Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2017 Mars

30.03.2017 18:00

HB GRANDI býður út smíði á nýjum frystitogara

Á heimasíðu HB Granda segir að stjórn þess hafi ákveðið að setja í útboð smíði nýs frystitogara. Togarinn er hannaður af Rolls Royce í Noregi og er 81 m langur, 17 m breiður og hefur lestarrými fyrir um 1.000 tonn af frystum afurðum á brettum. Gert er ráð fyrir að ákvörðun um smíðina liggi fyrir í byrjun maí og smíðinni ljúki í árslok 2019.

Ekki eru fyrirhugaðar frekari nýsmíðar af hálfu félagsins að svo stöddu en félagið gerir nú út 3 frystitogara sem eru byggðir á árunum 1988-1992, 4 ísfisktogara og 2 uppsjávarveiðiskip. (hbgrandi.is)

Teikning af frystitogaranum. ©hbgrandi.is 2017.

28.03.2017 14:07

Ósk

Sigurður Kristjánsson á Ósk ÞH 54 lagði grásleppunetin í morgun og hér kemur Óskin til hafnar eftir þann gjörning. Óskin er annar grásleppubáturinn sem lagt hefur netin en fleiri fylgja eftir á næstu dögum.

2447. Ósk ÞH 54 ex Guðný NS. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

 

28.03.2017 13:48

Abba

Handfærabáturinn Abba ÓF 5 var að landa í morgun á Húsavík og tók kafteinn Sigdór smá hring fyrir mig að henni lokinni. Abba er í eigu Árna Helgasonar ehf. á Ólafsfirði en hét upphaflega Guðfinna VE.

2440. Abba ÓF 5 ex Veiga. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

28.03.2017 08:35

Guðmundur í Nesi

Óskar Franz tók þessa mynd í gær þegar frystitogarinn Guðmundur í Nesi RE 13 kom til hafnar í Reykjavík. Togarinn hét áður Hvilvtenni frá Færeyjum en var keyptur hingað til lands árið 2004. Skrokkurinn var smíðaður í Rúmeníu en skipið fullklárað í Noregi árið 2000. Eigandi er Brim hf. í Reykjavík.

 

2626. Guðmundur í Nesi RE 13 ex Hvilvtenni. © Óskar Franz 2017.

 

 

27.03.2017 15:51

Víðir

Víðir KE 10, sem hér sést koma að landi Í Sandgerði, var smíðaður í Stálsmiðjunni í Reykjavík 1987 og eigandi hans var Garðar Garðarsson. Í dag heitir hann samkvæmt Fiskistofu Mundi SU 35 en var áður Mundi SH 735, Bylgja SK 6 og Þórir Arnar SH 888.

Uppfært: Báturinn heitir Mundi og er NS 55 síðan 25. september 2016.

1819. Víðir KE 101. © Hafþór Hreiðarsson.

27.03.2017 15:20

Húsavíkurhöfn

Á þessari mynd sem sýnir Húsavíkurhöfn má m.a sjá þrjú skip sem öll bera einkennisstafina ÞH. Þau áttu samt heimahafnir á mismunandi stöðum, Geiri Péturs ÞH 344 á Húsavík, Arnarnúpur ÞH 272 á Raufarhöfn og Frosti ÞH 229 á Grenivík. Þá má sjá Fanney ÞH 130 og Kristey ÞH 25 á myndinni auk smábáta.

Húsavíkurhöfn. © Hafþór Hreiðarsson.

 

 

27.03.2017 14:35

Þorleifur

Þorleifur EA 88 kemur hér að bryggju á Húsavík eftir dragnótaróður. Upphaflega Völusteinn NS 116 smíðaður á Seyðisfirði. Heitir Rán GK 91 í dag og er öllu lengri en á þessari mynd.

1921. Þorleifur EA 88 ex Guðrún Jónsdóttir SI. © Hafþór Hreiðarsson.

 

 

27.03.2017 14:27

Eldborg

Hér siglir Eldborg HF 13 til löndunar á Eskifirði, hvort þetta var haustið 184 eða 6 man ég ekki en 1988 var skipið selt til Eskifjarðar þar sem það fékk nafnið Hólmaborg SU 11. Í dag heitir það Jón Kjartansson SU 111.

1525. Eldborg HF 13. © Hafþór Hreiðarsson.

26.03.2017 12:05

Odra

Hér er fjölveiðiskipið Odra NC 110 nýkomið úr flotkvínni á Akureyri 2. ágúst 2007. Odra hét áður Baldvin Þorsteinsson EA 10  en þarna var skipið leið til dótturfyrirtækis Samherja, Deutsche Fischfang Union, undir nafninu Odra.

Upphaflega Guðbjörg ÍS, síðan Hannover NC 100, Baldvin Þorsteinsson EA 10, Odra NC 110 og Akraberg FD 10 sem er það nafn sem skipið ber í dag.

Odra NC 110 ex 2212. Baldvin Þorsteinsson EA. © Hafþór Hreiðarsson 2007.

26.03.2017 11:51

Sæljón

Ný brú var sett á Sæljón EA 55 á Húsavík 1985/6 og tók ég þessa mynd þegar báturinn fór í prufusiglingu. Minnir mig. Sæljónið var smíðað í Danmörku 1955 og var upphaflega RE 317. Það var síðan GK 103, SU 103 og SH 103 áður en það varð EA 55 árið 1979. 

Báturinn sökk 5 október 1988 um 25 sjómílum norður af Siglunesi. Þriggja manna áhöfn bjargaðist um borð í Bjarma EA frá Dalvík.

839. Sæljón EA 55 ex SH 103. © Hafþór Hreiðarsson.

26.03.2017 11:35

Júlíus

Júlíus ÁR 111 við bryggju í Þorlákshöfn en þetta var síðasta nafn þessa báts sem smíðaður var í Danmörku 1956. Upphaflega hét hann Gunnólfur ÓF 35 og var í eigu Stíganda á Ólafsfirði. Síðar hét hann Freyfaxi KE 10, Óli Tóftum KE 1, Jakob SF 66 og Dröfn SI 67 áður en hann fékk Júlíusarnafnið. Hann var seldur til Eyja 1988 og var fargað 1989.

58. Júlíus ÁR 111 ex Dröfn SI. © Hafþór Hreiðarsson.

 

 

25.03.2017 12:27

Hinni

Hér er Hinni ÞH 70 á leið upp í slippinn á Húsavík um árið. Hvalaskoðunarbáturinn Draumur frá Dalvík í dag.

1547. Hinni ÞH 70 ex Sveinn Sveinsson BA. © Hafþór Hreiðarsson.

25.03.2017 10:01

Geysir

Geysir BA 25 siglir hér til hafnar á Húsavík undir stjórn Þórðar Birgissonar en togarinn var á rækjuveiðum að mig minnir. Geysir hét upphaflega Baldur EA 108 á íslenskri skipaskrá en þegar hann var keyptur til Dalvíkur 1981 af Upsaströnd hf. hét hann Glen Urquhart A-364 og hafði verið gerður út frá Aberdeen.

Baldur, sem var tæpir 36 metrar að lengd, var smíðaður 1974 í Goole Shipbuilding & Repairing Co Ltd í Goole í Englandi og var smíðanúmer 579 frá þeirri stöð. 

 

Eftirfarandi frétt birtist í Morgunblaðinu 16. mars 1982:

Á LAUGARDAGINN 13. bættist nýtt skip í flota Dalvíkinga, en þá kom til heimahafnar togskipið Baldur EA- 108, sem er í eigu hins nýstofnaða fyrirtækis, I fsaslrandar hf. hér á Dalvík. Baldur, sem var keyptur frá Bretlandi, er um 300 lestir að stærð, 35,6 metrar að lengd og smíðaður árið 1974. Við komu skipsins var bæjarfulltrúum boðið að koma og skoða skipið og einnig kom margt fólk að skoða það og voru menn ánægðir með hversu vel skipið var útlítandi. Gert er ráð fyrir, að skipið fari á þorskveiðar og mun það fara í sína fyrstu veiðiför nú næstu daga. Skipið landar afla sínum á Dalvík. Skipstjóri á Baldri er Gunnar Jóhannsson, 1. stýrimaður Jóhann Gunnarsson og 1. vélstjóri Jóhannes Baldvinsson. Framkvæmdastjóri Ufsastrandar er Jóhann Antonsson. 

 

Samkvæmt miða frá góðvini síðunnar eru þetta nöfnin sem togarinn bar en hann var afskráður 2009.

Glen Urquhart A364. Útg: Aberdeen. Bretlandi. (1974 - 1981).

Baldur EA 108. Útg: Upsaströnd h.f. Jóhann Antonsson. Dalvík. (1981 - 1988).

Baldur EA 108. Útg: Útgerðarfélag KEA. Dalvík. (1988 - 1990).

Baldur EA 108. Útg: Snorri Snorrason. Dalvík. (1990).

Þór EA 108. Útg: Snorri Snorrason. Dalvík. (1990 - 1992).

Þór HF 6. Útg: Stálskip hf. Hafnarfirði. (1992 – 1994).

Lómur HF 177 Útg: Lómur h.f. Hafnarfirði. (1994 – 1997). Lómur HF 777 Útg: Lómur h.f. Hafnarfirði.

(1997 Geysir BA 25. Útg: Vesturskip. Eiríkur Böðvarsson. Bíldudal (1997 - 2003).

Geysir BA 25. Útg: Hreinn Hjartarsson. Reykjavík. (2003 - 2004).

Seldur til Rússlands 2004 og var þá í eigu Skeljungs.

Navip. Útg: Murmansk. (2004 – 2009).

Afskráður í Rússlandi 2009.

1608. Geysir BA 25 ex Lómur HF. © Hafþór Hreiðarsson.

 

 

24.03.2017 17:42

Salka áður Pétur Afi

Ég birti myndir af Sölku fyrir nokkrum dögum sem sýnir stöðuna á endurbótum á henni sem standa yfir í Skipavík. Ég bað þá Sölkumenn um betri mynd sem sýndi allan bátinn og hana fékk ég senda í dag. Og til samanburðar birti ég einnig mynd sem tekin var áður en hún fór í hús í Skipavík. 

1470. Pétur afi SH 374 ex Jórunn ÍS. © Börkur Emilsson 2016.

 

1470. Salka ex Pétur afi SH. © Börkur Emilsson 2017.

 

 

24.03.2017 13:46

Sæþór

Sæþór EA 101 lætur hér úr höfn á Húsavík 26. júlí 2005 en þá var hann á rækjuveiðum.  Sæþór var smíðaður á Ísafirði 1973 og hét upphaflega Jón Helgason ÁR 12. Síðar Jón Helgason SF 15 þar til hann fékk nafnið Votaberg SU 14 sem hann bar allt þar til útgerðarfélagið G.Ben sf. á Árskógssandi keypti hann og gaf honum Sæþórsnafnið. Síðar Arnar SH 157 en seldur til Noregs 2008 eða 9 þar sem hann fékk nafnið Artic Star. 

1291. Sæþór EA 101 ex Votaberg SU. © Hafþór Hreiðarsson 2005.
Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 664
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 9254637
Samtals gestir: 1995063
Tölur uppfærðar: 24.8.2019 01:05:55
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is