Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2018 Júlí

22.07.2018 18:11

Margrét EA 710

Margrét EA 710,sem áður hét Antares og var frá Hjaltlandseyjum, var smíðuð í Flekkufirði í Noregi 1995 og lengd 2009. Mesta lengd skipsins er 73 metrar og  breiddin er 13 metrar. Aðalvélin er af gerðinni Vartsila Vasa og er 4920 kw. Samherji keypti skipið árið 2015 af Antares Fishing.

Hér er hún á Eyjafirði sl. föstudag. Hún var reyndar í drætti en ég ákvað að draga alla spotta inn :)

2903. Margrét EA 710 ex Antares. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

21.07.2018 11:02

Seifur

Hér koma myndir af nýjum dráttarbáti Hafnarsamlags Norðurlands, Seifi.

Myndirnar tók ég á Akureyri í gær.

2955. Seifur. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

2955. Seifur. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

                                                 2955. Seifur. © Hafþór Hreiðarsson 2018.
 

 

2955. Seifur. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

21.07.2018 10:42

Kings Bay á Akureyri

Norska uppsjávarveiðiskipið Kings Bay M-22-HØ lá á Akureyri í gær þegar ég var þar að erindast. 

Kings Bay var smíðað árið 2013 og er með heimahöfn í Fosnavaag. Það er 77 metrar að lengd og 16 metra breitt. Mælist 4.020 GT að stærð.

Glæsilegt skip að sjá og hér eru fleiri myndir sem Áki Hauksson tók af því í Måløy árið 2015.

Kings Bay M-22-HØ. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

20.07.2018 20:07

Seifur, Margrét og Sleipnir

Þessa mynd tók ég í dag þegar dráttarbátar Hafnarsamlags Norðurlands, Seifur og Sleipnir, voru að slefa Margréti EA 710 frá flotkvínni að Krossanesi þar sem hún lagðist upp að bryggju.

2955. Seifur - 2903. Margrét EA 710 - 2250. Sleipnir. © Hafþór 2018.

20.07.2018 09:44

Kristinn Friðrik GK 58

Hér kemur Kristinn Friðrik GK 58 að landi í Sandgerði á vetrarvertíðinni árið 2004. 

Kristinn Friðrik hét upphaflega Hrafn Sveinbjarnarson II GK 10 og var smíðaður í Noregi árið 1960. 

Í Alþýðublaðinu 12. júlí 1960 sagði svo frá:

Frá síðustu jólum hafa Grindvíkingar eignast 5 ný fiskiskip, sem eru samtals um 470 smálestir að stærð. Síðast þeirra kom nú árla laugardagsins Hrafn Sveinbjarnarson II GK 10. Öll eru þessi skip byggð erlendis, 3 þeirra úr tré og 2 úr stáli. Hrafn Sveinbjarnarson II. er stálskip, byggt í Noregi í umboði Ekkerts Kristjánssonar & Co, h.f. Er það 109.5 smálestir að stærð með 350-380 ha. Alpha-díselvél, og er ganghraðinn um 10 til 11 sjómílur. Skipið uppfyllir allar ströngustu kröfur nútímans um búnað og tæki.

Eigandi skipsins er Þorbjörn h. f., framkvæmdastjóri er Tómas Þorvaldsson. Á það félag nú 2 báta, og bera báðir sama nafnið, enda gefist vel. Viktor Jakobsson sigldi skipinu heim frá Noregi, en við skipstjórn tekur nú einn eigendanna, Sigurður Magnússon, kunnur aflamaður af hinum eldra Hrafni Sveinbjarnarsyni.

Fer skipið senn til síldveiða fyrir Norðurlandi.

 

102. Kristinn Friðrik GK 58 ex Siggi Bjarna GK. © Hafþór Hreiðarsson 2004.

19.07.2018 11:13

Helgi Helgason VE 343

Hér birtist mynd Hannesar Baldvinssonar af Helga Helgasyni VE 343 við bryggju á Siglufirði.

Helgi Helgason VE 343 var smíðaður í Vestmannaeyjum árið 1947 en talinn ónýtur og tekinn af skrá árið 1965. Upphaflega 500 hestafla June Munktell aðalvél en henni var skipt út fyrir 600 hestafla Gutaverken vél.

Í 10. tbl. Ægis 1947 sagði svo frá hinu nýja skipi sem þá var stærsta skip sem smíðað hafði verið á Íslandi:

Nokkru fyrir síldveiðar í sumar, eða 7. júní, var hleypt af stokkunum í Vestmannaeyjum stærsta skipi, sem smíðað hefur verið hér á landi. Skip þetta heitir Helgi Helgason og var smíðað í skipasmíðastöð Helga Benediktssonar í Eyjum. Í skipasmíðastöð Helga hafa alls verið smíðuð 5 skip og var lokið við það fyrsta 1925. Árið 1939 var lokið smíði á Helga VE 333, en hann var þá stærsta skipið, sem smíðað hafði verið hér á landi, eða um 120 rúmlestir.

Brynjólfur Einarsson skipasmíðameistari gerði teikningu af Helga Helgasyni og sá um smíði hans að öllu leyti. Þrír menn auk hans unnu við smíði skipsins frá upphafi:

Jón Þórðarspn, Jóhann Guðmundsson og Jón Ólafsson. Jón Þórðarson og Jóhann gerðu sinn hlutann hvor í skipinu sem sveinsstykki. Jóhann stýrið og Jón framsiglu.

Helgi Helgason er 200 brúttó rúmlestir. Hann er 33,4 m á lengd, 7,2 m á breidd og 3,4 m á dýpt. Grind og bolur er úr eik. Hvalbakur er 6,5 m langur, gerður úr stáli.

Undir hvalbak eru tvö  bóghús. Stýrishús, bogamyndað, er ofan á reisn, gert úr stáli upp að gluggum. Þar er komið fyrir vökvastýrisvél, bergmálsdýptarmæli o. fl. Aftur

úr stýrishúsi er leiðarreikningsklefi. Þar er talstöð, miðunarstöð o. fl. Í hásetaklefa eru 1O rekkjur, fataskápar o. s. frv. Undir stýrishúsi er skipstjóraklefi. Aftast í reisn er eldhús og matstofa samliggjandi því. Aftur í skipinu eru tveir tveggja manna klefar og 4 manna káeta, og er hvort tveggja vel búnar

vistarverur.

Aðalaflvélin í Helga Helgasyni er June-Munktel, 500 hestafla, og er ekki stærri vél til af þeirri gerð. Tvær hjálparvélar eru í skipinu, 50 hestafla tvígengis háþrýstivél, er knýr 33 kílówatta rafal, sem drífur spil, og 16 hestafla fjórgengis dieselvél, sem knýr rafal til ljósa. Með þeirri vél er einnig rekin

loftþjappa og miðflótta sjódæla. Olíutankar eru 10, alls um 27 m3. Smurningsolíugeymir tekur 1200 lítra, og geymir fyrir eldsneytisolíu tekur 550 lítra.

Eigandi Helga Helgasonar er Helgi Benediktsson útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, en skipstjóri á honum er Arnþór Jóhannsson frá Seli við Eyjafjörð, er áður var skip-

stjóri á mótorskipinu Dagnýju frá Siglufirði.

 

94. Helgi Helgason VE 343. © Hannes Baldvinsson.

17.07.2018 19:25

Longfjell

Flutningaskipið Longfjell kom til Húsavíkur kl. 18:47 í dag með kolafarm fyrir PCC á Bakka.

Longfjell er 11,4 metra langt, 13,35 metra breit tog mælist 3.995 GT að stærð.

Smíðað árið 2005 og siglir undir fána Antigua & Barbua. Heimahöfnin í Saint John´s.

Longfjell ex Ems. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

16.07.2018 13:34

Ozherelye

Rússneski togarinn Ozherelye kom af hryggnum á dögunum til löndunar í Hafnarfirði. Jón Steinar tók þessa mynd af þessum 62 metra langa skipi við það tækifæri. Togarinn var smíðaður árið 1984 og er með heimahöfn í Kalíngrad.

Ozherelye K-2162. © Jón Steinar Sæmundsson 2018.

16.07.2018 10:04

Hjalti SI 12

Hjalti SI 12 sést hér á mynd Hannesar Baldvinssonar á Siglufirði en Hjalti var gerður út þaðan frá árinu 1945. Hjalti var talin ónýtur og tekinn af skrá í ársbyrjun 1979.

Fræðast má um Hjalta hér en hann var smíðaður á Akureyri 1916 af Antoni Jónssyni skipasmið og var upphaflega EA 360. Síðar var hann gerður út frá Grenivík og var TH 272, og að lokum SI 12 frá Siglufirði.

569. Hjalti SI 12 ex TH 272. © Hannes Baldvinsson Siglufirði.

12.07.2018 20:38

Þinganes ÁR 25

Jón Steinar tók þessa mynd af Þinganesinu koma til Grindavíkur fyrir skömmu. 

Eitt fjögurra systurskipa sem smíðuð voru á sínum tíma fyrir Íslendinga hjá Carnave Eir Navais Sa smíðastöðinni í Aveiro í Portúgal.

2040. Þinganes ÁR 25 ex SF. © Jón Steinar 2018.

11.07.2018 12:05

Anna SI 117

Anna SI 117 var smíðuð í Zaandam í Hollandi árið 1960 fyrir Þráinn Sigurðsson útgerðarmann á Siglufirði. Hannes Baldvinsson tók þessa mynd af Önnu sem var 150 brl. að stærð búin 500 hestafla Kromhout díesel vél. Anna var seld 28 maí 1970, Skrúðsbergi h/f á Fáskrúðsfirði, hélt nafninu en varð SU 3. Seld 14 mars 1974, Sverri h/f í Grindavík, hét áfram Anna en nú GK 79. 

Árið 1975 var sett ný 640 hestafla Samofa díesel vél í bátinn sem var síðan seld þann 6 mars 1978, Önnu h/f í Stykkishólmi, hét áfram Anna en nú SH 35. Í október 1979 kaupir Skagaberg s/f á Akranesi Önnu sem enn hélt nafni sínu en varð AK 56. 1980 var aftur skiptu vél og nú var sett niður 640 hestafla. Mitsubishi díesel vél. Í byrjun árs 1984 kaupir Rækjunes h/f í Stykkishólmi bátinn sem hélt nafninu en varð SH 122. 

Anna var endurmælt 26 febrúar 1985 og mældist þá 132 brl. að stærð. Báturinn var seldur 16 janúar 1990 Sigurbirni Hilmarssyni ofl. (ÓSk h/f) í Vestmannaeyjum og eftir að hafa borið nafnið Anna í 30 ár tæp fékk báturinn nýtt nafn, Freyr VE 700. Eyjavík h/f í Vestmannaeyjum kaupir bátinn í maílok 1991 og fékk hann þá nafnið Sigurvík VE 700. Selt 15 apríl 1994, Goðaborg h/f í Vestmannaeyjum, hét Stokksnes VE 700. Þessar heimildir eru úr íslensk skip en þar segir jafnframt að Stokksnesið hafi verið talið ónýtt og tekin af skrá 14 febrúar árið 1995. 

Svo var nú ekki því það var Stokksnes RE 123 og lá við bryggju hér á landi til ársins 2003 að það var selt erlendis og fór til veiða við Afr­íkustrendur fyr­ir hina nýju eig­end­ur. Og er enn á floti að ég held.

 

Í Morgunblaðinu 28. desember 1960 sagði svo frá komu Önnu SI 117 til heimahafnar á Siglufirði:

Í gærkvöldi kom hingað nýr vélbátur, Anna heitir sá SI 117. Er þetta 140 tonna skip smíðað í Hollandi, allt hið fallegasta vandaðasta til að sjá. Eigandi þess er hinn dugmikli útgerðarmaður hér í bænum, Þráinn Sigurðsson. Skipstjóri er Jón Guðjónsson.

Í vetur hefur Þráinn sem jafnframt rekur frystihús, gert út tvo báta, sinn eigin bát, Baldvin og bát er hann tók á leigu og Hringur heitir. Auk þess leggja

upp í frystihús Þráins bátarnir Hjalti og Viggó. Afli þessara báta hefur verið góður, og hefur af þessu skapazt mikil atvinna í frystihúsinu, þar sem 60—70 manns hafa unnið. Með komu hins nýja skips eykur Þráinn enn myndarlega atvinnurekstur sinn hér í bænum.

Bæjartogararnir hafa lítið aflað eins og aðrir togarar landsmanna og lítil vinna verið við frystihús SR. Mun stjórn S.R. nú hafa samþykkt að taka á leigu tvö fiskiskip til hráefnisöflunar og standa því vonir til að atvinna í frystihúsi S.R. aukist verulega.

7. Anna SI 117. © Hannes Baldvinsson Siglufirði.

11.07.2018 09:12

Ný Cleopatra 36 til Lófóten

Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi nú á dögunum nýjan Cleopatra bát til Napp ord-Lenangen í Tromsfylki í Noregi.

Kaupandi bátsins er Steinar Sandnes sem jafnframt verður skipstjóri á bátnum.

 

Báturinn hefur hlotið nafnið Vikberg.  Báturinn mælist 14 brúttótonn.  Vikberg er af gerðinni Cleopatra 36.

Aðalvél bátsins er af gerðinni FPT C13 650hp tengd ZF V-gír.  Báturinn er útbúinn fullkomnum siglingatækjum af gerðinni JRC.

Báturinn er einnig útbúin með tveimur vökvadrifnum hliðarskrúfum sem tengdar eru sjálfstýringu bátsins.  Báturinn er útbúinn til línuveiða.

Veiðibúnaður kemur frá Noregi. Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking-björgunarbúnaði.

 

Rými er fyrir 15 stk. 380lítra kör í lest.  Fullkomin eldunaraðstaða auk borðsals er staðsett í brúnni.  Svefnpláss er fyrir þrjá í lúkar.  Salerni með sturtu er í lúkar. 

Báturinn hefur þegar hafið veiðar.

Vikberg N-210-F. © trefjar.is

 

10.07.2018 16:02

Sigurfari SH 105

Hér birtist mynd Hannesar Baldvinssonar af Sigurfara SH 105 sem hann tók á Siglufirði á síldarárunum.

Sigurfari hét upphaflega Gunnbjörn ÍS 18, smíðaður úr eik og furu í Svíþjóð árið 1929. Hann var 46. brl. að stærð búinn 90 hestafla Ellwe vél.

Eigendur voru Guðmundur Kr. Guðmundsson, Ingibjartur Jónsson, Arinbjörn Clausen, Guðmundur G. Sigurðsson og Pétur Njarðvík Ísafirði.

Samvinnufélag Ísfirðinga, ísafirði, var skráður eigandi í nóvember 1943. 1945 var sett í hann 120 hestafla Ruston díeselvél.

Í janúar 1956 var Gunnbjörn seldur til Grundarfjarðar og fékk þá það nafn sem hann ber á myndinni, Sigurfari SH 105. Kaupendur voru Karl Stefánsson og Hjálmar Gunnarsson í Grundarfirði.

1958 var sett í hann 200 hestafla Lister díeselvél (frá 1949). Báturinn var endurmældur 1961 og mældist þá 45 brl. að stærð. 1963 var enn og aftur skipt um aðalvél og nú kom sett í hann 220 hestafla Caterpillar.

Í desember 1968 voru skráðir eigendur Hjálmar Gunnarsson og Jenný Ásmundsdóttir í Grundarfirði.

Sigurfari SH 105 var tekinn af skipaskrá 18. ágúst 1981 en þá hafði hann legið í fjögur ár. (Heimild: íslensk skip)

745. Sigurfari SH 105 ex Gunnbjörn ÍS. © HB.

 

10.07.2018 15:44

Kvitungen

Selveiðarinn Kvitungen T-6-T frá Tromsö kom við í Reykjavík á dögunum á leið sinni til veiða við austurströnd Grænlands. Jón Steinar smellti þá mynd af þessum sextuga bát sem skráður er sem selveiðibátur.

Ætli hann sé þá ekki á selveiðum ?

LGPZ. Kvitungen T-6-T ex Polarfangst. © Jón Steinar 2018.

09.07.2018 18:18

Sæborg og Salka

Þær mættust í hafnarkjaftinum í dag Sæborg og Salka en þær eru nánast jafnaldra.

Sæborgin afhent frá Bátaverkstæði Gunnlaugs og Trausta á Akureyri 26. febrúar 1977.

Hét upphaflega Sæborg ÞH 55 og var 40 brl. að stærð. Mælist nú 36 BT.

Salka var afhent frá Skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði tæpum mánuði fyrr, eða 28 janúar. (Smíðaár mun samt vera 1976 samkvæmt skipaskrá)

Hét upphaflega Hafsúlan SH 7 og var þá 36 brl. að stærð. Mælist nú 35 BT.

1475. Sæborg - 1470. Salka. © Hafþór Hreiðarsson 2018.
Flettingar í dag: 3225
Gestir í dag: 1317
Flettingar í gær: 4329
Gestir í gær: 2212
Samtals flettingar: 8521057
Samtals gestir: 1854316
Tölur uppfærðar: 22.7.2018 23:37:43
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is