Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2008 Nóvember

06.11.2008 21:34

Baldur GK 97.

Baldur KE 97 var smíðaður í Djupvik í Svíþjóð 1961 og mældist 40 brl. að stærð. Eigendur hans voru Ólafur Björnsson og Hróbjartur Guðjónsson í Keflavík en 1971 var skráður eigandi Baldur hf. í Keflavík. Upphaflega var í Baldri 230 hestafla Deutz aðalvél en 1974 var sett í hann 350 hestafla Caterpillar vél. Í mars 1987 kaupir Sigurborg hf. í Keflavík bátinn og haustið 1989 kaupir svo Útgerðarfélag Akureyringa hf. bátinn. Nesfiskur hf. í Garði keypti svo bátinn af ÚA, eftir að þeir hirtu af honum kvótann, og gerði hann út til ársins 2003 undir Baldurs nafninu. GK 97 var hann þó og því var ekki breytt fyrr en Baldur var tekinn á land og komið fyrir í grófinni í Keflavík. Þá fékk hann KE 97 aftur á kinnunginn.

Á skip.is 5 mars 2003 mátti lesa eftirfarandi frétt:

Leiðir Baldurs KE og Ólafs Björnssonar liggja saman á ný

Á mánudaginn kemur verða liðin 42 ár síðan að Ólafur Björnsson útgerðarmaður í Keflavík tók við nýsmíðinni Baldri KE en báturinn var smíðaður í Djupvik í Svíþjóð. Á næstu dögum mun báturinn komast í eigu Ólafs á nýjan leik en hann hyggst svo ráðstafa honum til safns sem hann vonast til að verði vísir að byggðasafni í Reykjanesbæ.

Baldur KE er um margt merkilegur bátur. Hann var smíðaður eftir teikningu Egils Þorfinnssonar, sem var afkastamikill í hönnun báta á sínum tíma, og hugmyndum útgerðarmannsins. Baldur KE var fyrsti frambyggði báturinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga og jafnframt fyrsti báturinn með skuttogi en á þessum árum tóku allir togbátar og togarar trollin inn á síðunni. Ólafur gerði Baldur KE lengi út til veiða en fyrir nokkrum árum komst báturinn í eigu Nesfisks í Garði sem gert hefur hann út undir nafninu Baldur GK 97. Bátnum hefur nú verið lagt og var honum ekki ætlað sérstakt hlutverk í framtíðinni. Ólafur tók því fegins hendi þegar honum bauðst báturinn fyrir lítið en hann hefur um skeið verið með hugmyndir um að koma honum fyrir á safni.

-- Ég reikna með að fá bátinn fyrir lítið eða ekkert. Ætli ég borgi ekki krónu fyrir hann eða þar um bil en ég vil ekki taka við honum á mánudaginn. Það gengur ekki að taka við báti á mánudegi, segir Ólafur en hann segir að bæjarstjórn Reykjanessbæjar hafi gefið vilyrði um að aðstaða verði búin til fyrir bátinn við Bátasafn Gríms sem er í svokölluðu Duus húsi. Þar er fjöldi bátalíkana og vonast Ólafur til þess að bátasafnið geti orðið vísir að einhvers konar byggða- eða minjasafni í Reykjanesbæ.

311.Baldur GK 97 ex Baldur KE 97. © Hafþór Hreiðarsson.

06.11.2008 20:32

Glaður HU 67.

Hér er mynd af Glað HU 67 sem var smíðaður í Svíþjóð 1968 fyrir Glað hf. í Keflavík. Glaður KE 67 hét hann upphaflega  og var 43 brl. að stærð. Hann var með 300 hestafla Deutz aðalvél . Glaður KE var seldur norður til Hvammstanga 1975, kaupandinn var Eyri hf. þar í bæ. Þá fékk hann HU 67 í stað KE 67 og hélt því þar til Rækjuverksmiðjan hf. í Hnífsdal keypti bátinn vorið 1987 en þá varð hann Glaður ÍS 28. Heimild Íslensk skip

En ekki varð þessi útgerð langlíf því í lok október 1987 strandaði Glaður ÍS  á skeri rétt sunnan við Flatey á Breiðafirði. Mikill leki kom að bátnum við strandið og lagðisthann á skerið. Fimm manna áhöfn bátsins sakaði ekki og var bjargað um borð í Halldór Sigurðsson ÍS sem var í grenndinni. Halldór Sigurðsson ÍS fór með mennina til hafnar á Brjánslæk en þaðan voru bátarnir gerðir út til skelfiskveiða á þessum tíma.

Ekki tókst að bjarga bátnum af skerinu og á flóði um nóttina rann hann af því og sökk.  Heimild Íslenskur Annáll 1987.

1065.Glaður HU 67 ex Glaður KE 67. © Hafþór Hreiðarsson.

05.11.2008 22:54

Sæborg HU 177

Hér kemur mynd af bát sem líkt og Hilmir hér að neðan bar sama nafn alla tíð en skipti þó nokkrum sinnum um einkennisstafi og númer. Þetta er Sæborg HU 177 sem smíðuð var í Þýskalandi 1956 og mældist þá 66 brl. að stærð. Hún var smíðuð fyrir Kamb hf. á Patreksfirði og hét Sæborg BA 25. Í bátnum var 280 hestafla MWM aðalvél. Í maí 1967 er Sæborg seld Sveini Valdimarssyni og Hilamri Árnasyni í vestmannaeyjum og varð báturinn þá Sæborg VE 22. 1971 er skipt um aðalvél og kemur 425 hestafla Caterpillar í stað MWM vélarinnar. Skipt var um vél í bátnum aftur 1978 eða 1979 ov var þá sett samskonar vél í hann aftur. Síðla árs 1971 kaupir heimir hf. í Keflavík Sæborgu sem verður við það Sæborg KE 177. Haustið 1981 er hann keyptur norður á Blönduós. kaupendur eru Sæborg sf. og Særún hf. þar í bæ. Hann varð Sæborg HU 177 en 1988 er hann seldur til Ólafsvíkur. Hann fórst á vetrarvetíðinni 1989 og einn maður með honum. Ólafur Bjarnasin SH 137 bjargaði öðrum í áhöfn Sæborgar, sjö mönnum. Heimild Íslensk skip.


821.Sæborg HU 177 ex Sæborg KE 177. © Hafþór Hreiðarsson.

05.11.2008 22:33

Hilmir ónýtur

Það er frétt um Hilmi gamla ST 1 á Hólmavíkursíðunni sem segir hann ónýtann það eigi að fjarlægja hann fyrir næstu áramót. Hilmi ST 1 var smíðaður í Keflavík árið 1942 og mældist 28 brl. að stærð. Hann var búinn 90 hestafla Bolinder aðalvél. Eigandi hans í upphafi var Sigurbjörn Eyjólfsson í Keflavík en hann seldi hann vestur á Hólmavík árið 1946, í maí. Kaupendur voru Guðmundur Guðmundsson, Gústaf A. Guðmundsson og Magnús Ingimarsson. Báturinn hélt nafninu, sem hann bar alla tíð, en varð ST 1. 1947 er skipt um aðalvél, 120 hestafla Ruston kemur í stað Bolindersvélarinnar. Aftur er skipt um aðalvél í honum 1962, þá er sett í hann 205 hestafla Deutz. 1. júní 1973 er skráður eigandi bátsins Guðmundur Guðmundsson hf. á Hólmavík og er hann gerður út þangað til nýr Hilmir leysir hann af hólmi. Ætli það hafi ekki verið 1994 eða 1995 en þessi mynd af honum er tekin 1993. Þá var í honum 300 hestafla Mitsubishi aðalvél frá árinu 1985.
                                                            Heimild Íslensk skip.


565.Hilmir ST 1 ex Hilmir GK 498. © Hafþór Hreiðarsson 1993.

05.11.2008 17:49

Austur þýskir vestmannaeyingar

Hér koma tveir austur þýskir vestmannaeyingar úr safni Vigfúsar Markússonar. Efri báturinn er Leó VE 400 sem smíðaður var 1959 fyrir eyjamennina Óskar Matthíasson og Sigmar Guðmundsson. Leó mældist 94 brl. að stærð og aðalvein var 400 hestafla MWM. Leó var endurmældur í febrúar 1965 og mældist þá á annað hundrað búttórúmlestir eða 101. Leó strandaði á Þykkvabæjarfjöru 2. apríl 1978 og eyðilagðist. Mannbjörg varð. Heimild Íslensk skip.

Báturinn á neðri myndinni er Valdimar Sveinsson VE 22 sem smíðaður fyrir hnífsdælinga árið 1960. Hann hét upphaflega Vinur ÍS 102 og var í eigu Katlar hf. í Hnífsdal. 1963 fær hann nafnið Páll Pálsson ÍS 101 og í marsbyrjun 1967 er hann seldur til Vestmannaeyja. Þar fær hann nafnið Hamraberg VE 379, eigandi Katlar hf. Vestmannaeyjum. Í lok ,aí 1974 kaupir Sveinn valdimarsson Vestmannaeyjum bátinn og nefnir hann Valdimar Sveinsson VE 22 en það er það nafn sem hann ber á myndinni hér að neðan. Í júní sama ár er báturinn endurmældur og mælist 88 brl. að stærð. Í nóvemebrbyrjun 1977 kaupur Ólafur Arnberg Þórðarson í Grindavík bátinn og nefnir hann Eldhamar GK 72. Í ársbyrjun 1979 var umdæmisstöfum hans breytt í GK 13 en sami eigandi. 1981 var skipt um aðalvél í bátnum, upphaflega var i honum 400 hestafla MWM en í hennar stað kom 620 hestafla Cummins. Meitillinn hf. í Þorlákshöfn kaupir Eldhamar í maí 1982 og nefnir hann Klæng ÁR 2. Heimild Íslensk skip.
Frá því Meitillinn seldi Klæng hefur hann borðið nöfnin Tindfell SH, Skarphéðinn RE, Sæberg ÁR, Háhyrningur BA, Helganes ST, Eyjaberg GK, Eyjaberg SK, Jóhanna Margrét HU og Jóhanna Margrét SI. Hann er ekki lengur á skipaskrá samkvæmt skip.is og hefur því líklega farið í brotajárn.


658.Leó VE 400. © Vigfús Markússon.

163.Valdimar Sveinsson VE 22 ex Hamraberg VE 379. © Vigfús Markússon.

04.11.2008 22:48

Þorsteinn

Það er frétt um þennan bát á 640.is í dag og því er nú andskotans verr að ekki er betri mynd af honum þar.


972.Þorsteinn RE 303. © Hreiðar Olgeirsson.

04.11.2008 21:22

Happasæll KE 94.

Hér kemur mynd sem ég fékk senda af Suðurnesjunum af Happasæli KE 94. Þegar myndin var tekin var hann í eigu Jóhanns Þórlindssonar, föðurafa sendanda. Þóroddur Sævar heitir og þakka ég honum sendinguna. Happasæll þessi var smíðaður á Akranesi 1955 úr eik. Hann mældist 61 brl. að stærð og búinn 225 hestafla Lister aðalvél. Eigandi bátsins var Sameignarfélagið Guðfinnur í Keflavík og bar báturinn nafnið Guðfinnur KE 32. Báturinn var seldur í desember 1964 vestur í Grundarfjörð og fékk þar nafnið Farsæll SH 30. Eigendur Sigurjón Halldórsson, Hermann og Halldór Sigurjónssynir í Grundarfirði ásamt og með Sigurði Ágústssyni í Stykkishólmi. Árið 1970 er skipt um aðalvél, 425 hestafla Caterpillar leysir Listerinn af hólmi. Í febrúar 1975 kaupir Jóhann Þórlindsson í Keflavík bátinn og nefnir hann Happasæl KE 32. Hann flytur með bátinn til Reykjavíkur árið í júní 1978 og verður hann Happasæll RE 94. Á Gamlársdag 1978 kaupa Guðmundur Rúnar og Jóhann Sigurður Hallgrímssynir bátinn sem verður þá happasæll KE 94 en hann var síðan talinn ónýtur og tekinn af skrá í byrjun ágúst 1982. Heimild Íslensk skip.

Það er eins og maðurinn sagði ekki allt kórrétt í bókunum um Íslensk skip og í tilfelli þessa báts er vitlaus mynd.

 475.Happasæll KE 32 ex Farsæll SH 30. © Úr safni Þórodds Sævars Guðlaugssonar.

04.11.2008 17:18

Lida fer til Hammerfest

Bátsmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi nú á dögunum nýjan Cleopatra bát til Hammerfest, í Finnmerkurfylki í Noregi. Kaupandi bátsins er Jan Asbjørn Edvardsen. Báturinn hefur hlotið nafnið Lida.  Báturinn mælist 15brúttótonn.  Lida er af gerðinni Cleopatra 36 sem er sérstök útgáfa af Cleopatra 38.

 

Aðalvél bátsins er af gerðinni Volvo Penta D12 650hp tengd ZF325IV-niðurfærslugír.  Báturinn er útbúinn fullkomnum siglingatækjum af gerðinni JRC og Simrad. Báturinn er einnig útbúin með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu bátsins.  Báturinn er útbúinn til línuveiða.Búnaður til línuveiða er frá Beiti ehf. Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking-björgunarbúnaði.

 

Rými er fyrir 11stk 660lítra kör í lest.  Í bátnum er upphituð stakkageymsla og sturtuklefi.  Borðsalur er í brúnni auk stóla fyrir skipstjóra og háseta.  Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.

 

Reiknað er með að báturinn hefji veiðar nú í byrjun nóvember.


Lida F-190-H. © Trefjar.is

03.11.2008 19:41

Valafell SH 157

Hér kemur mynd úr safni Vigfúsar Markúsonar af Valafelli SH 157. Ég hygg að hún sé tekin þegar Valafell var keypt til Eyrarbakka árið 1976. En upphaflega hét skipið, sem smíðað var í Risör í Noregi, Ólafur Bekkur ÓF2. Hann var smíðaður 1960 og var upphaflega í eigu Bæjarsjóðs Ólafsfjarðar frá því í nóvember það ár. En í ársbyrjun 1961 var skipið selt Hlutafélaginu Þresti Ólafsfirði. 1972 var Ólafur Bekkur ÓFseldur til Ólafsvíkur, kaupandinn Valafell hf. Skipið fékk nafnið Valafell SH 157. Það mældist upphaflega 155 brl. að stærð en árið 1972 var það endurmælt og varð þá 129 brl. að stærð. 380 hestafla Alpha aðalvél var upphaflega í skipinu en 1974 leysti 600 hestafla vél sömu gerðar hana af hólmi. 1975 kaupir Snorri Snorrason á Dalvík skipið en engar nafna- né númerabreytingar verða á því. Það er svo selt Hraðfrystistöð Eyrarbakka árið 1976 og fékk það nafnið Goðaborg ÁR. Í desember 1977 kaupir Guðni Sturlaugsson í Þorlákshöfn skipið og gefur því nafnið Jón Sturlaugsson ÁR 7. Skipið var aftur endurmælt 1979 og þá var útkoman 131 brl. og árið síðar eða 1980 er skipið selt Barðanum hf. í Kópavogi. Þá fékk það nafnið Barðinn RE 243. Í október 1985 var það selt Mumma hf. í Sandgerði og hélt það nafninu en varð GK 475. Barðinn GK strandaði við Dritvík á Snæfellsnesi 14. mars 1987 og bjargaði TF-SIF níu manna áhöfn hans heilum á húfi í land. Þá sögu þekkjum við og ég á myndir sem Hreiðar Olgeirsson tók daginn eftir eða þann næsta af flakinu og bíða þær birtingar.  Heimild. Íslensk skip.


160.Valafell SH 157 ex Ólafur Bekkur óf 2. © Vigfús Markússon.

02.11.2008 21:41

Höddi á afmæli í dag

Hörður vinur minn Harðarson á afmæli í dag og þar sem hann heimsækir þessa síðu reglulega sendi ég honum kveðju héðan yfir til Færeyja þar sem hann býr.


Hörður Harðarson. © Hafþór Hreiðarsson 2004.

02.11.2008 19:55

Dröfn SI 67

Hér kemur mynd Hreiðars Olgeirssonar af Dröfn SI 67 tekin á rækjumiðunum úti fyrir norðurlandi. Dröfn SI var smíðuð í Danmörku árið 1956 fyrir Sameignarfélagið Stíganda í Ólafsfirði. Báturinn hét upphaflega Gunnólfur ÓF 35 og mældist 102 brl. að stærð. Búinn 420 hestafla Modag aðalvél.
Í mars 1962 var báturinn seldur Faxa hf. í Keflavík og nefndist þá Freyfaxi KE 10. Árið 1964 var Modagvélinni skipt út fyrir 380 hestafla Caterpillar. Í ársbyrjun 1971 kaupir Pétur Sæmundsson í Keflavík bátinn sem við það verður Óli Tóftum KE 1. Báturinn var endurmældur 1972 og minnkaði við það um eina brúttórúmlest. Í febrúar 1976 er báturinn skráður í eigu fyrrnefnds Péturs og Norðurvarar hf. í Keflavík. 1978 er hann seldur austur á Höfn í Hornafirði. Kaupendur eru Gísli Þorvaldsson, Sæmundur Gíslason og Jóhann Gíslason og fær báturinn nafnið Jakob SF 66. 1980 er enn og aftur skipt um aðalvél, nú kemur ný Caterpilalr í stað þeirrar gömlu og er hún 425 hestöfl. Í desember 1985 kaupir Drafnar hf. á Siglufirði bátinn og þá fær hann það nafn sem hann ber á myndinni hér að neðan, Dröfn SI 67. Ekki virðist báturinn hafa stoppað lengi á Siglufirði því í febrúarbyrjun 1986 kaupir Hólmar Víðir Gunnarsson í Þorlákshöfn bátinn sem fær nafnið Júlíus ÁR 111. Þessar heimildir eru úr Íslensk skip en ég man ekki hver urður örlög þessa báts. Þó minnist ég þess ekki að hann hafi fengið annað nafn eftir Júlíusarnafnið. Næsti Júlíus var 1054 og ætli þessi hafi verið úreldur í kringum 1990.


58.Dröfn SI 67 ex Jakob SF 66. © Hreiðar Olgeirsson.

02.11.2008 13:04

Arnarborg og Arnarborg

Hér koma tvær myndir af sama bátnum sem upphaflega hét Hafnarey SU 210 og var smíðuð í Danmörku 1958 fyrir Hraðfrystihús Breiðdælinga hf. hafnarey var 76 brl. að stærð búinn 310 hestafla Alpha aðalvél. Báturinn var seldur frá Breiðadalsvík haustið 1962, kaupandinn var Guðmundur Jónsson í Garðinum og fékk báturinn nafnið Mummi II GK 21. Í febrúarmánuði 1967 varð hann Mummi GK 120. Dyrhólaey hf. í Sandgerði keypti bátinn í mars 1975 en þrem árum áður hafði verið skipt um aðalvél. 425 hestafla Caterpillar kom í stað þeirrar gömlu. Báturinn Fékk nafnið Dyrhólaey GK 19. Ekki virðist þessi útgerð hafa gengið upp því í desember sama ár er báturinn seldur Rafni hf. í Garði og í júní 1976 er hann seldur í Stykkishólm. Kaupandinn Rækjunes hf. og báturinn fær nafnið Jón Freyr SH 114. Enn skiptir báturinn um eigendur árið 1978. Fer aftur á Suðurnesin þegar Jónas Guðmundsson í Keflavík kaupir hann. Þarna fær báturinn sitt síðasta nafn sem er Arnarborg, einkennissatfir og númer KE 26. Vorið 1986 kaupir svo Hólanes hf. á Skagaströnd bátinn sem heldur nafninu en verður HU 11. (Heimild Íslensk skip)

Arnarborgin vék síðan af skipaskrá fyrir rækjutogaranum Guðmundi Guðjónssyni BA 205. Þann 10. maí 1992 var hún tekin í slipp á Skagaströnd þar sem brúin ofl. var rifin af og vélin tekin úr. Þessar heimildir eru úr Morgunblaðinu og þar var búist við því að skrokkurinn færi í síðan áramótabrennuna um áramótin 1992-3. Hvort af því varð veit ég ekki en gaman væri ef einhver gæti staðfest hvort það varð.


686.Arnarborg KE 26 ex Jón Freyr 114. © Vigfús Andrésson.

686.Arnarborg HU 11 ex Arnarborg KE 26. © Hafþór Hreiðarsson 1988.

Húsvíkingur einn, nokkuð þekktur, var skipverji á Arnarborginni KE á árunum 1981-3 c.a. Hver er maðurinn ?

02.11.2008 00:23

Óðinn með þrjá í togi

Árið 1969 fór varðskipið Óðinn utan með þrjá síðutogara í eftirdragi en þar voru þeir rifnir í brotajárn. Hvað hétu þessir togarar og hvert voru þeir dregnir ?


01.11.2008 22:18

Guðmundur í Nesi

Jæja þá er maður kominn í sína tölvu og hér kemur önnur mynd af Guðmundi í Nesi RE 13. Ég myndaði hann nefnilega bæði koma og fara. Eitthvað vesen með gýrókompásinn sagði Þorgeir þegar Jóel var að legga Guðmundi í Nesi að bryggju. Guðmundur í Nesi kom til landsins 8. febrúar 2004 en þá keyptu feðgarnir á Rifi togarann frá Færeyjum. Þar sem hann hét Hvilvtenni en fékk nafn Guðmundar föður Kristjáns Guðmundssonar og afa þeirra Guðmundar og Hjálmars Kristjánssona. Útgerð skipsins var upphaflega Útgerðarfélagið Tjaldur hf. en síðar Brim hf.

Guðmundur á Nesi leysti gamlan pólskan frystitogara af hólmi sem Eldborg hét. Hvilvtenni hafði verið gert út á rækju frá Færeyjum en frá því að Brim hóf úgerð hans hefur honum verið haldið til grálúðuveiða með góðum árangri. Guðmundur í Nesi er 66 m. langur og 14 m. breiður og búinn 7500 hestafla Wartsila aðalvél. Skipið var smíðað í Noregi árið 2000, nánar tiltekið í Tomrefjord.

Guðmundur í Nesi RE hefur verið á Akureyri síðan um miðjan september þar sem var verið að breyta Wartsila vélinni þannig að hún gæti brennt svartolíu. Þá voru ýmsar breytingar á millidekki en um þær er hægt að fræðast á heimasíðu áhafnar skipsins.


2626.Guðmundur í Nesi RE 13 ex Hvilvtenni. © Hafþór Hreiðarsson 2008.

01.11.2008 17:53

GÍN á leið út Eyjafjörð

Hér siglir Guðmundur í Nesi RE 13 út Eyjafjörðinn í dag eftir miklar breytingar hjá Slippnum. M.a. var Wartsillunni breytt svo hún gæti sopið svartolíu. Meira síðar........er í Eyjafirðinum. Sá félaga Þorgeir og hitti á bryggjunni í mýflugumynd.


2626.Guðmundur í Nesi RE 13 ex Hvilvtenni. © Hafþór Hreiðarsson 2008.

Flettingar í dag: 138
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 1100
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 9395879
Samtals gestir: 2007460
Tölur uppfærðar: 8.12.2019 03:04:45
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is