Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

09.06.2018 11:56

Höfrungur II AK 150

Höfrungur II AK 150 var keyptur til landsins árið 1960 af Haraldi Böðvarssyni & Co á Akranesi. Báturinn hét áður Sangolt og var smíðaður árið 1957 í Avaldsnes í Noregi.

Síðar Höfrungur II GK 27, Erling KE 140, Kambaröst SU 200 og loks Kambaröst RE 120. Rifinn í Hafnarfirði 2010. 

120. Höfrungur II AK 150 ex Sangolt. © Hannes Baldvinsson.

08.06.2018 21:07

Geiri litli seldur

Geiri litli er seldur og tóku nýir eigendur við honum í dag. Hér er verið að setja hann fram aftur eftir að hafa verið tekinn á land til botnskoðunar. Ætlunin er að sigla honum til nýrrar heimahafnar í Stykkishólmi á næstu dögum.

7200. Geiri litli. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

 

07.06.2018 19:48

Arnkell

Arnkell SH 138 var smíðaður í Noregi 1960 fyrir Jökul h/f á Hellisandi. Hann var seldur til Þorlákshafnar 1969, kaupandi Meitillinn h/f og fékk báturinn nafnið Jón Vídalín ÁR 1. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skipakrá 1. ágúst 1973. (Heimild Íslensk skip)

Arnkell átti sér systurskip í íslenska flotanum, Helgi Flóventsson ÞH 77 hét hann. Smíðaður 1960 fyrir Svan h/f á Húsavík. Helgi Fló sökk 5 sjm. NV af Langanesfonti 4. ágúst 1961. Ellefu manna áhöfn hans bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í Stíganda ÓF.

Í Morgunblaðinu 14. ágúst 1960 sagði frá komu Arnkels til Rifshafnar:

Nýlega kom til Rifshafnar á Snæfellsnesi nýr bátur, smíðaður í Noregi, Arnkell SH 100,sem hlutafélagið Jökull á. Er þetta 110 tonna bátur með 300 hestafla vél og 10 sjómílna ganghraða. Öll hin nýjustu og fullkomnustu öryggis- og siglingatæki eru í bátnum, síldarleitartæki og sjálfstýring, og útbúinn er báturinh með kraftblökk til síldveiða. 

Allur er frágangurinn á bátnum hinn vandaðist og bezti að sjá. Bjarni  Arnason, skipstjóri frá Hafnarfirði, sigldi bátnum heim,en stýrimaður var Leifur Jónsson og hefur hann nú tekið við skipstjórn á bátnum, sem farinn er á síldveiðar fyrir Norðurlandi.

Í Rifshöfn var komu bátsins fagnað mjög.

 

14. Arnkell SH 138. © Hannes Baldvinsson.

 

 

06.06.2018 22:42

Orri farinn úr Njarðvíkurhöfn

Orri GK 63 er farinn úr Njarðvíkurhöfn þar sem hann hefur legið undanfarin misseri. Vonin KE 10 mun draga hann vestur á firði, nánar tiltekið til Flateyrar, en lagt var í hann nú í kvöld.

1631. Vonin KE 10 - 923. Orri GK 63. © KEÓ 2018.

06.06.2018 20:42

Dagur SK17 - Myndasyrpa

Hér kemur smá myndasyrpa sem ég tók í dag þegar Dagur SK 17  kom til Húsavíkur, og fór aftur eftir að hafa tekið nýtt rækjutroll um borð. Það er Dögun ehf. sem gerir Dag út en fyrirtækið er einnig með rækjuvinnslu á Sauðárkrók.  Dagur var keyptur í byrjun árs 2016 frá Írlandi.  Skipið, sem leysti Röst SK 17 af hólmi, var smíðað á Spáni árið 1998. Fyrri nöfn eru Mark Amay II (2016), Mark Amay  (2009)  Victoria May  (2008)  Ocean Reward  (2008)  og  Just Reward.  (2001) .

2906. Dagur SK 17 ex Mark Amay II. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

2906. Dagur SK 17 ex Mark Amay II. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

2906. Dagur SK 17 ex Mark Amay II. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

2906. Dagur SK 17 ex Mark Amay II. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

2906. Dagur SK 17 ex Mark Amay II. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

06.06.2018 15:34

Dagur

Rækjubáturinn Dagur SK 17 kom til hafnar á Húsavík á áttunda tímanum í morgun. Erindi hans var að taka nýtt troll sem Kári Páll og hans menn hjá Ísfelli settu upp.

Dagur, sem áður hét Mark Amay II SO 954, var smíðaður árið 1998 á Spáni og er 361 tonn að stærð, 27 metra langur og 8,5 metra breiður.

Það er Dögun ehf. á Sauðárkróki sem á og gerir Dag út en fyrirtækið keypti hann til landsins árið 2016.

2906. Dagur SK 17 ex Mark Amay II. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

05.06.2018 22:23

Eldey

Enn sæki ég í myndir Hannesar Baldvinssonar á Siglufirði enda margar fágætar perlur í því safni.

Hér kemur mynd af Eldey KE 37 sem smíðuð var í Noregi 1960 fyrir samnefnt félag í Keflavík.

Í 1. tbl. Faxa 1961 sagði svo frá komu skipsins til heimahafnar:

Að morgni þess 8. desember s. 1. kom til Keflavíkur nýr og glæsilegur stálbátur, 150 smálestir, með 300 hestafla Vichmann dieselvél. Ganghraði 10 mílur á klst. Báturinn heitir Eldborg KE 37 og er smíðaður í Bolsones Verft í Molde í Noregi. Er hann allur hinn vandaðasti, hvar sem á er litið, tæki öll af nýjustu og beztu gerð, og allt fyrirkomulag innan borðs miðað við sem fullkomnasta nýtingu á rými skipsins og reynslu og hagsýni gætt í hvívetna, án þess þó að nokkuð það sé til sparað, sem til nauðsynja og öryggis má telja. 

Í skipinu er 48 mílna Decca ratsjá, japönsk ljósmiðunarstöð, sem er nýtt tæki og mjög fullkomið, sjálfleitandi Asdic síldarleitartæki, dýptarmælir með Asdic útfærslu af Simradgerð, sjálfvirkur stýrisútbúnaður í beinu sambandi við áttavitann og Simrad talstöð. 

Vistlegt eldhús er aftur í á skipinu,. Er það með nýtízkulegum og handhægum búnaði. Aftan við það, með „lúgu" á milli, er rúmgóður borðsalur fyrir 12 menn, en til hliðar bakborðsmegin við eldhúsið er beitningaskýlið fyrir 6 menn, og er opnanlegur gluggi á milli, þar sem hægt er að rétta kaffi inn til beitningamannanna og losa þá þannig við óþarfa snúning. Eldhúsinu fylgir góður kæliklefi. 

Í skipinu eru tvær lestir, sú aftari er hin venjulega fiskilest og tekur hún um 100 tonn. Fremri lestin er frystilest, sem rúmar um 20 tonn af freðfiski. Kælivél skipsins, sem er mjög vönduð, frystir allt upp í 25 gráðu frost. 

Tvöfalt rafkerfi er í skipinu, 24 volta spenna, sem gefur straum á flest tæki í bátnum og ljós um hann allan. Er hentugt að skipta yfir á þetta kerfi, þegar legið er í höfn, einnig þegar skipið er á siglingu, og svo er það einnig til hins mesta öryggis. 

Undir stjórnpalli er vistlegt og rúmgott herbergi skipstjóra, en kortaklefi aftur af stýrishúsinu. Aftur í, undir þiljum, eru tvö rúmgóð tveggja manna herbergi, annað fyrir stýrimann og matsvein, en hitt fyrir vélstjórana. 

Frammi í, undir hvalbak skipsins, eru tveir þriggja manna klefar og einn tveggja manna. Fylgja öllum þessum íbúðarherbergjum hverskonar þægindi, og geta má þess ennfremur, að í skipinu er þægilegt bað. 

Eldey er útbúin með kraftblökk fyrir hringnót og allt sem henni tilheyrir. Er í ráði, að báturinn stundi útilegu með línu framan af vertíð, en fari síðan á net. 

Eigandi skipsins er hlutafélagið Eldey, Keflavík. 

 

Eldey var því miður ekki lengi í flotanum því hún sökk um 60 sjm. SA af Dalatanga 23 október 1965. 12 manna áhöfn komst í gúmmíbjörgunarbát sem var um borð og síðan bjargaði áhöfnin á Brimi KE 104 frá Keflavík mönnum til lands.

42. Eldey KE 37. © Hannes Baldvinsson.

04.06.2018 19:57

Cuxhaven á Akureyri

Frystitogarinn Cuxhaven kom til Akueyrar í gær og tók Haukur Sigtryggur þessa mynd í dag.

Ætli hann sé ekki að landa amk. liggur hann við löndunarbryggju.

Cuxhaven NC 100. © Haukur Sigtryggur 2018.

03.06.2018 10:41

Til hamingju með daginn sjómenn - Héðinn ÞH 57

Um leið og ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn birti ég hér mynd af Héðni ÞH 57 frá Húsavík.

Á þessari mynd Hannesar  Baldvinssonar er Héðinn að koma með síldarfarm til Siglufjarðar.

Í Alþýðublaðinu þann 28. júlí 1960 sagði svo frá komu Héðins til heimahafnar á Húsavík í fyrsta skipti:

 

Síðdegis í gær bættist flota Húsavíkur glæsileg aukning, er vélskipið „Héðinn" renndi hér að bryggju. Fjöldi fólks hafði safnazt saman á bryggjunni til að taka á móti skipinu og bjóða það velkomið.

Eftir kvöldmat var gestum leyft að skoða skipið og var öllum, er um borð komu, bornar veitingar af mikilli rausn.

 

Vélskipið „Héðinn"ÞH 57 er smíðað í Noregi hjá Söviken Skibabyggeri', Seviksgrend pr.Álasund. Skipið er 150 brúttótonn með 140 hestafla Stork-dieselvél. Þessi vél er fyrsta vél sinnar tegundar hér á landi.

Hjálparvél er norsk, Marna, 48 ha. Í skipinu er Deccaratsjá, tveir Simrad-mælar, annar sjálfvirkur, japönsk miðunarstöð,

dönsk talstöð af Disagerð, svo og kraftiblökk til síldveiða. Einnig er lest skipsins útbúin kælikerfi.

 

Umboð fyrir þessa skipasmíðastöð hefur LÍÚ í Reykjavík. Eigandi skipsins er Hreyfi hf., en þetta er annað skip félagsins, sem nú er réttra fjögurra ára.

Skipstjóri á Héðni er Maríus Héðinsson, 1. vélstjóri Kristján Óskarsson og stýrimaður Gunnar Hvanndal. Framkvæmdastj. félagsins er Jón Héðinsson.

 

Skipið heldur út á síldveiðar síðdegis í dag.    

 

Þarna stendur að Storkvélin hafi verið 140 hestöfl en hið rétta er að hún var 400 hestöfl.

88. Héðinn ÞH 57. © Hannes Baldvinsson.

02.06.2018 21:26

Viðey

Nú fer nýsmíði HB Granda, Viðey RE 50,  að komast til veiða en togarinn hefur eftir komuna frá Tyrklandi í desember sl. verið á Akranesi þar sem starfsmenn Skagans 3X hafa unnið að uppsetningu nýs, sjálfvirks lestarkerfis, aðgerðaraðstöðu á millidekki og stillingu á ýmsum tölvubúnaði.

Viðey leysir Ottó N Þorláksson RE 203 af hólmi en hann kom úr síðustu veiðiferðinni fyrir HB Granda sl. sunnudag.

Á heimasíðu fyrirtækisins segir að Ottó N. Þorláksson hafi verið farsælt aflaskip. Það var smíðað í Stálvík í Garðabæ árið 1981. Skipstjóri hefur verið Jóhannes Ellert Eiríksson en hann tók við togaranum fyrir 24 árum. Ottó N. Þorláksson er nú í slipp í Reykjavík þar sem nýir eigendur taka við honum í vikunni.

2895. Viðey RE 50. © Magnús Jónsson 2018.

22.05.2018 08:28

Skarðsvík

Hér liggur Skarðsvík SH 205 við bryggju á Siglufirði, vel hlaðin af síld. 

Skarðsvík þessi átti sér ekki langa sögu, var smíðuð 1960 í Danmörku fyrir Sigurð Kristjónsson ofl.

Eigandi frá 8. maí 1961 Skarðsvík h/f á Rifi á Snæfellsnesi.

86 brl. að stærð, búin 400 hestafla MWM aðaðlvél.

Skarðsvík fórst út af Snæfellsnesi 11. febrúar 1962. Áhöfnin, sex menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát þaðan sem Stapafell SH 15 bjargaði þeim til lands. (Heimild Íslenks skip)

 

Í Þjóðviljanum á gamlársdag 1960 segir svo frá:

 

Ný bátur kom til Rifs í gærkvöld, fimmtudag, v.b. Skarðsvík SH 205.

Báturinn er 87 lestir að Stærð,með 400 hestafla Manheimvél, smíðaður í Frederikssund Danmörku. 

Báturinn var sex sólarhringa á leiðinni til Íslands, en skipstjóri í ferðinni var Kristján Guðmundsson.

Skipstjóri á bátnum í vetur verður Sigurður Kristjónsson. Eigendur eru Sveinbjörn Benediktsson, Sigurður skipstjóri ofl.

Skarðsvík er annar báturinn, sem kemur til Rifs á seinni hluta þessa árs.

Mikill leki kom að Skarðsvíkinni þegar hún var á landleið eftir leitar- og björgunaðgerðir þegar togarinn Elliði fórst og sökk bátuinn. Það voru skipverjar Skarðsvíkinni sem fundu gúmmíbjörgunarbátinn af Elliða með líkum skipverjanna tveggja sem fórust.

 

TFXY. Skarðsvík SH 205. © Hannes Baldvinsson.

 

 

 

 

22.05.2018 00:34

Páli Pálssyni gefið nafn

Skuttogaranum Páli Pálssyni ÍS 102 var gefið nafn og skipið blessað við athöfn á Ísafirði sl. laugardag.

Fjölmenni var við athöfnina og Hannes Pétursson var einn af þeim sem þar voru en hann tók þessa mynd sem nú birtist.

2904. Páll Pálsson ÍS 102. © Hannes Pétursson 2018.

 

 

 

 

21.05.2018 19:29

Hjalteyrin og Anna

Skuttogarinn Hjalteyrin EA 306 kom til Dalvíkur í dag, landaði og fór eins og félagi Haukur orðaði það.

Línu- og netaskipið Anna EA 305 kom einnig til til löndunar en hún er gerð út til grálúðuveiða með net um þessar mundir.

Haukur Sigtryggur tók þessa mynd þegar Hjalteyrin lét úr höfn.

1476. Hjalteyrin EA 306 - 2870 Anna EA 305. © Haukur Sigtryggur 2018.

21.05.2018 15:02

Máni

Grásleppubáturinn Máni ÞH 98 leggur hér upp í róður frá Húsavík í morgun.

1920. Máni ÞH 98 ex EA. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

21.05.2018 14:19

Bjarnarey

Hérna sjáum við Bjarnarey NS 7 á mynd Hannesar Baldvinssonar sem hann tók á Siglufirði á síldarárunum.

Bjarnarey var einn tappatogaranna svokölluðu sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga í A-Þýskalandi á árunum 1958-9.

 

Í Degi sagði svo frá þann 16. desember 1959:

 

Hingað til Akureyrar kom á mánudaginn austur-þýzka togskipið Bjarnarey, sem hreppti ofviðri mikið á hafi, en komst heilu og höldnu í heimhöfn á Vopnafirði á fimmtudagskvöldið.

Hólmsteinn Helgason, oddviti Raufarhafnarhrepps og framkvæmdastjóri tveggja togskipanna austur þar, fór utan með áhöfn skipsins, er það var sótt, og kom með því hingað upp. 

 

Blaðið hitti hann að máli þegar skipið var lagzt að bryggju hér á Akureyri og spurði hann frétta.

 

Þið lentuð í ofviðri á heimleiðinni?

 

Já, við lögðum af stað frá Kaupmannahöfn föstudaginn 4. desember. En á sunnudaginn um kl. 1.30 bilaði stýrisvélin. Skipið var þá statt vestur af Noregi, austarlega í Norðursjó, með

stefnu fyrir norðan Hebrideseyjar. Veðrið var hið versta, rok og stórsjór á eftir. Við vorum að hlusta á fréttir af skipssköðum hingað og þangað í hinu ægilega veðri. Náðum við þá sambandi

við Bergen og báðum um aðstoð, en þar var okkur sagt, að enginn nægilega stór og traustur dráttarbátur væri þar fyrir hendi, er komið gæti til aðstoðar í þessu veðri. Leitað var þá til Oslóar

með milligöngu frá Bergen og mun björgunarfélagið þar hafa sent bát eða skip af stað. En um þetta leyti náðum við sambandi við Hvassafell, er var á svipuðum slóðum, og varð að ráði, að það veitti okkur aðstoð. 

Afturkölluðum við því beiðni okkar um hjálp frá frændum okkar, Norðmönnum.

 

Hvernig aðstoðaði Hvassafell ykkur?

 

Það kom til okkar og dældi olíu í sjóinn öðru hvoru og fengum við ekkert áfall eftir það. Og á meðan fór fram aðgerð á stýrisvélinni. Hvassafell lá hjá okkur alla mánudagsnóttina. Þegar

viðgerð var lokið hjá okkur, héldum við í átt til Færeyja og var Hvassafell á næstu grösum þangað upp.

 

Hvernig líkaði þér nýja skipið?

 

Mér virðist skipið gott í sjó að leggja og hafa fyrsta flokks sjóhæfni.

 

Er það rétt, að þetta nýja skip sé á annan veg smíðað en hin fyrri togskip af þessari gerð?

 

Á Bjarnarey eiga að vera leiðréttir nokkrir gallar, sem fram hafa komið á þessum togskipum, segir Hólmsteinn. Barlestin var létt og öðruvísi frá henni gengið, borðstokkar voru hækkaðir og

tekið burtu ankersspil af bakkanum.

 

Hver var skipstjóri á heimleið?

 

Hann heitir Magnús Bjarnason, Jónssonar frá Vogi, og er Reykvíkingur. Stefán Stefánsson frá Dalvík var stýrimaður og tekur hann nú við skipstjórn. Skipið á ð fara á togveiðar eftir ára-

mótin.

 

Hverjir eru eigendur Bjarnareyjar?

 

Stærsti hluthafinn er Vopnafjarðarhreppur og Vopnafjörður er heimahöfn Bjarnareyjar. Aðrir hluthafar eru: Þórshafnarhreppur, Raufarhafnarhreppur og Borgarfjarðarhreppur, auk

nokkurra einstaklinga í þessum hreppum. En þetta útgerðarfélag á líka togskipið Jón Trausta.

 

Hvernig eru horfur til útgerðar hinna nýju skipa ykkar?

 

Við ýmsa erfiðleika er að etja, fyrir þetta útgerðarfélag okkar, segir Hólmsteinn. Mikið veltur á skilningi og getu lánastofnana og svo auðvitað aðgerða ríkisstjórnarinnar gagnvart útgerðinni almennt.

 

Blaðið þakkar Hólmsteini Helgasyni fyrir svörin og árnar hinu nýja og glæsilega skipi og áhöfn   þess   fengsælla veiðiferða og annars velfarnaðar í bráð og lengd.

 

Bjarnarey og Jón Trausti

munu bæði hefja togveiðar eftir áramótin. Jón Trausti var á mánudaginn að landa ofurlitlu af fiski hér á Akureyri, en er hættur veiðum, þar til á nýja árinu.

 

Við heimkomuna til Vopnafjarðar, var fjöldi fólks viðstaddur til að sjá skipið. Hólmsteinn ávarpaði viðstadda af skipsfjöl, en oddviti Vopnafjarðarhrepps, Sigurður Gunnarsson, ávarpaði skipshöfn og aðra viðstadda fyrir

hönd heimamanna.

 

Bjarnarey flutti töluvert af varahlutum og tækjum til hinna mörgu 250 lesta systurskipa, sem áður voru komin til landsins.

 

Bjarnarey NS 7 er sögð í eigu Ríkissjóðs frá  5. nóvember 1959 til 8. júní 1962 er hún var seld Röst h/f í Bolungarvík. Fékk hún nafnið Sólrún ÍS 399 sem hún bar til ársins 1979 er hún var seld til Svíþjóðar. Afskráð 10. desember 1979.

 

Frá Svíþjóð var hún seld til Ítalíu 1980 og Óskar Franz telur hana hafa farið í brotajárn 1996.

 

198. Bjarnarey NS 7. © Hannes Baldvinsson.
Flettingar í dag: 1183
Gestir í dag: 205
Flettingar í gær: 2002
Gestir í gær: 186
Samtals flettingar: 8968644
Samtals gestir: 1956759
Tölur uppfærðar: 17.1.2019 18:17:14
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is