Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2007 Nóvember

19.11.2007 22:34

Halldór Jónsson SH 217 er bátur vikunnar.

Halldór Jónsson SH 217 er bátur vikunnar að þessu sinni. Báturinn var smíðaður 1961 á Akureyri fyrir Halldór Jónsson útgerðarmann í Ólafsvík. Hann var upphaflega mældur 96 brl. að stærð og var með 400 hestafla M.W.M aðalvél. 1966 var báturinn skráður í eigu Stakkholts hf. Halldór Jónsson SH var endurmældur árið 1974 og mældist þá 92 brl. að stærð og þá var einnig skipt um aðalvél. 565 hestafla Caterpillar leysti þá upphaflegu af hólmi. Heimild Íslensk skip.
Ég hef nú ekki fleiri upplýsingar um bátinn, hann ílentist í Hafnarfjarðarhöfn í langan tíma og ekki veit ég hvað varð um hann.


540.Halldór Jónsson SH 217. © Hafþór.

18.11.2007 22:06

Sören ÞH 260.

Baldur Karlsson og Geirfinnur Svavarsson á Húsavík keyptu snemma árs 1973 sex tonna bát, Gretti SH 195, frá Stykkishólmi er þeir nefndu Sören ÞH 260. Þenna bát gerður þeir út til línu- og handfæraveiðar auk grásleppuveiða. Sören ÞH, sem  var með 59 hestafla Lister aðalvél, var smíðaður í Stykkishólmi árið 1972. Þennan bát gerðu þeir út þar til 1. desember 1975 er hann var seldur. Heimild Saga Húsavíkur.


1234.Sören ÞH 260 ex Grettir SH 195. © Sigurgeir Harðarson.

18.11.2007 17:56

Karólína ÞH 111 seld til Bolungarvíkur.

Beitningarvélabáturinn Karólína ÞH hefur verið seldur frá Húsavík til Bolungarvíkur. Í dag var áhöfnin að þrífa bátinn í Húsavíkurhöfn ásamt því að gera hann klárann fyrir afhendingu sem verður síðar í vikunni. Kaupandinn er Útgerðarélag Bolungarvíkur ehf. og er Karólína ÞH, sem er 15 brúttótonna, ekki fyrsti báturinn sem félagið kaupir frá Húsavík á þessu ári. Í vor keypti Vignir Arnarson, en hann stendur að Útgerðarfélagi Bolungarvíkur ehf., 8 brúttótonna línubát, Auði Þórunni ÞH 344, sem nú hefur nú seld til Grænlands. Karólína, sem fær nafnið Björgmundur, verður fyrsti beitningarvélabáturinn í flota bolvíkinga sem gerður er út í smábátakerfinu.


Útgerðarfélagið Dodda ehf. sem átti og gerði Karólínu ÞH út er með nýjan yfirbyggðan beitningarvélabát í smíðum hjá bátasmiðjunni Samtak í Hafnarfirði. Að sögn Hauks Eiðssonar skipstjóra og eins eiganda Doddu ehf. eiga þeir von á því að fá nýja bátinn um næstu mánaðarmót. Hann er sömu gerðar og Háey II ÞH sem GPG fiskverkun á Húsavík fékk afhentan í ágúst sl., þ.e.a.s. Víkingur 1200.


 

 

 

17.11.2007 22:22

Happasæll KE 94 ex Drangur.

Axel E spyr hvort ég eigi mynd af flóabátnum Drangi sem síðar varð Happasæll KE 94. Ein mynd er í safni mínu, tekin eftir að báturinn kom til Keflavíkur. Ég man ekki alveg hvort ég tók myndina eða Hörður vinur minn Harðarson sem skiptir ekki máli. Hallast þó frekar að því að Höddi, sem þá var í skipsrúmi hjá Skara frænda eins og hann segir, hafi tekið hana. En hver er Skari frændi ? Jú það er Óskar Þórhallson lengi kenndur við Arney KE 50 sem var einmitt báturinn sem Höddi var á.


38.Happasæll KE 94 ex Drangur. © Haffi og Höddi.

Drangur var smíðaður í Noregi 1959,  mældist 191 brl. að stærð, og var með 400 hestafla Wichmann aðalvél. Eigandi var Steindór Jónsson Akureyri en 1971 er skráður eigandi Flóabáturinn Drangur hf. á Akureyri.1982 kaupa Guðmundur Rúnar Hallgrímsson og Jóhann Sigurður Hallgrímsson bátinn og nefna hann Happasæl KE 94. Happasæll var talinn ónýtur og tekinn af skrá 10. júlí 1986. Heimild Íslensk skip.

Ef við rýnum aðeins í myndina má sjá þarna Stafnes KE, Vatsnes KE, Gunnar Hámundarson GK og Gullþór KE. Innan við hann er bátur sem ég gæti trúað að sé Binni í Gröf KE. Ég rýndi betur í myndina eftir ábendingar um að þetta væri Búrfell en ekki Stafnes sem liggur við bryggjuna gegnt Happasæl. Og það er rétt sem kom fram, þetta er Búrfell, mér fannst þetta vera blár bátur en hann er grænn. Eins voru nokkur smáatriði sem bentu á Búrfellið burt séð frá litnum.
Og til gamans birti ég hér myndir af umræddum bátum, þ.e.a.s. Stafnesi KE 130 og Búrfelli KE 140.

235.Stafnes KE 130 ex Ásþór RE 395. © Hafþór.

17.Búrfell KE 140 ex Ásbjörn RE 400. © Hafþór.

17.11.2007 21:08

Húsavíkurhöfn í dag.

Hér er mynd sem ég tók við Húsavíkurhöfn um miðjan dag í dag. Norðan vindur og ofankoma. Kirkjuturn Húsavíkurkirkju ber fyrir miðri mynd en skyggnið var ekki mikið eins og sést á myndinni. Samkvæmt sjálfvirkri veðurathugunarstöð á Húsavík var vindstyrkurinn á Húsavík frá því kl. 9 í morgun 12-14 m/s en í hviðum 18-20 m/s. Veðurathugunarstöðin við Húsavíkurhöfn gefur engar uppl. á þessum tíma.


Húsavíkurhöfn í dag. © Hafþór.

 

16.11.2007 17:09

Skinney-Þinganes hf. kaupir Lunar Bow frá Peterhead.

Útgerðarfyrirtækið Skinney Þinganes á Hornafirði hefur fest kaup á uppsjávarveiðiskipinu Lunar Bow PD265 frá Peterhead í Skotlandi. Skipið, sem var í eigu Lunar Fishing í Skotlandi, er smíðað í Noregi árið 2000 og er útbúið á tog og nótaveiðar. Burðargeta þess er um 1540 tonn í kælitönkum en skipið er rúmlega 61 meter að lengd og um 13 metra breitt. Aðalvél skipsins um 7400 hö. af gerðinni Wartsila. Áætlaður afhendingartími er í maí 2008.


Lunar Bow PD 265. © www.alasund.is

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Skinney-Þinganes hf. kaupir skip frá Skotlandi, með þessu nafni. Árið 2000 keypti Þingey ehf. skip með þessu nafni en að því fyrirtæki stóðu Skinney-Þinganes hf. og SR mjöl hf. Það skip fékk nafnið Ásgrímur Halldórsson SF 250.  Það skip var smíðað árið 1996, 50 metra langt og 12 metra breitt og bar um 1.000 tonna afla í sjókælitönkum. Það var með 4.100 hestafla Wichmann aðalvél. Síldarvinnslan á Neskaupsstað eignaðist síðan SR mjöl hf. og hlut þess í Þingey ehf. Ásgrímur Halldórsson SF 250 var seldur úr landi í fyrra.

Þá er Skinney-Þinganes hf. með tvö skip í smíðum í Taiwan þannig að óhætt er að segja að uppgangur sé þar á bæ.

Sveinn Ingi Þórarinsson hjá skipasölunni Álasundi sendi mér þessa mynd sem faðir hans, Þórarinn Guðbergsson, tók þann 24 maí 2006. Þakka ég þeim feðgum fyrir afnotin.

Sveinn Ingi lét þessar upplýsingar um skipið fylgja með myndinni:

Lunar Bow PD 265

Type: RSW Purse Seiner / Trawler

Built: 2000 Simek A/S, Norway

Class: DNV 1A1 Fishing Vessel Stern Trawler

Tonnage: GT 1519 - NT 507 - DWT 2070 tons

Dimensions: Loa 61,20 x Lpp 53,40 x Beam 13.20 x Depth to Shelterdeck 8,15 x Depth to main deck 5,70 x Draught loaded 6,40 mtrs

Main engine: Wärtsilä 12V32
Refrigeration: 2 x 650.000 kcal/h

Fish hold: 1540 cbm in 9 RSW tanks

Bunkers: Fuel oil: 465 cbm - Fresh water: 59 cbm - Water ballast 56 cbm

Accommod.: 16 men


 

15.11.2007 19:04

Matthildur SH 67 kemur að landi.

Hér eru þrjár myndir sem ég tók í Ólafsvík af Matthildi SH 67 koma til hafnar.


241.Matthildur SH 67 ex Guðbjörg ÍS 14. © Hafþór.

15.11.2007 16:08

Hver er báturinn # 23 2007

Hver er báturinn ? já kannski ekki erfitt að sjá hvar þessi bátur er smíðaður en ég vil fá rétt nafn og rök fyrir því að þetta sé sá bátur. Ég ætla leyfa mönnum að spá og spekúlera í nokkra daga þó rétt nafn komi snemma fram.
Jú það kom snemma fram að þetta væri Keflvíkingur KE 100, myndina tók að ég held Gunnar Hallgrímsson frá Sultum. 


967.Keflvíkingur KE 100.

967.Keflvíkingur KE 100. © Sigfús Jónsson.

 

14.11.2007 21:42

Snæfell EA 740.

Þorsteinn Pétursson er mikill báta- og skipaáhugamaður á Akureyri og einn þeirra sem standa að Hollvinasamtökum Húna II. Þorsteinn hefur gaukað að mér myndum annað slagið og þessa hér að neðan fékk ég í dag frá honum. Þetta er mynd af Snæfelli EA 740, 165 brl. eikarskipi sem smíðað var 1943 hjá Skipasmíðastöð KEA á Akureyri fyrir Útgerðarfélag KEA. Upphaflega var í skipinu 434 hestafla Ruston aðalvél en árið 1962 var sett í það 600 hestafla Wichmann. Skipið var talið ónýtt og teki af skrá 22. október 1974. Þessar heimildir eru úr bókinni Íslensk Skip. Snæfellið lá við bryggju á Akureyri í einhver ár uns það var dregið út á Grímseyjarsund og því sökkt.


195.Snæfell EA 740.

Nú væri gaman að fá sem mestan fróðleik um þetta mikla aflaskip. Gaman hefði nú verið ef því hefði verið sýndur sá sómi sem það átti skilið, að varðveita það.

14.11.2007 19:00

Hefði Fonsi komist upp í Guðmund VE ?

Eins og kom fram hér á síðunni í fyrradag fór Alfons Finnsson, hinn kyngimagnaði blaðamaður og ljósmyndari Skessuhorns, í sjóferð á Grundarfirði. Tilgangur hans var að fanga síldarskipin sem þar voru á veiðum á minniskortið.
Þar segir m.a. að hann hafi farið um borð í Sighvat Bjarnason VE og því hent fram að hann hafi sennilega ekki komist upp í önnur skip á þessum slóðum. Ég fékk senda mynd sem sýnir þær aðstæður sem Fonsi var í og er ljóst að hann hefði aldrei komist upp í Guðmund VE sem var samsíða Sighvati.


Birta utan á Sighvati Bjarnasyni. © Ásþór Sigurgeirsson.

Blaðamaðurinn skeleggi vildi koma því á framfæri að hann hefði komist upp í Guðmund að öllu jöfnu nema sjór fossaði yfir stigann bakborðsmeginn og hann vildi ekki bleyta myndavélina.

 

12.11.2007 22:37

Bátur vikunnar er Níels Jónsson EA 106.

Bátur vikunnar að þessu sinni er Níels Jónsson EA 106 sem smíðaður var á Akureyri 1974 og hét upphaflega Arnarnes ÍS 133. Í upphafi var eigandi bátsins, frá 10 febrúar 1974,er skráður  Arnarnes hf. á Ísafirði. Báturinn var seldur 23 nóvember sama ár þeim Gunnari Níelssyni,Halldóri Gunnarssyni og Níelsi Gunnarssyni á Hauganesi og nefndu þeir bátinn Níels Jónsson EA 106. Í september 1984 er skráður eigandi Níels Jónsson sf. á Hauganesi og er það fyrirtæki enn í dag eigandi bátsins. Fyrirtækið er reyndar orðið að einkahlutafélagi í dag . Níels Jónsson EA er 29 brl. að stærð og var í upphafi með 300 hestafla Volvo Penta aðalvél. Í upphafi árs 1999 var skipt um aðalvél í bátnum, 380 hestafla Volvo Penta leysti þá fyrri af hólmi.


1357.Níels Jónsson EA 106 ex Arnarnes ÍS 133. © Hafþór.
Það segir á heimasíðu bátsins, www.niels.is, að hann sé smíðaður 1973 en í skipaskrá á skip.is er hann sagður smíðaður 1974 eins og segir í textanum hér að ofan. Níelsi Jónssyni EA 106 hefur ávallt verið vel við haldið og síðan 1989 hefur áhöfn hans siglt með ferðamenn á sumrin, bæði í hvalaskoðun og sjóstangveiði.

12.11.2007 19:11

Síldarævintýrið á Grundarfirði heldur áfram.

Síldarskip okkar íslendinga fiskuðu sem aldrei fyrr á Grundarfirði í dag og var aflinn ævintýralegur að sögn ljósmyndarans snaggaralega Alfons Finnssonar sem brá sér á síldarmiðin í dag. Alls voru níu bátar að veiðum, og voru nokkrir bátarnir að fá risaköst þegar Fonsi kom á miðin með Kristni Ólafssyni á Birtu SH. Júpiter ÞH fékk t.a.m. 1500 tonna kast og gaf þrem bátum síld þar sem lítið vantaði upp á fullfermi hjá skipinu.


2643.Júpíter ÞH 363 og 2287.Bjarni Ólafsson AK 70 á Grundarfirði í dag. © Alfons.

Þá fékk Guðmundur VE fékk 1000 tonna kast og gáfu þeir  Hákoni EA , Sighvati Bjarnasyni VE og Bjarna Ólafssyni AK úr nótinni. 


2281.Sighvatur Bjarnason VE þáði úr nótinni hjá 2600.Guðmundi VE. © Alfons.

Hákon EA 148 dólaði ekki langt undan og beið þessa að fá að síld hjá Guðmundi VE.


2408.Hákon EA 148. © Alfons.

Þeir Kristinn og Alfons fóru að Sighvati Bjarnasyni VE 81 og vippaði Fonsi sér um borð. Það kom reyndar til vegna þess að þetta var sá bátur sem lægst var upp í og óvíst hvort hann hefði komist upp einhvern annnan. Um borð í Sighvati voru menn í sæluvímu og töluðu um ævintýri og sem minnti jafnvel þá eldri á gömlu góðu árin þegar síldin mokveiddist í Hvalfirði.


Um borð í Sighvati Bjarnasyni VE 81 í dag. © Alfons.

Þess má svo að lokum geta að ég hef fengið einkaleyfi á þessum síldarmyndum Alfons, nær það eingöngu til birtingar á heimasíðum í eigu einstaklinga. Setti inn albúm með fleiri myndum sem þeir sem áhuga hafa á geta skoðað.

11.11.2007 19:57

Stafnes KE 130 verður Gunnþór ÞH 75.

Stafnes KE 130 hefur nú fengið nafnið Gunnþór ÞH 75 samkvæmt skipaskrá á skip.is en skráður eigandi er enn Uggi útgerðarfélag ehf.  Ísey ehf. í Hafnarfirði átti Gunnþór ÞH 75 (2399) sem núna er skráður á Siglufirði. Má því leiða líkum að því að Snorri Sturluson sem gerði út Gunnþór hinn minni hafi verið að stækka við sig.


2459.Stafnes KE 130 ex Sjöfn NS 123. © Hafþór.
Ég hef að undanförnu verið að setja inn albúm með einstökum bátum, þ.e.a.s. hvert albúm inniheldur myndir af sama bátnum undir sama nafni. Sjá Myndalbúm hér að ofan til hægri.

11.11.2007 18:38

Hafrún ÞH 144.

Hér kemur enn einn akureyringurinn, Hafrún ÞH 144, sem var smíðaður var á Akureyri 1971. Eigandi bátsins var strandamaðurinn Bjarni Elíasson sem bjó á Húsavík um tíma. Hafrún var 12 brl. að stærð með 163 hestafla Scania aðalvél. . Kjartan Þorgrímsson á Þórshöfn kaupir bátinn af Bjarna árið 1978 og hélt hann sínu nafni og einkennisstöfum og númeri. Ég er ekki alveg með það á hreinu hver afdrif bátsins voru en minnir að hann hafi alltaf verið á Þórshöfn en fékk ÞH 217 á síðari stigum. Pétur Jónasson ljósmyndari á Húsavík tók þessa mynd af Hafrúnu ÞH 144.


1163.Hafrún ÞH 144. © Pétur Jónasson.


11.11.2007 12:27

Lundey NS 14 og Faxi RE 9 á Grundarfirði.

Hér gefur á að líta tvö uppsjávarveiðiskip HB Granda við veiðar á Grundarfirði á dögunum. A.m.k. er annað þeirra að veiðum á þeirri stundu sem myndin er tekin. Myndina tók Guðlaugur Albertsson og léði mér til birtingar, ekki í fyrsta skipti sem Gulli gaukar að mér mynd. Skipin á myndinni eru Lundey NS 14, sem er nær, og Faxi RE 9.


155. Lundey NS 14 og 1742. Faxi RE 9. © Guðlaugur Albertsson.

Flettingar í dag: 489
Gestir í dag: 94
Flettingar í gær: 716
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 9395130
Samtals gestir: 2007388
Tölur uppfærðar: 7.12.2019 13:39:14
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is