Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2013 Maí

31.05.2013 23:56

Á Fönsunni

Fór á sjó í kvöld á Fönsunni. Skemmti- og reynslusigling áður en alvaran hefst og mér var boðið með. Á morgun hefja Sölkusiglingar siglingar með ferðamenn á hvalaslóðir Skjálfanda og óska ég þeim góðs gengis.

1445. Fanney á siglingu á Skjálfanda. © Hafþór Hreiðarsson 2013.

 

30.05.2013 14:10

Sandvík

Ólyginn maður sagði mér fyrir nokkru að Níels Jónsson ehf. á Hauganesi hefði fest kaup á Sandvík SH 4 frá Stykkishólmi. Og á vef Fiskistofu má nú sjá að báturinn hefur fengið einkennisstafina EA og númerið 200. Fyrir á fyrirtækið Níels Jónsson EA 106 sem stundað hefur netaveiðar og siglingar með ferðamenn. Félagi Alfons tók þessa mynd af bátnum.

2274. Sandvík SH 4 ex SK. © Alfons 2009

28.05.2013 22:54

Allt að verða klárt

"Þetta er allt að verða klárt, nafnið fer á hann á morgun" Sagði Börkur Emils hjá Sölkusiglingum rétt áðan en þá voru kallarnir að setja björgunarbátana um borð í Fanney sem á að hefja siglingar með ferðamenn þann 1. júní nk. 

1445. Fanney í kvöldsólinni. © Hafþór Hreiðarsson 2013.

27.05.2013 19:00

Múlaberg

Hér kemur flott mynd sem Gundi á Frosta tók af Múlaberginu á rækjuslóð fyrir helgina. Þannig að ártalið er á hreinu.

Múlabergið á toginu. © Gundi 2013.

 

 

16.05.2013 20:19

Fanney

Fanney fór niður úr slippnum í morgun og að flotbryggju. Vel málaður bátur að sjá enda fagmenn að verki. Þ.e.a.s matreiðslumenn. Eftir að merkja hann og fleira smálegt en áætlað er að hefja siglingar með ferðamenn 1. júní undir skipsstjórn pylsusalans Aðalsteins Júlíussonar söngvara í SOS og skipsstjóra á Háey II.

1445. Fanney ex Siggi Þórðar. © Hafþór 2013.

14.05.2013 23:06

Sigurpáll GK keyptur til Húsavíkur

Nýtt fyrirtæki á Húsavík, Eyrarhóll ehf., hefur keypt tæplega 70 brúttótonna bát frá Grindavík.

Báturinn heitir Sigurpáll og var smíðaður úr áli í Noregi 1987 og hét upphaflega Rúna RE í íslenska flotanum.

Að fyrirtækinu Eyrarhól standa hjónin Guðmundur A. Hólmgeirsson og Helga Jónína Stefándsóttir ásamt sonum sínum Stefáni og Árna og konu hans, Hjördísi Dalberg. Árni er framkvæmdarstjóri fyrirtækisins.

Til fróðleiks má geta þess að Eyrarhóll sá sem fyrirtækið er nefnt eftir er í landi Knarrareyrar á Flateyjardal þaðan sem Guðmundur er ættaður en þau hjónin eiga útgerðarfyrirtækið Knararreyri sem gerir út smábátana Aron og Sædísi.

Að sögn Stefáns var gengið frá kaupunum í fyrrakvöld en báturinn er nú í slipp í Stykkishólmi og verður næstu vikurnar. Stefán á ekki von á honum til heimahafnar fyrr en í lok júnímánaðar en ætlunin að gera hann út til rækjuveiða í Skjálfanda og einnig sé horft til úthafsrækjuveiða.

Til gamans þá er þetta ekki í fyrsta skipti sem bátur undir þessu nafni og með einkennisstafina GK er keyptur til Húsavíkur. Sigþór ÞH 100 hét Sigurpáll GK 375 og svo skemmtilega vill til að Ingvar bróðir Guðmundar, eða Alla eins og hann er jafnan kallaður, var einn eigenda Sigþórs.

2150. Sigurpáll í slippnum hjá Skipavík í fyrrakvöld.  © Stefán Guðmundson.

2150. Sigurpáll GK 36 ex Harpa HU. © Hafþór 2009.

 

13.05.2013 20:46

Bátadagar á Breiðafirði 6 og 7 júlí 2013

Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar (FÁBB), gengst nú fyrir bátahátíð súðbyrtra trébáta á Breiðafirði í sjötta sinn þann 6 og 7 júlí nk.

Dagskráin verður með þeim hætti að þáttakendur safnast saman með báta sína á Reykhólum á föstudaginn 5 júlí. Ef aðstæður leyfa verður möguleiki á sameiginlegu grilli saman á föstudagskvöldinu og þá verði farið yfir leiðarlýsinguna ferðarinnar og fróðleik um það sem fyrir augu mun bera. Laugardaginn 6 júlí verður siglt frá Reykhólahöfn kl. 10:00 og siglt NV með Reykjanesi um Staðareyjar og inn Þorska-, Gufu- og Djúpafjörð og aðstæður skoðaðar. Áð verður við Teigsskóg og hann skoðaður, síðan verður siglt til Staðar á Reykjanesi og lýkur ferðinni þar. Sunnudaginn 7. júlí verður farið kl. 10:00 frá Stað og siglt út í Sviðnur og deginum eytt með heimafólki sem fræðir um eyjuna og sögu hennar. Siglt til baka til Staðar og eru þar ferðalok. Gera má ráð fyrir að ferðin taki 6-8 klst. hvorn dag.

Á meðfylgjandi yfirlitsmynd má sjá fyrirhugaða siglingaleið.

 

Að sjálfsögðu ráða aðstæður, sjávarföll og veður mestu um hvernig siglingarnar verða og áætlunin getur því breyst ef aðstæður krefjast. Siglingin verður undir stjórn manna sem þekkja vel til aðstæðna við Breiðafjörð. Formaður hvers báts er ábyrgur fyrir því að nauðsynlegur öryggisbúnaður sé fyrir hendi um borð.

Allir súðbyrðingar er velkomnir og við viljum hvetja sem flesta til að nýta sér þetta tækifæri til siglingar um þetta fallega umhverfi.

 Mjög góð aðstaða fyrir minni báta er á Reykhólum og á Stað og einnig er mjög góð aðstaða fyrir ferðamenn í Reykhólasveit. Sjá nánar á www.reykholar.is

Frekari upplýsingar veita: Sigurður Bergsveinsson, sberg@isholf.is, s: 893 9787 og Hafliði Aðalsteinsson,haflidia@centrum.is,  s: 898 3839

12.05.2013 19:57

Gunnbjörg sækir Birgi

Gunnbjörg, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá Raufarhöfn, var kallað út um klukkan hálf sjö í kvöld til að sækja Birgi ÞH, 15 tonna bát sem er með eitthvað fast í skrúfu. Birgir er norður af Melrakkasléttu, um 12 sjómílum frá Raufarhöfn.

Sigling björgunarskipsins gengur vel og er gert ráð fyrir að skipið verði komið með Birgi í tog innan klukkustundar. ruv.is

2005.Birgir ÞH 323 ex Birgir GK. © Aðalsteinn Á. Baldursson 2013.

 

Báturinn var keyptur frá Sandgerði og hét áður Birgir GK. Það eru hjónin Viðar Örn Þórisson og Kristín Ásgeirsdóttir sem eiga bátinn.

12.05.2013 19:30

Nýtt skip til Grenivíkur

Nýtt skip bættist í flota Grenvíkinga í gær þegar Þorvarður Lárusson SH kom þangað í fyrsta skipti. Eigandinn er Ragnar Stefánsson í Hléskógum sem hyggst gera hann út á rækju. Ljósmyndina tók Gundi á Frosta í morgun og sendi mér.

1622. Þorvarður Lárusson SH 129 ex Björn RE. © Gundi 2013.

11.05.2013 20:54

50 ára eikarbátar sigla umhverfis Ísland

Húni II kom til Húsavíkur nú undir kvöld en nú eru fimmtíu ár frá því að happafleytunum Knerrinum og Húna II var hleypt af stokkunum á Akureyri, báðir eru þeir hannaðir af annáluðum skipasmíðameistara, Tryggva Gunnarssyni. Að tilefni hálfrar aldar afmælisins leggja Norðursigling og Hollvinir Húna í hringsiglingu um landið á skipunum tveimur. 

Ferðinni er ætlað að vekja athygli á strandmenningu og mikilvægi slíkra skipa í sögu íslendinga og þeirri arfleifð sem í þeim býr.

Bæði eru skipin smíðuð úr bestu eik og hönnuð til að standast válynd veður og sjólag við Íslandsstrendur. Knörrinn er 15,15 metra, 19,27 lesta stokkbyrt þilfarsskip og Húni II er 27,48 metra, 117,98 lesta stokkbyrt þilfarsskip.  Þrátt fyrir umtalsverðan stærðarmun, má glögglega sjá skyldleikann í skrokklaginu og styrkleikann í yfirbragðinu. Sigling Húna II og Knarrarins hefst í dag, Húni II leggur upp frá Akureyri og skipin sameinast á Húsavík þar sem hin sameiginlega sigling hefst þegar lagt verður úr Húsavíkurhöfn um kl. 22 í kvöld. 

Ferðaáætlunin er eftirfarandi:          
11.maí Húsavík 20:00-22:00 
12.maí Vopnafjörður 20:00-22:00 
13.maí Neskaupstaður 10:00-12:00 
13.maí Eskifjörður 17:00- 19:00 
14.maí Breiðdalsvík 17:00-19:00 
15.maí Höfn í Hornafirði 20:00-22:00 
16.maí Vestmannaeyjar 20:00-22:00
17.-18.maí Reykjavík, Bátahátíð við Víkina, Sjóminjasafn. 
Boðið í siglingu kl. 10:00. Skipin til sýnis 13:00-17:00 
19.maí Bíldudalur 20:00-22:00 
20.maí Þingeyri 09:00-11:00 
20.maí Ísafjörður 20:00-22:00 
21.maí Skagaströnd 20:00-22:00 
22.maí Siglufjörður 15:00-17:00 
22.maí Akureyri, ferðalok um miðnættið.

108. Húni II EA 740. © Hafþór 2013.

11.05.2013 14:59

Fanney

Það gengur hjá köllunum að skvera Fanney í slippnum á Húsavík. Hyggjast hefja hvalaskoðunarferðir um næstu mánaðarmót.

1445. Fanney ÞH ex Siggi Þórðar. © Hafþór 2013.

04.05.2013 10:29

Í slipp

Hér er Siggi Þórðar í slippnum á Húsavík og eftir skveringu verður hann búinn að fá sitt upphaflega nafn, Fanney ÞH. Þá klár í hvalaskoðunina. Smíðaður á Akureyri 1975.1445. Siggi Þórðar GK 197. © Hafþór Hreiðarsson 2013.
  • 1
Flettingar í dag: 457
Gestir í dag: 82
Flettingar í gær: 694
Gestir í gær: 121
Samtals flettingar: 9394382
Samtals gestir: 2007263
Tölur uppfærðar: 6.12.2019 12:16:01
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is