Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2018 Júní

25.06.2018 22:30

Björgvin og Hafborg

Haukur Sigtryggur tók þessa mynd á Dalvík fyrir nokkrum dögum og sýnir hún skuttogarann Björgvin EA 311 koma til hafnar. Hafborg EA 152 fylgir í humátt á eftir.

1937. Björgvin EA 311 - 2940. Hafborg EA 152. © Haukur Sigtryggur 2018.

25.06.2018 17:41

Sylvía og Faldur

Hér koma myndir sem ég tók af hvalaskoðunarbátum Gentle Giants í dag.

Myndina af Sylvíu tók ég eftir hádegið en Faldinn myndaði ég nú síðdegis.

GG gerir einnig út nokkra Ribara og Aþenu ÞH 505 sem er Cleóptatra frá Trefjum.

1468. Sylvía ex Björgvin ÍS. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

1267. Faldur ex Faldur ÞH. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

 

25.06.2018 12:32

Kristín ÓF 49

Þessa mynd af Kristínu ÓF 49 tók ég á Siglufirði fyrr í þessum mánuði.

Þarna er hún að koma að landi eftir handfæraróður en hún er á strandveiðum.

Kristín hét upphaflega Aldan NK 28. Síðar Guðbjörg Kristín RE 92, SH 165, KÓ 6 og ÓF 49.

Frá árinu 2016 hefur hún borið núverandi nafn en báturinn var smíðaður árið 1988 hjá Samtak í Hafnarfirði.

Núverandi eigandi er Andri Viðar Víglundsson.

1765. Kristín ÓF 49 ex Guðbjörg Kristín ÓF. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

24.06.2018 23:45

Sighvatur GK 57 kemur að bryggju

Eins og ég sagði við myndina af Sighvati sem ég birti um helgina þá kemur meira síðar. Og hér kemur ein mynd sem sýnir skipið koma að Eyjabakkanum sl. föstudagskvöld.

Meira síðar...jafnvel á morgun.

En til upprifjunar:

Smíðaður í Mandal í Noregi 1975. Yfirbyggður 1977.

Hefur borið nöfnin Skarðsvík SH 205, Skarðsvík AK 205, Ásborg EA 259, Arney KE 50, Steinunn SF 10, Steinunn SF 107, Hafursey VE 122, Sævík GK 257 og núverandi nafn Sighvatur GK 57.

1416. Sighvatur GK 57 ex Sævík GK. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

24.06.2018 20:23

Svend C

Grænlenski frystitogarinn Svend C GR-6-23 kom til hafnar í Reykjavík í morgun. Ég þar og tók myndir.

Eisn og áður hefur komið fram á síðunni var Svend C hannaður af fyrirtækinu Skipsteknisk í Noregi og smíðaður í Tersanskipasmíðastöðinni í Tyrklandi. 

Sú stöð smíðaði einnig Sólberg ÓF 1 sem kom til landsins í maí 2017 en Svend C var afhentur í desember 2016.

Togarinn er 83,50 metrar að lengd, 17 metrar á breidd og 4.916 BT að stærð.

Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk er 9456 hestafla Wartsila aðalvél í honum.

OWZD. Svend C GR-6-23. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

22.06.2018 22:47

Sighvatur GK 57

Nýr Sighvatur GK 57 kom til heimahafnar í Grindavík eftir sjö sólarhringa heimsiglingu frá Gdansk í Póllandi.

Skipið fór út til Póllands í drætti sem Sævík GK 257 en kom heim sem nánast nýsmíði.

Upphaflega Skarðsvík SH 205.

Meira síðar.....

1416. Sighvatur GK 57 ex Sævík GK. © Hafþór Hreiðarsson 2018.
 

22.06.2018 14:46

Kristján HF 100

Nýr Kristján HF 100 var sjósettur hjá Trefjum í Hafnarfirði í dag. Kristján er af gerðinni Cleópatra 46B.

Ég náði myndum þökk sé Hjalta frænda mínum Hálfdánarsyni hafnarverði hjá Hafnarfjarðarhöfn.

Meira síðar nú er það Ísland -Nígería.

2961. Kristján HF 100. © Hafþór Hreiðarsson 2018.
 

 

 

20.06.2018 21:57

Lómur KE 101

Á þessari mynd Hannesar Baldvinsson sést Lómur KE 101 við bryggju og stúlkurnar salta úr honum síldina.

Í 8. tbl. Faxa 1963 sagði svo frá komu Lóms til Keflavíkur í fyrsta skipti:

Nýtt og vandað stálskip til Keflavíkur.

Þann 24. júní kom til heimahafnar sinnar, Keflavíkur, nýtt og vandað stálskip: Lómur KE 101, smíðaður í Molde í Noregi. Skipið er 201 smálest og er aðalvél þess 660 ha. Lister Blackstone.

Lómur er búinn öllum nýtízku fiskileitartækjum af Simrad-gerð og 48 mílna þilfarsradar, Robinson sjálfstýringu og Stentor-talstöð. Vistarverur áhafnar eru hinar vistlegustu og haganlega gerðar.

Ganghraði skipsins á heimsiglingu var 10.8 mílur. Skipstjóri á heimleið var Halldór Brynjólfsson og fer hann einnig með stjórn skipsins á fiskveiðum. Lætur hann mjög vel af þessu nýja skipi og telur, að það muni fara vel með farm.

Eigendur Lóms er hlutafélagið Brynjólfur h.f., en aðaleigendur þeir Jón Karlsson, Neskaupstað, og Halldór Brynjólfsson, Keflavík. Lómur fór strax norður á síldveiðar og fiskaði yfir 22 þúsund mál og tunnur. Lómur, sem búinn er kraftblökk og annarri nýjustu veiðitækni, mun nú vera að búa sig til haustsíldveiða hér í Faxaflóa. 

 

Ég skrifaði eftirfarandi við myndir af Þorsteini GK 16 hér á síðunni í október 2008. Heimildir um bátinn eru úr Íslensk skip.:

Þorsteinn hét upphaflega Lómur KE 101 og var smíðaður í Molde í Noregi 1963 fyrir Brynjólf hf. í Keflavík. Báturinn var 202 brl. að stærð og búinn 660 hestafla Lister aðalvél. Hann var endurmældur 1969 og varð við það 178 brl. Haustið 1973 kaupir Kópanes hf. í Reykjavík bátinn og fær hann nafnið Kópur RE 175.

Í ársbyrjun 1977 kaupa Guðmundur Þortseinsson og Jóhannes Jónsson í Grindavík bátinn sem heldur nafninu en verður GK 175. 1979 var skipt um aðalvél, 720 hestafla Mirrless Blackstone kom í stað Listersins. 1980 er skráður eigandi að bátnum Hóp hf. og hann fær nafnið Þorsteinn GK 16 sem hann bar þar til yfir lauk.

Eins og menn vita sem áhuga hafa á bátum fékk Þorsteinn netin í skrúfuna undan Krýsuvíkurbjargi þann 10. mars 1997. Hann varð við það vélavana og rak upp í bergið eftir að akkerisfestar hans höfðu slitnað, en ekki tókst að koma aðalvélinni í gang. Áður en báturinn strandaði hafði þyrla Landhelgisgæslunnar bjargað tíu manna áhöfn hans. Veðrið var slæmt og Þorsteinn fylltist af sjó eftir að hann strandaði og valt síðan á hliðina. Ægir konungur var síðan ekki lengi að eyðileggja flakið þar sem það lá óvarið fyrir ágangi sjávar. Þorsteinn GK hafði verið yfirbyggður 1985 auk þess sem skipt hafði verið um brú á honum. 

 

145. Lómur KE 101á Siglufirði. © Hannes Baldvinsson.

 

 

19.06.2018 21:44

Nýr Þorsteinn SH 145

Nýverið kom Þorsteinn SH 145, nýr bátur sem Nesver ehf. keypti nýverið, til heimahafnar í Ólafsvík.

Á vef Skessuhorns segir Gylfi Scheving Ásbjörnssonar skipstjóri að Nesver hafi átt minni bát með sama nafni áður en skipti á þeim báti og þessum nýja.

Þorsteinn SH 145 er af gerðinni Kleópatra 38 og hét áður Kristján HF 100, smíðaður árið 2011 fyrir Grunn ehf. í Hafnarfirði.

Báturinn er útbúinn á handfæri og til netaveiða og hefur þegar hafið handfæraveiðar.

Fyrir á Nesver ehf. Tryggva Eðvars SH 2 sem er sömu gerðar og að sögn Alfonsar Finnssonar, sem tók myndina af Þorsteini, er Tryggvi Eðvars SH 2 í breytingum hjá Sólplasti í Sandgerði. Þar verður m.a byggt yfir hann.

2820. Þorsteinn SH 145 ex Kristján HF. © Alfons Finsson 2018.

19.06.2018 21:23

Daðey og Hulda

Þessir bátar tveir eiga það sameiginlegt að hafa heitið Oddur á Nesi SI 76 og voru smíðaðir fyrir Útgerðafélagið BG Nes ehf.

Daðey GK 717 er við bryggjuna en rúv.is sagði svo frá 19. febrúar 2010:

Nýr bátur í flota Siglfirðinga var sjósettur þar í fyrradag. Báturinn ber heitið Oddur á Nesi og einkennisstafina SI 76. Hann var smíðaður hjá Siglufjarðar-Seig ehf. á Siglufirði og er stærsti bátur sem fyrirtækið hefur smíðað til þessa. Oddur á Nesi er tæp 15 brúttótonn og 12,4 metra langur, útbúinn til línuveiða.

Hulda HF 27 er sá stærri og var smíðaður hjá Seiglu á Akureyri og var sjósettur í desember 2016 og kom til heimahafnar á Siglifirði 14 janúar 2017.

Seldur Blikabergi ehf. í júlí sama ár.

2799. Daðey GK 717. - 2912. Hulda HF 27. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

19.06.2018 18:24

Sif SH 3

Hér kemur mynd af Sif SH 3 á Breiðafirði og með fylgir miði frá félaga Hauki á Dalvík sem hljóðar svo:

1106....Dalaröst RE 325. TF-TI. Skipasmíðastöð: Gdynia. Póllandi 1966.  = Lengd: 27,39. Breidd: 6,60. Dýpt: 5,27. Brúttó: 117. Lengt 1980 117 tonn. Yfirb. 1983. Mótor 1966 Caterpillar 400 hö. Ný vél 1977 Caterpillar 317 kw. 431 hö. Seldur til Íslands 1970.

Nöfnin: Egil Johan. - Dalaröst RE 325. - Dalaröst ÁR 52. - Sif SH 234. - Sif SH 3. - Arnfinnur SH 3. - Maó SH 63. Afskráður 04.05.1995.

 

Svon avar miðinn en báturinn var seldur til Kanada frekar en norðurstrandar Bandaríkjanna en er í dag gerður út frá Cook Island í Suðurhöfum undir nafninu Albacore 1.

1106. Sif SH 3 ex Dalaröst ÁR. © Hafþór Hreiðarsson.

 

19.06.2018 00:03

Sæunn Sæm - Sólrún

Hér koma tvær myndir af sama bátnum sem ber skipaskrárnúmerið 2706.

Á efri myndinni heitir hann Sæunn Sæmundsdóttir ÁR 60 og er að koma til hafnar í Þorlákshöfn sumarið 2009.

Sæunn smíðuð fyrir  Hrímgrund ehf. í Þorlákshöfn árið 2007 og gerð út af fyrirtækinu allt þar til hún var seld norður í land sl. haust.

Á neðri myndinni heitir hann Sólrún EA 151 og er að koma að landi á Árskógsssandi í síðustu viku.

2706. Sæunn Sæmundsdóttir ÁR 60. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

 

2706. Sólrún EA 151 ex Tumi EA. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

18.06.2018 22:12

Vörður TH 4

Á þessari mynd Hannesar Baldvinssonar sést Vörður TH 4 frá Grenivík drekkhlaðinn af síld við bryggju á Siglufirði.

Vörður TH 4 var smíðaður í Reykjavík 1947 fyrir Gjögur h/f á Grenivík. Hann var 67 brl. að stærð búinn 185 hestafla Allen díeselvél. 1958 var sett í bátinn 310 hestafla Alpha díeselvél

Vörður var seldur í maímánuði 1966 þeim Guðmundi Karli Guðfinssyni og Sigurði Óskarssyni Vestmannaeyjum. Fékk hann nafnið Guðfinnu Guðmundsson VE 445. Seldur snemmsumars 1972 til Stykkishólms. Kaupandinn var Konráð Júlíusson og gaf hann bátnum nafnið Gísli Magnússon SH 101. 

Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 13. mái 1976. Heimild Íslensk skip.

912. Vörður TH 4. © Hannes Baldvinsson Siglufirði. 

 

18.06.2018 15:31

Varðskipið Þór með Akurey í togi

Varðskipið Þór er nú með ísfisktogarann Akurey AK-10 í togi á leið til hafnar í Reykjavík eftir að skipið varð vélarvana djúpt vestur af Vestfjörðum. í tilkynningu frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar segir að beiðni um aðstoð barst frá skipstjóra Akureyjar á sjöunda tímanum í morgun.

Varðskipið Þór var þá á Bíldudal og hélt þegar af stað til móts við Akurey. Um klukkan 13:00 var Þór kominn að Akurey og tók skamma stund að koma taug á milli skipanna. Að því búnu hélt varðskipið áleiðis til Reykjavíkur með Akurey í togi en gert er ráð fyrir að skipin verði komin til hafnar um hádegisbil á morgun. (lhg.is)

2890. Akurey AK 10. © Hafþór Hreiðarsson 2018.
 

18.06.2018 14:54

Sólrún EA 151 - Myndasyrpa

Hér kemur syrpa af myndum sem ég tók í síðustu viku af Sólrúnu EA 151 koma til hafnar á Árskógssandi. Hún var í sínum fyrsta róðri þar sem línubeitingarvélin og annar búnaður var prófaður en báturinn var í breytingum á Siglufirði.

Fram kom á 200 mílum á mbl.is að Sólrún muni koma í stað tveggja báta, Sólrúnar EA 151 sem skemmdist mikið í bruna í nóvember á síðasta ári og Særúnar EA 251.

Sólrún EA 151 er í eigu samnefnts fyrirtækis á Árskógssandi.

2706. Sólrún EA 151 ex Tumi EA. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

2706. Sólrún EA 151 ex Tumi EA. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

2706. Sólrún EA 151 ex Tumi EA. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

2706. Sólrún EA 151 ex Tumi EA. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

2706. Sólrún EA 151 ex Tumi EA. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

2706. Sólrún EA 151 ex Tumi EA. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

2706. Sólrún EA 151 ex Tumi EA. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

Landað úr línubátnum Sólrúnu EA 151. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

Landað úr Sólrúnu EA 151 á Árskógssandi. © Hafþór Hreiðarsson 2018.
 

 

Flettingar í dag: 83
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 1100
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 9395824
Samtals gestir: 2007453
Tölur uppfærðar: 8.12.2019 01:53:56
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is