Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2009 Ágúst

10.08.2009 22:21

Hesteyri ÍS 95

Hann er glæsilegur ferðaþjónustubáturinn Hesteyri ÍS 95 sem sjósettur var í Bolungarvík á dögunum eftir gagngerar endurbætur. Hesteyrin hét áður Björg Hauks ÍS og fórst á Ísafjarðardjúpi með tveim mönnum í marsmánuði árið 2007. Báturinn var dreginn marrandi í kafi til hafnar en nú er búið að breyta þessum Víking 800 í ferðaþjónustubát. Eigandi Hesteyrar er Hrólfur Vagnsson sem ætlar að nota bátinn til farþegaflutninga þarna vestra og m.a. stefnt að ferðum á Hornastrandi og í Jökulfirði auk siglinga um Ísafjarðardjúp.


Hesteyri ÍS 95 ex Björg Hauks ÍS. © Hallgrímur Óli Helgason 2009.

09.08.2009 23:54

Eikarbátar koma úr róðri

Nú er svo komið að ég man stundum ekki hvort ég er búinn að birta myndir hinar og þessar myndir þannig að ef þær eru endurbirtar verða menn að láta það yfir sig ganga. Hér er ein sem ég man ekki hvort hefur birst en þarna koma Guðbjörg RE 21, Helgi Magnússon RE 41 og Anna HF 39 til hafnar í Reykjavík eftir róður.


Bátar koma úr róðri til hafnar í Reykjavík c.a. 1985. © Hafþór Hreiðarsson.

08.08.2009 23:36

Nýr bátur Norðursiglingar kom til heimahafnar í dag.

Í dag kom til hafnar á Húsavík nýr eikarbátur sem hvalaskoðunarfyrirtækið Norðursigling hefur fest kaup á. Báturinn var keyptur frá Stöðvarfirði og sigldu feðgarnir Hörður Sigurbjarnarson og Heimir Harðarson bátnum heim. Báturinn, sem ber nafnið Héðinn HF 28, er 36 brl. að stærð smíðaður hjá Bátaverkstæði Gunnlaugs og Trausta á Akureyri árið 1974.

Hörður Sigurbjarnarson framkvæmdarstjóri Norðursiglingar sagði við komuna að þeir  Norðursiglingamenn hafi alltaf haft áhuga á að eignast bát af þessari stærð smíðaðan af Gunnlaugi og Trausta. Þegar þeim svo bauðst þessi bátur var stokkið á hann.

Fyrri eigandi bátsins hafði byrjað að rífa ýmislegt innan úr honum með það í huga að breyta honum í húsbát . Hugmyndir Norðursiglingarmanna ganga þó út á það að gera úr honum skonnortu líkt og Hauk sem breytt var úr fiskibát í skonnortu. Báturinn mun fara í slipp  á Húsavík þar sem hann verður undirbúinn til siglingar til Danmerkur þar sem áætlað er að breytingarnar fari fram í vetur.

Héðinn er sjötti bátur Norðursiglingar en auk þeirra fjögurra sem eru í rekstri liggur Garðar við bryggju á Húsavík og er unnið að fullum krafti að endurbyggingu hans þessa dagana. Þá er Norðursigling með einn bát á leigu um þessar mundir en allt eru þetta íslenskir eikarbátar nema Garðar sem smíðaður var í Danmörku.1354.Héðinn HF 28 ex Héðinn Magnússon HF 28.© Hafþór Hreiðarsson 2009.

1354.Héðinn HF 28 ex Héðinn Magnússon HF 28. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

Nils Bjartur Hailer fagnar komu nýja bátsins í dag. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

Einn þeirra sem kom um borð í Héðin í dag var Trausti Adamsson sem smíðaði bátinn ásamt Gunnlaugi Traustasyni eftir teikningu Tryggva Gunnarssonar. Hér á myndinni er Trausti á talið við Þorgrím Aðalgeirsson báta- og skipaáhugamann. © Hafþór 2009.

Fleiri myndir er hægt að sjá hér

08.08.2009 21:18

Geiri Harðar á hvalaslóðum

Hér kemur mynd af vini mínu Geira Harðar sem Hreiðar Olgeirsson hvalaskoðunarskipstjóri tók á Skjálfanda í fyrrasumar. Þarna er Geiri á bát sínum sem heitir Skjálfandi ÞH 6 á hvalaslóðum. Hann var í námunda við tvo hvalaskoðunarbáta sem voru að sýna hnúfubak. Hnúbbinn kom síðan upp við borðstokkin hjá Geira og var kallinn (H.Olg.) fljótur að munda myndavélina og náði að festa það á kubb.


6844.Skjálfandi ÞH 6 ex Korri ÞH 444. © Hreiðar Olgeirsson 2008.

06.08.2009 23:42

Garðar hinn norski frá Bergen

Hér koma myndir úr Noregsför Andrésar Kolbeinssonar sem sýna Gardar hinn norska við Egersund Net sem hlýtur þá að vera nótaverkstæði í Egersund en þar eru myndirnar einmitt teknar.

Gardar er mikið skip og öflugt. hann mælist 83,3 metrar á lengdina og breiddin er 14,6 metrar. Dýptin mun vera 9 metrar. Aðalvélin er af gerðinni Wartsila, týpa NSD 12V32 og telst vera 7402 hestöfl. Gardar var afhentur í júlímánuði árið 2004 frá Hellesöy Verft AS. Skrokkurinn kom frá Navol AS í Rúmeníu, þar sem hann var smíðaður árið 2001, og skipið síðan fullklárað í Noregi. Gardar var lengdur í Póllandi árið 2006 en fyrir lenginguna var hann 75,4 metrar. (Ef þessar upplýsingar eru ekki réttar leiðrétta menn mig).


LMOG.Gardar H-11-AV. © Andrés Kolbeinsson 2009.

LMOG.Gardar H-11-AV. © Andrés Kolbeinsson 2009.

05.08.2009 23:24

Pétur Þór BA

Í samtali mínu við bátaáhugamann í gær kom Pétur Þór BA upp í samræðum okkar um eikarbáta. Vorum m.a. að ræða báta Norðursiglingar og þá rifjaðist upp að Haukur á sér systurskip, eða bát ætti nú kannski að segja. Þá mundi ég eftir að Kjartan Traustason sendi mér myndir frá Bíldudal sem hann tók á ferðalagi þar vestra í sumar. Og á þeim má sjá nefndan Pétur Þór og ljóst að hann má muna sinn fífil fegri.


1491.Pétur Þór BA 44 ex Hringur HU. © Kjartan Traustason 2009.

1491.Pétur Þór BA 44 ex Hringur HU. © Kjartan Traustason 2009.

05.08.2009 21:58

Maasdam er stærsta skip sem lagst hefur að bryggju á Húsavík.

Í morgun kom skemmtiferðaskipið Maasdam til Húsavíkur en þetta er stærsta skip sem lagst hefur að bryggju á Húsavík. Sjá meira um skipakomuna hér

Ég tók heilan helling af myndum af skipinu og hér má skoða nokkrar þeirra.


Snorri litli er ekki stór við hliðina á Maasdam. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

Maasdam frá Rotterdam siglir hér út Skjálfanda í dag. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

04.08.2009 18:51

Strandveiðibáturinn Þingey

Hér gefur að líta strandveiðibátinn Þingey ÞH 51 sem er í eigu Sjóferða Arnars ehf. á Húsavík. Myndirnar tók ég í dag þegar Arnar Sigurðsson og Stefán Þóroddsson voru að koma að landi á Húsavík. Addi tók að sjálfsögðu hring fyrir skólabróðir og fyrrum skipsfélaga á Skálaberginu,


1650.Þingey ÞH 51. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

1650.Þingey ÞH 51. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

04.08.2009 18:06

Strandveiðibátar

Hér koma myndir af þrem af þeim strandveiðibátum sem komu að landi í dag á Húsavík.


2484.Kristín Ólöf ÞH 177 ex Svanhvít HU 177. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

6643.Gimli ÞH 5 ex Þorfinnur EA 120. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

6975.Stebbi Hansen EA 248 ex Funi EA. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

03.08.2009 14:42

Skúli Hjartarson BA 250

Hér birtist mynd sem Aðalsteinn Júlíusson sendi mér af Skúla Hjartarsyni BA 250 en myndin er tekin á sjómannadegi þar vestra. Skúli Hjartarson BA 250 var smíðaður af Gísla Jóhannssyni á Bíldudal. Það var árið 1958 og mældist báturinn 12 brl. að stærð og var hann búinn 85 hestafla MWM aðalvél. (spurning hvort það hafi verið önnur vél í honum í upphafi ? hvort þessi var sett í hann 1965 ?) 1985 var sett í hann 131 hestafla Scania aðalvél. 

Saga Skúla Hjartarsonar BA 250 var sögð í Mrogunblaðinu árið 2000 og tek ég mér það bessaleyfi að endurbirta fréttina hér:
 

Í desember 1997 gaf Torfi Jónsson og fjölskylda Agli Ólafssyni frá Hnjóti í Örlygshöfn bátinn Skúla Hjartarson til minningar um Gísla Jóhannsson með það fyrir augum að báturinn yrði varðveittur á safni Egils því þetta mun vera eini báturinn sem til er eftir þennan merka mann. 1. febrúar sl. var báturinn síðan fluttur á vörubíl að Hnjóti. Gísli Jóhannsson smíðaði Skúlann árið 1946 en hann var ekki sjósettur fyrr en árið 1958.

Einar Guðfinnsson, útgerðarmaður í Bolungarvík, bað Gísla Jóhannsson bátasmið að smíða fyrir sig tvo báta. Þeir áttu að vera um 12 brúttórúmlestir að stærð en það var sú stærð sem hentaði hafnaraðstöðunni í Bolungarvík á þeim tíma þ.e. 1940-1944. Einar tók fyrri bátinn sem hét Særún. Þegar svo lokið var við smíði á seinni bátnum hafði hafnaraðstaðan breyst þannig að nú var hægt að nota mun stærri báta í Bolungarvík. Einar tók því aldrei seinni bátinn. Og mun þar vera komin ástæðan fyrir því að báturinn stóð í 12 ár í smíðahúsinu hjá Gísla eða frá 1946-1958 að hann var sjósettur.

Smíðaði 400 báta

Á árunum 1905-1946 er talið að Gísli hafi smíðað um 400 báta fyrir utan skútur og skip sem hann lagfærði og breytti. Í sjómannablaði Víkings árið 1945 er grein eftir sr. Jón Kr. Ísfeld í tilefni 45 ára starfsafmæli Gísla, en þar stendur að Gísli muni hafa smíðað þennan bát á einu ári. Einn byrti hann þennan bát úr 15" þykkri eik, einn lagði hann kjölinn og hann vann stefnið úr 11" þykkri eik. Var þetta svo þykkt að ekki var hægt að vinna það með vélsöginni svo hann var að saga það með handsög. Þetta sýnir kraft og dugnað Gísla bátasmiðs frá Bíldudal.


"Þótt reifuð skarti ránarmey"

Björn J. Björnsson, Sigurður Skúlason, Rögnvaldur Bjarnason og Haraldur Ólafsson keyptu síðan bátinn. Eiga þeir bátinn til ársins 1963 er Torfi Jónsson og Hjörtur Halldórsson keyptu hann. Torfi og Hjörtur reru saman í 21 ár en þá keypti Torfi og fjölskylda hans hlut Hjartar í bátnum. Torfi reri honum svo fram á haustið 1997. Skúli Hjartarson er 11,5 brúttórúmlesta eikarbátur, snurvoðar-spilið smíðaði Matthías Guðmundsson frá Þingeyri og var það sett í Skúla 1960. Spildrifið er spilrass úr Ford-vörubíl árgerð 1935 og er þetta í sinni upprunalegri mynd. Kompásinn í Skúla Hjartarsyni er þakkompásinn úr togaranum Sargon sem strandaði undir Hafnarmúla 1948.

Þegar Skúli Hjartarson (sem báturinn heitir eftir) faðir Sigurður Skúla frétti að báturinn ætti að heita eftir honum bað hann Jón Jóhannsson, þá hreppstjóra á Bíldudal, að yrkja fyrir sig vísur sem fylgt gætu bátnum við sjósetningu. Hreppstjórinn varð við óskinni og orti:

Þótt reifuð skarti ránarmey

renni hart að starfi.

Skeiðar djarft og skelfist ei

Skúli Hjartararfi.

Er blátt við drafnar bylgjutraf

boðar kafna og springa.

Þú skalt nafni orku af

öldusafnið þvinga.

Hót ei saki heiður þinn

hrönn þótt kvaki grettin

endurvakinn annað sinn

út að taka sprettinn.

Bylgju safnið bátur rann

beina jafna línu.

Eflaust kafnar aldrei hann

undir nafni sínu.

Nú er hann Skúli að feta fyrstu sporin

og frjáls sér leikur Ægis dætur við

vo íturvaxinn ungur endurborinn

af afli knúinn ristir bylgju nið.

Þér fylgi gæfa hafs á hálu brautum

og hlaðist að þér mikill þorskafans

en komi ætíð heill úr hafsins þrautum

með heilan farm og gleði sérhvers manns.

 


770.Skúli Hjartarson BA 250. © Úr einkasafni.

Flettingar í dag: 110
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 1100
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 9395851
Samtals gestir: 2007457
Tölur uppfærðar: 8.12.2019 02:29:52
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is