Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2007 September

20.09.2007 21:29

Stóra skútumálið.

Eins og allir helstu vefmiðlar landsins birti ég hér mynd af skútunni sem verið hefur í fréttum í dag eftir að hún kom til Fáskrúðsfjarðar í morgunsárið. Óðinn Magnason sendi mér þessa mynd og giska ég á að þetta eigi eftir að vera kallað Stóra skútumálið.

19.09.2007 21:47

Bátur vikunnar var smíðaður á Ísafirði.

Bátur vikunnar var smíðaður á Ísafirði árið 1943. Hann hét Hrönn II SH 36 og var 15 brl. að stærð. Eigendur voru Guðmundur Jensson og Jóhann Kristjánsson í Ólafsvík. Áttu þeir bátinn til ársins 1948 en þá selja þeir hann norður til Flateyjar á Skjálfanda. Eigendur þar voru Arnþór og Emil Guðmundssynir og báturinn varð Hrönn II TH 36. Upphaflega var í bátnum 77 hestafla caterpillar aðalvél en 1950 var sett í hann 70 hestafla Hundested aðalvél. Báturinn var seldur 1955 þeim Sigurði Sigurðssyni, Eysteini Gunnarssyni og Arngrími Gíslasyni á Húsavík. Báturinn varð síðan ÞH 36 þegar TH var aflagt. Þeir gera bátinn út í tíu ár eða til ársins 1965 er þeir selja hann til Ólafsvíkur þar sem hann fær einkennisnúmerið SH 236. Þarna var báturinn kominn aftur í sína upphaflegu heimahöfn. Kaupendur voru Steindór Arason og Guðmundur Geirsson. Báturinn sökk í róðri á Breiðafirði þann 28 nóvember 1966. Áhöfnin, 2 menn, bjargaðist í gúmíbjörgunarbát og þaðan um borð í Farsæl SH 30.  Heimild Íslensk Skip.


587.Hrönn II ÞH 36 ex Hrönn II TH 36.

Þess má geta að Sigurður Sigurðsson sem um er getið hér að ofan varð síðan farsæll skipstjóri á nótaskipum, m.a. Dagfara ÞH 70, Gísla Árna RE 375 og Erni KE 13.

18.09.2007 19:09

Höddi og brúin af Björginni.

Eins og sést á myndinni af Björgu Jónsdóttur ÞH 321 sem er hér að neðan þá er hún með upphaflega stýrishúsið á þeirri mynd. Skipt var um brúna, framstykkið, á Húsavík. Á  þessari mynd hér sem tekin er eftir að brúin var tekin af bátnum er Höddi vinur minn að máta sig í brúnni. Höddi sem heitir fullu nafni Hörður Harðarson átti síðan eftir að standa í brúnni sem skipstjóri á Sigþór ÞH 100......................sem og Smára ÞH 59.Núna er Höddi búsettur í Norðskála í Færeyjum

17.09.2007 18:16

Sagan af nafngift Sveinbjörns Jakobssonar SH 10.

Á dögunum birtist fróðleg grein í héraðsfréttablaðinu Skarpi sem gefinn er út hér á Húsavík. Er hún saga af nafngift Sveinbjörns Jakobssonar SH 10 sem keyptur var hingað til Húsavíkur á síðasta ári. Ég fékk góðfúslegt leyfi ritstjóra til að birta greinina hér.


260.Sveinbjörn Jakobsson SH 10.Saga af nafngift.

Nöfn verða til með ýmsum hætti og sum eiga sér nokkra sögu.

Frá því var skýrt í Skarpi 10. nóvember 2006 að nýr bátur hefði bæst í hvalaskoðunarflota Norðursiglingar h/f og héti báturinn Sveinbjörn Jakobsson, skrásetningarnúmer væri SH 10, eikarbátur, smíðaður í Esbjerg í Danmörku 1963-1964, með 495 ha. Lister diesel vél. Eigandi bátsins var sagður Dvergur h/f Ólafsvík frá 3. september 1964 en frá Ólafsvík var skipið gert út alla tíð. Þá var og greint frá því að skipið hefði reynst hin mesta happafleyta og verið aflaskip. Sömu eigendur, sem höfðu látið byggja það, hefðu átt það og gert út allt til þess að Norður-Siglingamenn hefðu keypt skipið árið 2006. Mun slíkt vera nokkuð einstakt.

Skipið liggur nú, í september 2007, við hafnargarðinn á Húsavík með nafni og númeri. Enn hafa ekki verið gerðar á því breytingar vegna hvalaskoðunar en þær munu væntanlega hefjast á þessu ári og gert er ráð fyrir að skipið verði tekið í notkun við hvalaskoðun sumarið 2008.

Draumurinn.

Til er saga af þessu skipi sem enn er kunn eldri Ólafsvíkingum.

Haukur Sigtryggsson, útgerðarmaður í Ólafsvík, var framkvæmdastjóri Dvergs og hafði eftirlit með smíði bátsins. Í apríl 1963 var Haukur staddur í Danmörku til að fylgjast með verkinu. Átti Haukur pantað far til Íslands á páskadag, 19. apríl 1963, með flugvélinni Hrímfaxa. Nóttina áður dreymir Hauk að til hans kemur maður, sem var frá Ólafsvík og löngu dáinn, og hét Sveinbjörn Jakobsson. Kannaðist Haukur við manninn sem hann hafði séð síðast átta ára gamall. Fannst Hauki í draumnum Sveinbjörn vara sig við að taka sér far með Hrímfaxa heim til Íslands.

Þegar Haukur vaknar um morguninn man hann drauminn og verður hálfhverft við. Var hann ekki afhuga draumum og dulrænum fyrirbærum, svo að hann ákveður að hætta við för með flugvélinni. Þegar kemur fram á páskadag fréttist að flugvélin Hrímfaxi hafi farist í aðflugi að Fornebuflugvelli við Osló og með henni 12 manns og þar á meðal Anna Borg leikkona.

Fyrri hluta árs 1964 kom hinn nýi bátur til Íslands og ákvað Haukur að láta hann heita Sveinbjörn Jakobsson í höfuðið á draumamanninum og svo varð.

Mannshvarf.

En hver var þessi Sveinbjörn? Hann var sjómaður og átti heima í Ólafsvík. Árið 1930 hafði Sveinbjörn verið á síld fyrir Norðurlandi. Vel hafði veiðst og var Sveinbjörn orðinn allvel fjáður í vertíðarlok um haustið. Á leið sinni heim til Ólafsvíkur hafði hann viðdvöl í Reykjavík. Þar hafði síðast til hans spurst og vitað að hann hafði farið á fund spákonu í vesturbænum. Til Ólafsvíkur kom hann ekki. Var hans saknað skömmu síðar og leit að honum hafin en bar ekki árangur.

Liðu svo árin. Þá var það dag einn árið 1970 að verið var að grafa í húsgrunni vestur á Melum í Reykjavík. Hafði grunnurinn verið fylltur á sínum tíma þegar hætt var við að byggja á honum en átti nú að fara að reisa þar hús. Við uppgröft í grunninum fannst þar beinagrind. Var hún aldursgreind og var af karlmanni og talin frá því um 1930. Hvorki var hægt að sanna eða afsanna nokkuð í þessu máli. En Sveinbjörn var eini maðurinn sem saknað var í Reykjavík frá þeim tíma.

(Byggt á frásögn Ásgeirs Jóhannessonar sem um árabil átti heima í Ólafsvík. Sigurjón Jóhannesson skrásetti.)
Hér liggur Sveinbjörn Jakobsson innan við Húna II í Húsavíkurhöfn.16.09.2007 21:28

Í slipp á Húsavík.

Hér er ein frá upphafsdögum dráttarbrautarinnar á Húsavík. Báturinn sem er í brautinni er (586) Björg Jónsdóttir ÞH 321.


586.Björg Jónsdóttir ÞH 321 ex Langanes ÞH 321.

15.09.2007 22:37

Eru Jobbi og Gummi á myndinni ?

Þessa mynd hér að neðan tók þann 29 ágúst 2001 kl. 16.06. og sýnir hún karlana á Ólafi Magnússyni HU 54 taka trollið um borð í Húsavíkurhöfn. Spurning hvort þeir bræður Jobbi og Gummi ( www.123.is/jobbioggummi) séu á myndinni ?

14.09.2007 20:23

Vertíðarstemming....búið spil ?.

Þessa mynd tók ég í Sandgerði í febrúarbyrjun árið 2004. Þarna eru þrír vertíðarbátar af minni gerðinni að landa, koma að landi eða fara frá bryggju að lokinni löndun. Á þessum rúmum 3 árum frá því að ég tók þessa mynd hafa þessir bátar allir skipt um eigendur og nafnabreytingar farið fram. Fremstur er (13) Gulltoppur Ár 321 nú Litlaberg ÁR 155. Þá kemur (363)Þórunn GK 97 nú Maron GK 522. Aftastur er (102) Kristinn Friðrik GK 58 sem í dag heitir Sindri ÞH 400. Nú í byrjun kvótaársins 2007/2008 hafa þessir þrír bátar enga aflahlutdeild.

13.09.2007 20:17

Bátur vikunnar var gerður út fyrir vestan.

Bátur vikunnar var gerður út fyrir vestan þann tíma sem hann var á íslenskri skipaskrá. Báturinn, sem er 107 tonna yfirbyggður stálbátur, var smíðaður í Noregi 1988.  Hann er 22 metra langur og 7 metra breiður og búinn til línuveiða með Mustad beitingavél um borð. Hann var keyptur til Flateyrar frá Klakksvík í Færeyjum sumarið 1991. Í Færeyjum hét báturinn Glóðanes en fékk nafnið Jónína ÍS 930 þegar Brimnes hf. keypti hann. Jónína ÍS 930 var nokkrum árum síðar seld til Noregs.


2142.Jónína ÍS 930 ex Glóðanes.

12.09.2007 22:39

Er eitthvað handa sjómönnum og fiskverkafólki í pottinum ?

Á sama tíma og Hafborgin kom að landi í dag var verið að kynna í ríkisútvarpinu mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna samdráttar í þorskafla. Þær má sjá hér, tími ekki að eyða dýrmætu plássi mínu í þær.

http://fjarmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/frettatilkynningar/nr/9115


Datt samt í hug þegar ég hlustaði hvort þær kæmu t.a.m. sjómönnunum á Hafborginni  til góða ! eða Palla á lyftaranum sem var að landa úr bátnum ? Veit ekki enda þegar stórt er spurt er fátt um svör. Veit reyndar að Palli getur allt.


Kallarnir á Hafborginni taka voðina í land...
...undir vökulum augum fiskilöggunar.

12.09.2007 21:32

Hafborg EA kemur til hafnar á Húsavík

Tók þessa mynd í dag þegar Hafborg EA 152 kom til hafnar á Húsavík. Báturinn hefur undanfarið verið á dragnótaveiðum á Skjálfanda og landað á Húsavík.
 


2323.Hafborg EA 152 ex Stapavík AK 132.

12.09.2007 18:56

Hvaða togari er þetta ?

Þessa mynd sendi Sveinn Ingi hjá skipasölunni Álsundi mér og sagðist hafa tekið hana í Walvis Bay í Namibíu árið 1993. Á þeim tíma starfaði hann sem verkstjóri í saltfiskvinnlu þar ytra. Nú væri gaman að vita hvað menn vitneskju og fróðleik menn hafa um þennan togara sem á myndinni er.

11.09.2007 21:20

Nökkva HU 15 hleypt af stokkunum 1987.

Ég var viðstaddur sjósetningu á Sæunni Sæmundsd. ÁR 60 á Akureyri fyrir skemmstu og þar ræddu menn hve langt sé síðan nýsmíði var sjósett þar síðast. Þetta leiddi hugann að því að fyrir rúmum tuttugu árum eða snemma árs 1987, tók ég myndir þegar Nökkvi HU 15 var hleypt af stokkunum hjá Slippstöðinni á Akureyri. Hér að neðan eru myndir frá þessum atburði.
1768.Nökkvi HU 15.

10.09.2007 23:28

Hraunsvíkin gerð út á línu frá Walvis Bay

Um daginn þá var hér á síðunni mynd af Patreki BA 64. Þegar Sveinn Ingi í skipasölunni Álasundi sá hana datt honum í hug að hafa samband við þann sem keypti skipið héðan, Álasund hafði milligöngu um sölu bátsins, en báturinn fór til Suður Afríku. Árið 2005 var hann seldur þaðan til Namibíu og er gerður út í dag til línuveiða frá Walvis Bay. Sá sem keypti hann til S-Afríku sendi póstinn frá Sveini Inga áfram til eigendanna í Namibíu og þeir sendu þessar myndir hér að neðan til Sveins Inga sem áframsendi þær til mín.


V5HZ Hraunsvík L 1213 ex 1640.Hraunsvík GK.

Þessar myndir eru nýlegar og óhætt að segja að báturinn líti vel út.

Hraunsvíkin leggur í hann.

10.09.2007 20:39

Sæborg ÞH kemur að landi í kvöld.

Dragnótabáturinn Sæborg ÞH 55 kemur hér að landi á Húsavík í kvöld eftir að hafa verið að veiðum á Skjálfandaflóa í dag.


1475.Sæborg ÞH 55 ex Eyvindur KE 37.

09.09.2007 21:09

Bátur vikunnar...........sem leið.

Bátur vikunnar sem leið var smíðaður í Noregi 1978. Hann var keyptur til landsins fjórum árum seinna og hét þá Rolant II. Hér á landi fékk hann nafnið Jón Bjarnason SF 3 og eigandinn var Svalan h/f á Hornafirði. 1984 kaupir Glettingur h/f í Þorlákshöfn bátinn og nefnir hann Dalaröst ÁR 63. Flóki ehf. á Húsavík kaupir svo Dalaröstina af Glettingi að mig minnir haustið 1999. Hann heldur nafninu en fær einkennisstafina ÞH og númerið 40. Upphaflega var 440 hestafla Kelvin aðalvél í bátnum en 1985 var skipt um vél. Sett var í hann 700 hestafla Mitsubishi aðalvél, Dalaröstin hefur aðallega verið gerð út á dragnót en einnig netaveiðar hluta vertíðar.


1639.Dalaröst ÞH 40 ex Dalaröst ÁR 63.

Flettingar í dag: 491
Gestir í dag: 133
Flettingar í gær: 595
Gestir í gær: 109
Samtals flettingar: 9396827
Samtals gestir: 2007668
Tölur uppfærðar: 9.12.2019 20:40:10
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is