Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2017 Júní

29.06.2017 22:28

Venus

Venus NS 150 er byrjaður á makrílveiðum og tók Hilmar Örn Kárason skipverji á honum þessar drónamyndir af skipinu í blíðuveðri á miðunum í dag. 

2881. Venus NS 150. © Hilmar Örn Kárason 2017.

 

2881. Venus NS 150. © Hilmar Örn Kárason.

29.06.2017 15:38

Þrír Reykjavíkurbátar í Sandgerði

Á þessari mynd sem ég tók í Sandgerði um árið má sjá þrjá báta sem þá voru í flota Reykvíkinga. Verið er að landa úr Hafnarberginu RE 404 og fyrir aftan það liggja Reykjaborg RE 25 og Rúna RE 150. Hafnarbergið smíðað í Póllandi, Reykjaborgin á Ísafirði og Rúna í Kína.

Frá Sandgerði. © Hafþór Hreiðarsson.

28.06.2017 20:05

Þorleifur

Þorleifur EA 88 lætur hér úr höfn á Húsavík síðdegis í dag. 

1434. Þorleifur EA 88 ex Hringur GK. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

 

28.06.2017 15:42

Svend C

Flott mynd sem Hilmar Örn Kárason tók við Reykjavíkurhöfn á dögunum. Í forgrunni er Svend C, nýr og glæsilegur frystitogari sem var smíðaður í Tyrklandi og afhentur grænlenskum eigendum sínum, Sikuaq Trawl A/S, í desember á síðasta ári.

Svend C GR-6-23. © Hilmar Örn Kárason 2017.

27.06.2017 20:31

Gnúpur

Hér kemur mynd af skuttogaranum Gnúp GK 257 sem Þorbjörninn í Grindavík átti um tíma. Hét áður Ásþór RE 10 og var smíðaður í Noregi 1970 en keyptur hingað til lands árið 1981.

Þorbjörn hf. keypti hann af Granda hf. fyrripart árs 1988 og birtist eftrfarandi frétt í Morgunblaðinu 6. apríl það ár:

 

Togarinn Ásþór RE, sem Þorbjörn hf. í Grindavík keypti af Granda hf. í Reykjavik nýverið, hefur veríð skírður Gnúpur GK 257, í höfuðið á fyrsta landnámsmanninum i Grindavík.

Skipstjórinn á skipinu verður Hilmar Helgason, en hann var 1. stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Júlíusi Hafstein ÞH frá Húsavík. Ásgeir Magnússon, skipstjóri í Grindavík, verður 1. stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Gnúpi GK, en hann var skipstjóri á Hrafni Sveinbjarnarsyni II. GK í nokkur ár.

Áhöfninni á togaranum sem fyrir var var boðið að vera áfram og þáðu nokkrir skipverjar það en síðan hafa verið ráðnir nokkrir Grindvíkingar á skipið.

Gnúpur GK fer á hefðbundið togarafiskirí fljótlega og mun landa afla sínum i Grindavík. 

 

1566. Gnúpur GK 257 ex Ásþór RE 10. © Hafþór Hreiðarsson.

27.06.2017 17:21

Faxi

Faxi GK 44 á stími fyrir austan á síldarvertíð, sennilega tekið 1983 frekar en 4. Faxi var smíðaður í Noregi 1963 og lengdur 1973 og yfirbyggður 1977.

51. Faxi GK 44. © Hafþór Hreiðarsson.

 

26.06.2017 23:36

Þrír rauðir í Dalvíkurhöfn

Haukur Sigtryggur tók þessa mynd við Dalvíkurhöfn í kvöld og sýnir hún þrjá togarar við bryggju og allir tengjast þeir Samherja. Verið var að landa úr Normu Mary við Norðurgarðinn og Björgúlfur og Björgvin liggja við kajann hér nær á myndinni.

Dalvíkurhöfn í kvöld. © Haukur Sigtryggur 2017.

26.06.2017 23:24

Sæljós

Sæljós GK 2 er komið á þurrt land í fjörunni við Rif eins og þessi mynd sem Alfons Finnsson tók um helgina sýnir.  Bát­ur­inn var við það að sökkva á höfn­inni á Rifi sl. föstudagsmorgun og höfðu hafn­ar­verðir áhyggj­ur af hon­um en stöðugur leki hef­ur verið að bátn­um. Björg­un­ar­bát­ur­inn Björg dró Sæljós eins grunnt og þor­andi var og var graf­in rás þar sem bát­ur­inn gæti setið í fjör­unni við Rif. (mbl.is)

Sæljós hét upphaflega Eyrún EA 157 og var smíðaður á Akureyri 1973 fyrir Hríseyinga.

1315. Sæljós GK 2 ex Maggi Ölvers GK. © Alfons 2017.

26.06.2017 15:58

Víkingur

Hér er gamli Víkingur AK 100 að koma til hafnar í Reykjavík. Spurning um ártal ? Mig minnir 1985 -1987.

220. Víkingur AK 100. © Hafþór Hreiðarsson.

25.06.2017 12:15

Bjarmi

Þetta er að ég held eina myndin sem ég tók af Bjarma ÞH 277 frá Húsavík og það á fermingarmyndavélina. Bjarmi var seldur úr bænum haustið 1980 sem var einmitt árið sem ég byrjaði til sjós og ef ég man rétt er þetta tekið í lok vertíðar. Við vorum að mála Skálabergið þegar Bjarmi kemur að landi. Þá áttu Bjarma Örn Arngrímsson og Ásgeir heitinn Þórðarson sem þeir höfðu keypt hann sumarið 1978 og seldu síðan vestur á Patreksfjörð um haustið 1980 eins og fyrr segir.

Bjarmi var smíðaður hjá Nóa bátasmið á Akureyri fyrir Hermann Jónsson í Flatey og syni hans Ragnar og Jón. Báturinn hét Bjarmi TH 277 með heimahöfn í Flatey. Bjarmi sem síðar varð ÞH 277 var 6 brl. að stærð.

Á Patreksfirði hélt báturinn Bjarmanafninu en varð BA 277,  Árið 1985 var báturinn seldur suður í Sandgerði þar sem hann fékk nafnið Logi GK 121. Báturinn var afskráður og tekinn af skipaskrá 3. maí 1993 og stóð lengi upp á landi í Sandgerði og gerir kannski enn.

330. Bjarmi ÞH 277 ex TH 277. © Hafþór Hreiðarsson 1980.

25.06.2017 11:53

Njörður

Hér kemur mynd af Nirði EA 208 sem upphaflega hét Guðmundur Þór SU121. Smíðaður hjá Trésmiðju Austurlands hf. á Fáskrúðsfirði 1973.

Samkvæmt miða frá Hauki er nafnasaga bátsins svona: Guðmundur Þór SU 121, Fiskanes NS 13, Fiskanes NS 37, Guðmundur Þór SU 121, Sigurbára VE 249, Njörður EA 208, Haukur EA 208 og Haukur SF 208. Haukur SF 208 sökk 11. apríl 1997, mannbjörg varð.

Njörður var 17 brl. að stærð en hans helst mál voru þessi: lengd 13,89 m., breidd 3,74 m. og dýpt 1,61m. 

1312. Njörður EA 208 ex Sigurbára VE. © Hafþór Hreiðarsson.

25.06.2017 11:13

Björgúlfur og Hjalteyrin

Haukur Sigtryggur á Dalvík tók þessa mynd á dögunumþegar nýi BJörgúlfur EA 312 kom til heimahafnar á Dalvík. Gamli Björgúlfur, sem í dag heitir Hjalteyrin EA 306, sigldi til móts við arftaka sinn og fylgdi honum síðasta spölinn en sá gamli verður fertugur á þessu ári.

2892. Björgúlfur EA 312 - 1476. Hjalteyrin EA 306. © Haukur Sigtryggur 2017.

25.06.2017 10:27

Auðbjörg II

Auðbjörg II SH 97 kemur hér að landi í Ólafsvík. Báturinn var smíðaður á Skagaströnd 1976 og hét upphaflega Árnesingur ÁR 75. Svo segir m.a í 4. tbl.  Ægis 1977:  

2. október á sl. ári afhenti Skipasmíðastöð Guðmundar Lárussonar hf. á Skagaströnd 30 rúmlesta eikarfiskisskip. Skip þetta, sem hlaut nafnið Árnesingur ÁR 75, er nýsmíði nr. 10 hjá stöðinni og er fimmta skipið af þessari stærð sem stöðin byggir. Eigandi skipsins er Jóhann Alfreðsson, Selfossi og er hann jafnframt skipstjóri.

1982 er Árnesingur seldur Herði Jóhannssyni á Eyrarbakka og fékk hann nafnið Sædís ÁR 14. Í febrúarmánuði 1984 kaupir Enni hf. í Ólafsvík bátinn af Fiskveiðasjóði og fær við það það nafn sem hann ber á myndinni, Auðbjörg II SH 97 en fyrir átti útgerðin Auðbjörgu SH 197.

1991 verður hann Reynir AK 18, 1995 fær hann nafnið Vestri BA 64 og síðar BA 63. Því næst  Diddó BA 3 árið 2001 og síðan ÍS 13 áður en hann fær núverandi nafn árið 2006. Það er Guðný ÍS 13 og er hún skráð sem skemmtibátur.

1464. Auðbjörg II SH 97 ex Sædís ÁR. © Hafþór Hreiðarsson.

24.06.2017 13:55

Þeir tveir

Þegar Sólbergið nýja kom til heimahafnar í síðasta mánuði fórum við saman að mynda það Haukur Sigtryggur á Dalvík og Óskar Franz sem kom úr borginni. Hér eru kapparnir með skipið glæsilega í baksýn nýkomið að bryggju og við ánægðir með dagsverkið. Það er ekki laust við að maður kynnist mörgum í gegnum þetta bátamyndastúss og þá aðallega gegnum netið en það er alltaf gaman að hitta þessa snillinga í eigin persónu.

Haukur Sigtryggur og Óskar Franz á Siglufirði. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

24.06.2017 13:40

Oddeyrin

Hér koma tvær myndir af Oddeyrinni EA 210 sem nú er að hverfa af íslenskri skipaskrá. Seld til Noregs og hefur fengið nafnið Kagtind II. Fyrri myndina tók ég þegar Oddeyrin kom fyrst til heimahafnar á Akureyri þann 11. febrúar 2007 en seinni myndina tók Haukur Sigtryggur. Eins og sjá má af myndunum var togarinn lengdur á þessum tíma sem Samherji átti hann en það var gert í Póllandi árið 2012. Lengingin var upp á rúma tíu metra.

2750. Oddeyrin EA 210 ex Andenesfisk II. © Hafþór Hreiðarsson 2007.

 

2750. Oddeyrin EA 210 ex Andenesfisk II. © Haukur Sigtryggur.
Flettingar í dag: 588
Gestir í dag: 85
Flettingar í gær: 771
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 9399682
Samtals gestir: 2008177
Tölur uppfærðar: 13.12.2019 13:46:29
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is