýhöfn

Myndaði þennan í Nýhöfn á dögunum þegar ég var í Kaupmannahöfn. Mary heitir hann og er húsbátur sem liggur í Nýhöfn og hægt að kaupa gistingu í honum eins og sjá má hér

Ekki veit ég meira um bátinn sem slíkan en kannski dúkkar það upp ef maður leitar.

Mary. © Hafþór Hreiðarsson 2017.
 

22.06.2017 11:43

Ný Cleopatra 33 til Þrándheims

Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi nú á dögunum nýjan Cleopatra bát til Mausund sem er á eyju rétt fyrir utan Þrándheim í Noregi.

Kaupandi bátsins er Ståle Myrseth sem jafnframt verður skipstjóri á bátnum.

 

Báturinn hefur hlotið nafnið Filip.  Báturinn mælist 11brúttótonn.  Filip er af gerðinni Cleopatra 33.

 

Aðalvél bátsins er af gerðinni Doosan L086TIM 315hp tengd ZF V-gír.  Báturinn er útbúinn fullkomnum siglingatækjum af gerðinni Furuno.

Báturinn er einnig útbúin með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu bátsins.  Báturinn er útbúinn til neta og gildruveiða.

Veiðibúnaður kemur frá Hydema í Noregi.

Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking-björgunarbúnaði.

 

Rými er fyrir 12stk 380lítra kör í lest.  Í bátnum er upphituð stakkageymsla og salerni með sturtu.  Borðsalur er í brúnni.  Svefnpláss er fyrir þrjá í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.

Reiknað er með að báturinn hefji veiðar núna um mánaðarmótin.

Filip ST-185-F. © Trefjar.is

 

 

22.06.2017 10:46

Pálína Ágústsdóttir

Sóley SH 124 hefur nú fengið nafnið Pálína Ágústsdóttir og einkennistafina EA. Númerið er 85 og heimahöfnin Hrísey. Útgerð K&G ehf sem gert hefur út krókaaflamarksbátana Darra EA 75 og Pálínu Ágústsdóttur GK 1. Báturinn hét upphaflega Harpa GK 111 og var smíðaður á Seyðisfirði 1985. Hét síðar Hrísey SF 48 og Silfurnes SF 99 áður en hann varð Sóley SH 124.

Jón Steinar Sæmundsson tók þessa mynd á ferð sinni um Snæfellsnes á dögunum.

1674. Pálína Ágústsdóttir EA 85 ex Sóley SH. © Jón Steinar 2017.

21.06.2017 17:55

Salka

Salka kom til nýrrar heimahafnar á Húsavík meðan ég var í burtu þannig að ég lá fyrir henni í dag þó farið væri að rigna og hvessa. 

Salka var smíðuð 1976 hjá skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði eftir teikningu Sverris Gunnarssonar og hét upphaflega Hafsúla RE 77.

Síðar hét hann Már NS 87 frá Bakkafirði, Dagbjört  SU 50 frá Fáskrúðsfirði, Haförn HU 4 frá Hvammstanga, Haförn ÍS 177 frá Þingeyri og síðar Bolungarvík, Hafsúla KE 46 frá Keflavík, Hafsúla ST 11 frá Hólmavík, Hafsúla ÍS 741 frá Ísafirði, Hafsúla BA 741 frá Pareksfirði, Kittí BA 741 frá Bíldudal, Jórunn ÍS 140 frá Bolungarvík og Pétur Afi SH 374 frá Ólafsvík. Og nú Salka frá Húsavík í eigu Sölkusiglingar ehf.

1470. Salka ex Pétur afi SH. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

1470. Salka ex Pétur afi SH. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

 

21.06.2017 15:51

Þórsnes

Línu- og netaskipið Þórsnes SH 109 kom til heimahafnar í Stykkishólmi á dögunum og tók Óskar Franz þessa mynd við það tækifæri.

Þórsnesið er 880 brúttótonn að stærð, 43,3 metrar á lengd og 10,5 metrar á breidd. Skipið var smíðað árið 1996 og er því mun yngra en gamla Þórsnesið sem það mun leysa af, það var smíðað árið 1964 og hét upphaflega Keflvíkingur KE 100.

Þórsnesið hét áður Veidar 1 og er ég er himinlifandi yfir því að skipið fékk að halda sínum fallega rauða lit.

Annars  þakka Óskari Franz fyrir myndina og kannski koma fleiri því ég á annan vin suður með sjó sem tók myndir við þetta tækifæri.

2936. Þórsnes SH 109 ex Veidar 1. © Óskar Franz 2017.

 

Flettingar í dag: 499
Gestir í dag: 151
Flettingar í gær: 3118
Gestir í gær: 1380
Samtals flettingar: 7290121
Samtals gestir: 1363959
Tölur uppfærðar: 26.6.2017 04:46:31
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is