Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2018 Júní

17.06.2018 23:10

Guðbjörg GK 666

Línubáturinn Guðbjörg GK 666 rær um þessar mundir frá Siglufirði og tók ég þessa mynd fyrr í vikunni þegar hún kom til hafnar.

Það er Stakkavík í Grindavík sem gerir Guðbjörgina út. 

Upphaflega Ársæll Sigurðsson HF 80, smíðaður í Kína 2001. Yfirbyggður i Póllandi 2005. Seldur Ingimundi hf. í Reykjavík árið 2006 og fékk hann nafnið Ögmundur RE 78. 

Seldur til Grindavíkur snemma árs 2007 og kom hann til heimahafnar að kvöldi 3. apríl það ár eftir slipp í Reykjavík. Grindavíkin var í eigu Stakkavíkur ehf. og Rúnars Björgvinssonar.

Næsta nafn sem báturinn fékk var Kristinn SH 112, því næst Kristbjörg SH 112 og HF 212. Guðbjörg HF 212 kom næst og Guðbjörg GK 666 heitir hann í dag eins og kom fram í upphafi.

Hún var lengd í Skipasmíðastöð Njarðvíkur ásamt fleiri endurbótum eftir að Stakkavík keypti hana síðla árs 2015.

Guðbjörg GK 666 ex HF. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

17.06.2018 22:35

Panorama

Það skemmtiferðaskip sem kemur hvað oftast til Húsavíkur í sumar er Panorama. Panorama er þriggja mastra mótorsiglari, smíðað 1993, stækkað 2001 og endurbætt mikið 2014.

Það er 54 metrar að lengd og 12 metra breitt. Í skipinu eru  24 klefar fyrir 49 farþega, Í áhöfn eru 16-18 manns. Skipið siglir undir grísku flaggi með heimahöfn í Aþenu.

Skipið er einmitt við bryggju á Húsavík í dag en þessa mynd hér að neðan tók ég 2. júní sl. þegar það kom í fyrsta skipti.

Panorama við Þvergarðinn á Húsavík. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

16.06.2018 12:16

Nýr bátur í flota Vísis hf. í Grindavík

Vísir hf. í Grindavík hefur gengið frá kaupum á Óla Gísla GK 112 ásamt aflaheimildum. 

Jón Steinar greinir frá þessu á Fésbókarsíðunni Báta & bryggjubrölt og þar segir jafnframt að þetta sé annar báturinn sem  Vísir eignast í krókaaflamarkskerfinu en fyrir á fyrirtækið Daðey GK 777.

Óli Gísla er smíðaður hjá Seiglu árið 2006.

2714. Óli Gísla GK 112. © Jón Steinar.

16.06.2018 01:18

Runólfur SH 135

Runólfur SH 135 er hér við bryggju á Siglufirði vel hlaðinn af síld. Myndina tók Hannes Baldvinsson eins og fleiri sem ég hef verið að birta að undanförnu.

Þessi bátur heitr Sigurður Ólafsson SF 44 í dag en hann var smíðaður í Risör í Noregi árið 1960 fyrir Guðmund Runólfsson Grafarnesi, Guðmund Kristjánsson og Jón Kristjánsson í Eyrarsveit Snæfellssýslu og hét Runólfur SH 135.

Runólfur var 115 brl. búinn 300 ha. Wichmann díesel vél. Hann var endurmældur í júní 1969 og mældist þá 104 brl. Seldur 30 desember árið 1970til Akraness, kaupandi Haförninn h/f. Fékk nafnið Sigurvon AK 56. Í apríllok 1975 var báturinn seldur Konráð Júlíussyni í Stykkishólmi og fékk nafnið Sigurvon SH 35.

1977 var sett í bátinn 640 hestafla Samofa aðalvél. Í upphafi árs 1978 var báturinn seldur Sigurði s/f í Stykkishólmi og fékk þá nafnið  Sigurður Sveinsson SH 36. Síðla árs 1980 vart báturinn seldur Sigurði Ólafssyni h/f á Höfn í Hornafirði, hann fékk nafnið Sigurður Ólafsson SF 44 sem hann ber enn þann dag í dag.

1983 var sett í hann ný  640 hestafla Mitsubishi aðalvél vél og 1987 var Sigurður Ólafsson lengdur og yfirbyggður. Mældist hann þá 124 brl. að stærð. (Íslensk skip)

 

650 ha. Mitsubishi aðalvél var sett í bátinn árið 2006 og er hann enn í dag gerður út af Sigurði Ólafssyni ehf. á Höfn í Hornafirði og er þessa dagana á humartrolli.

Læt fylgja með mynd sem Jón Steinar tók af bátnum í Grindavík um síðustu Sjómannadagshelgi.

 

Þess má geta að á árunum 1993-1996 var Sigurður Ólafsson SF gerður út til hvalaskoðunar frá Hornafirði um tíma á sumrin.

173. Runólfur SH 135. © Hannes Baldvinsson.

 

173. Sigurður Ólafsson SF 44 ex Sigurður Sveinsson SH. © JSS 2018.
 

15.06.2018 20:46

Guðbjörg Sigurðardóttir ÍS 508

Á meðan grannarnir á Íberíuskaganum skiptust á jöfnum hlut í Sot­sjí sat ég á Bökugarðinum og beið komu Guðbjargar Sigurðardóttur ÍS 508 til Húsavíkur.

Hún kom seint og um síðir eða í þann mun sem flautað var til leiksloka og smellti ég þá nokkrum myndum af henni. Held að þessi bátur hafi ekki komið til Húsavíkur áður en upphaflega hét hann Emma VE 219.

Smíðuð í Póllandi fyrir samnefnt fyrirtæki í Vestmannaeyjum. Nánar tiltekið hjá Tczew Yard í Tczew í Póllandi árið 1988.

Emma var 82 brl. að stærð búin 715 hestafla Caterpillar aðalvél.

Árið 1999 var Emma lengd í Póllandi og mældist þá 114 brl. að stærð. Skipt var um aðavél um leið og er sú sem sett var niður var 760 hestafla Caterpillar.

Árið 2000 keypti Bergur-Huginn hf. Emmuna og fékk hún nafnið Háey VE 244. Háey var seld Dala-Rafni hf. árið 2004 og fékk hún nafnið Dala-Rafn VE 508. 

Stígandi ehf. keypti Dala-Rafn VE árið 2008 og fékk hann nafnið Stígandi VE 77. 

Árið 2013 keypti Vinnslustöðin hf. í Vestmannaeyjum Stíganda ehf. en í ársbyrjun 2016 var Stígandi VE 77 seldur til Suðurnesja. Kaupandinn, Marbrá ehf, nefndi bátinn Marberg GK 717 með heimahöfn í Sandgerði.

Ekkert varð af útgerð Marbergsins og vorið 2016 keypti Tjaldtangi ehf. á Ísafirði bátinn sem við það fékk núverandi nafn og númer.

 

Í Morgunblaðinu 19. maí 1988 sagði svo frá komu Emmu til Vestmannaeyja:
Emma VE 219, nýr 83 tonna stálbátur, kom nýlega til heimahafnar í Vestmannaeyjum. Báturinn var smíðaður í Póllandi og er í eigu Kristjáns Óskarssonar, sem er skipstjóri á Emmu, og Arnórs Páls Valdimarssonar 1. vélstjóra. 

Emma VE er 23 metrar á lengd og með 705 hestafla aðalvél, búin fullkomnustu tækjum. Allur frágangur á visatarverum er mjög góður og eigendur segja skipið hafa reynst vel á heimleiðinni, ganghraðinn var 9 sjómílur. Emma er sérútbúin fyrir 660 lítra ker og má koma 69 kerum fyrir í lestinni. Kaupverð skipsins var um 65 milljónir króna. 

 

1664. Guðbjörg Sigurðardóttir ÍS 508 ex Marberg GK. © Hafþór 2018.

 

15.06.2018 08:21

Sæþór EA 101

Það er langt síðan ég náði Sæþóri EA 101 á kortið en það gerðist loks í fyrradag þegar hann kom til hafnar á Dalvík. Sæþór er gerður út til netaveiða af G.Ben útgerðarfélagi ehf. á Árskógssandi.

Sæþór er af gerðinni Víkingur 1500 og var smíðaður hjá bátagerðinni Samtak árið 2006.

2705. Sæþór EA 101. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

14.06.2018 19:52

Kristbjörg VE 70

Hér kemur mynd Hannesar Baldvinssonar af Kristbjörgu VE 70.

Báturinn var smíðaður í Noregi árið 1960 fyrir Svein Hjörleifsson í Vestmannaeyjum.

 

Í Morgunblaðinu 13. apríl 1960 sagði svo frá komu Kristbjargar til heimahafnar:

Í gær kom hingað til Vestmannaeyja nýr bátur, sem ber nafnið Kristbjörg VE 70, smíðaður í Strusham í Noregi. Báturinn er með 550 hestafla Völund-dieselvél og er 112 tonn

að stærð, smíðaður úr stáli. Hann er búinn öllum nýjustu siglingar- og fiskileitartækjum, m.a. sjálfvirku Simrad-síldarleitartæki. Svefnpláss er fyrir 13 menn.

Báturinn virðist vel smíðaður og vel frá öllu gengið. Eigandi hans er einn þróttmesti skipstjóri í Eyjum, Sveinn Hjörleifsson frá Skálholti.

Lét Sveinn mjög vel af bátnum á heimleiðinni, en þeir hrepptu leiðinda veður við Færeyjar, og kom sjóhæfni bátsins þá vel í ljós. 

Nýi báturinn fer á veiðar á morgun.

Íslensk skip IV bindi:

Smíðuð í Noregi 1960, stál 113 brl. 550 hestafla Völund diselvél. Eigndi Sveinn Hjörleifsson Vestmannaryjum frá 7. apríl 1960. Skipið var endurmælt í sept. 1966 og mældist þá 142 brl. Endurmæltaftur í júní 1969 og mældist þá 104 brl.

21. júlí 1970 var skráður eigandi Kristbjörg h/f Vestmannaeyjum, sami eigandi og áður. Skipið var selt 10. október 1976 Braga Guðmundssyni og Pétri Sveinssyni Vestmannaeyjum. Skipið hét Guðrún Magnúsdóttir VE 69. Skipið var selt 21. desember Kristbjörgu h/f Vestmannaeyjum. Skipið hét Kristbjörg VE 70. Selt 31.desember 1981 Bjarna Sighvatssyni og Haraldi Gíslasyni Vestmannaeyjum. 14. maí var skipið endurmælt og mældist þá 109 brl. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 18. júlí 1986.

136. Kristbjörg VE 70. © Hannes Baldvinsson.

14.06.2018 14:54

Sturla GK 12

Hér koma myndir sem ég tók af línuskipinu Sturlu GK 12 láta úr höfn á Siglufirði í gær.

Sturla hét upphaflega Guðmundur RE 29 á íslenskri skipaskrá en hann var keyptur til landsins árið 1972. Þá fjögurra ára gamall en hann var smíðaður hjá  Karmsund Verft & og Mek AS á Karmøy í Noregi fyrir Br. Giertsen & Co. A/S, Bergen. Hét upphaflega Senior B-33-B en þegar hann var keyptur hingað til lands var hann Senior H 033.

1272. Sturla GK 12 ex Guðmundur VE. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

1272. Sturla GK 12 ex Guðmundur VE. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

1272. Sturla GK 12 ex Guðmundur VE. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

1272. Sturla GK 12 ex Guðmundur VE. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

1272. Sturla GK 12 ex Guðmundur VE. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

14.06.2018 12:44

Óli á Stað GK 99

Einn nýjasti línubátur flotans, Óli á Stað GK 99, kemur hér að landi á Siglufirði í gær.

Óli á Stað var smíðaður hjá Seiglu á Akureyri fyrir Stakkavík ehf. í Grindavík og hóf hann veiðar fyrir rúmu ári.

2842. Óli á Stað GK 99. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

14.06.2018 12:20

Hulda HF 27

Línubáturinn Hulda HF 27 er hér að koma til hafnar á Siglufirði í gær. 

Hulda hét áður Oddur á Nesi SI 76 og var báturinn smíðaður hjá Seiglu á Akureyri fyrir BG Nes ehf á. Hann kom til heimahafnar á Siglufirði upp úr miðjum janúar 2017.

Seldur Blikabergi ehf. í júlí 2017 og tók BG Nes ehf. Huldu HF 27 upp í og heitir sá bátur Oddur á Nesi í dag. 

2912. Hulda HF 27 ex Oddur á Nesi SI. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

13.06.2018 22:04

Sólrún EA 151

Ég tók þessa mynd í kvöld á Árskógssandi þegar nýja Sólrún EA 151 kom úr sínum fyrsta róðri.

Eins og kannski glöggir menn sjá er þetta gamla Sæunn Sæmundsdóttir ÁR 60 sem smíðuð var hjá Seiglu á Akureyri árið 2007.

Seld norður haustið 2017 og fékk nafnið Tumi EA 84 en var að ég held aldrei gerður út undir því nafni.

Sólrún ehf keypti svo bátinn í vetur og fékk hann þá þetta nafn.

Fór í breytingar á Siglufirði sem m.a fólust í því að byggt var yfir hann og sett á hann pera.

2706. Sólrún EA 151 ex Tumi EA. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

12.06.2018 23:39

Kristbjörg ÁR 11

Jón Steinar sendi drónann á loft í gær og tók m.a þessar myndir af dragnótabátnum Kristbjörgu ÁR 11 koma til hafnar í Grindavík.

Upphaflega hét báturinn Langanes ÞH 321, smíðaður á Seyðisfirði 1976.

Í Tímanum 29. júlí 1976 sagði svo frá fyrirhuguðum rækjuveiðum Langanesins:

Fyrsta skipið með útbúnað til rækjuvinnslu um borð

Við munum hefja rækjuleit fyrir Austurlandi og vestur af Melrakkasléttu fljótlega, sagði Bjarni Aðalgeirsson, forstjóri Langaness hf. á Þórshöfn, en um næstu helgi verður hið nýja 100 tonna skip, Langanes, afhent eigendum sínum. Skipið verður útbúið fullkomnum tækjum, sem m.a. miðast við að heilfrysta rækju í skel og er hún þá tilbúin til útflutnings. Tilraunaveiðarnar eru gerðar á vegum Hafrannsóknastofnunar, og mun Langanes taka við af Sólborgu, sem er nýhætt rækjuleit á fyrrnefndum slóðum.

Forsendan fyrir þvi að heilfrysta rækjuna í skel er, að finna stóra rækju, helzt ekki yfir 140 stk. í kg, sagði Bjarni Aðalgeirsson. Hins vegar munum við í þessari rækjuleit á vegum Hafrannsóknastofnunar, ekki fullvinna rækjuna um borð, heldur landa aflanum á um þriggja sólarhringa fresti, þar sem við höfum ekki fengið hraðfrystibúnaðinn um borð í skipið enn.

Í skipinu verða frystilestir, flokkunarvél og suðupottur, sem þegar eru til staðar, en hraðfrystibúnaðurinn verður settur í seinna.

Bjarni sagði að ákveðið væri að þeir myndu leita rækju fyrir Austurlandi og vestur af Melrakkasléttu og gæti svæðið jafnvel orðið víðtækara. Við erum nokkuð bjartsýnir á að þetta takist, sagði hann, jafnvel þó þetta svæði sé að miklu leyti ókannað. Ekki kvað hann ákveðið hvar aflanum yrði landað, en talað hefði verið um Kópasker eða Dalvík eða jafnvel fyrir austan land, það yrði ákveðið þegar að því kæmi.

Langanes, sem er 100 tonn að stærð, er smíðað hjá Vélsmiðju Seyðisfjarðar, og þar voru einnig allar vélar settar í skipið.

1458. Kristbjörg ÁR 11 ex Gulltoppur GK. © Jón Steinar 2018.

 

1458. Kristbjörg ÁR 11 ex Gulltoppur GK. © Jón Steinar 2018.

 

 

11.06.2018 19:37

Silver Copenhagen

Magnús Jónsson sendi mér þessar myndir á dögunum sem sýnir löndun úr rússneskum frystitogara yfir í flutningaskipið Silver Copenhagne. Gjörningurinn fór fram í Hafnarfjarðarhöfn.

Rússneskur togari landar yfir í Silver Copenhagen. © Magnús Jónss. 2018.

 

Löndun í Hafnarfjarðarhöfn. © Magnús Jónsson 2018.

09.06.2018 11:56

Höfrungur II AK 150

Höfrungur II AK 150 var keyptur til landsins árið 1960 af Haraldi Böðvarssyni & Co á Akranesi. Báturinn hét áður Sangolt og var smíðaður árið 1957 í Avaldsnes í Noregi.

Síðar Höfrungur II GK 27, Erling KE 140, Kambaröst SU 200 og loks Kambaröst RE 120. Rifinn í Hafnarfirði 2010. 

120. Höfrungur II AK 150 ex Sangolt. © Hannes Baldvinsson.

08.06.2018 21:07

Geiri litli seldur

Geiri litli er seldur og tóku nýir eigendur við honum í dag. Hér er verið að setja hann fram aftur eftir að hafa verið tekinn á land til botnskoðunar. Ætlunin er að sigla honum til nýrrar heimahafnar í Stykkishólmi á næstu dögum.

7200. Geiri litli. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

 

Flettingar í dag: 83
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 1100
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 9395824
Samtals gestir: 2007453
Tölur uppfærðar: 8.12.2019 01:53:56
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is