Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2017 Desember

23.12.2017 00:56

Drangey

Kíkti á Marintraffíkið áðan og það eru flest skip komin til hafnar fyrir jólahátíðina. Drangey SK 2 var á siglingu inn Skagafjörðinn til heimahafnar á Sauðárkróki. Hún hefur verið á Akranesi frá því í haust þar sem settur var  vinnslubúnaður í hana.

Drangey er eitt þeirra skipa sem prýða dagatal Skipamynda 2018 en nokkur eintök eru eftir úr fyrstu prentun. 

Áhugasamir geta pantað dagatalið á korri@internet.is eða í skilaboðum á fésbókarsíðu minni.

Verð 3000 kr.

2893. Drangey SK 2. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

20.12.2017 18:51

Notos

Flutningaskipið Notos kom til Húsavíkur í fyrrinótt en það er með kolafarm fyrir PCC á Bakka. 

Notos var smíðað 2004 í Tyrklandi og hét áður Azerbaycan. 125 metra langt og 16 metra breitt með heimahöfn í St. John's á Antigua and Barbuda.

Notos ex Azerbaycan. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

19.12.2017 20:37

Múlaberg

Skipin eru farin að koma til hafnar fyrir hátíðarnar og hér liggur Múlabergið prýtt jólaljósum á Siglufirði.

1281. Múlaberg SI 22 ex ÓF. © Gundi 2017.

18.12.2017 18:51

Stormur kominn heim

Línuskipið Stormur HF 294 kom til hafnar í Reykjavík um hádegisbil í dag eftir heimsiglingu frá Póllandi með viðkomu í Þórshöfn, Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjum.

Skipaáhugamenn hafa fylgst með framvindu breytinga á þessu skips undanfarin misseri á fésbókarsíðu þess þar sem það hafði vinnuheitið Lurkurinn.

2926. Stormur HF 294 ex Arctic Leader. © Þórarinn Guðni Sveinsson 2017.

 

Þórarinn Guðni Sveinsson tók meðfylgjandi myndir í dag og kann ég honum bestu þakkir fyrir afnotin.

 

Fiskifréttir birtu eftirfarandi viðtal við Steindór Sigurgeirsson framkvæmdarstjóra Storms Seafood fyrir nokkrum vikum:

Íslandsmet sett í lengingu 

Árið 2005 hófst smíði á skipi á Nýfundnalandi sem átti að átti að gera þaðan út á rækju og grálúðunet. Skipið féll inn í ákveðna reglugerð sem var í gildi þar í landi og var 25 metrar á lengd og 9,20 metrar á breidd. Til stóð að skrá hann í þessari lengd en síðan að lengja hann. Smíðin var fjármögnuð af Landsbankanum og í hruninu komst það í eigu þrotabús bankans. Þá hafði verð lokið við um 80% af smíði skipsins. Það hafði verið til sölu í mörg ár þegar Stormur Seafood keypti það loks árið 2015.

„Við komumst að þeirri niðurstöðu að þetta væri fyrirtaks skip til að breyta. Skipið var nýtt og ónotað. Við sömdum við Landsbankann og fengum það á ágætu verði,“ segir Steindór Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Storms Seafood.

Hagkvæmara en að kaupa nýtt skip

Skipið var dregið frá Nýfundnalandi til Gdansk í Póllandi og tók ferðin mánuð. Upphaflega hugmyndin var sú að breyta því í dragnótarskip en hún þróaðist á þann hátt að gera úr því línu- og netaskip.

Heil Facebook síða er helguð skipinu sem þar gengur undir nafninu Lurkurinn. Tvö ár tók að breyta skipinu. Það var skorið í tvennt um miðjuna og lengt um 23 metra. „Þetta er Íslandsmet í lengingu. Eyborg ST átti fyrra met en það var lenging upp á 19 metra.“

Steindór segir að fjárhagslega hafi það komið betur út að láta breyta skipinu en að kaupa nýtt.

Lengingin var smíðuð í annarri skipasmíðastöð og henni skeytt saman við skipið.

Rafdrifið brunnskip

„Þetta var flókið verkefni.  Teikningar af upphaflega skipinu voru af skornum skammti og það þurfti að vinna mjög mikla vinnu í að koma slíkum málum í góðan farveg  áður en hafist var handa við breytingarnar.   En nú er skipið tilbúið til notkunar og við erum mjög ánægðir með útkomuna. Upphaflega var það hannað til að vera rafdrifið, en við vorum ekki sáttir við þann drifbúnað sem fylgdi skipinu.   Þess vegna keyptum  við og settum í það Scana Volda rafmótor, en héldum þremur nýjum Caterpillar ljósavélum sem í upphaflega skipinu voru. Þær drífa áfram drifmótorinn og sinna öðrum orkuþörfum skipsins. Við áætlum að olíueyðsla skipsins sé um helmingi minni en í hefðbundnu skipi af svipaðri stærð,“ segir Steindór.

Þetta er nýjung hér á landi en þekkt, t.a.m. í Noregi. Það sem einnig vinnst við það að hafa skipið rafdrifið er að lestarrýmið verður mjög stórt miðað við skip af þessari stærð. Hægt er að koma fyrir í lestinni 456 kerum með samtals um 140 tonn af ferskum fisk og um 400 tonn af frystri afurð.

„Lestin er því litlu minni en í nýjum togurum HB Granda. Í norskum bátum hefur þekkst í mörg ár að draga línuna í gegnum miðjubrunn en á skipinu okkar er hliðarbrunnur, sem er einnig þekkt tækni frá Noregi og hefur verið notuð í á annan áratug þar með góðum árangri. Fiskurinn fer því nánast aldrei upp úr sjó heldur í gegnum lúgu á hliðinni. Þetta eykur til muna öryggið til sjós þar sem enginn stendur í lúgu við línudrátt, nema til að taka færi.   Einnig heyra goggstungur sögunni til með þessu kerfi og því mun betra hráefni sem skilar sér til vinnslu.“

Skipið er með nýrri beitningarvél frá Mustad og nánast sama kerfi og í norska línubátnum Loran sem hefur verið aflahæsti línubáturinn í Noregi í mörg ár.

„Við munum nú á endanum líklega aldrei gera þetta skip út því ég hef ákveðið að selja það og fyrirtækið Storm Seafood einnig. Fyrir því liggja ýmsar, persónulegar ástæður,“ segir Steindór.

 

2926. Stormur HF 294 ex Arctic Leader. © Þórarinn Guðni Sveinsson 2017.

 

2926. Stormur HF 294 ex Arctic Leader. © Þórarinn Guðni Sveinsson 2017.

 

2926. Stormur HF 294 ex Arctic Leader. © Þórarinn Guðni Sveinsson 2017.

 

Arctic Leader © Fésbókarsíða Lurksins 2016.

18.12.2017 18:41

Óli á Stað

Gundi tók þessa mynd af línubátnum Óla á Stað GK 99 á Siglufirði í gær. 

Óli á Stað var smíðaður hjá Seiglu á Akureyri og hóf veiðar í vor. Hann hefur verið við veiðar úti fyrir Norðurlandi sem og Austurlandi til þessa og landað mest á Siglufirði og Neskaupsstað..

 
2842. Óli á Stað GK 99. © Gundi 2017.

18.12.2017 14:10

Ný Cleopatra 36 til Troms

Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi nú á dögunum nýjan Cleopatra bát til Nord-Lenangen í Tromsfylki í Noregi.

Kaupandi bátsins er Terje Moltubakk sem jafnframt verður skipstjóri á bátnum.

Báturinn hefur hlotið nafnið Sara Louise.  Báturinn mælist 14brúttótonn.  Sara Louise er af gerðinni Cleopatra 36.

Aðalvél bátsins er af gerðinni Scania D13 650hp tengd ZF V-gír.  Í bátnum er Nanni ljósavél.  Báturinn er útbúinn fullkomnum siglingatækjum af gerðinni Furuno.

Báturinn er einnig útbúin með tveimur vökvadrifnum hliðarskrúfum sem tengdar eru sjálfstýringu bátsins.  Báturinn er útbúinn til línuveiða.

Veiðibúnaður kemur frá Noregi.

Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking-björgunarbúnaði.

Rými er fyrir 15stk 380lítra kör í lest.  Fullkomin eldunaraðstaða auk borðsals er staðsett í brúnni.  Svefnpláss er fyrir þrjá í lúkar.  Salerni með sturtu er í lúkar. 

Báturinn hefur þegar hafið veiðar.

Sara Louise T-24-L. © Trefjar.is 2017.

17.12.2017 22:39

Björg með jólaljósin

Hér liggur Björg EA 7 ljósum prýdd á Akureyri. Tekið í dag.

2894. Björg EA 7. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

17.12.2017 22:06

Gissur hvíti

Hér er verið að landa úr línuskipinu Gissuri hvíta SF 55 á Húsavík en þetta var í marsmánuði 2002.

Gissur hvíti hét upphaflega Hafrenningur GK 38, smíðaður 1976 í Danmörku, en keyptur hingað til lands árið 1982. Hans fyrra nafn var Michelle Cherie.

 

Í Morgunblaðinu 3. júní 1982  var örlítil klausa sem sagði frá komur Hafrennings til Grindavíkur:

Á mánudagsmorgun kom til Grindavíkur ms. Hafrenningur GK 38, eign Hafrennings hf. í Grindavík. Skipið, sem er 296 smálestir, er smíðað í Danmörku 1976 og var keypt þaðan.

Hafrenningur verður gerður út á net og troll frá Grindavík.

Hafrenningur kemur í skiptum fyrir Sigfús Bergmann frá Grindavík, sem var eign sama aðila, Og gekk Upp í kaupin. 

 

Skipið hefur verið í Kanada síðan árið 2005 og heitir í dag Sikuvut.

1626. Gissur Hvíti SF 55 ex Vigdís Helga VE. © Hafþór Hreiðarsson 2002.

16.12.2017 18:43

Súlan, Kolbeinsey og Hilmir

Ég hef áður birt myndir sem Árni Vilhjálmsson á Húsavík gaf mér en þær tók hann þegar Kolbeinsey ÞH 10 var sjósett hjá Slippstöðinni á Akureyri. Súlan var notuð til að draga hana að bryggju og eitthva var Hilmir Su 171 að snúlla þarna.

Í Morgunbalðinu 3. febrúar 1981 sagði:

Hinn nýi togari Húsvíkinga, sem nú er í smíðum i Slippstöðinni á Akureyri, verður væntanlega sjósettur 7. febrúar næstkomandi, að því er segir í Víkurblaðinu á Húsavik. 

Togaranum hefur verið  valið nafnið Kolbeinsey og mun bera einkennisstafina ÞH 10. Kolbeinsey er 500 tonna skip, sem taka á 160—180 tonn í kassa. 

Skipstjóri á Kolbeinsey verður Benjamín Antonsson.

Kolbeinsey komin á flot. © Árni Vihjálmsson 1981.

16.12.2017 15:33

Ijsseldijk

Hollenska flutningaskipið Ijsseldijk kom til hafnar á Húsavík eftir hádegi í dag en skipið er með hráefnisfarm fyrir PCC BakkaSilikon. Ijsseldijk var smíðað 2009 og er 90 metra langt og 14 metrara á breidd. Heimahöfnin er Groningen.

Ijsseldijk ex Jrs Aqarius. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

 

16.12.2017 10:52

Járngerður

Hér kemur mynd Þorgríms Alla af Járngerði GK 477 láta úr höfn í Grindavík. Járngerður hét upphaflega Björgúlfur EA 312 og var einn af a-þýsku tappatogurunum.

Björgúlfur var smíðaður 1959 og eignaðist Útgerðarfélag Dalvíkur hf. skipið í maímánuði 1960. Í nóvember 193 var það selt Hópsnesi hf. í Grindavík og fékk nafnið Járngerður.

Járngerður sökk 16.  febrúar 1975 út af Jökulsá á Breiðamerkursandi en hún var á loðnuveiðum, áhöfnin 13 manns, bjargaðist um borð í Þorstein RE 303.

 

Í Vísi þann 17. febrúar 1975 sagði svo frá:

JÁRNGERÐUR FANNST SOKKIN í MORGUN

Liggur skammt vestan Jökulsár á Breiðamerkursandi Járngerður GK 477 fannst í morgun sokkin um 3-400 metra undan landi, sem næst tvær mílur vestan ósa Jökulsár á Breiðamerkursandi. 

Það var björgunarskipið Goðinn, sem fann Járngerði.

Skipið var eitt af „tappatogurunum" svonefndu, sem smíðaðir voru 12 talsins í Stralsund i Austur-Þýzkalandi árið 1958 230 brúttólestir að stærð samkvæmt Skipaskrá Siglingamálastofnunarinnar.

Talið er, að Járngerður hafi fengið á sig brotsjó i vonzkuveðri á sjötta tímanum i gærkvöldi, en var þá á leið austur með landinu og var nokkru vestan við Jökulsárósa. Skipið hafði tilkynnt

180 tonna loðnuafla. Járngerður lagðist snögglega á hliðina, og ekki var um annað að ræða en að yfirgefa hana þegar í stað. Skipverjar, 13 talsins, komust i gúmbát og yfir í Þorstein RE, sem var þar nærstaddur. Þrátt fyrir mikla veðurhæð gekk það áfallalaust. Þorsteinn RE kom til Seyðisfjarðar um fimmleytið i nótt og var ætlunin, að skipbrotsmenn kæmust suður í dag.

Útgerðarfélagið, Hópsnes hf. og Samvinnutryggingar báðu Björgunarsveit Slysavarnafélags Íslands á Höfn i Hornafirði að huga að skipinu við Jökulsárósa, með það fyrir augum að reyna að bjarga þvi, ef það ræki upp. Björgunarsveitarmenn héldu á staðinn i gærkvöldi en sáu ekkert fyrir nætursorta og stórbrimi. Þeir héldu þá til Fagurhólsmýrar en ætluðu að fara aftur að ósunum með morgninum. 

Sambandslaust var við Fagurhólsmýri i morgun, en loftskeytastöðin á Höfn fékk svo á tíunda tímanum þær fréttir frá Goðanum, að Járngerður væri fundin.

                 

26. Járngerður GK 477 ex Björgúlfur EA. © Þorgrímur Aðalgeirsson.

 

 

14.12.2017 21:37

Dagatalið komið út

Þá er skipamyndadagatalið 2018 komið út eins og sjá má á myndinni sem Haukur Sigtryggur sendi mér eftir að honum hafði borist það í pósti í dag.

Það var úr nógu að velja hvað varðar nýju skipin og þau sem ekki komust að núna verða vonandi á næsta dagatali eða þar næsta. Hvað veit maður. Annars eru bæði ný ög gömul skip og bátar á dagatalinu að venju en þetta er í níunda skiptið sem ég stend í þessu.

Stykkishólmur kemur við sögu á dagatalinu, tveir bátar þaðan eru á því og einn sem var smíðaður þar.

Áhugasamir geta pantað dagatalið á korri@internet.is eða í skilaboðum á fésbókarsíðu minni.

Verð 3000 kr. stk án vsk.

Dagatal Skipamynda Hafþórs Hreiðarssonar 2018. © Haukur Sigtryggur.

14.12.2017 16:06

Anna og Unnsteinn

Hér koma myndir sem Haukur Sigtryggur tók í febrúar sl. þegar línuskipið Anna EA 305 lét úr höfn á Dalvík eftir löndun. Og ég læt eina mynd fylgja af Unnsteini skipstjóra á Önnu sem ég tók í Scoresbysundi á Grænlandi í haust.

2870. Anna EA 305 ex Carisma Star. © Haukur Sigtryggur 2017.

 

2870. Anna EA 305 ex Carisma Star. © Haukur Sigtryggur 2017.

 

2870. Anna EA 305 ex Carisma Star. © Haukur Sigtryggur 2017.

 

Unnsteinn Líndal Jensson. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

 

 

14.12.2017 14:37

Selfoss

Selfoss, skip Eimskipafélagsins, kom til Húsavíkur í gær og tók ég þá þessar myndir. Skipið skartar tveimur nýjum krönum sem settir voru á það í október sl. en það var kranalaust fyrir.

Selfoss er 700 gámaeininga skip, 130 metra langur, og siglir undir færeyskum fána.

Eimskip keypti skipið , sem smíðað var 2008, fyrr á þessu ári en það hét áður Sophia.

Selfoss við Bökugarðinn á Húsavík. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

Selfoss. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

13.12.2017 17:45

Onni aftur

Hér kemur önnur mynd af Onna HU 36 sem ég tók í dag þegar hann kom að landi á Húsavík. 

Onni hét upphaflega Sæþór EA 101 og var smíðaður í Hafnarfirði 1973 fyrir Snorra Snorrason á Dalvík.

1318. Onni HU 36 ex Svanur KE. © Hafþór Hreiðarsson 2017.
Flettingar í dag: 451
Gestir í dag: 126
Flettingar í gær: 595
Gestir í gær: 109
Samtals flettingar: 9396787
Samtals gestir: 2007661
Tölur uppfærðar: 9.12.2019 20:06:47
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is