Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2018 Febrúar

27.02.2018 20:52

Arnar - Njörður

Þessi hét upphaflega Orri EA 101, smíðaður á Akureyri 1962 og var í eigu Báru h/f þar í bæ. Síðar Arnar EA 101 frá árinu 1968 og frá árinu 1972 ÓF 3.

Eftir að hann var seldur frá Ólafsfirði hét hann Njörður EA 151. 

Hreiðar Olgeirsson tók þessar myndir og þær voru teknar 1999 að ég held.  Spurning hvort þarna hafi hann farið grænn upp og blár niður.

Hafsteinn Jóhannsson eignaðist síðan bátinn og fór með hann til Noregs að ég best veit.

 

Vikublaðið Íslendingur sem gefið var út á Akureyri sagðis svo frá 11. mars 1962:

Um síðustu helgi helgi var nýr bátur sjósettur á Akureyri. Hlaut hann nafnið Orri EA 101. Báturinn, sem er 27 tonn og frambyggður, er  smíðaður í skipasmíðastöð K. E. A., yfirsmiður var Tryggvi Gunnarsson, og gerði hann einnig teikninguna. 

Orri er búinn 200 ha Scania Vabis vél, og auk alls venjulegs öryggisútbúnaðar, verður síðar sett í bátinn ratsjá, en það mun  óvenjulegt í ekki stærri bát. 

Orri mun fara á veiðar seinna í mánuðinum. Eigendur bátsins  eru Jóhann Malmquist, Jón Helgason, Kristján Jónsson, Páll Jónsson og Sigurhörður Frímannsson.

Það er mjög virðingarvert framtak hjá þessum ungu mönnum að láta smíða svo glæsilegan bát.

714. Arnar ÓF 3 ex EA 101. © Hreiðar Olgeirsson 1999.

 

714. Njörður EA 151 ex Arnar ÓF. © Hreiðar Olgeirsson 1999.

 

27.02.2018 15:06

Vilhelm Þorsteinsson

Þessa mynd tók Gundi á Frosta um síðustu helgi við Vestmannaeyjar. Þar var bræla eins og sjá má en það er Vilhelm Þorsteinsson EA 10sem er á myndinni.

2410. Vilhelm Þorsteinsson EA 10. © Gundi 2018.

 

26.02.2018 18:36

Saltflutningaskipið Famita

Flutningaskipið Famita kom til Húsavíkur í morgun með salt til GPG og fór aftur um kaffileytið.

Famita var smíðað 2002, er 90 metra langt, 14 metrar á breidd og mælist 2,999 GT að stærð.

Siglir undir flaggi Bahamas með heimahöfn í Nassau.

Hét áður Arklow Ranger, sigldi undir hollenskum fána með heimahöfn í Rotterdam. 

Famita við Þvergarðinn í Húsavíkuhöfn. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

Famita siglir frá Húsavík. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

25.02.2018 22:24

Bjarni Ólafsson

Bjarni Ólafsson AK 70 á loðnumiðunum fyrir viku síðan. Fallegt veður á milli storma.

Bjarni Ólafsson var keyptur frá Noregi 2015 og bar áður heitið Fiskeskjer. Skipið var smíðað árið 1999 og er um 2000 brúttótonn að stærð, 67,4m að lengd og 13m að breidd.

Aðalvél  er 7500 hestöfl af gerðinni Wartsila. Burðargeta skipsins er 1980 tonn og er unnt að kæla allan aflann. 

2909. Bjarni Ólafsson AK 70 ex Fiskeskjer. © Þorsteinn Eyfjörð 2018.

25.02.2018 12:39

Wilson Linito

Wilson Linito kom til Húsavíkur með áburð í marsmánuði árið 2003.

Skipið var smíðað árið 2000, siglir undir Maltneskum fána með heimahöfn í Walletta.

Lengd þess er 113 metrar og breiddin 15 metrar. Mælist 4.200 GT að stærð.

Nafn þess í dag er Wilson Stadt en það nafn kom á skipið árið 2006.

Wilson Linito. © Hafþór Hreiðarsson 2003.

25.02.2018 00:28

Gústi í Papey

Rækjubáturinn Gústi í Papey SF 88 að koma til hafnar á Húsavík um árið.

Sigrún ÍS 900. Hann var fyrst í eigu Theodórs Nordquist og Svavars Péturssonar og síðar Ásrúnar hf. á Ísafirði. Hann var smíðaður í Finnlandi 1979 en keyptur hingað til lands 1986.

Báturinn var seldur til Ólafsvíkur og fékk nafnið Geir SH 217. 1994 var hann seldur til Hafnar í Hornafirði þar sem hann fékk nafnið Gústi í Papey Sf 88.

DV sagði svo frá þann 5. febrúar 1994:

Togveiðiskipið Gústi í Papey SF 88 kom til Hafnar á dögunum. Eigendur eru Þorvarður Helgason og Jón Hafdal ásamt eiginkonum þeirra.

Það er Útgerðarfélagið Papós sem gerir skipið út og verður fyrst farið á fiskitroll en síðan á rækju og humar.

Gústi í Papey hét áður Geir SH197 og skipinu fylgdu 400 tonna þorskígildiskvóti. Þorvarður Helgason verður skipstjóri en til gamans má geta þess að skipið heitir eftir afa hans.

Gústi í Papey var seldur frá Höfn til Raufarhafnar 1995 en þar staldraði hann stutt við og seldur úr landi 1996.

1739. Gústi í Papey SF 88 ex Geir SH. © Hafþór Hreiðarsson.

25.02.2018 00:19

Börkur

Börkur NK 122 hét áður Malene S frá Noregi og var keyptur hingað til lands í febrúar árið 2014.

Á heimasíðu Síldarvinnslunnar segir að Börkur NK hafi verið smíðað í Tyrklandi árið 2012. Skipið er 3588 tonn að stærð, 80,30 metr­ar að lengd og 17 m á breidd. Aðal­vél þess er 4320 KW af gerðinni MAK, auk þess er skipið búið tveim­ur ljósa­vél­um 1760 KW og 515 KW. Skipið er búið svo­kölluðum „Diesel Electric“-búnaði sem þýðir að hægt er að keyra það ein­göngu með ljósa­vél og kúpla út aðal­vél­inni.

Skipið er búið öfl­ug­um hliðar­skrúf­um 960 KW og er vel búið til tog-  og nóta­veiða.  Burðargeta skips­ins er 2500 tonn, skipið er búið öfl­ug­um RSW kæli­búnaði eða 2 millj­ón Kcal með ammoní­ak-kælimiðli. 

2865. Börkur NK 122 ex Malene S. © Þorsteinn Eyfjörð Friðriksson 2018.

24.02.2018 13:59

Ek Star

Svafar myndaði Ek Star yfirgefa dokkina í Avonmouth en þetta 135 metra langa skip var smíðað 1999.

Það er 21 metrar á breidd og mælist 8,829 GT að stærð.

Siglir undir fána Noregs með heimahöfn í Arendal.

Ek Star. © Svafar Gestsson 2018.

 

24.02.2018 11:24

Kap

Kap VE 4 á loðnumiðunum í síðustu viku. Kap var byggð í Stettin í Póllandi 1987 og hét upphaflega Jón Finsson RE 506. Lengdur árið 2000.

Síðar Hersir ÁR 4, Kap VE 4, Faxi RE 9 og aftur Kap VE 4.

1742. Kap VE 4 ex Faxi RE. © Þorsteinn Eyfjörð Friðriksson 2018.

 

 

23.02.2018 23:58

Aðalsteinn Jónsson

Þorsteinn frændi minn Eyfjörð skipverji á Hákoni EA 148 sendi mér nokkrrar myndir sem hann tók á loðnumiðunum fyrir sunnan land í síðustu viku. Hér kemur sú fyrsta sem sýnir Aðalstein Jónsson SU 11 með nótina á síðunni.

Aðalsteinn Jónsson hét áður Libas og var stærsta uppsjávarskip þeirra Norðmanna og byggt árið 2004, er 94 metrar að lengd og tæpir 18 metrar á breidd.

Skipið var smíðað í Fitjar Mek. Verksted í Noregi og er geysilega vel útbúið til veiða en skipið er einnig hannað til hafrannsókna og þjónustu við olíuleit.

Aðalvél skipsins er Wartsila 12V32, 6000 kw eða 8100 hestöfl og burðargeta er um 2400 m3 í 12 kælitönkum.

2929. Aðalsteinn Jónsson SU 11 ex Libas. © Þorsteinn Eyfjörð 2018.

23.02.2018 09:33

Bro Designer

Danska flutningaskipið Bro designer lá fyrir linsunni hjá Svafari í Avonmouth í gær. Skipið er smíðað 2006, 145 metra langt, 23 metra breitt og mælis 11.344 GT að stærð.

Heimahöfn þess er kóngsins Kaupmannahöfn.

Bro Designer. © Svafar Gestsson 2018.

 

Bro Designer. © Svafar Gestsson 2018.

22.02.2018 16:44

Haförn

Haförn ÞH 26 kemur að landi í dag en hann er á dragnót og stundar veiðarnar í Skjálfandaflóa.

1979. Haförn ÞH 26 ex Þorsteinn BA. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

22.02.2018 12:17

Keflvíkingur

Hér koma myndir af Keflvíkingi KE 100 og eins af bátnum undir þeim nöfnum sem það bar. Keflvíkingur KE 100, hét hann frá 1964 til 1994. Því næst Bergur Vigfús GK 53 til ársins 1999 þegar hann fær nafnið Marta Ágústsdóttir GK 31. 2012 fær hann nafnið Þórsnes SH 109. Keflvíkingur var fyrstur í röð átján báta sem þjóðverjar smíðuðu fyrir íslendinga í Boizenburg á árunum 1964-1967. 

Faxi, blað Málfundafélagsins Faxa sagði svo frá komu Keflvíkings í desembermánuði 1964: 

S.l. fimmtudag, 3. des., kom til Keflavíkur nýr bátur, Keflvíkingur KE 100, sem smíðaður er í Boisenburg í Þýzkalandi. 

Keflvíkingur er 260 lestir að stærð með 660 hestafla Lister Blackstone dísilvél og 10 mílna ganghraða. Tvö Asdicfiskileitartæki eru í bátnum, svo og dýptarmælir og ratsjá af Kelvin Hughson gerð og öll fullkomnustu og nýjustu siglingartæki. Íbúðir eru fyrir 15 menn í eins og tveggja manna herbergjum. Til nýmælis má telja, að sérstakur vökvaknúinn gálgi er fyrir kraftblökkina, sem notuð er við síldveiðar, og er gálginn gerður af norsku Rappverksmiðjunum, sem smíða kraftblakkirnar. Á heimleið fékk Keflvíkingur mjög vont veður og varð að leita vars við Færeyjar, en í þessu veðri reyndist báturinn afburða góður í sjó að leggja. 

Eigendur þessa nýja Keflvíkings eru hlutafélagið Keflavík h.f. og skipstjórinn, Einar Guðmundsson, að nokkrum hluta 

Skipið býr sig nú til síldveiða í Faxaflóa eða annars staðar þar, sem síldin er. 

Faxi býður hið glæsilega skip velkomið í skipakost Keflvíkinga. 

Síðasta nafn bátsins var Þórsnes SH 109 eins og segir að ofan, reyndar skráð SH 198 eftir að því var lagt. Það fór í pottin í Ghent í Belgíu um mitt ár 2017.

Á þessum 53 árum sem skipið var í íslenska flotanum var heimahöfn þess allan tímann á Suðurnesjunum fyrir utan þessi síðustu fimm sem það var með heimahöfn í Stykkishólmi.

 

967. Keflvíkingur KE 100. © Gunnar Hallgrímsson.

 

967. Keflvíkingur KE 100. © Sigfús Jónsson.

 

967. Bergur Vigfús GK 53 ex Keflvíkingur KE. © Hafþór Hreiðarsson.

 

967. Marta Ágústsdóttir GK 31 ex Bergur Vigfús GK 53. © Hafþór 2004.

 

967. Marta Ágústsdóttir GK 14 ex GK 31. © Hafþór Hreiðarsson 2009. 

967. Þórsnes SH 109 lætur úr höfn á Íslandi í síðasta skipti. © ÓFÓ 2017.

 

 

22.02.2018 11:38

Vega Philipp

Þetta 155 metra langa flutningaskip, Vega Philipp, myndaði félagi Svafar Gestsson í Avonmouth á Stóra-Bretlandi í gær.

Vega Philipp var smíðað árið 2007 og er eins og áður segir 155 metrar að lengd, breiddin er 21 meter og það mælist 8.971 GT að stærð.

Hét fyrsta árið Estime en síðan Beluga Mediation til ársins 20011 er það fær núverandi nafn. 

Vega Philipp siglir undir fána Möltu og er með heimahöfn í Valetta.

Vega Philipp ex Beluga Mediation. © Svafar Gestsson 2018.

 

 

21.02.2018 16:12

Polar Amaroq á Skjálfanda

Tók þessa mynd áðan sem sýnir grænlenska loðnuskipið Polar Amaroq á Skjálfanda en það tók eina roku þar inn og er nú komið út í flóann aftur þar sem nokkur norsk loðnuskip eru ennþá.

Í frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar í dag sagði m.a:

Polar Amaroq skipaði frystri loðnu um borð í flutningaskip í Norðfjarðarhöfn í gær en hélt síðan til veiða norður fyrir land þar sem norski loðnuflotinn hefur haldið sig. Heimasíðan ræddi við Geir Zoëga skipstjóra á Polar Amaroq í morgun en þá voru þeir Polarmenn með fyrsta kast á Skjálfanda. „ Við fundum loðnu strax og við komum hér og erum að draga núna. Það er eitthvað í þessu hjá okkur. Loðnan stendur djúpt en Norðmennirnir segja að hún komi upp á kvöldin. Mér líst bara vel á þetta en það var veðurútlitið sem gerði það að verkum að við fórum hingað norður fyrir land. Hér verður blíða á morgun og eftir morgundaginn hverfa norsku skipin á braut. Þá verðum við einir hér. Hrognafyllingin í loðnunni hérna er um 15% og það hentar okkur vel,“ sagði Geir.

Eins og fram kemur hjá Geir er einungis einn dagur eftir af þeim tíma sem Norðmenn mega stunda loðnuveiðar við landið. Eru allar líkur á því að þeir muni nánast ljúka við að veiða þann kvóta sem þeir hafa til ráðstöfunar á þeim tíma.

Polar Amaroq GR 18-49 ex Gardar. © Hafþór Hreiðarsson 2018.
Flettingar í dag: 470
Gestir í dag: 83
Flettingar í gær: 694
Gestir í gær: 121
Samtals flettingar: 9394395
Samtals gestir: 2007264
Tölur uppfærðar: 6.12.2019 12:53:16
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is