Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2012 Júní

14.06.2012 00:05

Margrét

Þessa tók ég suður með sjó í dag, sólin var soldið að stríða mér eins og verða vill þegar hún skín þar mikið. En ég prófaði bara að færa mig til og viti menn það gekk svona ljómandi. Þ.e.a.s. bæði að færa mig og taka myndir. En þessi fallegi bátur er á strandveiðum og heitir Margrét. Flestir síðulesendur kannast nú sennilega við hann.1153. Margrét KÓ 44 ex Viktor. © Hafþór Hreiðarsson 2012

12.06.2012 21:58

Barðstrendingur

Sumir segja að magn sé ekki það sama og gæði en ég ætla samt að henda hér inn þriðju myndinni í kvöld. Hún sýnir Barðstrending BA 33 sem smíðaður var í Hafnarfirði 1979.6614. Barðstrendingur BA 33 ex Sæljós BA 33. © Hafþór Hreiðarsson 2012.

12.06.2012 21:44

Freyja II

Strandveiðibáturinn Freyja II RE kemur að bryggju. Hún hét áður Alfa. Smíðaður í Noregi 1981.1590. Freyja II RE 69 ex Alfa. © Hafþór Hreiðarsson 2012.

12.06.2012 21:25

Emilía

Emilía AK 57 hét eitt sinn Bangsi og var frá Tálknafirði. Hún er á strandveiðum líkt og margir aðrir smábátar.2367. Emilía AK 57 ex Bangsi BA. © Hafþór Hreiðarsson 2012.


09.06.2012 18:24

Ventura

Skaut nokkrum myndum af farþegaskipinu Ventura þar sem það lá við bryggju á Akureyri í dag. Nokkuð stórt og glæsilegt skip þarna á ferðinni sem stoppaði stutt.

Ship statistics: Ventura

Country of registry: Bermuda
Port of registry: Hamilton
Entered service: April 2008
Named by: Dame Helen Mirren
Gross Tonnage: 115,000
Length overall: 290m (951ft)
Breadth: 36m (118ft)
Draught: 8.3m (27ft)
Service speed: 22 knots
Crew: 1,226
Regular passenger capacity: 3,078
Maximum passenger capacity: 3,574
Passenger decks: 15
Passenger cabins: 1,539
Ventura. © Hafþór Hreiðarsson 2012

06.06.2012 19:01

Sæfari

Sæfari ÁR kom hingað inn um sexleytið með rifið troll en hann er á rækjuveiðum. Höddi vinur minn er á honum en ekki sá ég hann. Enda ekki skrítið því eftir því sem Dísa systir (hans) sagði mér í síðustu viku ætlaði kallinn í heim í sólina í smá frí. Það hlýtur að vera sól hjá honum.1964. Sæfari ÁR 170 ex Fanney SH. © Hafþór Hreiðarsson 2012.

06.06.2012 14:48

Nýr bátur frá Trefjum-Þorsteinn SH 145

Útgerðarfélagið Hvíldarfoss ehf. fékk núna á dögunum afhentan nýjan bát frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Að útgerðinni standa bræðurnir Friðbjörn og Gylfi Ásbjörnssynir.  Gylfi verður skipstjóri á bátnum.

Nýi báturinn hefur hlotið nafnið Þorsteinn SH-145.  Báturinn er af gerðinni Cleopatra 31 í nýrri útgáfu.  Fyrir á útgerðin annan bát, Tryggva Eðvarðs SH-2, af gerðinni Cleopatra 38.

Nýi báturinn er 8,5 brúttótonn og er í krókaaflamarkskerfinu. Báturinn er einnig útbúinn til handfæraveiða og með vökvakerfi til grásleppu og handfæraveiða. Handfærarúllur eru 5 frá DNG.  

Aðalvél bátsins er af gerðinni Cummins 6CTA8.3M 430hö tengd ZF gír. Báturinn er útbúinn siglingatækjum af gerðinni Furuno frá Brimrún. Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking.

Rými er fyrir 12-14 stk 380 lítra kör í lest.  Svefnpláss er fyrir 2-3 í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél og örbylgjuofni. 


2826. Þorsteinn SH 145. © Trefjar.is

04.06.2012 21:52

Salka

Hér öslar Salka fagran Skjálfandaflóa. Knörrinn sér  um aflið.1438. Salka GK 79 ex Fiskir. © Hafþór Hreiðarsson 2012.

03.06.2012 23:25

Knörrinn kom með Sölku

Knörrinn kom með Sölku í togi til Húsavíkur sl. föstudag og fór ég með Heimi Harðar og Tómasi á slöngubát til móts við bátana. Tók þetta myndband þá en sendi myndir á mbl.is sem birti eftirfarandi frétt:

Knörrinn, fyrsti bátur Norðursiglingar, kom í gær til Húsavíkur með skrokkinn af Sölku GK í togi. Salka hafði sokkið í Sandgerðishöfn í fyrra eftir árekstur við annað skip og stóð til að eyðileggja bátinn. Hjá Norðursiglingu heyrðu menn af málinu en um er að ræða systurskip Hildar, annarrar af tveimur skonnortum félagsins. Var því gripið inn í ferlið og falaðist eftir bátnum.

Systurskip skonnortu félagsins

"Þar sem að þetta var eina nákvæma systurskip hinnar stóru skútunnar okkar eigum við alla hönnun að reiða og öllu í skipið ef að við gerum það upp. Svo að ákveðið var að taka það hingað norður og sjá hvað gæti orðið úr því," sagði Heimir Harðarson, einn af eigendum Norðursiglingar, í samtali við mbl.is. Að sögn Heimis hafa umræddir bátar algjörlega slegið í gegn í núverandi hlutverki, þ.e. að skoða hvali og náttúruna, en þeir eru hljóðlátir, plássgóðir og hreyfast þægilega.

Salka er sjöundi eikarbáturinn sem að kemst í eigu Norðursiglingar. Vonast menn til að hægt verði að gera bátinn upp og þá á Húsavík, en Hildur var á sínum tíma gerð upp í Danmörku. Salka gæti því orðið þriðja skonnortan í flota Norðursiglingar.

Eikarbátar sem að fer fækkandi

Eikarbátar hafa reynst sérlega vel í skoðunarferðum um Skjálfanda og í Grímsey að sögn Heimis. Einnig hefur Norðursigling farið með ferðamenn um firði Sporöskjusunds í Grænlandi á skonnortum þess með góðum árangri. "Þetta eru eru eikarbátar sem að fer óðum fækkandi á Íslandi og verða líklegast aldrei smíðaðir aftur," sagði Heimir. "Þetta eru skip sem að geta farið hvert á hnettinum sem er, ekki síst ef að þau eru eins vel græjuð og systurskip Sölku er," bætti hann við.


03.06.2012 17:51

Sjómenn heiðraðir á Húsavík

Tveir sjómenn voru heiðraðir í dag við hátíðlega athöfn á Húsavík.

Að þessu sinni voru heiðraðir þeir Guðmundur Aðalbjörn Hólmgeirsson sem ættaður er úr Flatey á Skjálfanda og Hreiðar Olgeirsson sem kenndur er við Skálabrekku á Húsavík. Þeir eiga það sameignlegt að hafa stundað sjóinn lengi, bæði sem sjómenn og eins sem útgerðarmenn.

Sjómannadeild Framsýnar sá um heiðrunina. Á 640.is má lesa umsögn um Guðmund og Hreiðar sem Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar flutti í dag við athöfnina.


Hreiðar Olgeirsson, Halla Hallgrímsdóttir, Helga Jónína Stefánsdóttir og Guðmundur A. Hólmgeirsson. © Hafþór Hreiðarsson 2012

03.06.2012 14:50

Frilli í skyrinu

Hér er Frilli að keppa í hindrunarhlaupinu sem var á liður í hátíðarhöldum Sjómannadagsins hér á Húsavík. Og hann er að borða óhrært skyr en það reyndist mörgum erfitt. Friðrik er Einarsson og skipverji á Lundey NS frá Vopnafirði en þarna var hann að keppa fyrir Heimsmeistarana.Frilli í skyrinu. © Hafþór 2012.

03.06.2012 12:35

Skemmtisigling og kappleikir

Dagskrá í tilefni Sjómannadagsins á Húsavík fór vel fram í gær og voru hátíðarhöldin afar vel sótt í bongóblíðu.

Þau hófust að venju með skemmtisiglingu á Skjálfanda um morguninn þar sem bátar sigldu um spegilsléttan flóann. Meðal þeirra var nýr bátur Björgunarsveitarinnar Garðars, Jón Kjartansson, sem kom til Húsavíkur í fyrrakvöld.

Þegar Jón Kjartansson sem kemur í stað eldri báts með sama nafni lagðist aftur að bryggju blessaði Sighvatur Karlsson sóknarprestur á Húsavík bátinn á hafnarstéttinni. Þar á eftir hófst keppni í kappróðri, hindrunarhlaupi og reiptogi þar sem vel var tekið á því.

Hátíðarhöldum dagsins í gær lauk svo með sjómannahófi  á Fosshótel Húsavík þar sem dansað var fram eftir nóttu.

Í dag, Sjómannadag, voru fánar dregnir að húni snemma morguns og Sjómannamessa var í Húsavíkurkirkju kl. 11. Kl. 14 hefst hið magnaða Sjómannadagskaffi Slysavarnardeildar kvenna í Nausti þar sem aldraðir sjómenn verða einnig heiðraðir kl. 15:30.

Þá er Safnahúsið og Sjóminjasafnið opið gestum og gangandi án endurgjalds og á þriðju hæð Safnahússins er hin  glæsilega ljósmyndasýning áhugaljósmyndara í Norðurljósum.

Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.

Hér að neðan gefur að líta myndbrot frá skemmtisiglingunni og kappleikjunum við höfnina í gær.

03.06.2012 12:28

Jötunn

Hér eru félagarnir Hörður Sigurgeirsson og Mattíhas Leifsson á nýja bátnum sínum honum Jötni. Jötunn keyptu þeir á dögunum af björgunarsveitinni Garðar sem var að endurnýja bátinn eins og komið hefur fram. 7503. Jötunn ex Jón Kjartansson. © Hafþór Hreiðarsson 2012.

03.06.2012 00:31

Amma Sigga

Amma Sigga á fleygiferð um Skjálfandann í morgun. Sá ekki betur en að Séra Sighvatur hafi verið meðal farþega. Já og Jón Skúli frændi minn.Amma Sigga í skemmtisiglingu á Skjálfanda. © Hafþór Hreiðarsson 2012.
Flettingar í dag: 498
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 995
Gestir í gær: 134
Samtals flettingar: 9257745
Samtals gestir: 1995364
Tölur uppfærðar: 26.8.2019 10:02:14
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is