Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Gamla Myndin

31. október 2007.
Hér koma myndir fá því á sjómannadaginn 1967 er eldur kom upp í Freyju ÞH 125. Hreiðar Olgeirsson tók myndirnar. 12.5.2006

Gamla mynd vikunnar er

Gamla mynd þessarar vikur er tekin af Hreiðari Olgeirssyni skipstjóra á Kristbjörgu ÞH 44 fyrir rúmlega tuttugu árum. Myndin sýnir áhöfn bátsins (að skipstjóranum frátöldum) við bílaleigubíl sem tekinn var til að fara til Húsavíkur frá Vopnafirði. Kristbjörgin var þar við síldveiðar í lagnet.

Fv. Róbert Jónsson, Skarphéðinn Olgeirsson, Már Höskuldsson, Eiríkur Guðmundsson aftan við Má, Einar Geirdal og Þorgrímur Ármann Þórgrímsson.

1420.Kristbjörg ÞH 44.

3.5.2006

Gamla mynd þessarara vikur er af....

Gamla mynd þessarar vikur er tekin af Hreiðari Olgeirssyni árið 1987 þegar nýtt skip Korra hf. kom til heimahafnar á Húsavík. Það var Geiri Péturs ÞH 344 sem keyptur var frá Noregi. Á myndinni er Olgeir Sigurgeirsson útgerðarmaður Korra hf. ásamt móðurbróður sínum Olgeir Jónssyni sem lengi var bóndi á Höskuldsstöðum í Reykjadal.

 

 

                   Olgeir Sigurgeirsson f. 22.05.1924 d. 20.02.2006 og Olgeir Hinriksson Jónsson f. 05.05.1902 d. 24.01.1997

25.4.2006

Gamla mynd þessarar vikur er bryggjumynd...

Gamla myndin að þessu sinni tengist útgerð Skálabergs ÞH 244 og saltfiskverkuninni Fiskabergi hf. sem Aðalgeir Olgeirsson starfrækti á sínum tíma hér á Húsavík. Aðalgeir gerði út Skálabergið ásamt Agli bróður sínum.

Þeir sem eru á vörubílspallinum eru Aðalgeir Olgeirsson og Hólmgrímur Helgason (fjær) en Hörður Harðarson stjórnar krananum um borð í bátnum. Myndin er tekin að mig minnir á netavertíðinni 1989 frekar en 1990.

 

19.4.2006

Gamla mynd þessarar viku er tekin um borð í ...

Gamla myndin að þessu sinni eru reyndar tvær,teknar um borð í Geira Péturs ÞH 344, þeim sem keyptur var frá Noregi 1987. Þarna vorum við á fiskitrolli og greinilega mokfiskerí á köllunum.

Á myndinni eru fv. (bakborða) Friðbjörn Sigurðsson, Olgeir Sigurðsson, Björn Viðar, Grímur Agnarsson og Sigurður Kristjánsson.

Sigurður V. Olgeirsson skipstjóri er í glugganum og bak við Olgeir grillir sennilega í Jón Gíslason frá Lækjarhvammi.

11.4.2006

Gamla mynd vikunnar er ....

Gömlu mynd þessarar viku tók ég í upphafi árs 1986 þegar verið var að skipta um aðalvél í Kristbjörgu ÞH 44 (1420) sett var að sjálfsögðu Caterpillar vél í bátinn, 510 hestafla. Kom hún í stað 360 hestafla Caterpillar vélar sem hafði verið í bátnu frá upphafi. Á myndinni eru fv. Skarphéðinn Olgeirsson vélstjóri á Kristbjörgu ÞH, Friðbjörn Þórðarson vörubílstjóri og Daníel Jónsson vélvirki.

8.4.2006

Gamla myndin

Þá er komið að gömlu myndinni en ég hef trassað þann þátt að undanförnu. Þessi mynd sem ég held ég hafi tekið um páskana 1979 sýnir Kristbjörgu II ÞH 244 liggja utan á Aron ÞH 105 við trébryggjuna í Húsavíkurhöfn. Þessir bátar voru svipaðir að stærð, Kristbjörg II 37 brl. og Aron 35 brl. Kristbjörg II sem upphaflega hét Kristjón Jónsson SH 77 var smíðuð í Stykkishólmi 1967 en Aron sem hét upphaflega Benedikt Sæmundsson GK 28 var smíðaður í Hafnarfirði 1965.

Þessir bátar tveir liggja nú báðir í reiðuleysi vestur á fjörðum að ég best veit, Kristbjörg II sem nú heitir Fanney RE 31 á Patreksfirði og Aron sem nú heitir Jón Forseti ÍS á Ísafirði.

16.3.2006

Gamla mynd vikunnar..

Gamla mynd þessarar vikur er ekki svo ýkja gömul eða frá árunum 1987-1989, man það ekki alveg. Hún er tekin á Dalvík, af því ég best man af fyrsta gámi sem sendur var utan, með fisk af Geira Péturs ÞH 344. Við höfðum verið á fiskitrolli fyrir norðurlandi og farið var inn á Dalvík sett í gám sem fór með m/s Mánafossi sem þar var staddur.

Á myndinni eru fv. Snorri Snorrason skipstjóri á Dalvík sem nú er látinn, þá einhver sem ég ekki þekki, Sigurður Valdimar Olgeirsson skipstjóri á Geira Péturs, hann er einnig látinn og þeir Trausti Sverrisson og Eiríkur Guðmundsson skipverjar á Geira Péturs.

1825.Geiri Péturs ÞH 344.

Þarna lögðum við bátnum á meðan landað var, á milli Björgúlfs, eða Björgvins, og Mánafoss. Það kom sér vel að vera stuttur þarna.

Skrifað 16.3.2006 kl. 21:51 af HH

 

11.03.2006

Gamla mynd þessarar viku er tekin þegar m/b Skálaberg ÞH 244 ex Kristbjörg II ÞH 244 stundaði netaveiðar frá Þorlákshöfn á vertíðinnni 1982.

Á myndinni eru, Aðalgeir Olgeirsson í glugganum og fv. Ólafur Skúli Guðjónsson, Gunnar Jónsson, Grímur Agnarsson og Karl Ólafsson. Aðrir í áhöfn voru Hafþór Hreiðarsson og Númi Helgason var hluta vertíðar.

 

28.2.2006

Gamla myndin þessa vikuna er.....

Gamla mynd þessarar viku er gömul og illa farin, tekin 1962-3 af Hreiðari Olgeirssyni um borð í Nirði ÞH 44 en það var fyrsti bátur þeirra feðga úr Skálabrekku.

Myndin er tekin í línuróðri eins og sjá má.

699.Njörður ÞH 44 (TH 44)

Þennan 10 smálesta mótorbát, Njörð ÞH 44, keypti Olgeir Sigurgeirsson í Skálabrekku ásamt sonum sínum Sigurði Valdimar og Hreiðari árið 1961og hófst þá útgerðarsaga þeirra og afkomenda þeirra sem staðið hefur fram á þennan dag. Njörð sem smíðaður var á Akureyri 1925, keyptu þeir af Sigurbirni Ó. Kristjánssyni ofl. sem síðar gerðu út báta undir nafninu Fanney, einkennisstafir ÞH 130.  Njörð gerðu þeir Skálbrekkufeðgar út í rúm tvö ár þar til þeir keyptu Hallstein EA frá Akureyri sem var 22 tonna bátur smíðaður 1934 í Danmörku. Sigurður Valdimar, eða Siggi Valli eins og hann var jafnan kallaður, var strax skipstjóri á Nirði 18 ára gamall og Olgeir útgerðarmaður.

Skrifað 28.2.2006 kl. 22:25 af HH

 

 

21.2.2006

Nýtt efni-Gamla myndin

Nú ætla ég að reyna setja inn eina gamla mynd í viku hverri og munu þær fyrst um sinn tengjast Útgerðarfélaginu Korra hf. á Húsavík sem var og hét. Þegar ég segi tengjast á ég líka við Útgerðarfélagið Geira Péturs ehf. og aðrar þær útgerðir sem Skálabrekkumenn hafa komið að.

Þar sem hér fyrir neðan má setja inn athugasemdir við myndirnar væri gaman ef menn sem þekkja til myndefnisins hverju sinni segi frá einhverju sem tengist því.

Þegar ég segist ætla setja inn gamla mynd þá er það ekki eins og í Fiskifréttum, þar sem  ekkert þykir vera gamalt nema helst svarthvítar 30-50 ára gamlar myndir. Og þá helst frá  síldarárunum heldur verða þetta myndir, ekki endilega allar teknar af mér, sem spanna aðallega síðustu 20-30 árin en kunna að ná lengra aftur því útgerð þeirra feðga í Skálabrekku hófst 1961.

 

Fyrsta myndin er ekki svo gömul að manni finnst en samt eru 19 ár í sumar frá því hún var tekin. Ég tók hana 10 júlí 1987 þegar við komum heim frá Noregi á togbátnum Geira Péturs ÞH 344 sem Útgerðarfélagið Korri hf. keypti þaðan og sýnir hún móttökurnar sem við fengum.

Læt aðra mynd fylgja sem faðir minn tók á sama tíma af bátnum.

 

Silli skrifaði um þetta í Morgunblaðinu :

Sunnudaginn 19. júlí, 1987 - Innlendar fréttir

Korri hf. Húsavík: Keypti 190 tonna skip frá Noregi á 93 millj. kr.

Nýtt skip, Geiri Péturs ÞH 344, bættist í flota Húsvíkinga í síðustu viku og fór það í sína fyrstu veiðiferð á fimmtudaginn. Útgerðarfélagið Korri hf. frá Húsavík keypti skipið, sem er 190 tonn að stærð, 27 metra langt og 8 metra breitt, frá Tromsö í Noregi og er kaupverð þess um 93 milljónir króna. Sigurður Olgeirsson er skiptstjóri á nýja skipinu.

Olgeir Sigurgeirsson framkvæmdastjóri Korra hf. sagði í samtali við Morgunblaðið að fyrirtækið hefði selt Geira Péturs eldri sem er 138 tonn að stærð til Njáls hf. í Garðinum og fengið í staðinn skip þess fyrirtækis Sigurð Bjarnason sem farið hefði í úreldingu. Kaupin hefðu verið fjármögnuð með 60% lánum frá Fiskveiðasjóði. Skipið verður nú fyrst um sinn á fiskitrolli og síðan fer það á rækjuveiðar, en um borð eru frystitæki til að heilfrysta rækjuna.

Átta skipverjar eru á skipinu. Fyrirtækið leggur nú mestan hluta afla síns upp hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur, en í byggingu er hjá fyrirtækinu 520 fermetra saltfiskverkunarhús, þar sem fyrirhugað er að verka allan afla nýja skipsins, að sögn Olgeirs.

Morgunblaðið/Sigurður P. Björnsson

Flettingar í dag: 508
Gestir í dag: 88
Flettingar í gær: 694
Gestir í gær: 121
Samtals flettingar: 9394433
Samtals gestir: 2007269
Tölur uppfærðar: 6.12.2019 13:55:12
 


clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is