Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2017 Febrúar

28.02.2017 23:07

Sigurbjörg

Skuttogarinn Sigurbjörg er hér að leggja í hann frá Siglufirði skömmu fyrir jól og ferðinni heitið til Ólafsfjarðar. Eftir áramót fór skipið til Póllands til viðgerðar en er nú farið til veiða aftur.

1530. Sigurbjörg ÓF 1. © Hafþór Hreiðarsson 2016.

 

 

28.02.2017 22:46

Svalbakur og Oddeyrin

Hér liggja Svalbakur EA 2 og Oddeyrin EA 210 við bryggju á Akureyri. ÚA keypti Svalbak frá Kanada þar sem hann hét Cape Adair 1994. Oddeyrin var smíðuð fyrir samnefnt fyrirtæki á Akureyri 1986. Samherji var hluthafi í því fyrirtæki á móti Akureyrarbæ og K. Jónssyni en eignaðist það að fullu 1991. Bæði skipin voru seld úr landi en fyrst náði Svalbakur að verða ÞH 6 með heimahöfn á Raufarhöfn og Oddeyrin var seld Sigurði Ágústssyni hf. í Stykkishólmi þar sem hún fékk nafnið Hamrasvanur SH 201.

2220. Svalbakur EA 2 - 1757. Oddeyrin EA 210. © Hafþór Hreiðarsson.

28.02.2017 14:58

Júpíter

Hér er Júpíter RE 161, upphaflega síðutogarinn Gerpir NK 106, á toginu við rækjuveiðar fyrir Norðurlandi.  Júpíter síðan keyptur til Þórshafnar 1993 og varð ÞH 61. Síðasta nafn hans var Suðurey VE 12 en hann fór í pottinn 2008.

130. Júpíter RE 161 ex Gerpir NK. © Hafþór Hreiðarsson 1989.

28.02.2017 14:48

Arnþór og Heimaey

Hér liggja þeir hlið við hlið við slippbryggjuna á Akureyri Arnþór EA 16 og Heimaey VE 1. Arnþór upphaflega Skarðsvík SH 205 en Heimaey Náttfari ÞH 60.

189. Arnþór EA 16 - 1035. Heimaey VE 1. © Hafþór Hreiðarsson.

28.02.2017 14:44

Sigþór

Hér er Sigþór ÞH 100 að draga netin á Breiðafirði 1982 að ég held. Ekki skýr mynd en læt hana samt vaða. 

185. Sigþór ÞH 100 ex Sigurpáll GK. © Hreiðar Olgeirsson.

28.02.2017 14:32

Ljósfari

Hér er Ljósfari RE 102 við bryggju í Reykjavík. Saga hans hefur marg oft komið fram hér á síðunni og engu við það að bæta.

973. Ljósfari RE 102 ex Kári Sölmundarson RE. © Hafþór Hreiðarsson.

 

 

27.02.2017 20:05

Qavak

Hilmar Örn Kárason skipverji á Venusi NS 150 tók þessa mynd í dag þegar Qavak sem er í eigu Artic Prime Fisheries fékk gefins úr nótinni hjá Venusi. Sá grænlenski var á leið frá Reykjavík austur að ná í nót og fékk gefins hjá Huginn og Vensusi og fór með aflann austur. 

Qavak GR 21© Hilmar Örn Kárason 2017.

27.02.2017 16:18

Grundfirðingur II

Grundfirðingur II SH 124 á stími á Breiðafirði. Smíðaður í Danmörku 1956 fyrir Grundfirðinga.

467. Grundfirðingur II SH 124. © Hreiðar Olgeirsson.

27.02.2017 15:41

Júlíus Havsteen

Júlíus Havsteen ÞH 1 kemur hér að landi á Húsavík eftir rækjutúr. Smíðaður á Akranesi 1976 og eftirfarandi frétt birtist í Morgunblaðinu 25. október það ár þegar togarinn kom til heimahafnar í fyrsta skipti:

Skuttogarinn Júlíus Havsteen kom til heimahafnar, Húsavíkur, síðdegis á sunnudag. Húsvíkingar fögnuðu sínum fyrsta togara með þíf að fjölmenna niður á bryggju þegar skipið kom. Þar fór fram stutt móttökuathöfn, Lúðrasveit Húsavfíkur lék og Barnakór Húsavíkur söng.

Blessunarorð til skips og skipshafnar flutti séra Björn H.Jónsson og ávarp flutta Tryggvi Finnsson. Rakti hann forsögu og aðdraganda þessara togarakaupa, sem tilkomin eru vegna þess, að bátafiskur hefur farið minnkandi undanfarin ár og var þess vegna

ráðist í þessi skipakaup til að treysta undirstöðu atvinnulífs staðarins, sem byggt er á sjávarútvegi. Sagði hann m.a. að þegar farið var að ræða um að gefa skipinu nafn, kom fljótt fram tillaga um að það héti Júlíus Havsteen og eftir það þótti ekki annað nafn koma til greina. En Júlíus sýslumaður var mikill áhugamaður og brautryðjandi í hafnarmálum Húsvíkinga, barðist fyrir útfærslu landhelginnar og var virkur aðili í slysavarnamálum.

Togarinn er smíðaður hjá Þorgeir og Ellert h.f. á Akranesi og á leiðinni þaðan til Húsavíkur fékk hann hið versta veður, en reyndist hið bezta sjóskip.

Skipstjóri er Benjamín Antonsson, 1. vélstjóri Steingrímur Árnason og 1. stýrimaður Hermann Ragnarsson. Eigendur skipsins er hlutafélagið Höfði h.f., og  stærstu hluthafar eru Fiskiðjusamlag Húsavíkur, Húsavíkurbær og Kaupfélag Þingeyinga. Framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn Kristján Ásgeirsson.

Togarinn mun fara til veiða um miðja vikuna.

 

1462. Júlíus Havsteen ÞH 1. © Hafþór Hreiðarsson.

 

 

27.02.2017 15:31

Haraldur og Stefán Rögnvaldsson

Hér liggja þeir við bryggju á Dalvík, Haraldur EA 62 og Stefán Rögnvaldsson EA 345. Báðir smíðaðir hér innanlands, Haraldur, sem upphaflega hét Gnýfari SH 8, á Neskaupsstað 1960 og Stefán Rögnvaldsson á Akureyri 1971. Eins og kemur reyndar fram í færslunni hér á undan.

464. Haraldur EA 62 - 1195. Stefán Rögnvaldsson EA 345. © Hafþór.

27.02.2017 15:13

Hallgrímur Ottósson

Hallgrímur Ottósson BA 39 var smíðaður á Akureyri 1971 og hét upphaflega Otur EA 162. Hér liggur hann við bryggju í Reykjavík og upp í Daníelsslipp er 992, hvaða nafn hann bar þarna hef ég ekki athugað en gæti verið Máni ÍS 54. 

Otur EA hét eftirfarandi nöfnum: Otur EA 162, Stefán Rögnvaldsson EA 345, Egill BA 468, Hallgrímur Ottósson BA 39 og Álftafell SU, HF, ÁR og KE. Tekinn af skipaskrá 2014. (aba.is)

1195. Hallgrímur Ottósson BA 39 ex Egill BA. © Hafþór Hreiðarsson.

 

26.02.2017 20:40

Björg

Björg SU 3 frá Breiðdalsvík kemur hér að bryggju á Húsavík í júní 2003. Björg var seld til Grænlands 2004. 
Mbl.is sagði svo frá sölunni 11. okt. 2004 :

Tog­skipið Björg SU 3 frá Breiðdals­vík hef­ur verið selt til Græn­lands og verður af­hent­ur nýj­um eig­end­um í lok þessa mánaðar. Eft­ir því sem fram kem­ur á frétta­vefn­um skip.is ætl­ar kaup­and­inn að gera skipið út til rækju­veiða.

Björg SU er 197 brútt­ót­onn að stærð, smíðað í Svíþjóð 1988 fyr­ir Gísla V. Ein­ars­son út­gerðarmann í Vest­manna­eyj­um. Bát­ur­inn hét upp­haf­lega Björg og bar ein­kenn­is­staf­ina VE 5. Það var skipa­sal­an Álasund ehf. í Reykja­nes­bæ sem hafði milli­göngu um söl­una.

Björg SU 3 er eina skipið sem gert hef­ur verið út frá Breiðdals­vík und­an­far­in ár.

 

1935. Björg SU 3 ex VE 5. © Hafþór Hreiðarsson 2003.

26.02.2017 11:45

Röst

Röst SK 17 að færa sig á milli bryggja á Húsavík í septembermánuði 2012. Lá við Bökugarðinn með trollið í viðgerð en færði sig í innri höfnina enda bræluspá.

1009. Röst SK 17 ex Kristbjörg ÞH. © Hafþór Hreiðarsson 2012.

26.02.2017 11:19

Gunnbjörn

Hér er Gunnbjörn ÍS 302 að koma til Húsavíkur 28. ágúst 2012. Skipið var smíðað í Flekkefjord í Noregi árið 1973 fyrir Kaupfélag Dýrfirðinga og hét lengst af Framnes.

Íshúsfélag Ísfirðinga keypti Framnesið af Kaupfélagi Dýrfirðinga og eftir að Íshúsfélagið sameinaðist inn í Hraðfrystihúsið - Gunnvör og gerði HG Framnes út á rækju, eða allt til ársins 2005 þegar HG hætti rækjuvinnslu.

Birnir ehf. keypti togarann skömmu síðar og gerði hann út á rækju undir nafninu Gunnbjörn. Það var svo í september 2014 sem Arnar Kristjánsson keypti skipið og það fékk nafnið Arnarborg. 

Arnarborg ÍS var í fyrra seld til Dubaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og lauk þá rúmlega 40 ára útgerðarsögu togarans á Vestfjörðum. Heimild Fiskifréttir.

1327. Gunnbjörn ÍS 302 ex Framnes ÍS. © Hafþór Hreiðarsson 2012.

 

 

25.02.2017 16:48

Björgúlfur

Björgúlfur EA 321 kemur hér að landi á Dalvík 3. apríl 2014. Smíðaður í Slippstöðinn á Akureyri 1977 eða fyrir fjörutíu árum, (skrokkurinn smíðaður í Flekkufirði). Innan tíðar kemur nýr Björgúlfur EA 312 sem leysa mun þennan að hólmi en hann er í smíðum í Tyrklandi.

1476. Björgúlfur EA 312. © Hafþór Hreiðarsson 2014.

 

 

Flettingar í dag: 508
Gestir í dag: 88
Flettingar í gær: 694
Gestir í gær: 121
Samtals flettingar: 9394433
Samtals gestir: 2007269
Tölur uppfærðar: 6.12.2019 13:55:12
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is