Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2017 Desember

31.12.2017 23:26

Áramótakveðja Skipamynda

 

31.12.2017 16:23

Stjarnan og Ólafur Tryggvason

Á þessari mynd Ágústs Guðmundssonar sem hann tók á Höfn í Hornafirði má sjá Stjörnuna RE 3 og utan á henni Ólafur Tryggvason SF 60. Í fjarska er Gissur hvíti SF 55 að ég held.

Ólafur Trygvason SF var smíðaður í Noregi 1960 fyrir Tryggva Sigjónsson h/f  á Hornafirði. 1976 er báturinn seldur til Hafnarfjarðar þar sem hann fær nafnið Hringur GK 18. Kaupendur Aðalsteinn og Helgi Einarssynir og Ingimundur Jónsson. Hringur var lengdur 1978.

Selt í júní 1980 Blikamönnum á Dalvík og þar fær hann Blikanafnið og EA 12. Yfirbyggður og skipt um brú 1985 að mig minnir. Síðar fékk hann nöfnin Arnar ÁR 55, Sólrún EA 351, Arnar SH 157 og Fiskaklettur HF 123 áður en hann var seldur til Noregs. 

Stjarnan RE 3 var smíðuð í Svíþjóð 202. Stjarnan 1947 fyrir Ríkissjóð Íslands. Eigandi frá 1949 var Sjöstjarnan h/f í Reykjavík. 1966 er það komið í eigu Sjöstjörnunnar h/f í Njarðvík og 1975  selt austur á Höfn og fær nafnið Svalan SF 3. Eigendur Sigtryggur Benediktz Höfn og Bjarni Jónsson Kópavogi.

1980 er skráður eigandi Svalan h/f Hofn í Hornafirði og sama ár fær það nafnið Jón Bjarnason SF 3. Báturinn strandaði og sökk nálægt Papey 12. okt. 1982. Áhöfnin, 9 manns, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í Sturlaug II frá Þorlákshöfn. Heimild: Íslensk skip.

202. Stjarnan RE 3 - 162. Ólafur Tryggvason SF 60. © Ágúst Guðmundsson.

31.12.2017 14:15

Norðursiglingarflotinn

Hér koma myndir af bátum Norðursiglingar eins og þeir litu út þegar þeir komu til Húsavíkur í fyrsta skipti, þe.a.s í eigu NS. Undantekningar eru þó myndir af þrem fyrstu bátunum en þær sýna hvernig bátarnir litu út þegar þeir voru keyptir. Eins og sjá má af myndunum var ásatandið skrautlegt á þeim sumum en aðrir í góðu lagi.

Donna Wood er höfð með þó hún sé ekki á íslenskri skipaskrá enda er hún í eigu NS.

306. Hrönn EA 258. Í dag Knörrinn. © Hafþór Hreiðarsson 1994.

 

1292. Haukur ÍS 195. Í dag skonnortan Haukur. © Hafþór Hreiðarsson 1996.

 

Byrefjell. í dag Náttfari. © Hafþór Hreiðarsson 1998.

 

1417. Bjössi Sör ex Breiðdælingur SU. © Hafþór Hreiðarsson 2002.

 

260. Sveinbjörn Jakobsson SH 10. - Í dag Garðar. © Hafþór 2006.

 

1354. Héðinn HF 28 - í dag skonnortan Hildur. © Hafþór Hreiðarsson 2008.

 

1438. Salka - Andvari í dag. © Hafþór Hreiðarsson 2012.

 

2851. Opal. © Hafþór Hreiðarsson 2013.

 

Donna Wood. © Hafþór Hreiðarsson 2015.

 

1475. Sæborg ex Áróra. © Hafþór Hreiðarsson 2016.

 

31.12.2017 12:13

Haförn

Hér kemur mynd síðan ég var á svarthvíta skeiðinu í ljósmyndadellunni og sýnir Haförn ÞH 26 koma að landi á Húsavík. Þetta var sennilega 1995-6.

Haförn hét upphaflega og lengst af Fram ÞH 171, 7 brl. að stærð smíðaður 1973 af Baldri Halldórssyni á Hlíðarenda við Akureyri fyrir feðgana Sigurð Jónsson og Ólafur Ármann Sigurðsson á Húsavík.

Á vef Árna BJörns Árnasonar, aba.is, segir að þeir feðgar hafi átt bátinn saman í nítján ár en Sigurður síðan einn í fjögur ár til viðbótar. 

Frá árinu 1992 hét báturinn Haförn ÞH-26, Húsavík og Sigurður þá einn eigandi. 
Frá árinu 1996 hét hann Haförn GK-142. Garði Reykjanesi.
Frá árinu 1997 hét hann Haförn MB-13, Borgarnesi.

Örlög bátsins urðu þau að hann varð eldi að bráð þann 10. júní 1997 þar sem hann var á veiðum á Faxaflóa, nálægt Hvalseyjum á Mýrum.

Dagblaðið Vísir sagði svo frá þessum atburði sama dag:

Haförn MB 13 brann og sökk í nótt nálægt Hvalseyjum vestur af Mýrum. Báðir skipverjar björguðust. Klukkan 2.25 hafði Unna HF 229 samband við Reykjavíkurradíó og tilkynnti að sést hefði neyðarblys og reykjarmökkur. Hélt báturinn í átt að staðnum. Sysavarnafélaginu og Landhelgisgæslunni var gert viðvart og varðskip sent á staðinn. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar einnig kölluð út. Unna tilkynnti stuttu síðan að eldur og reykur sæist nálægt Hvalseyjum. Skipverjar Unnu sáu síðan björgunarbát og stefndu á hann. Björgunarbáturinn var þá ekki nálægt eldi og reyk frá Haferni. Hálftíma eftir að neyðarblysið sást eða kl. 2.45 tilkynnti Unna síðan að tveimur mónnum hefði verið bjargað úr björgunarbáti og væru þeir óslasaðir. Aðstoð þyrlu var afþökkuð eftir þetta. Haförn var alelda og ekkert hægt að gera. Skipið sökk stuttu síðar. Ákveðið var að varðskip tæki mennina tvo um borð og flytti þá til Akraness en þangað voru þeir komnir um sjöleytið í morgun.

1322. Haförn ÞH 26 ex Fram ÞH. © Hafþór Hreiðarsson.

 

 

         

30.12.2017 20:26

Vinur

Vinur ÞH 73 við flotbryggju í Húsavíkurhöfn. Tekið síðdegis í dag.

1750. Vinur ÞH 73 ex Matthildur EA. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

29.12.2017 23:35

Skálaberg

Hér kemur mynd af Skálaberginu ÞH 244 sem upphaflega hét Kristjón Jónsson SH 77. Smíðaður í Skipavík fyrir Ólsara 1967 en keyptur til Húsavíkur og kom þangað í febrúar 1969. Kaupendur voru Olgeir Sigurgeirsson og synir hans Sigurður og Hreiðar. Báturinn fékk nafnið Kristbjörg ÞH 44 og þegar ný Kristbjörg kom 1975 fékk þessi nafnið Kristbjörg II ÞH 244. 1980 keypti útgerðin, sem hét Korri hf., 138 brl. stálbát sem fékk nafnið Geiri Péturs ÞH 344 og var Kristbjörg II seld tveim öðrum sonum Olla og Rögnu í Skálabrekku. Það voru þeir Aðalgeir, sem varð skipstjóri á bátnum, og Egill sem sá um bókhaldið en hann starfaði sem rafmagnstæknifræðingur. Þeir nefndu bátinn Skálaberg ÞH 244 sem hann bar til ársins 1985 þegar útgerðin stækkaði við sig og keypti Séníverinn.

Skálabergið var þá selt til Flateyrar þar sem það fékk nafnið Jónína ÍS 93 og þar með lauk um 16 ára útgerð þess á Húsavík.

1053. Skálaberg ÞH 244 ex Kristbjörg II ÞH. © Hafþór Hreiðarsson.

29.12.2017 17:16

Ísfélag Vestmannaeyja kaupir Ottó N

HB Grandi hefur selt ísfisktogarann Ottó N. Þorláksson RE 203 til Ísfélags Vestmannaeyja. Í tilkynningu segir að söluverðið sé 150 milljónir króna og verður það greitt við afhendingu sem fer fram eigi síðar en 31. maí næstkomandi.

Ottó N. Þorláksson var smíðaður árið 1981 í Garðabæ og hefur skipið reynst afburðar vel.

1578. Ottó N Þorláksson RE 203. © Óskar Franz 2017.

29.12.2017 11:32

Súlnafell

Súlnafell ÞH 361 frá Þórshöfn kemur að bryggju á Akureyri en það var keypt til Þórshafnar 1987 frá Siglufirði.

Í Morgunblaðinu 29. september það ár mátti lesa frétt um kaupin. Þar sagði m.a.

Skjöldur SI 101 frá Siglufirði, sem nú hefur hlotið nafnið Súlnafell ÞH 361, verður afhentur nýjum eigendum sínum á mánudag. Útgerðarfélag Norður-Þingeyinga keypti skipið af Ísafold hf. frá Siglufirði á 125 milljónir króna. Nýju eigendurnir yfirtaka eldri skuldir skipsins sem nemna um 90 milljónum króna og mismunurinn er tekinn út úr rekstri Stakfellsins, sem einnig er i eigu útgerðarfélagsins og breytt var í frystiskip í vor.

„Mikill styrr stóð út af breytingum Stakfellsins á sínum tíma á Þórshöfn og menn ekki á eitt sáttir um ágæti þeirra. Hinsvegar er nú óhætt að segja að breytingarnar á Stakfellinu hafa gert kaupin á Skildi SI möguleg. Frá því að Stakfellið hóf veiðar þann 7. júní sl. sem frystiskip, er aflaverðmæti þess orðið 83 milljónir króna sem er fyllilega aflaverðmæti ísfiskskips á heilu ári," sagði Grétar Friðriksson framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Norður-Þingeyinga í samtali við Morgunblaðið.

Útgerðarfélag Norður-Þingeyinga er í 52% eigu Kaupfélags Langnesinga, 23% eigu Þórshafnarhrepps, 23% eigu Hraðfrystistöðvar Þórshafnar og 2% eigu Svalbarðs- og Sauðaneshreppa. Súlnafell hefur undanfarna daga verið í Slippstöð Akureyrar þar sem verið er að mála það og lagfæra. Búist er við að það verði komið til heimahafnar um næstu helgi. Skipið er 232 tonna stálskip, byggt í Noregi árið 1964, en endurbyggt á Siglufirði 1984. Það hefur 1.300 tonna kvóta og er skipinu ætlað að afla hráefnis fyrir Hraðfrystistöð Þórshafnar og Fiskiðju Raufarhafnar á meðan Stakfell verður alfarið rekið sem frystiskip.

KEA keypti síðan Súlnafellið í mars 1989 og varð það með tímanum EA 840. Spurning hvort þessi mynd sé tekin um það leyti.

 

978. Súlnafell ÞH 361 ex Skjöldur SI. © Hafþór Hreiðarsson.

27.12.2017 19:34

Dalborg

Þessa mynd tók ég í júní 1987 af togaranum Dalborgu EA 317 frá Dalvík. Dalborgin var búin að vera í allmiklum breytingum í Slippstöðinni á Akureyri þar sem m.a var skipt um brú, ljósavél og allan spilbúnað.

Mig minnir að Palli ljósmyndari hafi verið að mynda hana og stillti mér upp við hlið hans 

1481. Dalborg EA 317 ex Lucia Garau. © Hafþór Hreiðarsson 1987.

27.12.2017 16:17

Hrafn

Hér er Hrafn GK 12 í Njarðvíkurslipp á síðari hluta níunda áratug síðustu aldar. Hann var smíðaður í Ulsteinvik í Noregi 1966 og þótti fullkomnasta síldveiðiskip í heim þegar hann var afhentur eigendum sínum. Það var Hreifi h/f á Húsavík sem lét smíða hann og fékk hann nafnið Héðinn ÞH 57. 

Héðinn ÞH var seldur Þorbirninum í Grindavík árið 1975 og fékk þá það nafn sem hann ber á myndinni, Hrafn GK 12.

Hann hefur alla tíð síðan verið gerður út frá Grindavík, undir nöfnunum Hrafn, Háberg, Geirfugl, Þorbjörn og Tómas Þorvaldsson sem hann ber í dag.

Báturinn var lengdur 1971 og yfirbyggður 1977. Honum var breytt í línuskip árið 2001.

1006. Hrafn GK 12 ex Héðinn ÞH. © Hafþór Hreiðarsson.

 

25.12.2017 20:04

Karelia

Hér liggur skuttogarinn Karelia við bryggju í Hafnarfirði árið 2002. Nánar tiltekið þann 27 en viku áður birtist frétt í Morgunblaðinu þar sem sagði:

ÚTGERÐARFÉLGIÐ Stálskip hf. í Hafnarfirði hefur fest kaup á rússneska frystitogaranum Karelia af dótturfélagi Royal Greenland.

Skipið var byggt í Ørskov Christensens Staalskibsværft A/S í Danmörku árið 1998 og er 1.000 brúttólestir eða 1.500 brúttótonn, 58 metra langt og 13,5 metra breitt. Skipið er systurskip Sléttbaks EA sem Útgerðarfélag Akureyringa hf. keypti í marsmánuði. Skipið hefur hlotið nafnið Þór HF en Stálskip hefur áður gert út skip með sama nafni.

Fyrir gerir Stálskip út frystitogarana Rán HF og Ými HF. Guðrún Lárusdóttir, framkvæmdastjóri Stálskipa, segir að skipin hafi bæði verið sett á sölu og að aflaheimildir þeirra verði færðar yfir á nýja skipið þegar takist að selja þau. Skipin eru þó enn að veiðum, Rán HF á úthafskarfaveiðum og Ýmir HF á rækjuveiðum.

Guðrún segir að gerðar verði þó nokkrar breytingar á skipinu til að laga vinnsluna um borð að íslenskum kröfum og aðstæðum, skipt verði um flökunarvélar til að bæta nýtingu, auka frystigetu með því að setja um borð lárétta frysta í stað lóðréttra, auk þess sem sett verður um borð ísvél og ný pökkunarvél sem hentar þeim pakkningastærðum sem útgerðin hefur unnið með. Skipið muni því ekki fara á veiðar fyrr en á næsta fiskveiðiári.

Þór var seldur úr landi 2014 og aflaheimildir hans til þriggja útgerða hér á landi.

Karelia síðar 2549. Þór HF 4. í dag Kholmogory. © Hafþór 2002.

25.12.2017 13:22

Karoløs

Hér er mynd af hinum norska Karoløs sem Eiki frændi minn tók í norður Noregi. Karoløs er í dag notaður til flutninga á afskurði frá fiskvinnslustöðvum.

Karoløs var smíðaður 1977 í Hellesøy skipasmíðastöðinni í Noregi og hét þessu nafni upphaflega og til ársins 1984 þegar hann fær nafnið Herøytrål. 1997 verður hann Vestfart og 2015 það nafn sem hann ber í dag.

Karoløs er 52 metrar að lengd og 10 metra breiður með heimahöfn í Florø.

 

Karoløs ex Vestfart. © Eiríkur Guðmundsson 2017.

24.12.2017 17:37

Jólakveðja - Merry Christmas

Óska öllum þeim sem sækja síðuna heim gleðilegrar jólahátíðar með þökk fyrir innlitið á árinu sem er að líða.

Merry Christmas to you all who visit this site with thanks for stopping by.

Húsavíkurhöfn - 1576. Kolbeinsey ÞH 10. © Hafþór Hreiðarsson ca. 1996.

24.12.2017 09:59

Akraborg

Þessa flottu mynd af Akaraborginni og erlendu skemmtiferðaskipi tók Ágúst Guðmundsson.

Akraborgin hætti siglingum milli Akraness og Reykjavíkur þegar Hvalfjarðargöngin voru tekin í notkun.

Akraborgin var smíðuð 1974 í Noregi en var keypt hingað til lands 1982 og kom til heimahafnar 17. júní það ár.

í DV þann 19. júní mátti lesa þessa frétt:

Ný Akraborg lagðist að bryggju á Akranesi á 17. júní. Að sögn Viðars Vésteinssonar starfsmanns Skallagríms, eiganda Akraborgar, var fjöldi fólks staddur á bryggjunni við komu skipsins. Hann

sagði það mjög glæsilegt og að aðbúnaður farþega væri miklu betri en var í því eldra.

„Skipið tekur 70 til 75 fólksbíla og er því mun stærra en það gamla. Það tók mest 43 bíla. Sama áhöfn verður á nýja skipinu og við reiknum með að reksturskostnaður þess verði svipaður og hins,"sagði Viðar.

Nýja Akraborgin er byggð í Noregi árið 1974. Skipið er keypt frá Kanaríeyjum. Það var dótturfyrirtæki norska fyrirtækisins Fred Olsen sem gerði það út frá Kanaríeyjum.

Búizt er við að skipið fari sína fyrstu ferð, sem Akraborg, á fimmtudag.

 

Í dag er Akraborgin skólaskip Slysavarnarskóla sjómanna og á heimasíðu Landsbjargar má m.a. lesa eftirfarandi:

Sumarið 1998 eignaðist Slysavarnafélag Íslands, nú Slysavarnafélagið Landsbjörg, nýtt skip til að leysa það eldra af hólmi. Þá gaf ríkisstjórn Íslands félaginu ferjuna Akraborg til nota fyrir starfsemi Slysavarnaskóla sjómanna. Skipið var þá um það bil að hætta siglingum vegna tilkomu Hvalfjarðarganganna. Var skipinu gefið nafnið Sæbjörg er það var afhent 12. júlí 1998. Fóru fram umtalsverðar breytingar á skipinu svo það hentaði til nota sem skólaskip, en starfsemi Slysavarnaskóla sjómanna hófst í nýrri Sæbjörgu í október 1998.

1627. Akraborg. © Ágúst Guðmundsson.

23.12.2017 11:06

Nýja Hafborgin

Hér koma nokkrar myndir sem Óli sendi mér af nýju Hafborginni EA 152 sem hann er með í smíðum í Hvide Sand í Danmörku. Glæsilegur bátur að sjá.

2940. Hafborg EA 152. © Útgerð 2017.

 

2940. Hafborg EA 152. © Útgerð 2017.

 

2940. Hafborg EA 152. © Útgerð 2017.

 

2940. Hafborg EA 152. © Útgerð 2017.

 

2940. Hafborg EA 152. © Útgerð 2017.

 

2940. Hafborg EA 152. © Útgerð 2017.

 

2940. Hafborg EA 152. © Útgerð 2017.

 

2940. Hafborg EA 152. © Útgerð 2017.

 

Flettingar í dag: 470
Gestir í dag: 83
Flettingar í gær: 694
Gestir í gær: 121
Samtals flettingar: 9394395
Samtals gestir: 2007264
Tölur uppfærðar: 6.12.2019 12:53:16
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is