Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2011 Mars

05.03.2011 23:01

Freyr ÞH 1

Hér er Freyr þH 1 á útleið frá Húsavík þann 3. október 2003. Hann siglir ekki lengur um sæinn og dregur björg í bú. Það hafa aðrir tekið við keflinu og sennilega skilaði hann sínu og vel það.

11.Freyr ÞH 1 ex Freyr GK 157. © Hafþór Hreiðarsson 2003.

05.03.2011 13:19

Fanney SK 83

Þennan hef ég sýnt áður en ekki þessa mynd held ég. En hvað um það þó svo væri er alltaf gaman að birta myndir af bátum smíðuðum á Akureyri. Örn Stefánsson og Inga Lóa Blöndal hjá Sjósiglingu í Reykjavík festu kaup á þessum bát fyrir ekki löngu síðan og hyggjast gera hann út til siglinga með farþega en þau eiga fyrir Núma HF 62.

619.Fanney SK 83 ex Hrafnsey SF. © Hafþór Hreiðarsson 2003

04.03.2011 20:42

Ásgeir ÞH 198

Hér kemur mynd úr safni Þorgríms af Ásgeir ÞH 198 sem smíðaður var fyrir Dodda og Magga á Seyðisfirði. Og er það Strandamaðurinn Magnús sem stendur á hádekki og Doddi því í brúnni. Þennan bát áttu þeir þangað til þeir stækka við sig í 20 brl. bát sem hét einnig Ásgeir og var síðasti báturinn sem þeir áttu saman. Þessi var að mig minni seldur suður þar sem hann fékk nafnið Ásborg RE, síðar BA. Hann endaði ævi sína upp á kambi á Ísafirði eða réttara sagt á á brennu (held ég).

1185.Ásgeir ÞH 198. © Úr safni Þ.A

04.03.2011 16:17

Haförn ÞH 26

Hér koma tvær myndir af Haferni ÞH 26 sem ég tók eftir hádegi í dag þegar hann kom að landi í glaðasólskini. Því fylgdi talsverður vindur að þessu sinni.

1979.Haförn ÞH 26 ex Þorsteinn BA 1. © Hafþór Hreiðarsson 2011.

1979.Haförn ÞH 26 ex Þorsteinn BA 1. © Hafþór Hreiðarsson 2011.

03.03.2011 15:21

(Svarti) Svanur TH 77

Svanur TH 77 var smíðaður árið 1916 í Reykjavík og hét upphaflega Svanur og alla tíð Svanur. GK 462 var hans fyrstu umdæmisstafir en hann var smíðaður fyrir Árna Geir Þóroddsson ofl. í Keflavík. Báturinn var 14 brl. smíðaður úr eik og furu og búinn 30 hestafla Alpha vél. Báturinn var seldur einu sinni innanbæjar í Keflavík og þaðan til Súgandafjarðar áður en Helgi Bjarnason á Húsavík kaupir hann árið 1949. Hann er seldur frá Húsavík 1955 suður í Voga og verður þá aftur GK 462. Svanur var talinn ónýtur og tekinn af skrá í árslok 1960 og hét þá Svanur RE 266. Báturinn hafði verið lengdur árið 1935 og stækkaði við það um eina brúttórúlest. Þá hafði verið skipt um vél í hinum þrisvar sinnum. (Heimild Íslensk skip)

Í sögu Húsavíkur segir að árið 1948 hafi bræðurnir Helgi og Ásmundur Bjarnasynir stofnað með föður sínum Bjarna Ásmundssyni og Páli  Kristjánssyni bókara hlutafélagið Svan hf. um útgerð og fiskkverkun. Síðar kom þriðji bróðirinn, Hreiðar, inn í fyrirtækið. Fyrsti bátur fyrirtækisins hét Svanur TH 77 og var keyptur frá Súgandafirði sama ár og fyrirtækið var stofnað. Svanurinn var smíðaður í reykjavík 1916 og var þá fjórtán tonn en var endurbyggður og stækkaður upp í tuttugu tonn árið 1935. Þennan bát gerður þeir út til ársins 1955 er hann var seldur suður á Vatnsleysuströnd og nýr bátur smíðaður fyrir fyrirtækið út í Danmörku. 47 brl. eikarbátur sem fékk nafnið Helgi Flóventsson TH 77.

Svanur TH 77 ex Svanur ÍS 568. © Úr safni Þ.A

02.03.2011 21:04

Hagbarður TH 1

Hér kemur mynd af Hagbarði TH 1 koma að landi á Húsavík. Saga þessa báts hefur komið hér fram áður og óþarfi að rekja hana frekar. En þó skal þess getið að Hagbarður var smíðaður fyrir Húsavíkurhrepp í Reykjavík árið 1946. var þá 47 brl. með 160 hestafla Lister aðalvél. 1955 var báturinn lengdur og mældist þá 54 brl. að stærð. Um leið var sett í hann 240 hestafa Lister. Hagbarður sökk eftir árekstur við rekald um 20 sjm. vestur af Ingólfshöfða. Þetta var þann 31. október 1974 og bjargaðist áhöfnin í gúmíbjörgunarbát og þaðan um borð í fylki NK. Hagbarður var þá gerður út frá Hornafirði og hét Hagbarður SF 15 og var í eigu Gjafa h/f á Höfn. Um 1960 var umdæmisstöfum Hagbarðs breytt úr TH í ÞH og síðar varð hann Hagbarður KE 115 áður en hann varð SF 15.
(Heimild Íslensk skip)

538.Hagbarður TH 1. © Úr safni Þ.A

02.03.2011 20:46

Smári TH 59

Smári TH 59 var smíðaður í Hafnarfirði árið 1949 fyrir Útgerðarfélagið Vísi h/f á Húsavík. Hann var 65 brl. að stærð búinn 200 hestafla Lister aðalvél. 1956 var skipt um aðalél og kom stærri Lister í stað þeirra gömlu, 270 hestafla vél. Um 1960 var umdæmisstöfum bátsins breytt úr Th í ÞH og varð hann því Smári ÞH 59. Í febrúar 1966 var Smári seldur Haka h/f í Reykjavík og varð Smári RE 59. Í nóvember 1969 var Smári seldur vestur í Stykkishólm þar sem hann var gerður út það sem eftir var. Kaupandinn var Björgvin h/f og Smári varð SH 221.1985 var sett í hann 199 Kw. M. Blackstone aðalvél en þá voru skráðir eigendur Björgvin h/f og Rækjunes h/f. Báturinn endaði síðan sína lífdaga í fjöru einni við Stykkishólm. (Heimild Íslensk skip)

778.Smári TH 59. © Úr safni Þ.A

02.03.2011 18:05

Helga ÞH 7

Helga ÞH 7, upphaflega TH 7, var smíðuð fyrir Hreifa h/f á Húsavík í Danmörku árið 1956. hún var 55 brl. að stærð og búin 265 hestafla Alpa aðalvél. Hreifi h/f var eigandi Helgu frá því í árslok 1956 til ársbyrjunar 1962 þegar báturinn var seldur Útgerðarfélagi Höfðakaupsstaðar h/f á Höfðakaupsstað. Báturinn hét Helga Björg HU 7.  Vorið 1965 er Helga Björg seld Páli Jónassyni h/f í Reykjavík og fékk þá nafnið Páll Jónasson HU 44. Í júlímánuði 1968 kaupa Guðjón Björnsson og Jóhann Guðjónsson í vestmannaeyjum bátinn og nefna hann Þrist VE 6. þristur er seldur sumarið 1972 Birni Gústafssyni og Friðriki Kárasyni á Akranesi og hann heldur nafninu en verður AK 120. Í sumarlok 1973, s.s eftir gos, kaupa þeir Guðjón og Jóhann bátinn aftur sem verður þá aftur Þristur VE 6. 1976 er sett í hann ný aðalvél, að þessu sinni 455 hestafla Caterpillar. Í febrúar 1980 kaupir Hörður Jóhannsson á Eyrarbakka bátinn og gefur honum nafnið Sæbjörn ÁR 15. Sæbjörn var talinn ónýtur og brenndur í Helguvík 26. mars 1982 og tekinn af skipaskrá 15. apríla sama ár. (Heimild Íslensk skip)

559.Helga ÞH 7 ex Helga TH 7. © Úr safni Þ.A

01.03.2011 22:51

Helgi Flóventsson TH 77

Hér kemur ein perlan enn úr safni Þorgríms Aðalgeirssonar. Hún sýnir Helga Flóventsson TH 77 sem smíðaður var árið 1955 í Danmörku fyrir Svan h/f á Húsavík. Báturinn var mældur 47 brl. að stærð og var hann búinn 200 hestafla Alpha aðalvél. Í desember 1959 var báturinn seldur Meitlinum h/f í Þorlákshöfn og fékk báturinn nafnið Þorlákur II ÁR 3. 240 hestafla Caterpillar leysti Ölphuna af hólmi 1969. Í desember 1971 keypti Skjöldungur h/f Reykjavík bátinn og varð hann Skjöldur RE 80 við það. Meitillinn h/f keypti bátinn aftur í nóvember 1974  og seldi hann aftur í mars 1975. Kaupendur voru Grímur Þórarinsson í Þorlákshöfn og Jóhann Adólfsson í Hveragerði og gáfu þeir bátnun nafnið Gautur ÁR 19. Í febrúar 1977 voru skráðir eigendur fyrrnefndur Jóhann og Jón Ólafsson í Þorlákshöfn. Báturinn sökk um 3 sjómílur undan Selvogsvita 31. ágúst 1977. Áhöfnin, 3 menn, bjargaðist í gúmíbjörgunarbát og þaðan um borð í vélskipið fylki NK 102 frá Neskaupsstað sem sigldi með þá til  lands. Heimild Íslensk skip.

921.Helgi Flóventsson TH 77. © Úr safni Þ.A

01.03.2011 21:00

Frá Húsavík í den

Hér er skemmtileg mynd úr safni Höskuldar Sigurgeirssonar á Húsavík. Þarna rær maður einn á pramma með lítinn gutta í skut. Hverjir það eru sem þarna fara saman hef ég ekki hugmynd um en myndin er góð.

Frá Húsavík © Höskuldur Sigurgeirsson.
Flettingar í dag: 451
Gestir í dag: 126
Flettingar í gær: 595
Gestir í gær: 109
Samtals flettingar: 9396787
Samtals gestir: 2007661
Tölur uppfærðar: 9.12.2019 20:06:47
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is