
Í desember 2002 kom þessi rússneski togari til Húsavíkur og þótti mér og öðrum hann stinga dulítið í stúf við öll þau rússnesku skip sem áður höfðu komið í höfn á Húsavík.

Togarinn Pavel Gorodilov við bryggju á Húsavík.
Eftirfarandi texti birtist í Morgunblaðinu með þessari mynd;
Þau skip sem koma með svokallaðan Rússafisk til Íslands eru oft gömul, ryðguð og einfaldlega ljót, oftast eru þetta flutningaskip sem lesta aflann úr veiðiskipum á hafi úti. Á dögunum brá þó svo við að einkar glæsilegur rússneskur togari lá við bryggju á Húsavík. Þetta var togarinn Pavel Gorodilov með heimahöfn í Murmansk. Togarinn er tæplega 41 metra langur og 11 metra breiður og er hann einn sex systurskipa sem byggð voru á árunum 1996-7 fyrir rússneska aðila.
Ég hef glatað þeim uppl. um þetta skip sem ég fann á netinu þegar ég skrifaði fréttina, en man þó að þessi skip voru smíðuð í Þýskalandi. Gaman væri að vita ef einhver hefur vitneskju um það hvort ekki sé um sömu skipasmíðastöð að ræða og smíðaði síldarskipin fyrir íslendinga.