Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2011 Febrúar

19.02.2011 10:30

Sæborgin farin

Sæborgin er farin, seld vestur á firði. Strákarnir sem náðu í hana sögðu að Lýður læknir hefði keypt hana og ætli á grásleppu. DV segir frá þessu í dag í eftirfarandi frétt:

"Við hjónin keyptum okkur grásleppubát og ætlum að reyna að húkka í nokkrar grásleppur," segir Lýður Árnason, læknir og kvikmyndagerðamaður. Lýður er ekki þekktur fyrir að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Nýlegt dæmi sýnir það en hann og kona hans hyggja á grásleppuveiðar í mars.

Með þeim, til halds og trausts, verður Vestfirðingurinn Ólafur Ragnarsson, sem margir þekkja betur sem Óla popp, en gert verður út frá Flateyri. "Þetta verða dagtúrar hjá okkur. Það er sett út net, svo hafa menn held ég sextíu daga og vitja neta á átján daga fresti. Svo setur maður þau aftur út á sama stað eða annars staðar," segir Lýður sem hlakkar mikið til að halda á vit ævintýranna.

"Það er eitthvað heillandi við hafgoluna," segir Lýður og bætir við: "það má líka segja að ástæðan sé sú að það er svo mikill niðurskurðarhnífur í þessum opinbera geira alls staðar og við fórum ekki varhluta af því. Þetta er kannski tilraun til þessa að reyna ráða lífi manns að einhverju leyti sjálfur.

Þegar maður er að vinna sem læknir þá er maður yfirleitt að vinna hjá hinu opinbera og það er ekki mikið öryggi í því. Maður veit aldrei hvenær einhverjum dettur í hug að gera hitt eða þetta, þarna er kannski meiri möguleiki að geta ráðið sér sjálfur. Það er ekki nema að maður þurfi að glíma við veðurguðina."

Þannig er það nú. Ekkert botna ég í slebbukörlunum hérna á Húsavík að vera endalaust að draga netin ef þess þarf ekki nema á átjána daga fresti. Annars er þessi bátur vestfirðingum ekki ókunnur, hét eitt sinn Neisti ÍS og var frá Bolungarvík. Þar áður Hafrún ST á Ströndum en upphaflega Heiða Ósk.


7008.Sæborg ÞH 55 ex Neisti SU. © Hafþór Hreiðarsson 2011.

18.02.2011 21:50

Beitir

Hér koma þrjár myndir af Beiti NK 123 sem Einar Ófeigur Magnússon sendi mér í kvöld. Einar er stýrimaður á olíuskipi íslendinga og tók hann myndirnar þegar skipin mættust undan Alviðru í dag. Helvíti flottar myndir hjá kallinum.

2730.Beitir NK 123 ex Margrét EA 710. © EÓM 2011

2730.Beitir NK 123 ex Margrét EA 710. © EÓM 2011.

2730.Beitir NK 123 ex Margrét EA 710. © EÓM 2011.

17.02.2011 11:39

Gandí dreginn til hafnar

Skuttogarinn Gandí VE 171 var í gær dreginn til hafnar í Hafnar­firði vegna vélarbilunar í aðalvél skipsins. Skipið var á grá­lúðu­veið­um 160 mílur vestur af Hafnarfirði þegar bilunin kom upp. Gandí er í eigu Vinnslu­stöðvarinnar. Var hann dreginn í land af Jóni Vídalín VE sem er í eigu félagsins og var að veiðum suður af Reykjanesi.

Guðni Ingvar Guðnason, út­gerðar­stjóri, gat lítið sagt um bilunina enda skipið enn úti á sjó þegar rætt var við hann. "Það er í raun lítið hægt að segja fyrr en við erum búnir að skoða skipið. Það var stimpilstöng sem fór, tvö göt brotin en við vitum ekki hversu alvarlegt tjónið er eða hversu lang­an tíma tekur að gera við vél­ina," sagði Guðni en skipin voru væntanleg til Hafnarfjarðar um miðjan dag í gær, miðvikudag. (eyjafrettir.is)

Gunnþór Sigurgeirsson var á kajanum í Hafnarfirði þegar komið var með Gandí og tók þessa mynd.

2702.Gandí VE 171 ex Rex HF. © Gunnþór Sigurgeirsson 2011.

14.02.2011 16:57

Netabáturinn Haförn

Hér kemur netabáturinn Haförn ÞH 26 að landi í dag. Held að hann og Von ÞH 54 séu einu bátarnir sem gerðir eru út á þorskanet frá Húsavík þessa dagana.

1979.Haförn ÞH 26 ex Þorsteinn BA 1. © Hafþór Hreiðarsson 2011.

13.02.2011 21:06

Gunni í Flatey

Gunnar heitinn Guðmundsson eða Gunni í Flatey er hér á mynd Þorgríms. Fínn kall Gunni, vann með honum í aðgerðinni hjá FH.

Gunnar Guðmundsson. © Þ.A

13.02.2011 20:46

Jósteinn

Þorgrímur sendi mér þessa mynd af Jósteini Hreiðarssyni handlanga bjóðin um borð í trillu sem gæti verið Kristinn ÞH 64. Jósteinn var annálaður beitningamaður og margfaldur landsmóstmeistari í þeirri grein. Vargsnesið liggur fyrir framan og í röðinni framan við hann kenni ég m.a. Villa ÞH 214 sem Anton Hjaltason átti. Sá stóri næst bryggjunni tel ég vera Dag ÓF 66 sem Baldur Karlsson var með um tíma.

Jósteinn tekur bjóðin. © Þ.A

13.02.2011 13:14

Viddi Þórðar

Hér er Viddi heitinn Þórðar með fullan bát. Sýnist þetta geta verið Ársæll ÞH 46. Óskar á Guðrúnu Björgu fylgist grannt með en í dag gerir hann út Heru ÞH 60.

Viddi Þórðar með fullan bát. © Þ.A

13.02.2011 13:01

Biggi Lúlla

Hér er Birgir Lúðvíksson að landa úr Gosa sínum og ekki annað að sjá en vel hafi fiskast þennan daginn.

Biggi Lúlla að landa úr Gosa. © Þ.A

13.02.2011 12:42

Líf og fjör við höfnina

Það hefur verið líf og fjör á bryggjunni þegar Þorgrímur tók þessa mynd. Þarna má kenna nokkra menn. Eiríkur heitinn Marteinsson er þarna um borð í trillu sinni, sem líklega er Háey þegar þetta var. Hann er greinilega á tali við Hörð Þórhallsson skipstjóra og útgerðarmann á Sigþór ÞH. Hörður gegndi starfi hafnarvarðar við Húsavíkurhöfn um tíma og spurning hvort þessi mynd sé tekin á þeim tíma. Benedikt Jónasson lyftaramaður hjá FH er þarna við bryggjutréð en ef menn þekkja fleiri á myndinni er um að gera að geta þeirra í athugasemdarkerfinu neðan við færsluna.

Líf og fjör við höfnina. © Þ.A

13.02.2011 12:33

Brósi og Maggi taka bjóðin

Hér kemur ein perlan til frá Þorgrími Aðalgeirssyni og sýnir hún feðgana Hreiðar Jósteinsson og Magnús son hans taka bjóðin. Báturinn er Vilborg  ÞH 11 sem í dag heitir Von ÞH 54.

Bjóðin tekin. © Þ.A

12.02.2011 22:47

Dalaröst

Hér kemur Dalaröstin til hafnar á Húsavík. Held að það þurfi ekkert að segja meira um þennan, helstu uppl. hafa komið fram hér áður. En síðan þá hefur hann reyndar fengið nafnið Tungufell BA.

1639.Dalaröst ÞH 40 ex Dalaröst ÁR 63. © Hafþór Hreiðarsson.

12.02.2011 20:59

Gjafar VE á strandstað

Þorgrími fannst óþarft að sleppa Gjafari fyrst við birtum Kópanesið og hér mynd hans af Gjafari VE 300 á strandstað við Grindavík. Gjafar var smíðaður í Hollandi 1964 fyrir Rafn Kristjánsson, Sveinbjörn Guðmundsson og Sigurð Kristjánsson í Vestmannaeyjum. Hilmar Rósmundson og Theódór Ólafsso, einnig eyjamenn, höfðu nýverið keypt Gjafar þegar hann strandaði um mánuði eftir gos. Í bókinni Íslensk skip segir að Björgunarsveitin í Grindavík hafi bjargað skipshöfninni, 12 mönnum, heilum á húfi til lands við vondar aðstæður.

240.Gjafar VE 300. © Þ.A

12.02.2011 18:45

Flakið af Kópanesi

Hér koma tvær myndir Þorgríms Aðalgeirssonar af flaki Kópaness RE 8, þ.e.a.s ein af afturhluta þess og hin af því sem var framan við brú. Kópanes rak upp í fjöru við Grindavík 28. febrúar 1973 og handan við innsiglinguna sést í Gjafar VE 300 sem strandaði þarna nokkrum dögum áður, eða þann 22. febrúar. Mannbjörg varð í báðum þessum óhöppum en bátarnir eyðilögðust.

Kópanes RE 8 var smíðað í Stálvík árið 1971 og var rétt að verða tveggja ára gamalt þegar það bar beinin þarna við Grindavík.

1154.Kópanes RE 8. © Þ.A

1154.Kópanes RE 8. © Þ.A

12.02.2011 17:38

Fallega rauður

Hérna kemur einn fallega rauður á mynd sem tekin var að kvöldlagi. Ekki orð um það meir......

1009.Kristbjörg ÞH 44 ex Kristbjörg II ÞH 244. © Hafþór Hreiðarsson.

12.02.2011 12:18

Á útleið

Hér er einn grænn á útleið. Björg Jónsdóttir ÞH 321 sem upphaflega hét Óskar Magnússon AK og var smíðaður í Slippstöðinni á Akureyri. Höfðavík Ak hét hann þegar Langanes keypti hann og gaf honum nafn Bjargar Jónsdóttur. Þegar ný Björg Jónsdóttir var keypt fékk þessi nafnið Bjarni Sveinsson ÞH 322.  Seldur til Noregs eftir að Skinney-Þinganes keypti Langanes. Hlustaði á ævintýralega frásögn í Ríkisútvarpinu frá því er skipið fór til selveiða í Norður Íshafinu. Hér  má hlusta á það.

1508.Björg Jónsdóttir ÞH 321 ex Höfðavík AK 200. © Hafþór Hreiðarsson.
Flettingar í dag: 451
Gestir í dag: 126
Flettingar í gær: 595
Gestir í gær: 109
Samtals flettingar: 9396787
Samtals gestir: 2007661
Tölur uppfærðar: 9.12.2019 20:06:47
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is