Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2011 Janúar

27.01.2011 22:37

Að róðri loknum

Maður gæti ímyndað sér að hér sé verið að ganga frá eftir dragnótaróður á Kristbjörgu II ÞH 244. Sæmundur Vilhjálmsson vélstjóri við spilið, Hallgrímur heitinn Brynjarsson að draga niður tógið og Þórður Jakob Adamsson stígur dansinn á lunningunni. Myndina tók Þorgrímur Aðalgeirsson og myndi ég giska á árið sé 1977. Sæborgin liggur glæný fyrir framan gömlu Kibbuna.

1053.Kristbjörg II ÞH 244. © Þ.A

27.01.2011 19:27

Bátar, bílar og togari

Hér kemur mynd frá Þorgrími sem sýnir fallega bíla, báta og togara. Togarinn er Júlíus Havsteen ÞH 1 og meðal bátanna er Bliki ÞH 50. En þó menn hafi gaman að því að rýna í bátana þá er ekki síður gaman að sjá bílana.

Húsavík á Sjómannadegi fyrir 1980. © Þ.A

26.01.2011 23:15

Arnar

Hér sjáum við mynd Péturs Helga Péturssonar af Arnari ÁR 55 frá Þorlákshöfn. Myndina tók Peddi á netavertíð í Breiðafirði 1985 en þá var hann skipverji á Geira Péturs ÞH 344. Arnar var upphaflega RE, síðan HU og loks ÁR en hann var úreldur fyrir Blika EA 12 sem smíðaður var í Svíþjóð.

234.Arnar ÁR 55 ex Arnar HU. © PHP 1985.

26.01.2011 18:18

Álitin skipta máli

 Það er gaman þegar skrifuð eru álit við myndirnar og ég tala nú ekki um ef það leiðir til umræðu um myndefnið. En þau geta líka leitt til fleiri mynda eins og gerðist í dag þegar vinnufélagi minn gaukaði að mér mynd af drekkhlöðnum loðnudalli við bryggju á Húsavík. Valur skrifaði nefnilega álit við myndina af Bessa í gær sem hljóðaði svo: Minnir mann á loðnubátana :) (Kannski ekki rétt að segja hljóðaði því það kom ekkert hljóð) emoticon
En sem sagt vinnufélagi minn las þetta og hugsaði með sér að það væri nú ekkert mál að sýna það að Húsvíkingar veiddu líka loðnu á trillurnar sínar. Og hér er mynd af Hróa Guðmundar Baldurssonar smekkfullum af loðnu og er það Ásþór heitinn Sigurðsson sem er með háfinn en þeir félagar eru greinilega byrjaðir löndun.

Hrói ÞH 29. © Jósef Matthíasson 1983.

25.01.2011 21:39

Bessi að fiska

Það var ekki bara Sæmi sem fiskaði í gmala daga. Þeir voru fleiri trillukarlarnir og Bessi var einn af þeim. Hér er hann kominn að landi með fullan bát. Sem hét Kristinn ÞH 64. Bessi heitir fullu nafni Vilhjálmur Bessi Kristinsson og er skipstjóri hjá Gentle Giants hvalaskoðunarfyrirtækinu.

Vilhjálmur Bessi Kristinsson á Kristni ÞH 64. © Þ.A

24.01.2011 23:02

Halldór

Halldór NS frá Bakkafirði kom hér í dag og lá við Norðurgarðinn. Heyrði að hann ætti að fara upp á bíl/vagn sem myndi flytja hann eitthvað vestur. Áki Guðmundsson lét smíða Halldór í Guernesey í Englandi 1988 og var hann síðan skutlengdur árið 2000.

1928.Halldór NS 302. © Hafþór Hreiðarsson 2010.

24.01.2011 22:27

Sæmi að fá 'ann

Hér er ein gömul frá Þorgrími. Þarna hefur Sæmi (Sæmundur Vilhjálmsson) því sem næst fyllt Vargsnesið. Mikill fiskimaður Sæmi. Fleiri myndir Þorgríms af bryggjunni í den væntanlegar.

Sæmundur Vilhjálmsson með fullan bát. © Þ.A

23.01.2011 23:06

Tveir saman

Hér eru þeir saman Bjössi Sör og Sveinn Sveinsson. Bjössi Sör að koma úr slippnum og naut við það aðstoðar Sveins. Sveinn Sveinsson BA hafði verið keyptur til Húsavíkur og komið til nýrrar heimahafnar nokkrum dögum áður en þessi mynd var tekin þann 14 mars 2003. Hann fékk síðan nafnið Hinni ÞH 70 en heitir í dag Draumur og er á Akureyri.

1417.Bjössir Sör-1547.Sveinn Sveinsson BA 325. © HH 2003.

23.01.2011 17:33

Aldey

Hér er ein gömul af Aldey ÞH 110 leggja í'ann á rækjumiðin. Það var fiskað vel á þennan þó lítill væri.

1245.Aldey ÞH 110 ex Stokksey ÁR 50. © Hafþór Hreiðarsson.

20.01.2011 21:26

Meira af Glað ÞH 150

Hér koma tvær myndir til viðbótar sem Þorgrímur Aðalgeirsson tók í netaróðri með Glað ÞH 150. Þorgrímur fór með í þann róður sér til skemtunar og tók þessar myndir. Hermann Ragnarsson var í brúnni og aðrir sem við þekkjum á myndunum eru Gunnar Emil Halldórsson, Gunnar Helgi Hauksson, Ragnar Sigurbjörnsson og Þórarinn Höskuldsson. Spurning hver þessi með loðhúfuna (í fyrri færslunni) sé.

Þórarinn Höskuldsson og Ragnar Sigurbjörnsson. © Þ.A

Gunnar Helgi Hauksson og Gunnar Emil Halldórsson. © Þ.A

18.01.2011 20:44

Netaróður á Glað ÞH 150

Það er lítið um að vera við höfnina hér á Húsavík nú í byrjun árs og þá er gott að geta birt myndir frá liðinni tíð. Hér koma þrjár myndir Þorgríms Aðalgeirssonar sem hann tók í netaróðri á Glað ÞH 150 sem síðar varð Geir ÞH 150 frá Þórshöfn. Ekki kann ég að nefna alla þá sem á myndunum eru svo örrugt sé en þó þekki ég Þórarin Höskuldsson og Hermann Ragnarsson sem er í brúarglugganum.

459.Glaður ÞH 150 ex Þórarinn. © Þ.A

Netin dregin og greitt úr. © Þ.A

Svo er bara að leggja þau aftur. © Þ.A

15.01.2011 14:11

Helgafell í ísnum

Hér kemur mynd Þ.A af Helgafellinu í ísnum 1979. Þarna er það sennilega að reyna að brjótast út úr höfninni en eins og sést á myndinni var vír með belgjum strengdur yfir hafnarmynnið til að varna því að ísinn færi inn í sjálfa höfnina.

1532.Helgafell. © Þ.A 1979.

13.01.2011 22:40

Haförn

Þessi var tekin á sama tíma og myndin í færslunni hér að neðan og sýnir Haförninn við bryggju.


13.01.2011 22:27

Ein síðan í gær

Hér er ein síðan í gær sem ég tók um kl. átjánhundruð. Þarf ekkert að segja meira hún lýsir því sem lýsa þarf.


12.01.2011 19:28

Bliki í ísnum

Hér er Bliki ÞH 50 eitthvað að snudda við ísinn í Húsavíkurhöfn veturinn 1979. Skipstjóri Hinrik Þórarinsson. Báturinn var í eigu Útgerðarfélagsins Njarðar hf., þegar þarna var komið. Hann var smíðaður í Svíþjóð 1948 og því rúmlega þrítugur þegar Þorgrímur Aðalgeirsson tók þessa mynd. Báturinn hét upphaflega Ólafur Magnússon AK 102 og mældist 80 brl. að stærð.

710.Bliki ÞH 50 ex Bliki GK. © Þ.A 1979.
Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 664
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 9254637
Samtals gestir: 1995063
Tölur uppfærðar: 24.8.2019 01:05:55
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is