Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2018 Júlí

30.07.2018 09:45

Lísa María ÓF 26

Lísa María ÓF 26 liggur hér við slippkantinn á Akureyri en þetta línuskip var keypt til landsins árið 1992 og kom til heimahafnar á Ólafsfirði 10. júní það ár.

Lísa María er 37.60 metrar á lengd, 10.60 metra breið og mælsist 426 brl./684 BT.

Í 8. tbl. Ægis 1992 er umfjöllun um Lísu Maríu og þar segir m.a:

Nýtt fiskiskip bættist við flotann 10. júní sl., en þann dag kom Lísa María ÓF 26 í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Ólafsfjarðar. 

Lísa María ÓF26 er keypt notuð til landsins og bar upphaflega sama nafn (Liisa Maria). Skipið er smíðað árið 1988 (afhent í júlí) fyrir Norðmenn hjá skipasmíðastöðinni Estaleiros Sao Jacinto, Aveiro í Portúgal, smíðanúmer 166 hjá stöðinni. Skipið er hannað af Barlindhaug Ship A/S (Polarkonsult A/S) sem sérhæft línuveiðiskip, en með skuttogarafyrirkomulagi upp á möguleika á breytingum til togveiða. Lísa María ÓF er frystiskip með flakavinnslu og saltfiskverkun og er skrokkstærsta línuveiðiskip flotans. 

Á móti Lísu Maríu falla úr flotanum Stakkavík ÁR (1036) og Sólfell EA (161), auk þess litlir dekkbátar. 

Lísa María ÓF er í eigu Sædísar hf.,Ólafsfirði. Skipstjóri á skipinu er Númi Jóhannsson og yfirvélstjóri Magnús Lórenzson. Framkvæmdastjóri útgerða er Gunnar Þór Magnússon. 

Lísa María var seld til Rússlands árið 1994. Heitir í dag Kaptan Stepanov og er undir Líberísku flaggi.

2168. Lísa María ÓF 26 ex Kamchatskaya Zvezda. © Hafþór Hreiðarsson

28.07.2018 10:08

Kirkella H 7

Björn Valur Gíslason skipstjóri á franska togaranum Emeraude frá St. Malo tók þessa mynd af nýja togara UK Fisheries, Kirkella H 7, frá Hull.

Kirkella var smíðuð hjá Myklebust Verft í Noregi og afhent fyrir skömmu.

Kirkella er eins og Berlin NC 105 og Cuxhaven NC 100, togarar  Deutsche Fischfang Union, og áðurnefndur Emeraude SM 934017. 

Kirkella H 7. © Björn Valur Gíslason 2018.

 

26.07.2018 09:45

Heiðrún EA 28

Hér kemur mynd af Heiðrúnu EA 28 koma að landi á Vopnafirði. Báturinn hét upphaflega Grótta RE 128 og var byggður í Harstad í Noregi 1963. Þá mældist hann 184 brl. að stærð. Upphaflegur eigandi bátsins var Gísli Þorsteinsson Reykjavík en árið 1971 keypti Síldar- og fiskimjölsverksmiðjan hf. á Akranesi hann. Hann hélt Gróttunafninu en fékk einkennisstafina AK 101. Hafbjörg hf. á Akranesi eignaðist Gróttu árið 1973 og gerði út allt til ársins 1984. Þá kaupir Gylfi Baldvinsson bátinn sem fékk nafnið Heiðrún EA 28. Og þessi mynd er að mig minnir 1984 en ef ekki þá 1986.

Saga bátsins var tíunduð hér á sínum tíma en hann fór í pottinn 2008.

72. Heiðrún EA 28 ex Grótta AK. © Hafþór Hreiðarsson.

 

25.07.2018 19:48

Rifsnes SH 44

Línuskipið Rifsnes SH 44 komtil Húsavíkur þann 17. september 2009 og þá tók ég þessa mynd.

Heitir Fjölnir GK 157 í dag og hefur gengið í gegnum miklar breytingar síðan þessi mynd var tekin.

1136. Rifsnes SH 44 ex Örvar BA. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

24.07.2018 10:46

Sólfell EA 640

Hér er mynd af Sólfellinu EA 640 með nótina á síðunni. Þessa mynd minnir mig að Þorgeir vinur minn Baldursson hafi tekið frekar en pabbi.

Hvað um það Sólfellið hét áður Ólafur Magnússon EA 250 eins og flestir vita, smíðaður 1960 í Noregi fyrir Valtý Þorsteinsson á Akureyri.

Ólafur Magnússon var 173 brl. að stærð búinn 600 hestafla Wichmann aðalvél. 1965 var skipið lengt og mældist þá 187 brl. að stærð.

1975 er skráður eigandi Valtýr Þorsteinsson h/f á Akureyri en í febrúar 1983 var skipið selt til Hríseyjar og fékk það nafn sem það ber á myndinni.

Í Degi þann 24. febrúar 1983 birtist eftirfarandi frétt:

Útgerðarfélagið Njörður hf., sem er að meirihluta til í eigu KEA, hefur fest kaup á Ólafi Magnússyni EA 250, 187 rúmlesta bát smíðuðum í Noregi árið 1960. Seljandi er Valtýr Þorsteinsson hf. en það fyrirtæki gerir út Þórð Jónasson EA 350 og rekur frystihúsið Norðursíld hf. á Seyðisfirði. 

Ólafur Magnússon EA 250 verður í framtíðinni gerður út frá Hrísey og að sögn Vals Arnþórssonar, kaupfélagsstjóra þá verður skipið búið til togveiða á næstunni en báturinn verður einnig notaður til línuveiða og hefur auk þess kvóta til síldveiða ef svo ber undir. Valur Arnþórsson sagði að aðalástæðan fyrir því að ráðist var í þessi kaup væri sú að afkastageta frystihússins í Hrísey hafi hvergi nærri verið fullnýtt, en vonast er til þess að þessi bátur bæti þar úr og tryggi saman með Snæfellinu sem Útgerðarfélag KEA gerir út, jafnt framboð hráefnis til frystihússins í Hrísey. 

Ólafur Magnússon EA 250 er mjög vel búinn tækjum og fyllilega sambærilegur við hvaða bát af sömu stærðargráðu í dag. 

Svo mörg voru þau orð en Sólfellið var tekið af skrá síðla árs 1992 og selt til Noregs. Úreldingarrúmmetrarnir notaðir upp í kaup Sædísar h/f á Ólafsfirði á línuskipinu Lísu Maríu.

161. Sólfell EA 640 ex Ólafur Magnússon EA. © Þorgeir Baldursson.

 

23.07.2018 17:10

Ottó N Þorláksson

Hér koma tvær myndir af Ottó N Þorlákssyni sem þeir tóku Óskar Franz og Tryggvi Sigurðsson. Eins og mönnum er kunnugt keypti Ísfélag Vestmannaeyja togarann af HB Granda fyrir nokkru.

1578. Ottó N Þorláksson RE 203. © Óskar Franz 2017.
1578. Ottó N Þorláksson VE 5 ex RE 203. © Tryggvi Sigurðsson 2018.

22.07.2018 18:11

Margrét EA 710

Margrét EA 710,sem áður hét Antares og var frá Hjaltlandseyjum, var smíðuð í Flekkufirði í Noregi 1995 og lengd 2009. Mesta lengd skipsins er 73 metrar og  breiddin er 13 metrar. Aðalvélin er af gerðinni Vartsila Vasa og er 4920 kw. Samherji keypti skipið árið 2015 af Antares Fishing.

Hér er hún á Eyjafirði sl. föstudag. Hún var reyndar í drætti en ég ákvað að draga alla spotta inn :)

2903. Margrét EA 710 ex Antares. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

21.07.2018 11:02

Seifur

Hér koma myndir af nýjum dráttarbáti Hafnarsamlags Norðurlands, Seifi.

Myndirnar tók ég á Akureyri í gær.

2955. Seifur. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

2955. Seifur. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

                                                 2955. Seifur. © Hafþór Hreiðarsson 2018.
 

 

2955. Seifur. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

21.07.2018 10:42

Kings Bay á Akureyri

Norska uppsjávarveiðiskipið Kings Bay M-22-HØ lá á Akureyri í gær þegar ég var þar að erindast. 

Kings Bay var smíðað árið 2013 og er með heimahöfn í Fosnavaag. Það er 77 metrar að lengd og 16 metra breitt. Mælist 4.020 GT að stærð.

Glæsilegt skip að sjá og hér eru fleiri myndir sem Áki Hauksson tók af því í Måløy árið 2015.

Kings Bay M-22-HØ. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

20.07.2018 20:07

Seifur, Margrét og Sleipnir

Þessa mynd tók ég í dag þegar dráttarbátar Hafnarsamlags Norðurlands, Seifur og Sleipnir, voru að slefa Margréti EA 710 frá flotkvínni að Krossanesi þar sem hún lagðist upp að bryggju.

2955. Seifur - 2903. Margrét EA 710 - 2250. Sleipnir. © Hafþór 2018.

20.07.2018 09:44

Kristinn Friðrik GK 58

Hér kemur Kristinn Friðrik GK 58 að landi í Sandgerði á vetrarvertíðinni árið 2004. 

Kristinn Friðrik hét upphaflega Hrafn Sveinbjarnarson II GK 10 og var smíðaður í Noregi árið 1960. 

Í Alþýðublaðinu 12. júlí 1960 sagði svo frá:

Frá síðustu jólum hafa Grindvíkingar eignast 5 ný fiskiskip, sem eru samtals um 470 smálestir að stærð. Síðast þeirra kom nú árla laugardagsins Hrafn Sveinbjarnarson II GK 10. Öll eru þessi skip byggð erlendis, 3 þeirra úr tré og 2 úr stáli. Hrafn Sveinbjarnarson II. er stálskip, byggt í Noregi í umboði Ekkerts Kristjánssonar & Co, h.f. Er það 109.5 smálestir að stærð með 350-380 ha. Alpha-díselvél, og er ganghraðinn um 10 til 11 sjómílur. Skipið uppfyllir allar ströngustu kröfur nútímans um búnað og tæki.

Eigandi skipsins er Þorbjörn h. f., framkvæmdastjóri er Tómas Þorvaldsson. Á það félag nú 2 báta, og bera báðir sama nafnið, enda gefist vel. Viktor Jakobsson sigldi skipinu heim frá Noregi, en við skipstjórn tekur nú einn eigendanna, Sigurður Magnússon, kunnur aflamaður af hinum eldra Hrafni Sveinbjarnarsyni.

Fer skipið senn til síldveiða fyrir Norðurlandi.

 

102. Kristinn Friðrik GK 58 ex Siggi Bjarna GK. © Hafþór Hreiðarsson 2004.

19.07.2018 11:13

Helgi Helgason VE 343

Hér birtist mynd Hannesar Baldvinssonar af Helga Helgasyni VE 343 við bryggju á Siglufirði.

Helgi Helgason VE 343 var smíðaður í Vestmannaeyjum árið 1947 en talinn ónýtur og tekinn af skrá árið 1965. Upphaflega 500 hestafla June Munktell aðalvél en henni var skipt út fyrir 600 hestafla Gutaverken vél.

Í 10. tbl. Ægis 1947 sagði svo frá hinu nýja skipi sem þá var stærsta skip sem smíðað hafði verið á Íslandi:

Nokkru fyrir síldveiðar í sumar, eða 7. júní, var hleypt af stokkunum í Vestmannaeyjum stærsta skipi, sem smíðað hefur verið hér á landi. Skip þetta heitir Helgi Helgason og var smíðað í skipasmíðastöð Helga Benediktssonar í Eyjum. Í skipasmíðastöð Helga hafa alls verið smíðuð 5 skip og var lokið við það fyrsta 1925. Árið 1939 var lokið smíði á Helga VE 333, en hann var þá stærsta skipið, sem smíðað hafði verið hér á landi, eða um 120 rúmlestir.

Brynjólfur Einarsson skipasmíðameistari gerði teikningu af Helga Helgasyni og sá um smíði hans að öllu leyti. Þrír menn auk hans unnu við smíði skipsins frá upphafi:

Jón Þórðarspn, Jóhann Guðmundsson og Jón Ólafsson. Jón Þórðarson og Jóhann gerðu sinn hlutann hvor í skipinu sem sveinsstykki. Jóhann stýrið og Jón framsiglu.

Helgi Helgason er 200 brúttó rúmlestir. Hann er 33,4 m á lengd, 7,2 m á breidd og 3,4 m á dýpt. Grind og bolur er úr eik. Hvalbakur er 6,5 m langur, gerður úr stáli.

Undir hvalbak eru tvö  bóghús. Stýrishús, bogamyndað, er ofan á reisn, gert úr stáli upp að gluggum. Þar er komið fyrir vökvastýrisvél, bergmálsdýptarmæli o. fl. Aftur

úr stýrishúsi er leiðarreikningsklefi. Þar er talstöð, miðunarstöð o. fl. Í hásetaklefa eru 1O rekkjur, fataskápar o. s. frv. Undir stýrishúsi er skipstjóraklefi. Aftast í reisn er eldhús og matstofa samliggjandi því. Aftur í skipinu eru tveir tveggja manna klefar og 4 manna káeta, og er hvort tveggja vel búnar

vistarverur.

Aðalaflvélin í Helga Helgasyni er June-Munktel, 500 hestafla, og er ekki stærri vél til af þeirri gerð. Tvær hjálparvélar eru í skipinu, 50 hestafla tvígengis háþrýstivél, er knýr 33 kílówatta rafal, sem drífur spil, og 16 hestafla fjórgengis dieselvél, sem knýr rafal til ljósa. Með þeirri vél er einnig rekin

loftþjappa og miðflótta sjódæla. Olíutankar eru 10, alls um 27 m3. Smurningsolíugeymir tekur 1200 lítra, og geymir fyrir eldsneytisolíu tekur 550 lítra.

Eigandi Helga Helgasonar er Helgi Benediktsson útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, en skipstjóri á honum er Arnþór Jóhannsson frá Seli við Eyjafjörð, er áður var skip-

stjóri á mótorskipinu Dagnýju frá Siglufirði.

 

94. Helgi Helgason VE 343. © Hannes Baldvinsson.

17.07.2018 19:25

Longfjell

Flutningaskipið Longfjell kom til Húsavíkur kl. 18:47 í dag með kolafarm fyrir PCC á Bakka.

Longfjell er 11,4 metra langt, 13,35 metra breit tog mælist 3.995 GT að stærð.

Smíðað árið 2005 og siglir undir fána Antigua & Barbua. Heimahöfnin í Saint John´s.

Longfjell ex Ems. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

16.07.2018 13:34

Ozherelye

Rússneski togarinn Ozherelye kom af hryggnum á dögunum til löndunar í Hafnarfirði. Jón Steinar tók þessa mynd af þessum 62 metra langa skipi við það tækifæri. Togarinn var smíðaður árið 1984 og er með heimahöfn í Kalíngrad.

Ozherelye K-2162. © Jón Steinar Sæmundsson 2018.

16.07.2018 10:04

Hjalti SI 12

Hjalti SI 12 sést hér á mynd Hannesar Baldvinssonar á Siglufirði en Hjalti var gerður út þaðan frá árinu 1945. Hjalti var talin ónýtur og tekinn af skrá í ársbyrjun 1979.

Fræðast má um Hjalta hér en hann var smíðaður á Akureyri 1916 af Antoni Jónssyni skipasmið og var upphaflega EA 360. Síðar var hann gerður út frá Grenivík og var TH 272, og að lokum SI 12 frá Siglufirði.

569. Hjalti SI 12 ex TH 272. © Hannes Baldvinsson Siglufirði.
Flettingar í dag: 568
Gestir í dag: 82
Flettingar í gær: 771
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 9399662
Samtals gestir: 2008174
Tölur uppfærðar: 13.12.2019 13:12:35
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is