Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2017 Ágúst

28.08.2017 14:18

Kaldbaki EA 1 gefið formlega nafn

Sl. laugardag var Kaldbaki EA 1 formlega gefið nafn á Akureyri. Svo segir frá á heimasíðu Samherja:

Hinu nýja og glæsilega skipi Kaldbaki EA 1 var formlega gefið nafn við hátíðlega athöfn kl.14.00 laugardaginn 26.ágúst.

Athöfnin fór fram á Togarabryggjunni við ÚA og Kolbrún Ingólfsdóttir, einn eigenda Samherja gaf nýja skipinu nafn með formlegum og hefðbundnum hætti. Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja, Matthías Rögnvaldsson, forseti bæjarstjórnar Akureyrar og  Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra fluttu ávörp við þetta tilhefni og leikur Lúðrasveitar Akureyrar jók á hátíðleika athafnarinnar.

Eftir athöfnina á bryggjunni var boðið upp á veitingar í matsal ÚA.

Þar var þess minnst að 70 ár eru liðin frá því Kaldbakur EA 1 fyrsta skip Útgerðarfélags Akureyringa  kom til landsins og að 60 ár eru liðin frá því að frystihús ÚA var tekið í notkun.

Af öllum þessum tilefnum færði Samherjasjóðurinn Vinum Hlíðarfjalls að gjöf Skíðalyftu, afhenta á Akureyri.

Haukur Sigtryggur var á Akureyri og tók meðfylgjandi myndir við athöfnina.

 
 
 
 

 

27.08.2017 23:26

Baldvin NC 101

Frystitogarinn Baldvin NC 101 kom til hafnar á Akureyri í kvöld og tók Haukur þessa mynd af honum þá. Ég hins vegar sat í kæruleysi í stúkupartinum við Akureyrarvöll og horfði á KA taka Ólafsvíkur-Víkingana í kennslustund. Ég er nefnilega búinn að sjá það í sumar að ef ég fer á KA leik þá vinna þeir. Var nú með vélina í bílnum þar sem ég var búinn að sjá til Baldvins á Marinetraffic en svon ahittist nú á. 

Baldvin er kominn með skráningna NC 101 en nýi Cuxhaven fékk númerð 100 sem Baldvin var með.

 
DFIA. Baldvin NC 101 ex NC 100. © Haukur Sigtryggur 2017.

24.08.2017 22:55

Dagur

Rækjuskipið Dagur SK 17 við bryggju á Sauðárkrók á dögunum. Rækjuverksmiðjan Dögun gerir skipið út sem keypt var frá Írlandi í fyrra og leysti Röst SK 17 af hólmi. Dagur, sem áður hét Mark Amay II SO 954, var smíðaður árið 1998, 361 tonn að stærð, 27 metra langur og 8,5 metra breiður.

2906. Dagur SK 17 ex Mark Amay SO 954. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

2906. Dagur SK 17 ex Mark Amay II. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

23.08.2017 23:21

Engey og Drangey

Hér koma myndir af Engey RE 91 og Drangey SK 2 sem smíðaðir voru í Tyrklandi fyrir Íslendinga. HB Grandi lét smíða þrjá, Engey, Akurey og Viðey, sem reyndar er enn í smíðum, í Celiktrans skipasmíðastöðinni í Istanbúl. hin skipin fjögur eru smíðuð Cemre skipasmíðastöðinni í Altinova. Björg EA 10 er enn í smíðum.

Norðlensku skipin eru 62,49 metra löng og 13,50 metra breið en HB Grandaskipin 54,75 metra löng og 13,50 metra breið.

2889. Engey RE 91. © Óskar Franz 2017.
 
 
2893. Drangey SK 2. © Hafþór Hreiðarsson 2017.
 

 

 

23.08.2017 23:00

Þrír af fjórum frá Cemre

Hér gefur að líta þrjá skuttogara af fjórum sem Cemre skipasmíðastöðin í Tyrklandi hefur verið að smíða fyrir Íslendinga. Kaldbakur EA 1kom fyrstur, Björgúlfur EA 312 kom annar, Drangey SK 2 kom um síðustu helgi og Björg EA 10 kemur síðar á árinu.

Togararnir eru 62,49 metra langir og 13,54 metra breiðir og mælast 2081 BT.

2893. Drangey SK 2. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

2892. Björgúlfur EA 312. © Haukur Sigtryggur 2017.

 

2891. Kaldbakur EA 1. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

23.08.2017 18:31

Allt gekk að óskum hjá Engey RE

Eins og myndirnar í færslunni fyrr í dag kom Engey RE 91 til hafnar í dag og á vefHB Granda mátti lesa eftirfarandi frétt:

Ísfisktogarinn Engey RE kom nú í hádeginu úr sinni fyrstu veiðiferð með um 140 tonna afla. Að sögn Friðleifs Einarssonar skipstjóra gekk allt að óskum í veiðiferðinni og reyndist skipið vonum framar.

,,Við fórum frá Reykjavík sl. fimmtudag og náðum því tæpum fimm sólarhringum á veiðum. Við byrjuðum á heimamiðum, á Fjöllunum, þar sem við vorum í karfaveiði fyrstu tvo sólarhingana. Síðan færðum við okkur norður á Vestfjarðamið og fengum fínan þorskafla bæði á Halanum og eins í Þverálnum. Það var örlítill ufsavottur með í aflanum en ekkert sem orð er á hafandi,“ sagði Friðleifur en auk hans og áhafnarinnar voru fimm tæknimenn frá Skaganum 3X með um borð í þessari fyrstu veiðiferð.

,,Heilt yfir gekk allt eins og í sögu. Það komu smávægilegir hnökrar upp en þeir voru lagfærðir jafnóðum. Sjálfvirka lestarkerfið, sem er algjör nýjung um borð í skipum, virkaði fullkomlega og aðgerðaraðstaðan á millidekkinu gæti ekki verið betri. Það mun hins vegar taka tíma að læra á allan tölvubúnaðinn í skipinu og fá allt til að virka 100% saman. Það lærist eins og annað,“ sagði Friðleifur Einarsson.

Þess má geta að Engey er mun sparneytnari en eldri togarar HB Granda og Friðleifur segir að nú sé nóg að taka eldsneyti fyrir annan hvern túr í stað þess að taka þurfti olíu fyrir hverja veiðiferð eins og skipstjórinn var vanur á meðan hann stýrði Ásbirni RE.

 

2889. Engey RE 91. © Óskar Franz 2017.

23.08.2017 13:09

Engey kemur að landi

Óskar Franz tók þessa myndir af Engey RE 91 koma til hafnar í Reykjavík í hádeginu í dag. Engey var smíðuð í Tyrklandi og kom til landsins 25. febrúar sl. og er 1827 BT að stærð. Engey hóf veiðar nú í ágúst og er að koma úr fyrstu veiðiferðinni að ég held. Búin að fara prufutúra áður en ef það er ekki rétt þá leiðrétttir mig einhver með það.

2889. Engey RE 91. © Óskar Franz 2017.

 

2889. Engey RE 91. © Óskar Franz 2017.

 

2889. Engey RE 91. © Óskar Franz 2017.

22.08.2017 21:02

Svend C

Óskar Franz tók þessa myndir af grænlenska frystitogaranum Svend C koma til hafnar í Hafnarfirði í dag. Glæsilegur togari þarna á ferðinni sem, eins og áður hefur komið fram hér á síðunni, var afhentur eigendum sínum í desember á súðasta ári. Smíðaður í sömu skipasmíðastöð og Sólberg ÓF 1 sem kom til landsins í vor. Sólbergið er tæpir 80 metrar að lengd, 15,4 metrar á breidd og alls 3.720 bt. Sá gænlenski er tæpum þremur metrum lengri og 1,6 meter breiðari og alls 4.916 bt. að stærð.

Svend C. GR-6-23. © Óskar Franz 2017.

 

Svend C. GR-6-23. © óskar Franz 2017.

 

22.08.2017 17:47

Margrét

Margrét HF 4 kom við hérna á Húsavík í dag og tók olíu. Hún var á leið frá Bakkafirði og eitthvað vestur á bóginn eftir að hafa stundað handfæraveiðar frá fyrir austan. Margrét er í eigu Blikabergs ehf. og hét upphaflega Ásdís SH 154. Smíðuð árið 2010.

2794. Margrét HF 4 ex ÞH 21. © Hafþór Hreiðarsson 2017.
 
 

 

21.08.2017 16:47

Ilivileq GR 2-201

Óskar Franz tók þessa mynd af grænlenska togaranum Ilivileq þegar hann kom að landi í Hafnarfirði í gær. Aflabrögð greinilega góð.

Ilivileq GR 2-201 ex Skálaberg RE. © Óskar Franz 2017.

20.08.2017 13:03

Drangey

Hér er Drangeyjan að sigla síðustu míluna á leið sinni frá Tyrklandi til Íslands.

2893. Drangey SK 2. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

 

20.08.2017 10:35

Málmey

Skuttogarinn Málmey SK 1 er hér á mynd sem ég tók í gær þegar nýja Drangey kom til heimahafnar á Sauðárkróki. Málmey var smíðuð í Flekkefjord í Noregi 1987 fyrir Sjólaskip hf. í Hafnarfirði. Skipið , sem hlaut upphaflega nafnið Sjóli HF 1, var keyptur til Sauðárkróks 1995 og hlaut þá nafnið Málmey SK 1.

1833. Málmey Sk 1 ex Sjóli HF. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

19.08.2017 20:50

Drangey SK 2

Hér kemur mynd af bakborðshlið Drangeyjar SK 2 sem ég tók í dag á Skagafirði. Það er 100% öruggt að Drangey verður á dagatali Skipamynda árið 2018.

2893. Drangey SK 2. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

19.08.2017 19:44

Áskell Egilsson

Á heimleið minni frá Sauðárkróki lá leiðin gegnum Akureyri og að venju leit ég út á fjörðinn til að athuga með skipaferðir. Sá til Áskels Egillsonar koma úr hvalaskoðunarferð svo ég hinkraði aðeins og smellti nokkrum myndum af honum í síðdegissólinni. Hér kemur ein þeirra, glæsilegur bátur þarna á ferðinni.

1414. Áskell Egilsson  ex Ási. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

19.08.2017 19:18

Drangey

Hér kemur fyrsta myndin sem ég birti af Drangey SK 2 koma til heimahafnar á Sauðárkróki í dag þessi var tekin upp í birtuna til að ná stjórnborðshliðinni.

Nú er að fá sér að borða eftir 12-13 tíma ferð til að mynda þetta flotta skip. Meira í kvöld.

2893. Drangey Sk 2. © Hafþór Hreiðarsson 2017.
Flettingar í dag: 457
Gestir í dag: 82
Flettingar í gær: 694
Gestir í gær: 121
Samtals flettingar: 9394382
Samtals gestir: 2007263
Tölur uppfærðar: 6.12.2019 12:16:01
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is