Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

17.10.2017 21:28

Gulltoppur

Hér kemur mynd sem Jón Steinar tók af Gulltoppi GK 24 kom inn sundið til Grindavíkur. Upphaflega Langanes ÞH 321 smíðaður á Seyðisfirði 1976.

1458. Gulltoppur GK 24 ex Egill Halldórsson SH. © Jón Steinar.

17.10.2017 21:07

Rembrandt van Rijn

Hollenska seglskipið Rembrandt van Rijn kom til hafnar á Húsavík í kvöld. Skipið er þriggja mastra skonnorta smíðuð 1922 og hét upphaflega Jakoba. Því breytt fyrir rúmum tuttugu árum í farþegaskip og siglir m.a með farþega við Grænland. 

Hér má lesa nánar um skipið 

Rembrandt van Rijn við bryggju á Húsavík. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

16.10.2017 15:19

Baldur

Hér er skuttogarinn BAldur EA 108 við slippkantinn á Akureyri nýmálaður og fínn. Baldur, sem var tæpir 36 metrar að lengd, var smíðaður 1974 í Goole Shipbuilding & Repairing Co Ltd í Goole í Englandi og var smíðanúmer 579 frá þeirri stöð. Hann hét upphaflega Glen Urquhart A-364 og heimahöfn Aberdeen.

Baldur EA 108 var keyptur til Dalvíkur 1981 af Upsaströnd hf. en svona lítur miðinn frá Hauki á Dalvík:

Glen Urquhart A364. Útg: Aberdeen. Bretlandi. (1974 - 1981).

Baldur EA 108. Útg: Upsaströnd h.f. Jóhann Antonsson. Dalvík. (1981 - 1988).

Baldur EA 108. Útg: Útgerðarfélag KEA. Dalvík. (1988 - 1990).

Baldur EA 108. Útg: Snorri Snorrason. Dalvík. (1990).

Þór EA 108. Útg: Snorri Snorrason. Dalvík. (1990 - 1992).

Þór HF 6. Útg: Stálskip hf. Hafnarfirði. (1992 – 1994).

Lómur HF 177 Útg: Lómur h.f. Hafnarfirði. (1994 – 1997). Lómur HF 777 Útg: Lómur h.f. Hafnarfirði.

(1997 Geysir BA 25. Útg: Vesturskip. Eiríkur Böðvarsson. Bíldudal (1997 - 2003).

Geysir BA 25. Útg: Hreinn Hjartarsson. Reykjavík. (2003 - 2004).

Seldur til Rússlands 2004 og var þá í eigu Skeljungs.

Navip. Útg: Murmansk. (2004 – 2009).

Afskráður í Rússlandi 2009.

1608. Baldur EA 108 ex Glen Urquhart A364. © Hafþór Hreiðarsson.

16.10.2017 14:53

Skinney

Hér er Skinney SF 30 við slippkantinn á Akureyri um árið. Skinney hét áður Ísleifur IV ÁR 463 en upphaflega Ísleifur IV VE 463. Skinney var keypt til Hornafjarðar af samnefndu fyrirtæki 1986. Báturinn, sem var smíðaður í Þrándheimi 1964, var seldur til Noregs 2008 og fór í pottinn þar ári síðar. 

250. Skinney SF 30 ex Ísleifur IV ÁR. © Hafþór Hreiðarsson.

16.10.2017 14:42

Hafsteinn

Hér er mynd sem sýnir Hafstein EA 262 koma til Húsavíkur í slipp. Hann var ekki með öllu ókunnur slippmönnum hér því hann hét áður Björg Jónsdóttir ÞH 321. Upphaflega Þorbjörn II GK 541 og síðar Gandí VE 171. Valeska EA 417 í lokin en þess má geta að skrokkur bátsins var rifinn í Noregi á dögunum en þangað var Valeska seld 1992.

263. Hafsteinn EA 262 ex Björg Jónsdóttir ÞH. © Hafþór Hreiðarsson.

15.10.2017 11:03

Stálvík

Hér er Stálvík SI 1 við bryggju á Siglufirði en hún var smíðuð hjá Stálvík hf. í Garðahreppi 1973. Hún var fyrsti skuttogarinn sem var smíðaður á Íslandi og var í eigu Þormóðs ramma hf. á Siglufirði.

Í frétt í Degi frá 19. september 1973 segir svo frá heimkomu Stálvíkur:

Togarinn Stálvík, sá fyrsti sem smíðaður er hér á landi, kom til heimahafnar, Siglufjarðar, fánum skrýddur á sunnudaginn og var tekið á móti honum og áhöfninni með viðhöfn. Hlutafélagið Þormóður rammi er eigandi skipsins, skipstjóri er Hjalti Björnsson. Skipið fór á veiðar í gær. Togarinn var smíðaður í Stálvík hf. í Garðahreppi, 314 lestir. Kostnaðarverð við smíði skipsins varð 148,8 millj. kr.

Stálvík bar sama nafn alla tíð og var í eigu Þormóðs ramma hf. og síðan Þormóðs ramma-Sæbergs hf. eftir að fyrirtækin sameinuðust. Stálvík var upphaflega 314 brl. að stærð en eftir lengingu um 6 metra 1986 mældist hún 364 brl.

Stálvík var seld til Danmerkur í brotajárn árið 2005 en henni hafði verið lagt haustið 2004. 

1326. Stálvík SI 1. © Hafþór Hreiðarsson.

 

15.10.2017 10:50

Hafborg

Hafborg EA 152 hefur verið að róa héðan frá Húsavík í haust en ég hef lítið myndað hana. Á eina og eina mynd af henni en ætli það sé ekki frekar spenningurinn yfir því að mynda nýu Hafborgina sem veldur áhugaleysinu. Sú er í smíðum í Danmörki og er væntanleg heim eftir áramótin að ég held.

En hér er ein sem ég tók á dögunum þegar Óli var að bíða eftir að komast að olíutanknum hér í Húsavíkurhöfn.

2323. Hafborg EA 152 ex Stapavík AK. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

14.10.2017 23:03

Harpa

Jón Steinar tók þessa mynd í sumar af dragnótabátnum Hörpu HU 4 koma til hafnar á Hvammstanga. Hún var keypt til Hvammstanga 2008 og hét áður Álftafell SU 100.

Smíðaður á Seyðisfirði 1970 og hét upphaflega Skálavík SU 500. Síðar Skálavík ÞH 178 og Skálavík ÁR 185. Þá Faxavík GK 727, Sólberg SH 66, Þorsteinn SH 145, Egill Halldórsson SH 2 og Villi í Efstabæ BA 214. Því næst Álftafell og loks núverandi nafn. 

Báturinn var lengdur 1991 og mælist eftir það 62 brl. að stærð.

Í Degi þann 20. júní 1973 var frétt frá fréttaritara blaðsins í Þistilfirði og þar sagði m.a. þetta:

Nær nýr 50 tonna bátur er hingað kominn og byrjaður að sækja fisk á miðin. Heitir hann Skálavík og eigandinn samnefnt hlutafélag, en skipstjóri er Jón Stefánsson. Báturinn er hinn fríðasti. 

1126. Harpa HU 4 ex Álftafell SU. © Jón Steinar 2017.

14.10.2017 12:10

Boy Leslie

Hér er mynd sem ég rakst á í tölvunni og sýnir Boy Leslie frá Arendal í Noregi. Pabbi tók myndina á trébátafestvali í Risør um árið. 2007 var það og þá var þessi 24 metra bátur 96 ára. Hann var smíðaður 1911 hjá Sanders og co. í Galmton í Englandi sem sailing trawler, segltogari. 

Annars eru uppl. um hann á Fésbókarsíðu sem haldið er út um hann og þar er sagan sögð. Yfir aldargömul saga.

 

Boy Leslie ex Ekstrand. © Hreiðar Olgeirsson 2007.

13.10.2017 16:58

Þjóðminja­safn Íslands ósk­ar eft­ir skipa­smiðum eða söfn­um sem vilj­ug eru til að ganga til samn­inga um viðgerð og varðveislu tveggja skipa, sem eru í vörsl­um safns­ins.

Í til­kynn­ingu frá safn­inu seg­ir að reynsla síðustu ára hafi leitt í ljós að til þess að tryggja varðveislu gam­alla tré­skipa geti verið æski­legt að halda þeim sjó­fær­um og á floti.

Um er að ræða Norðurljósið ÍS 537, súðbyrðingur með þilfari sem smíðaður var af Sigmundi Falssyni árið 1939 og Snari ÞH 36, opinn vélbátur frá 1953 smíðaður af Aðalsteini Aðalsteinssyni.  

Ástand beggja kallar á viðgerð og því leitar safnið eftir því hvort áhugasamir skipasmiðir eða söfn væru reiðubúin að ganga til samninga um viðgerð og varðveislu þessara skipa. Það eru eindregin tilmæli að þeir sem hafa þekkingu, hæfni, áhuga og bolmagn á slíkum verkefnum setji sig í samband við Þjóðminjasafn Íslands við fyrsta hentugleika.

Vinsamlegast hringið eða sendið tölvupóst til Ágústs Ólafs Georgssonar s. 530 2294 eða agust@thjodminjasafn.is

5448. Snari ÞH 36. © Hafþór Hreiðarsson.

 

 

 

11.10.2017 14:47

Gnúpur

Frystitogarinn Gnúpur GK kemur að landi í Grindavík. Jón Steinar tók myndina. Smíðaður 1981 í Flekkefjord og hét Guðbjörg ÍS 46. Lengdur 1988 og í lok árs 1994 var hann keyptur til Grindavíkir og fékk núverandi nafn.

1579. Gnúpur GK 11 ex Guðbjörg ÍS. © Jón Steinar 2017.

09.10.2017 18:13

Stavfjord

Flutningaskipið Stavfjord kom til Húsavíkur í dag með efni til malbiksframkvæmda, eða það held ég. Skipið var smíðað 2005 og hét áður Hunzeborg. Siglir undir fána Hollands með heimahöfn í Delfzijl.

Stavfjord. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

09.10.2017 14:52

Reval Viking

Eiríkur Sigurðsson skipstjóri á Reval Viking tók þessa mynd á dögunum af skipi sínu í höfn á Longyearbyen á Svalbarða.

Reval Viking EK-1202 ex Remøy Viking. © Eiríkur Sigurðsson 2017.

 

08.10.2017 10:51

Brettingur

Brettingur NS 50 á toginu en hann var einn Japanstogaranna svokölluðu sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga í Japan á sínum tíma. Þeir voru smíðaðir á tveimur stöðum í Japan, sex þeirra í Muroran og fjórir í Niigata. Brettingur var smíðaður í Niigata og kom til heimahafnar á Vopnafirði í marsmánuði 1973.

Í frétt Morgublaðsins sagði svo frá:

Í DAG sigldi nýr skuttogari inn til Vopnafjarðar fánum skrýddur. 
Skipið er Brettingur NS 50,eign útgerðarfélagsins Tanga hf.
á Vopnafirði.
Brettingur er 490 smálesta skuttogari smíðaður í Japan. 
Skipið er 46 metrar á lengd og 9 1/2 metri á breidd.
Skipstjóri á Brettingi er Tryggvi Gunnarsson, fyrsti stýrimaður 
Sverrir Guðlaugsson og fyrsti vélstjóri Hermann Friðfinnisson. 
Tangi hf. átti áður Bretting og Kristján Valgeir, en seldi skipin 
til þess að komast yfir þennan nýja skuttogara. 
Framkvæmdastjóri Tanga hf.er Sigurjón Þorbergsson, en aðaleigandi 
Vopnafjarðarhreppur. Skipið fer á togveiðar eftir nokkra daga.
1279. Brettingur NS 50. © Sigtryggur Georgsson.

08.10.2017 01:11

Þorsteinn aftur

Hér er önnur mynd sem ég tók af Þorsteini GK 15 þegar hann var að landa á Húsavík. Þessi öldungur er enn að og var gerður út frá Suðurnesjum á síðustu vertíð.

926. Þorsteinn GK 15 ex EA. © Hafþór 1992.
Flettingar í dag: 2827
Gestir í dag: 1016
Flettingar í gær: 2901
Gestir í gær: 1229
Samtals flettingar: 7552113
Samtals gestir: 1463053
Tölur uppfærðar: 17.10.2017 23:42:11
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is