Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2007 Október

31.10.2007 17:21

Eldur í báti á sjómannadaginn 1967.

Á sjómannadaginn 1967 kom upp eldur í vélbátnum Freyju ÞH 125 þar sem hún lá við bryggju á Húsavík. Eins og sjá má á myndinni sem Hreiðar Olgeirsson tók dreif fjölda manns að, flestir sparibúnir í tilefni dagsins, til að fylgjast með slökkvistarfinu. Fleiri myndir eru inn á síðunni "Gamla myndin".


Húsavíkurhöfn á sjómannadaginn 1967.

 

31.10.2007 11:06

Hjalteyrin EA 310.

Einn er sá bátur sem stundaði dragnótaveiðar á Skjálfanda í haust og ekki birts mynd af hér á síðunni. Það er Hjalteyrin EA 310 í eigu samnefnds fyrtækis á Akureyri. Ekki náði ég að mynda bátin á ferð þar sem hann var yfirleitt að koma að landi þegar dimmt var orðið. Þessi mynd sýnir hann við bryggju á Húsavík þar sem verið var að landa úr honum. Hjalteyrin EA hefur ekki landað afla síðan 30. september og liggur á Akureyri. Báturinn er á söluskrá hjá www.vidskiptahusid.is


1371.Hjalteyrin EA 310 ex Linni II SH. ©Hafþór.
En það nú samt ekki svo að ég eigi ekki mynd af bátnum þó ekki hafi ég ná honum kom inn til Húsavíkur. Þessa mynd hér að neðan tók í maí sl. þegar Hjalteyrin kom í höfn á Dalvík.

1371.Hjalteyrin EA 310 ex Linni II SH. ©Hafþór.


30.10.2007 21:20

Bátur vikunnar var smíðaður í Harstad.

Bátur vikunnar var smíðaður í Harstad í Noregi 1964 fyrir Búðaklett hf. í Reykjavík og hét Arnar alla tíð. Búðaklettur hf. seldi Arnar, sem var með einkennisstafina RE 21, í ársbyrjun 1969 til Skagstrendings hf. á Skagaströnd. Við það varð hann Arnar HU 1 og var hann í eigu skagstrendinga til ársins 1974 að Auðbjörg hf. í Þorlákshöfn kaupir bátinn. Þar varð hann Arnar ÁR 55 og hélt því nafni og einkennisstöfum allt til ársins 1988 að hann var afskráður. Báturinn fór til Svíþjóðar og var úreldingarrétturinn notaður fyrir nýjan Blika EA 12 sem smíðaður var hjá Lunde Varv & Verkstads AB í Ramvik. Áður höfðu Bliki hf. og Auðbjörg hf. haft bátaskipti. Auðbjörg fékk Blika EA 12 (162) í stað Arnars ÁR 55 og fékk hann Arnarsnafnið.


234.Arnar ÁR 55 ex Arnar HU 1. © Pétur Helgi Pétursson.

Pétur Helgi Pétursson frændi minn tók þessa mynd á Breiðafirði 1985 er hann var skipverji á Geira Péturs ÞH 344.
Pétur Helgi gaf mér leyfi til að birta myndina og ekki er ólíklegt að þær verði fleiri myndirnar, því maðurinn þykir afbragðs ljósmyndari, og á eitthvað í pokahorninu sem mönnum gæti þótt gaman af að sjá hér á síðunni.


Hvað voru margir bátar smíðaðir fyrir íslendinga í Harstad og hverjir voru þeir ?

30.10.2007 15:52

Nýr bátur til Siglufjarðar.

Nýr bátur, Steinunn ÍS 817, kom til Siglufjarðar í morgun en útgerðarmaðurinn og skipstjórinn Freyr Steinar Gunnlaugsson keypti bátinn nýverið. Steinunn er af gerðinni Gáski 1180 og var upphaflega í eigu Fiskvinnslunnar Kambs hf. á Flateyri.
Steingrímur Kristinsson sem rekur vefinn www.sksiglo.is tók þessar myndir hér að neðan í morgun og gaf mér góðfúslegt leyfi til að nota þær.


2615.Steinunn ÍS 817. ©Steingrímur Kristinsson.


Freyr Steinar Gunnlaugsson. ©Steingrímur Kristinsson.


                                                                   
Á
www.sksiglo.is var eftirfarandi frétt með myndunum :

Nýr bátur til Siglufjarðar.
Freyr Steinar Gunnlaugsson ungur og framtaksamur útgerðamaður keypti sér nýjan bát sem hann kom með til
Siglufjarðar í morgun. Þetta er nokkuð stærri bátur en sá sem hann átti fyrir og hefur róið á undanfarið.
Raunar er þetta fjórði báturinn sem hann á, það er hann hefur keypt allt að því margra áratuga báta uppi á landi, til að komast yfir kóda og hefur hann allar klær úti í þeim tilgangi, sem síður en svo er auðvelt innan um þau frumskógarlögmál sem stjórnvöld hafa komið á hvað fiskinn í sjónum varðar, og er ekki á færi nema þeirra hörðustu að komast nýir inn í kerfið til að geta stundað óskastarfið, sjómennskuna og útgerð smábáta. Nýi báturinn heitir Sigríður sem er (af tilviljun)  einnig nafn ömmu hans og verður því ekki breytt, en mun væntanlega breyta um hluta skrásetningarnúmers, það er frá ÍS yfir í SI.

Báturinn sem Steingrímur skrifar þarna um að Freyr Steinar hafi keypt margra áratuga gamlan og upp á þurru landi mun vera, að sögn Steingríms, Ingeborg SI 60.

29.10.2007 23:24

Frystitogarinn Rex HF 24.

Útgerðafyrirtækið Sæblóm ehf.er með viðamikla útgerð við strendur Afríku og eitt þeirra skipa sem fyrirtækið gerir út er frystitogarinn Rex HF 24. Þessa mynd af Rex sendi Svafar Gestson mér, en hann er vélstjóri Que Sera Sera sem fyrirtækið gerir einnig út. Rex er 57 m.að lengd, 13 m. á breidd og mælist 1628 BT. að stærð. Hann er  smíðaður í Noregi 1986 og aðalvélin er 3000 hestafla Bergen Diesel.


2702.Rex HF 24. ©Svafar Gestsson.

Á myndinni er Rex HF 24 við bryggju í Laayoune í Marocco sem er heimahöfn skipa Sæblóms þar í landi.
29.10.2007 17:27

Kristinn Lárusson GK seldur til Noregs.

Línubáturinn Kristinn Lárusson GK 500 hefur, samkvæmt heimasíðu Viðskiptahússins, verið seldur til Noregs. Nýir eigendur munu taka við skipinu, sem legið hefur við bryggju í talsverðan tíma, í næsta mánuði. Báturinn hét upphaflega Grótta RE 128 og var byggður í Harstad í Noregi 1963. Þá mældist hann 184 brl. að stærð en við brotthvarf úr flotanum nú 44 árum seinna mælist hann 183 brl. að stærð. Upphaflegur eigandi bátsins var Gísli Þorsteinsson Reykjavík en árið 1971 keypti Síldar- og fiskimjölsverksmiðjan hf. á Akranesi hann. Hann hélt Gróttunafninu en fékk einkennisstafina AK 101. Hafbjörg hf. á Akranesi eignaðist Gróttu árið 1973 og gerði út allt til ársins 1984. Þá kaupir Gylfi Baldvinsson bátinn sem fékk nafnið Heiðrún EA 28. 1987 lætur Gylfi byggja yfir bátinn í Vestnes í Noregi auk þess sem skipt var um brú honum. Samherji hf. kaupir útgerð Gylfa einhverjum árum síðar og selur bátinn til Patreksfjarðar þar sem fær nafnið Guðrún Hlín BA. þá fer hann til Bolungavíkur þar sem hann fær nafnið Hrafsneyri ÍS 10. Þorbjörn hf. í Grindavík kom að þessu fyrirtæki sem gerði Hrafnseyrina út og var hún síðar skráð með heimahöfn í Grindavík og einkennisstafina GK 411. Vorið 2001 kaupir Eyrarsund ehf.í Sandgerði bátinn af Þorbirninum og fær hann þá nafnið Kristinn Lárusson GK 500. Hann var keyptur til að afla hráefnis fyrir fiskvinnslu Ný-fisks í Sandgerði en hefur eins og áður kom fram legið mikið við bryggju síðustu árin. Síðasta löndun hans er 29 apríl 2005. Lundey ehf. er skráður eigandi hans síðustu misserin.


72.Kristinn Lárusson GK 500 ex Hrafnseyri GK 10. © Hafþór.

72.Heiðrún EA 28 ex Grótta AK 101.www.shipsale.is
  

28.10.2007 23:48

Patreksfjarðarhöfn 1982.

Hér koma myndir sem ég tók á Patreksfirði í febrúar 1982. Þá vorum við á leið til Þorlákshafnar og komum þar inn í brælu.
Á efri myndinni eru nokkrir vertíðarbátar, þó ekki allir sem gerðir voru út frá Patreksfirði á þessum tíma. Á neðri myndinni er Pálmi BA 30 að koma að skömmu eftir að ég tók efri myndina. Þá er Garðar BA ekki á myndinni.


Patreksfjarðarhöfn 1982. ©Hafþór.

1016.Pálmi BA 30 ex Sigurbjörg ÓF 1. ©Hafþór.

28.10.2007 13:06

Hafist handa við að breyta Garðari.

Nýlega var hafist handa við breytingar á nýjasta bát Norður-Siglingar á Húsavík. Báturinn, sem hét Sveinbjörn Jakobsson SH 10, mun fá nafnið Garðar í höfuðið á landnámsmanninum sænska, Garðari Svavarssyni. Sveinbjörnn Jakobsson SH  var smíðaður í Esbjerg í Danmörku og kom nýr til landsins árið 1964. Hann var í eigu sömu fjölskyldu í Ólafsvík í rúm 42 ár eða allt þar til Norður-Sigling eignaðist hann fyrir ári síðan.
Vonast er til að breytingarnar geti farið að mestu eða öllu leyti fram á Húsavík en togbrautin sem Húsavíkurslippur ehf. rekur er þó á mörkunum að geta tekið svo stór báta sem Garðar segir á heimasíðu Norður-Siglingar, www.nordursigling.is .


Mikið verk er framundan við að breyta Garðari úr fiskibát í ferðaþjónustubát. Norður-Siglingarmenn eru þó öllu vanir í þeim efnum því Garðar er fimmti báturinn sem fyrirtækið breytir

26.10.2007 21:48

Þorleifur EA 88 kemur að landi.

Þorleifur EA 88 úr Grímsey er einn þeirra báta sem stundað hafa dragnótaveiðar á Skjálfanda í haust. Þessa mynd tók ég í dag þegar hann kom að landi á Húsavík. Að sögn skipverja var aflinn sáratregur í dag, var ágætur í gær og fyrradag. Aflanum var landað á Fiskmarkað Húsavíkur og að því loknu var siglt út í eyju.


1434.Þorleifur EA 88 ex Hringur GK 18. ©Hafþór.

25.10.2007 23:31

Þessi bátur sökk í Sandgerðishöfn í morgun.

Frá því er sagt á www.mbl.is í kvöld að þrettán tonna eikarbátur, Hafrós KE 2, hafi sokkið  í Sandgerðishöfn um kl. 11.30 í morgun. Hafrós lá við flotbryggjurnar og tókst Björgunarsveit Sandgerðis að koma bátnum á flot. Var hann dreginn að Norðurbryggju þar sem hann liggur nú við flotbelgi. Ekki mun vera vitað um orsök óhappsins en málið ku vera í rannsókn.

Hafrós KE hét áður Far GK og tók ég þessa mynd hér að neðan í Sandgerðishöfn á sínum tíma, sem ég man ekki hver var.


1294.Far GK 147 ex Sæljómi GK. ©Hafþór.

25.10.2007 22:35

Arnar sem varð Sisimut.

Hér má sjá fyrrum flaggskip Skagstrendings hf., Arnar HU 1 sem kom nýr til landsins í desember 1992. Arnar HU, sem var smíðaður í Noregi og reyndist mikið aflaskip, var seldur til Grænlands árið 1995. Kaupandinn var Royal Greenland A/S.


2173.Arnar HU 1.


Sisimut GR6-500 ex Arnar HU 1. ©Hafþór.
24.10.2007 18:40

35 ár frá komu Vigra RE 71.

Það munu víst vera 35 ár í dag síðan skuttogarinn Vigri RE 71 kom til landsins, fyrstur skuttogara sem smíðaður var fyrir íslendinga ef Siglfirðingur SI er undanskilinn. Vigri var smíðaður í Póllandi fyrir Ögurvík sem fékk annan skuttogara sömu gerðar, Ögra RE 72, í desember sama ár. Sem mun vera 1972. Vigri sem síðar fékk nöfnin Skagfirðingur SK og Haukur ÍS var lengdur 1981.


1265.Vigri RE 71. © Hafþór.

23.10.2007 18:49

Valberg og Valberg.

Þessa mynd hér að neðan sendi Sveinn Ingi í Álsundi mér á dögunum en hann tók hana í slippnum í Njarðvík þann 17. okt. sl. Báturinn á myndinni er Valberg VE 10. Báturinn hét Saxhamar SH 50 frá því hann var smíðaður í Stálvík 1969 allt þar til nýr Saxhamar SH 50 var keyptur árið 2006. Þá fékk báturinn nafnið Saxhamar II SH en Útnes hf. á Rifi var eigandi hans allt þar til núverandi eigandi, A.G.Valberg ehf. keypti hann fyrir skömmu.


1074. Valberg VE 10 ex Saxhamar II SH.


127.Valberg VE 10 ex Kristbjörg II HF 75 ©
Hafþór.

Þessa mynd hér að ofan tók ég í Njarðvík 31. maí 2006 en þá var verið að skvera Valberg VE 10, sem nú heitir Valberg II VE 105 og er í eigu Vaktskipa ehf. Þessi bátur, sem smíðaður var í Flekkufirði í Noregi 1964 og hét upphaflega Guðbjartur Kristján ÍS 280 og síðar Víkingur II ÍS 280. Eigandinn var Eyr hf. á Ísafirði. Báturinn hvarf um tíma af skipaskrá en kemur aftur inn 2004 eða 2005 sem Tjaldanes ÍS og síðar Kristbjörg II HF.

Báðir þessir bátar eru í dag skráðir þjónustubátar og notaðir, eða verða notaðir (1074), sem slíkir erlendis.

22.10.2007 22:47

Bátur vikunnar er að grotna niður á vegum ríkisins.

Bátur vikunnar að þessu sinni var smíðaður hjá Gunnari Jónssyni á Akureyri 1929 og hét upphaflega Kári Sölmundarson EA 454. Báturinn var skráður 12 brl. að stærð og í eigu Jóns Halldórssonar á Ólafsfirði frá 22. nóv. 1930. Seldur 1941 Njáli Stefánssyni og Jörundi Jóhannssyni í Hrísey, báturinn hét Jörundur Jónsson EA 454. Upphaflega var í honum 38 hestafla Tuxham aðalvél en 1943 var sett í hann 60 hestafla Kahlenberg aðalvél. 1947 er báturinn seldur á Hofsós, kaupandi er Sigurbergur S. Jóhannsson og nefnir hann bátinn Kára SK 61. 1953 er báturinn aftur seldur á Eyjafjarðarsvæðið, nú til Akureyrar. Kaupendur eru þeir Jóhannes Magnússon og Þorsteinn Símonarson sem halda Káranafninu á bátnum en einkennisstafirnir voru EA 44. 1955 er Þorsteinn Símonarson skráður einn eigandi bátsins og sama ár er sett í hann ný aðalvél, nú 75 hestafla GM dieselvél. Kári EA er seldur til Hafnarfjarðar 1959, kaupandinn er Haraldur Kristjánsson, ekki er séð að um nafnabreytinguhafi verið að ræða en báturinn var stuttan tíma í eigu Haraldar. Þórður J. Jónsson og Helgi Guðmundsson Kvígindisfelli í Tálknafirði kaupa bátinn 1960 og nefna hann Höfrung BA 60. Þórður J. Jónsson Suðureyri í Tálknafirði er einn skráður eigandi bátsins frá árinu 1962 allt til ársins 1988 að hann er tekinn af skrá og afhentur Þjóðminjasafninu til varðveislu.  Heimild Íslensk skip.

Nú spyr ég mér fróðari menn hvort þetta sé rétt því ég hef  haldið í gegnum tíðina að Höfrungur BA 60 hafi verið með heimahöfn og gerður út frá Bíldudal.


598.Höfrungur BA 60 ex Kári EA 44. ©Hafþór.

Á fréttavefnum www.bildudalur.is má sjá frétt síðan 25. febrúar sl. um bátinn þar sem segir að bíldælingar vilji koma bátnum heim og koma honum í haffært ástand að nýju. 
http://www.bildudalur.is/?c=webpage&id=2&lid=2&option=links


Þarna lá Höfrungur BA 60 lengi vel.22.10.2007 22:12

Þekkja menn þennan ?

Þekkja menn hvaða bátur er á þessari mynd sem Óskar Franz sendi mér ?

Flettingar í dag: 535
Gestir í dag: 81
Flettingar í gær: 771
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 9399629
Samtals gestir: 2008173
Tölur uppfærðar: 13.12.2019 12:41:15
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is