Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2018 Febrúar

07.02.2018 12:17

Faxaborg í slipp

Þessi mynd sýnir Faxaborg SH 207 í slipp í Reykjavík en þar var fyrsta heimahöfn þessa báts sem talinn var með gangmestu bátum flotans þegar hann kom nýr.

Sigurvon RE 133 hét hann þegar hann kom til landsins í febrúarmánuði 1964.

Í Morgunblaðinu 19. febrúar sagði svo frá:

KOMINN er til landsins nýr stálbátur, Sigurvon RE 133, eign samnefnds hlutafélags, en aðaleigendur eru Sigurður Pétursson og Guðmundur Ibsen, sem er skipstjóri. Hann var áður með Pétur Sigurðsson. Báturinn er 236 lestir að stærð, byggður í Noregi, mjög vandaður og með gangmestu fiskibátum fór 12,5 sjómílur í reynslusiglingu og 11 mílur að meðaltali á heimleið. Var hann 2 1/2 sólarhringa á leið heim

Sigurvon er útbúin 400 ha Wichman vél með forþjöppu, þannig að hún er skráð 600 ha. Er þessi sterka vél mjög fyrirferðarlítil og hefur það þann kost að lestin verður 3 fetum lengri og hægt að taka meira í hana. Skv. upplýsingum Sigurðar Péturssonar, útaerðarmanns, tekur báturinn 2000 tunnur í lest og á sumarsíldveiðum ber hann 3000 tunnur, án þess að tiltakanlegt álag sé á honum. 

Fer Sigurvon nú á síldveiðar fyrst og síðan á veiðar með þorsknetum. 

Báturinn Sigurvon er bygg ur í Risör í Noregi, og kostaði 10,5 millj. króna. Hann er mjög vandaður og vel búinn tækjum. í honum er gott kælikerfi í lest, tvær ljósavélar, tvö Simrad tæki, sjálfleitari og minna handleitartæki, sími er um skipið, aluminiumklæðning í lest, teak-viður í íbúðarinnréttingu og nælondúkar á gólfi. Er rúm fyrir 16 manna áhöfn, mjög rúmgott í hásetaklefum og bað fyrir áhöfnina. Í skipinu eru köld geymsla og frystigeymsla fyrir matvæli, 

ef farið yrði langar ferðir, t.d. á Grænlandsmið. Við höfum reynt að sjá fyrir því að möguleikar séu á hvers konar veiðum, sagði Sigurður Pétursson, er fréttamönnum var á laugardag boðið að skoða bátinn og í siglingu út á Sundin. 

 

257. Faxaborg SH 207 ex Sigurvon Ýr BA. © Hafþór Hreiðarsson.

 

07.02.2018 09:24

Bakkafoss

Hér siglir Bakkafoss út Sundin þann 4. maí 2016. Smíðaður árið 2010 og hét áður Ceres. Bakkafoss er með heimahöfn í St. John´s á Antigua & Barbudaeyjum.

Skipið er 141 metrar á lengd, 24 metra breitt og mælist 9983 GT að stærð.

Bakkafoss ex Ceres. © Hafþór Hreiðarsson 2016.

06.02.2018 12:38

Farsælum ferli Sturlaugs lokið

Ísfisktogarinn Sturlaugur H. Böðvarsson AK kom úr sinni síðustu veiðiferð fyrir HB Granda aðfararnótt sl. þriðjudags. Aflinn var um 90 tonn af karfa, þorski og ufsa. Þar með er farsælum ferli skipsins undir merkjum HB Granda lokið en nýsmíðin Akurey AK hefur leyst Sturlaug af hólmi.

Frá þessu segir á heimasíðu fyrirtækisins:


Sturlaugur H. Böðvarsson AK var smíðaður hjá skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts árið 1981 fyrir Grundfirðinga og hét þá Sigurfari SH. Togarinn, sem er 58,30 metra langur og mælist 431 brúttórúmlest, kostaði á sínum tíma 37,3 milljónir króna að teknu tilliti til fjármagnskostnaðar á smíðatímanum. Hann komst síðar í eigu Haraldar Böðvarssonar hf. og fékk þá Sturlaugsnafnið. Eftir sameiningu Granda og Haraldar Böðvarssonar í HB Granda hefur skipið verið gert út undir merkjum félagsins.

Eiríkur Jónsson hefur verið skipstjóri á Sturlaugi frá árinu 2009 en hann hafði þá verið stýrimaður á skipinu frá árinu 1992. Hann þekkir Sturlaug því öðrum betur og það er við hæfi að rifja upp ummæli hans um skipið frá því í sjómannadagsspjalli í fyrra.

,Sturlaugur er mjög gott skip, smíðað á Akranesi árið 1981 fyrir Grundfirðing hf., en það hét upphaflega Sigurfari SH. Þetta er því skip sem komið er til ára sinna en það breytir þó engu um að það hefur staðið vel fyrir sínu.“

Þess má geta að skipstjóri í síðustu veiðiferð Sturlaugs H. Böðvarssonar fyrir HB Granda var Jón Frímann Eiríksson en hann er sonur Eiríks Jónssonar.

 

English version

 

1585. Sturlaugur H Böðvarsson AK 10 ex Sigurfari II SH. © Óskar Franz.

05.02.2018 12:13

Pioner

Rússneska flutningaskipið Pioner kom til Húsavíkur seint í gærkveldi með timburfarm fyrir kísilver PCC á Bakka.

Skipið var smíðað 1997 og er með heimahöfn í  Arkhangelsk. Lengd þess er 103 metrar og breiddin 16 metrar. Skráð 3893 GT að stærð.

Hefur áður heitið nöfnunum Aukse, Torm Aukse, Aukse og Blue Spirit.

Pioner við Bökugarðinn í morgun. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

04.02.2018 14:48

Kristbjörg ÞH 44 í mars 1975

Ég hef oft velt því fyrir mér hve lítið er til að myndum frá komu Kristbjargar ÞH 44 til heimahafnar á Húsavík í marsmánuði 1975. Töluvert er til af myndum af bátnum í Stykkishólmi þegar hann var nýr en engar hef ég séð frá komu hans. Kom til Húsavíkur í myrkri ef ég man rétt og menn ekkert með græjur til að mynda. Það væri annað hefði hún komið í dag.

En ég rakst á myndir í vikunni sem pabbi tók á Instamatic fjölskyldunnar, í Hólminum þegar báturinn fór á flot, á Flateyri þar sem komið var við á leiðinni, og í siglingu sem farin var eftir heimkomu með ættingja og vini eigenda og áhafnarmeðlima.

 

Nú skal fleyið nýja fara á flot. © Hreiðar Olgeirsson 1975.

 

Í sleðanum. © Hreiðar Olgeirsson 1975.

 

Komin á flot. © Hreiðar Olgeirsson 1975.

 

1420. Kristbjörg ÞH 44 við bryggju í Stykkishólmi. © Hreiðar Olg. 1975.

 

Viðar Eiríksson og Þorgrímur Björnsson. © Hreiðar Olgeirsson 1975.

 

Flateyri í mars 1975. © Hreiðar Olgeirsson.

 

Siglt um flóann. © Hreiðar Olgeirsson 1975.

 

Í skemmtisiglingu á nýjum bát. © Hreiðar Olgeirsson 1975.

 

Húsavík í mars 1975. © Hreiðar Olgeirsson.

04.02.2018 13:04

Fiskifræðingar að störfum um borð í Kristbjörgu ÞH 44

Hér birtast þrjár myndir sem faðir minn heitinn tók um borð í Kristbjörgu ÞH 44 á sínum tíma og sýna fiskifræðinga að störfum. Báturinn var á dragnótaveiðum, og með í för voru tveir fiskifræðingar frá Hafrannsóknastofnun Íslands.

Þetta voru þeir Guðni Þorsteinsson og Vilhjálmur Þorsteinsson sem árið 1974 setti á fót og var útibússtjóri fyrsta útibús Hafrannsóknastofnunar sem var á Húsavík.  

Vilhjálmur Þorsteinsson fiskifræðingur f. 09.09.1943 - d. 12.05.2016. © HO

 

Guðni Þorsteinsson fiskifræðingur f. 06.07.1936 - d. 22.11.1997. © H.O

 

Fiskifræðingar að störfum um borð. © Hreiðar Olgeirsson.

04.02.2018 11:47

Rán

Rán GK 91 siglir hér inn til hafnar í Grindavík með Hópnesið og vitann í bakgrunni.

Rán, sem er í eigu Stakkavíkur, var smíðuð í Vélsmiðju Seyðisfjarðar 1988 og hét upphaflega Völusteinn NS 116.

1921. Rán GK 91 ex Leifur EA. © Jón Steinar Sæmundsson 2018.

03.02.2018 13:42

Hafborgirnar fjórar

Nýja Hafborg EA 152 kom til landsins í vikunni eftir heimsiglingu frá Hvide Sande í Danmörku þar sem báturinn var smíðaður. Skrokkurinn reyndar í Póllandi og hann síðan dregin yfir til Danmerkur.

Þetta er fjórða Hafborgin sem Guðlaugur Óli Guðlaugsson og fjölskylda eiga og fara þær sístækkandi eins og sjá má.

Hér koma myndir af þeim en Haukur Sigtryggur tók þær sem sýna nýja bátinn.

2940. Hafborg EA 152. © Haukur Sigtryggur 2018.

 

2940. Hafborg EA 152. © Haukur Sigtryggur 2018.

 

2323. Hafborg EA 152 ex Stapavík AK. © Hafþór Hreiðarsson 2010.

 

1922. Hafborg EA 152. Finni NS 21 í dag. © Hafþór Hreiðarsson.

 

1762. Hafborg EA 152. Lilja HF 15 í dag. © Hafþór Hreiðarsson.

02.02.2018 11:56

70 ný fiskiskip síðustu 5 ár

Hagstofan greinir frá því í dag að á síðustu fimm árum hafi 70 ný skip bæst við fiskveiðiflotann: 

 

Alls voru 1.621 fiskiskip á skrá hjá Samgöngustofu í lok árs 2017 og hafði þeim fækkað um 26 frá árinu áður. Fiskiskip eru flokkuð í þrjá flokka hjá Samgöngustofu, opna báta, togara og vélskip. Vélskip eru öll yfirbyggð skip önnur en skuttogarar, en í þeim flokki eru nokkur skip sem eru stærri en stærstu skuttogararnir.

Vélskip voru alls 735 og samanlögð stærð þeirra um 92.460 brúttótonn. Vélskipum fækkaði um 12 milli ára og stærð flotans minnkaði um 2.046 brúttótonn. Togarar voru alls 44, bættist einn við á milli ára, en nokkur endurnýjun varð í flotanum. Sex nýir togarar voru smíðaðir árið 2017, þar af fjögur systurskip. Heildarstærð togaraflotans var 61.841 brúttótonn í árslok 2017 og hafði aukist um 9.425 tonn frá ársbyrjun. Opnir fiskibátar voru alls 842 og samanlögð stærð þeirra 4.154 brúttótonn. Opnum fiskibátum fækkaði um 15 milli ára og samanlögð stærð þeirra minnkaði um 112 brúttótonn.

Á síðustu fimm árum hafa 70 ný skip bæst við fiskveiðiflotann. Átta skuttogarar, 37 vélskip og 25 opnir bátar. Alls voru 53 þessara skipa smíðuð á Íslandi og eru þau öll úr trefjaplasti og undir 30 brúttótonnum. Allir togararnir voru smíðaðir í Tyrklandi, ásamt fjórum af þeim sjö vélskipum sem voru yfir 1.000 brúttótonn.

Flest fiskiskip voru með skráða heimahöfn á Vestfjörðum í árslok 2017, alls 394 skip, en það eru 24% fiskiskipaflotans. Næst flest, alls 290 skip höfðu heimahöfn skráða á Vesturlandi eða 17,9%. Fæst skip (74) voru með skráða heimahöfn á Suðurlandi eða 4,6% af heildarfjölda fiskiskipa. Flestir opnir bátar voru á Vestfjörðum (231) og á Vesturlandi (163). Fæstir (22) opnir bátar höfðu heimahöfn á Suðurlandi. Vélskip voru einnig flest (160) á Vestfjörðum en fæst á Höfuðborgarsvæðinu (42). Flestir togarar (11) höfðu skráða heimahöfn á Norðurlandi eystra og næst flestir eða átta togarar á höfuðborgarsvæðinu. Fæstir togarar voru skráðir á Vestfjörðum og Austurlandi, alls þrír

English version

 

Sólberg ÓF 1 var einn þeirra nýju togara sem komu í flotann á síðasta ári og þeirra stærstur. Og jafnframt eini frystitogarinn.

2917. Sólberg ÓF 1. © Hafþór Hreiðarsson 2017.
 

01.02.2018 10:33

Hav Nes

Haukur Sigtryggur tók þessar myndir af flutningaskipinu Hav Nes í Dalvíkurhöfn á dögunum.

Hav Nes siglir undir færeyskum fána og er með heimahöfn í Runavík. Var smíðað 1991 og hét Sava Hill til ársins 2009 er það fær núverandi nafn.

Það er 75 metra langt og 13 metra breitt, mælist 2026 GT að stærð.

Hav Nes ex Sava Hill. © Haukur Sigtryggur 2018.

 

Hav Nes ex Sava Hill. © Haukur Sigtryggur 2018.

01.02.2018 10:15

Óli á Stað

Línubáturinn Óli á Stað GK 99 kom til Grindavíkur í gærkveldi og tók Jón Steinar þessar myndir þá. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem báturinn kemur til heimahafnar en frá því hann hóf veiðar í vor hefur hann landað fyrir norðan og austan. Þá kom hann suður fyrir áramót og hefur landað í Sandgerði það sem af er þessu ári.

2842. Óli á Stað GK 99. © Jón Steinar Sæmundsson 2018.

 

2842. Óli á Stað GK 99. © Jón Steinar Sæmundsson 2018.
Flettingar í dag: 451
Gestir í dag: 126
Flettingar í gær: 595
Gestir í gær: 109
Samtals flettingar: 9396787
Samtals gestir: 2007661
Tölur uppfærðar: 9.12.2019 20:06:47
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is