Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2018 Janúar

20.01.2018 22:59

Sólfari

Þessa mynd af Sólfara AK 170 tók ég á Breiðafirði um árið. Sólfari hét upphaflega Arinbjörn RE 54 og var smíðaður á Akureyri 1971.

Dagur sagði svo frá þegar Arinbjörn var sjósettur þann 2. apríl 1971:

TVEIR nýir fiskibátar voru sjósettir í Slippstöðinni í gær í blíðskaparveðri að viðstöddu fjölda fólks. Bátar þessir hlutu nöfnin Arinbjörn RE 54 og Sigurbergur GK 212. Arinbjörn er smíðaður fyrir Sæfinn h.f. í Reykjavík og er hann 150 brúttólestir, en Sigurbergur er smíðaður fyrir Sigurberg h.f. í

Hafnarfirði og hann er 110 brúttólestir að stærð.

Kjölur var lagður að báðum bátunum í byrjun október sl. og hefur smíði þeirra gengið samkvæmt áætlun. Arinbjörn RE verður fullsmíðaður hjá Slippstöðinni.

Hann verður með 600 ha. Alphadísilvél, togvinda og línuvinda eru smíðaðar hjá Vélsmiðju Sigurðar Sveinbjörnssonar h.f. Auk þess verður báturinn með

kraftblökk.

Sigurbergur GK verður dreginn suður til Hafnarfjarðar, þar sem lokið verður smíði hans, í Skipasmíðastöðinni Dröfn h.f.

Báðir bátarnir verða búnir öllum helztu fiskileitartækjum og útbúnir fyrir línu-, neta- og togveiðar.

Sjósetningin í dag gekk eins og bezt verður á kosið, bátarnir runnu út á flóðinu laust eftir kl. 3, með örstuttu millibili.

Tveir dráttarbátar biðu þeirra fyrir utan. Veður var gott og fjöldi fólks viðstatt.  

 

Arinbjörn hét síðar Elías Steinsson VE 167, Fagurey SH 71, Sólfari AK 170, Lómur SH 177,  Lómur BA 257,  Jón Klemenz ÁR 313,  Trausti ÁR 313,  Hrausti ÁR 313, Látraröst ÍS 100, Látraröst GK 306, Sólfari RE 16 ogSólfari SU 16.

Afskráður og tekinn úr rekstri 23.05.2008. 

Í 12. tbl. Ægis 191 sagði:

Í apríl mánuði s.l. hljóp af stokkunum nýtt 149 brl. stálfiskiskip hjá Slippstöðinni h.f. á Akureyri og hlaut það nafnið Arinbjörn RE 54. Skipið er um 31 m. langt, 6.70 m. breitt og 3,35 m. djúpt. Það er útbúið til línu-, neta-, tog- og nótaveiða og í því eru öll fullkomnustu fiskleitar- og siglingatæki og má þar nefna 2 Kelvin Hughes radara 48 smál. og 68 smál., Simrad S. K. 3 asdic, Kelvin Hughes fisksjá, Kodan miðunarstöð og Kelvin dýptarmæli Aðalvélin er 660 hö Alpha, ljósavélar eru 2 af Mercedes Benz gerð 57 hö. hvor og stærð rafala 37 KW. Togvindan er smíðuð af Sigurði Sveinbjarnarsyni Garðahreppi (stærð 16 tonn). Kælibúnaður er í lestum og einnig í línu- og beitugeymslu. Vistarverur eru fyrir 12 manna áhöfn. Eigandi hins nýja skips er Sæfinnur h.f., Reykjavík, og óskar Ægir eiganda til hamingju með hinn nýja farkost. 

 

1156. Sólfari Ak 170 ex Fagurey SH. © Hafþór Hreiðarsson 1987.
 

20.01.2018 12:19

Haförn og Karólína

Hér koma myndir sem ég tók í vikunni þegar dragnótabáturinn Haförn ÞH 26 kom að landi á Húsavík. Í sama mund var línubáturinn Karólína ÞH 100 að leggja í róður og mættust bátarnir í innri höfninni.

1979. Haförn ÞH 26 ex Þorsteinn BA. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

1979. Haförn ÞH 26 - 2760. Karólína ÞH 100. © Hafþór Hreiðarsson 2018.
 

20.01.2018 11:56

Hraunsvík

Hér er Hraunsvík GK 68 að koma til hafnar í Grindavík um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Hraunsvík hét upphaflega Akurey SF 52 og var smíðuð í Danmörku 1956.

Svo sagði frá í Morgunblaðinu 12. apríl 1956:

Tveir nýir bátar komu til Hornafjarðar í gær. Eru þeir báðir af sömu gerð og stærð, 53 smálestir með 230 hestafla Dams-dísilvél. Þeir eru búnir öllum  nýtízku vélaútbúnaði og m. a. er sími í öllum vistarverum skipverja.

Bátarnir voru smíðaðir í Faaborg á Fjóni og heita Akurey og Helgi. Bjarni Runólfsson og Guðni Jóhannesson sigldu bátunum hingað til lands, en eigendur eru Tryggvi Sigjónsson og Ólafur Ruhólfsson. 

Bátarnir búast nú á vertíð. 

Þarna stendur að í bátunum hafi verið Dams dísilvélar en í Íslensk skip segir að í Akurey hafi verið Deutz.

Saga Akureyjar nær amk. til ársins 1988 þegar Samherji kaupir hana til að auka kvóta sinn.

Saga Helga SF 50 eru öllu styttri og sorglegri en báturinn fórst á Færeyjarbanka 1961. Af níu manna áhöfn björguðust tveir í gúmíbjörgunarbát og þaðan í skoska línuskipið Verbena frá Kirchhaldy (Íslensk skip).

Akurey hét eftirfarandi nöfnum: Akurey SF 52 til 1962. Rán SU 58 til 1967. Gissur ÁR 6 til 1970 og þá Hraunsvík GK 68.

727. Hraunsvík GK 68 ex Gissur ÁR. © Hafþór Hreiðarsson.

20.01.2018 00:18

Haukur

Hér liggur Haukur GK 134 við bryggju í Sandgerði og þegar þarna var komið var nýr Haukur búinn að leysa hann af hólmi. Ef ég man rétt.

Haukur hét upphaflega Framtíðin KE 4 á íslenskri skipaskrá.

Í 13. tbl. Ægis 1974 sagði m.a um komu þriggja togara til landsins:

17. apríl bættist skuttogari í flota Keflvíkinga, Framtíðin KE 4. Skuttogari þessi, sem áður bar nafnið Øksfjord, er keyptur frá Noregi en er byggður árið 1970 hjá A/S Storviks Mek. Verksted Kristiansand, nýbygging nr. 37.

Framtíðin KE er sömu gerðar og Dagstjarnan KE, svonefnd R-155 A gerð. Þess má geta, að Stálvík h.f. Garðahreppi hefur byggt einn skuttogara eftir þessari teikningu frá „Storviks", Stálvík SI 1 og fljótlega mun annar skuttog-ari af þessari gerð hlaupa af stokkunum hjá Stálvík h.f.

Framtíðin KE er í eigu Fiskmiðlunar Suðurnesja h. f., en aðalhluthafar fyrirtækisins eru Hraðfrystihús Ólafs Lárusonar og Sjöstjarnan h.f. 

Togarinn hét Øksfjord í upphafi en fær nafnið Framtíðin 1974 sem hann ber til ársins 1981 þegar Valbjörn hf. í Sandgerði kaupir hann. Þá fær nafnið sem hann ber á myndinni en er GK 25 þangað til útgerðin keypti Snoddið sem fær nafnið Haukur GK 25.  Hann verður GK 134 en heldur Hauksnafninu sem hann bar til ársins 1993. Þá fékk togarinn nafnið Chapoma og er skráður í Montevideo í Uruguay. Hann mun hafa verið skráður í Rússlandi áður en hann var skráður í Uruguay. 

1378. Haukur GK 134 ex GK 25. © Hafþór Hreiðarsson.

 

19.01.2018 16:09

Guðrún Þorkelsdóttir

Hér koma tvær myndir sem Sigfús Jónsson tók um árið af Guðrúnu Þorkelsdóttur SU 211 á loðnuveiðum. Smíðuð á Akranes 1969 og hét upphaflega Helga Guðmundsdóttir BA 77 frá Patreksfirði.

Seld til Eskifjarðar 1982 og eftirfarandi frétt birtist í Dagblaðinu-Vísi 3. mars það ár:

Aflaskipið Helga Guðmundsdóttir hefur verið selt til Eskifjarðar og fór afhending skipsins nýlega fram. Hinir nýju eigendur eru Hraðfrystihús Eskifjarðar hf., sem á 75% og Ísak Valdimarsson, sem á 25%.

Þessir tveir aðilar hafa stofnað hlutafélag, sem rekur skipið. Það heitir Hólmaborg hf. 

Skipið heitir nú Guðrún Þorkelsdóttir SU 211. Það er nefnt eftir móður Aðalsteins Jónssonar útgerðarmanns, Alla ríka.

Guðrún Þorkelsdóttir SU er nú á netaveiðum, en skipstjóri er aflaklóin Ísak Valdimarsson.   

Skipið hét um tíma Seley ÞH 381 en heitir í dag Jóhanna Gísladóttir GK 7.

1076. Guðrún Þorkelsdóttir SU 211 ex Helga Guðmundsdóttir BA. © SJ.

 

1076. Guðrún Þorkelsdóttir SU 211 ex Helga Guðmundsdóttir BA. © SJ

18.01.2018 22:16

Í brúnni

Hér faðir minn, Hreiðar Olgeirsson, í brúarglugganum á Kristbjörgu ÞH 44, þeirri nr. 2 í röð fjögurra báta sem báru það nafn og númer. Sá bátur var sá fyrsti sem hann var með en þá hét hann Kristbjörg II ÞH 244.

Í dag eru tvö ár síðan hann lést en hann var sjómaður alla sína tíð, lengst af á fiskveiðum en frá árinu 2002 hjá Norðursiglingu þar sem hann sigldi með ferðamenn í hvalaskoðun. Utan ferðamannatímans vann hann við viðhalda báta og fasteigna Norðursiglingar.

Hreiðar Olgeirsson f. 26. maí 1943 d. 18. janúar 2016.

 

18.01.2018 17:38

Sigþór

Hér kemur mynd af Sigþóri ÞH 100 koma að bryggju á Húsavík. Þetta var tekið 1980 eða svo en skipið var keypt til Húsavíkur sumarið 1977.

Í Morgunblaðinu 7. júlí það ár sagði frá því að tveir nýir bátar hefðu verið keyptir til Húsavíkur það sumar. Annar var Þengill ÞH 114 en hinn var Sigþór og um hann sagði: 

 

Útgerðarfélagið Vísir, gamalt og þekkt útgerðarfélag, keypti 168 tonna bát, sem nú ber nafnið Sigþór, en hét áður Sigurpáll. Báturinn skemmdist í eldi, en hefur nú allur verið endurbyggður, og sett í hann öll ný leitar- og siglingartæki. Skipstjórar á honum verða Hórður Þórhallsson og Ingvar Hólmgeirsson, en þeir skiptast á skipstjórn og framkvæmdastjórn í landi. Vélstjóri er Dagbjartur Sigtryggsson. Sigþór mun bráðlega hefja línu- eða netaveiðar, en þessi útgerð verkar sjálf mest af sinum afla í salt.

Svan ÞH 100, sem Vísir átti, hefur Guðmundur A. Hólmgeirsson keypt og gerir hann bátinn út frá Húsavík áfram.

 

185. Sigþór ÞH 100 ex Sigurpáll GK. © Hafþór Hreiðarsson.

18.01.2018 15:32

Cape Race

Eiki myndaði þennan í Kaldfjørd þar sem hann var í siglingu með ferðamenn um hvalaslóðir. Man eftir myndum af honum þar sem hann lá í Reykjavík.

Smíðaður 1963 í skipasmíðastöðinni George T. Davie & Sons, Quebec sem togari en hér má lesa allt um skipið sem gert var út frá Nýfundnalandi.

Cape Race © Eiríkur Guðmundsson 2018.

18.01.2018 15:14

Frosti II

Hér er verið að byggja yfir Frosta II ÞH 220 frá Grenivík á Akureyri. Frosti, mikið aflaskip, var smíðaður í Hafnarfirði 1969. Hét upphaflega Arney SH 2 frá Stykkishólmi. Síðar Arney KE 50, tæpt ár hét hann Jón Sör ÞH 220 frá Húsavík, og þá Frosti II. Síðar var hann Eyrún frá Hrísey þar til hann var seldur til Noregs. 

 

17.01.2018 17:43

Dagatalið

Ég þarf að panta mér eitt eintak af dagatali Skipamynda og datt í hug að athuga hvort einhverjir fleiri hefðu áhuga.

 

Ef áhugi er á því má panta á korri@internet.is fyrir föstudag. Verðið er 3000 kr.

 

 

 

Forsíða dagatalsins 2018.

17.01.2018 13:44

Kapitan Varganov á Akureyri

Þessa mynd af Kapitan Varganov MK-0354 tók Haukur Sigtryggur á Akureyri í fyrradag. Togarinn, sem er með heimahöfn í Murmansk, var smíðaður í Vigo á Spáni 1993 og hét áður Hekktind. 

Kapitan Varganov MK-0354. © Haukur Sigtryggur 2018.

16.01.2018 17:09

Lýtingur

Lýtingur NS 250 á heimleið frá Hull vorið 1989. Upphaflega Þorsteinn RE 303 en er línuskipið Kristín GK í dag og er í eigu Vísis hf. í Grindavík.

972. Lýtingur NS 250 ex Stjörnutindur SU. © Hafþór Hreiðarsson 1989.

16.01.2018 15:40

Litli gefur stóra

Þessa mynd tók Eiki á dögunum í Kaldfjørd og sýnir hún Storstein ST-94-AA og Trønderbas NT-500-V. Sá litli er á síldveiðum og með nótina á síðunni og sá stóri er að þiggja úr henni.

Trønderbas var smíðaður 1999 og er 68 metra langur og 14 metra breiður. Storstein er 13 metra langur og 5 metra breiður.

Storstein ST-94-AA - Trønderbas NT-500-V. © Eiríkur Guðmundsson 2018.

15.01.2018 15:33

Rennebåen

Eiki tók þessa mynd um helgina í Kaldfjørden og sýnir hún Rennebåen T-373-T á siglingu. Rennebåen var smíðaður 1988 og er um 10 metra langur.

Rennebåen T-373-T. © Eiríkur Guðmundsson 2018.

14.01.2018 19:02

Robris

Brunnbáturinn Robris frá Álasundi í Noregi kom nokkrar ferðir til Grindavíkur sumarið 2012 til þess að sækja seiði.
Jón Steinar myndaði hann kom í fyrsta skiptið 8. Júlí 2012 og kom hann inn til Grindavíkur til þess að láta taka út lestina af þar til bærum mönnum. 

Báturinn fór síðan út frá Grindavík og lagðist fyrir ból og akkeri neðan við fiskeldi Samherja úti á Stað og þaðan var lögð leiðsla um borð í bátinn og seiðunum dælt beint um borð.

Robris © Jón Steinar 2012.

 

Robris. ©. Jón Steinar 2012.
Flettingar í dag: 83
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 1100
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 9395824
Samtals gestir: 2007453
Tölur uppfærðar: 8.12.2019 01:53:56
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is