Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Ættaróðalið Sultir í Kelduhverfi

Hér verður ýmiss fróðleikur um Sultir í Kelduhverfi sem móðir mín Halla Hallgrímsdóttir á ásamt 8 systrum sínum og 2 bræðrum.

Hér fyrst verður ræða sem Gunnar Hallgrímsson flutti árið 2002 þegar systkynin buðu öllum Keldhverfungum heim. (Tekið af www.kelduhverfi.is) Mynirnar sem hér eru tók ég við það tækifæri.

Gunnar Hallgrímsson.

Ræða flutt á Sultum 10.ágúst 2003-08-22

Ágætu Keldhverfingar og aðrir gestir..... verið öll velkomin.

Ég frétti að sum ykkar hefðu orðið hissa þegar þið fenguð boðsbréfið og hefðuð spurt hvað stendur til eða hvað býr undir! Ég vil svara því með því að vitna í texta í lagi sem við syngjum stundum hér í Sultum þar sem segir í viðlaginu: Það er gott að halda heim að hitta vini forna og á ný að kynnast þeim.  Sem sagt það býr ekkert sérstakt undir.Horft til baka

Mig langar til að hverfa aftur í tímann eða um ein 47 ár, en þá bjuggu foreldrar okkar á Víkingavatni, höfðu jörðina á leigu  og höfðu haft haft það frá því  þau byrjuðu að búa.  Þau höfðu þá eignast 10 börn, 9 dætur og 1 son.  Um þetta leyti var þeim sagt upp jörðinni, að ég held fyrirvaralaust, þannig að útlitið var ekki gott, jarðir lágu ekki á lausu í þá daga.

Pabbi átti lítinn trillubát sem hann réri á til fiskjar frá Lóni, þegar best og blíðast var veðrið.  Þetta var bátur sem bar hámark 1 tonn og var með 5 hestafla-Volvo vél.  Á þessum bát fór hann vorið 1956 vestur á Flateyjardal til þess að skoða jarðir þar, en þá var Flateyjardalur að fara í eyði.  Indriði bróðir hans fór með honum.  Ekki veit ég hvernig þeim leist á sig á dalnum, en ég held að það hafi verið gott að við fórum ekki þangað.

Ég frétti það ekki fyrir löngu að pabbi hefði sótt um að kaupa jörð í Reykjahverfi sem heitir Heiðarbót sem þá var laus.  Eftir því sem mér er sagt var þetta tekið fyrir í sveitarstjórn Reykjahrepps og var þessu erindi hafnað, þeim leist víst ekki á allan þennan barnahóp.  Eitthvað voru Bangastaðir inni í myndinni, en þeir voru þá nýlega komnir í eyði.


 


 


Guðrún og Sigvaldi bjóða fjölskyldunni Sulti

En þegar neyðin er stór getur hjálpin verið nærri.  Þegar hér var komið sögu áttu heima hér í Sultum 2 systkin, Sigvaldi og Guðrún Kristjánsbörn.  Foreldrar þeirra voru nýlátin.  Guðrún eða Gunna í Sultum eins og hún var jafnan kölluð var þá trúlofuð.
Sigvaldi nýútskrifaður búfræðingur.  Í byrjun árs 1957 fór Sigvaldi á vertíð suður með sjó eða nánar tiltekið til Keflavíkur til að afla sér tekna áður en hann hellti sér í búskapinn.  En allt er lífið tilviljanakennt.  Sigvaldi brá sér eitt sinn til Reykjavíkur að skemmta sér og hitti þar unga Reykjavíkurmær og þau dönsuðu saman allt kvöldið.  Hann sagði mér frá þessu sjálfur.  Ég spurði hann hvort þetta hefði verið ást við fyrstu sýn: Hann svaraði því svona: ?Við vorum bæði á veiðum?. 
Sem sagt Sigvaldi og Ingibjörn eða svo hét konan, felldu hugi saman eins og sagt var hér áður  fyrr.   Sigvaldi kom með heitmey sína hér norður í Sultir um vorið en þá tjáði hún honum það að hún myndi aldrei vilja búa í sveit. 

Gunna og Gunnlaugur voru þá ákveðin að flytja inn í Eyjarfjörð.  Þess vegna ákváðu Gunna og Sigvaldi að bjóða foreldrum okkar jörðina til kaups.  Okkur var borgið.  En auðvitað var þetta kotbýli miðað við Víkingavatn með öll sín hlunnindi, engi, silungsveiði, eggjatekju og reka.  Sultir eru að vísu byggt út úr Víkingavatnin en hlunnindin hafa verið tekin undan, utan engja sem heita Breiður og eru út með Víkingavatni. 

Ferðalag að Sultum

Þann 11. október 1957 fórum við frá Víkingavatni.  Við Kidda vorum látin reka kýrnar hér niður með Veggjum, ég 9 ára en hún 8 ára.  Ég hélt að ég myndi aldrei líta glaðan dag framar.  Ég man það að ég hugsaði um það að aldrei fengi ég að fara út á vatnið á morgnana að vitja um netin, aldrei að ganga varpið, aldrei að fara út á reka að hirða spýtur.  Kýrnar sem voru þrjár voru líka leiðar.  Þær skyldu ekki þetta ferðalag.  Ég vorkenndi þeim vegna þess að nú fengju þær aldrei að bíta safaríkt grasið, stör og grænu við Víkingaatnið.

Það var farið að dimma þegar við komum með kýrnar alla leið hér fyrir nefið.  Það var mjög draugalegt, fannst mér, og mér datt í hug að það væri fullt af einhverjum verum hér í klettunum sem að horfðu á okkur.  Morguninn eftir eða 12. október var mjög gott veður þegar ég vaknaði og við systkinin fórum hér upp í brekkurnar og týndum ber sem voru óskemmd, sem segir okkur það að þetta var búið að vera gott haust.

Vesalings drengurinn 

Ég held að við höfum verið fljót að sætta okkur við orðinn hlut.  Eins og kom fam hjá mér áðan, voru systurnar 9 og ég var eini strákurinn, 5 eldri en ég og 4 yngri.  Það kom fyrir að það kom fólk sem sá þennan barnahóp, þá heyrði ég að fólkið sagði: aumingja drengurinn eða vesalings drengurinn.  Sumir spurðu mig: Er ekki leiðinlegt að vera eini strákurinn?  Ég man ekkert hverju ég svaraði, sjálfsagt hef ég muldrað eitthvað það, að þetta væri allt í lagi og vissulega voru þær allar ágætar, mér leiddist bara að fólkið skildi vera að tala um þetta. Það fréttist líka einhvern tíma út, að þegar var verið að gera stelpurnar fínar á stórhátíðum og setja í þær hárborða, sem voru þá í tísku, rauða, gula eða bláa, þá vildi ég líka fá hárborða.  Þá sagði fólkið: ?Vesalings drengurinn, hann ætlar að verða eitthvað undarlegur. En auðvitað fékk ég engan hárborða og ég man satt að segja ekkert eftir þessu, mér hefur bara verið sagt frá þessu. 

En ég naut líka forréttinda að vera eini strákurinn.  Eitt af því var að fara á sjó með pabba og fiska í soðið.  Fór fyrst þegar ég var 8 ára og síðan á næstum hverju sumri eftir það.  Fékk líka að fara með afa á Auðbjargarstöðum að vitja um silunganetin og kolanetin og á ég margar góðar minningar frá þessum veiðitúrum.

En svo gerðist eitthvað vorið eftir að við fluttum í Sultir eða nánar tiltekið 5.maí 1958.  Ég man það eins og það hefði gerst í gær.  Ég var löngu orðinn úrkula vonar að ég myndi eignast bróður, alveg hámark að kæmi ein eða tvær stelpur í viðbót, ekki svoleiðis að þær voru og eru allar ágætar.  Það var bara fólkið sem sagði ?aumingja drengurinn?.  Þá gerðist það, Ólöf sagði mér það, hún sagði mér bara þessa setningu:

Stefán fæðist 

Það er strákur?. En það var það ótrúlegt að ég hugsaði með mér, ég er sofandi og mig er að dreyma og rölti hér upp í klettana.  Það var gott veður og sólin skein og ég áttaði mig fljótt á því að ég var vakandi, en hugsaði sem svo, að næst þegar skipt yrði á þessu barni, þá myndi fólkið segja: Þetta er misskilningur, auðvitað er þetta stelpa.  En auðvitað er ekki hægt að taka misgrip á þessu og þá áttaði ég mig á því að við vorum orðnir tveir og ég fylltist mikilli gleði og hamingju og þakkaði guði mínum í hljóði.  Þið megið ekki taka það svo að þessar níu systur séu eitthvað slæmar.  Þær voru og eru allar ágætar, það var bara fólkið sem talaði um aumingja drenginn.  Nú gekk það ekki lengur, við vorum orðnir tveir.  Og mig langaði til að hrópa svo hátt að það heyrðist út í Lón, vestur í Fjöll og í Auðbjargarstaði!  Við erum orðnir tveir En auðvitað gerði ég það ekki, enda ekki vanur að flíka mínum tilfinningum.

Nú fer ég að fara fljótt yfir sögu.

Áratugurinn frá 1960-1970 var ekki góður hvað tíðarfar snertir.  Harðir vetur, kal á túnum, óþurrkasumur, hafísar og heyleysi.  En einhvernveginn baslaðist þetta.  Móðir okkar vakti yfir velferð okkar krakkanna í þess orð fyllstu merkingu.  Hún hafði sagt þegar hún var ung að lítil börn væri það dásamlegasta sem til væri.

Stuttu eftir að við fluttumst í Sultir,  fóru elstu systur að fara að heiman í vinnu, eignuðust fljótt kærasta og mjög fljótt eftir það að eignast börn, giftust og fóru að búa.  Didda okkar fór til Reykjavíkur og hefur verið þar síðan, en kemur á hverju sumri norður og einnig um jólin.

Þó að áratugurinn frá 1960 ? 1970 hafi verið harður og óvæginn, þá komu góðir kaflar á milli og ég man eftir kyrrum ágústkvöldum þegar við krakarnir vorum látin raka hey, sem pabbi og Indi voru búnir að slá með orfi og ljá, hér upp á milli steinanna.  Þá vorum við komin með plötuspilara hér út og spiluðum vinsælustu dægurlögin.  Mig langar til að vitna í einn texta þar sem segir: ?Hér undi ég forðum í leik með glöðum drengum/þá glumdi í björgum og hljóm frá villtums trengjum?.  Og vissulega hljómuðu klettarnir af óm frá villtum strengjum á þessum árum. 

Systkinin eignast Sulti

Svo kom áratugurinn 1970-1980.  Það var farið að fækka verulega í kotinu.  Móðir okkar missti heilsuna 1974 og dvaldi á sjúkrahúsi eftir það.  Við Stebbi vorum lengst heima.  Við vorum talsvert á sjó, unnum þess á milli við búið.  Ég flutti alfarinn að heiman 1980 og Stebbi stuttu seinna.  Þá sá maður að hverju fór.  Það myndi fara eins og segir í textanum, sem ég vitnaði í áðan: ?Nú sveipa klettar af heimsins skugga hljóðir/og hryggur stari ég einn í kulnað bál?.  En það fór samt ekki svo.  Pabbi hætti endanlega búskap 1989 og lét setja jörðina á nafn okkar systkinanna og sagði að við réðum hvað við gerðum við hana. 

Það var stuttu seinna sem var byrjað að planta hér smáplöntum, víðir í skjólbelti.

Það má segja að við höfum stofnað samvinnufélag um þetta.


 

 

Fljótlega vaknaði áhugi á því að við öll systkinin fengum sér reit til þess að ráðstafa að eigin vild.  Við Stebbi vorum settir í það, að mæla út 11 reiti hér suður í Stekkjarsult og síðan var dregið um reitina.  Allir settu einhverjar plöntur í sína reiti.  Svo fór að vakna áhugi fyrir því að reisa sumarbústaði.  Árið 1992 var sótt um leyfi og gert skipulag um 11 sumarbústaðalóðir.  Nú hafa risið 4 bústaðir, aðrir eru með hjólhýsi og tjaldvagna.  Samstaðan er ótrúlega góð.  Gamla húsinu er vel við haldið.  Hér er oft komið saman til að halda upp á afmæli. Hér fór fram ein hjónavíxla undir berum himni og veislan var haldin í hlöðunni.  Við komum líka hingað til að undirbúa útfarir okkar nánustu, en móðir okkar lést 1991 og pabbi 1995.  Eins var það þegar Bjarni frændi okkar á Auðbjargarstöðum lést 1997.  Sem sagt við komum hér saman bæði í gleði og sorg.


Verið Velkomin .
Verið ávallt velkomin

Afkomendur pabba og mömmu eru nú orðin 80.  Systurnar flestar orðnar ömmur og eru að byrja að verða langömmur.

Nú fer ég að hætta þessu, enda eruð þið búin að fá yfir ykkur nóg.

Ég sagði í byrjun, verið velkomin og verið ávallt velkomin.  Nú göngum við til hlöðu og þar bíður kaffið.  Njótið dagsins.

10.ágúst 1002  Gunnar Hallgrímsson.

Sultir, Nordur-Tingeyjarsy, Iceland on world map. Latitude: 66° 4' 60 N. Longitude: 16° 53' 60 W. Sultir, Nordur-Tingeyjarsy, Iceland map zoom x 4. Latitude: 66° 4' 60 N. Longitude: 16° 53' 60 W. Sultir, Nordur-Tingeyjarsy, Iceland map zoom x 20. Latitude: 66° 4' 60 N. Longitude: 16° 53' 60 W. 
Sultir on world map             Sultir map zoom x 4            Sultir map zoom x 20

Latitude (DMS): 66° 4' 60 N
Longitude (DMS): 16° 53' 60 W
(Degrees, minutes and seconds)


 16:31:48 15. apríl 2007
Það er alltaf jafngaman að koma í Sultir og um páskana heimsótti Lea Hrund afa og ömmu í Stekkjarkot,sem er sumarbústaður þeirra í landi Sulta, og þar hitti hún frænku sína hana Brynju Ósk. Þær hittast reyndar flesta virka daga þar sem þær eru saman í leikskólanum í Bjarnahúsi.

Brynja, Grísli og Lea Hrund í Sultum um páskana.

Kristel Eva heimsótti líka afa og ömmu í Stekkjarkot.

Flettingar í dag: 568
Gestir í dag: 82
Flettingar í gær: 771
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 9399662
Samtals gestir: 2008174
Tölur uppfærðar: 13.12.2019 13:12:35
 


clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is