Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2010 Desember

26.12.2010 20:02

Aron

Þá er það Aron ÞH 105 sem hér birtist en hann var keyptur árið 1998 frá Svíþjóð. Þessi mynd var sennilega tekin í júníbyrjun 1999 því báturinn var lengdur síðar það ár.

Hér er frétt Morgunblaðsins af komu bátsins til Húsavíkur skrifuð af Silla þáverandi fréttaritara:

NÝR ARON ÞH kom til heimahafnar á Húsavík í vikunni í stað þess sem seldur var til Jökuls hf. á Raufarhöfn og nú heitir Reistarnúpur ÞH. Nýja skipið er smíðað í Strandby í Danmörku árið 1990 en var keypt frá Fotø í Svíþjóð þar sem það stundaði togveiðar. Skipið er úr stáli, yfirbyggt og um 120 lestir. Það er búið 920 hestafla Caterpillar aðalvél, kraftmiklu togspili og útbúið til að toga með tvö troll samtímis. Um skipið hefur verið vel gengið og vistarverur skipverja eru rúmgóðar og vistlegar. Útgerð skipsins er Knarrareyri hf. og skipstjóri er Stefán Guðmundsson. Skipið verður gert út á rækju- og humarveiðar og heldur til veiða á næstu vikum.

Svo mörg voru þau orð en eins og menn muna sökk Aron norðan við Grímsey í september 2002.

2333.Aron ÞH 105. © Hafþór Hreiðarsson.

26.12.2010 19:29

Valdimar

Valdimar SH 106 hét upphaflega Ásbjörg ST 9 of var smíðaður í Skipavík fyrir Hólmvíkinga. Um tíma Ásbjörg RE 79 og Alli Júl ÞH 5 áður en hann fékk þetta nafn sem hann ber á mynd Guðlaugs Albertssonar. Í dag heitir hann Númi HF 62 en áður bar hann einkennisstafina KÓ 24.

1487.Valdimar SH 106 ex Alli Júl ÞH 5. © Guðlaugur Albertsson.

26.12.2010 19:04

Leifur Halldórsson

Leifur Halldórsson SH 217 hét þessi um tíma þegar hann var keyptur til landsins fékk hann nafnið Skálafell ÁR 20. Síðar Hegri KE 107, Heimir KE 77, Kópur ÁR 9, Ársæll SH 88 og loks Grótta HF. Báturinn var endurbyggður frá grunni þegar hann hét Grótta og varð að mig minnir RE að þeim loknum. Þá kom að því að hannvar seldut til Ólafsvíkur og fékk það nafn sem hann ber á þessari mynd Fonsa. Að lokum hét hann Draupnir ÁR 21 og var seldur til Rússlands árið 2004. Kannski gleymi ég einhverjum nöfnum sem hann hét í þessari upptalningu en þá leiðrétta menn það bara.
1171.Leifur Halldórsson SH 217 ex Grótta RE 26. © Alfons Finnsson.

26.12.2010 18:39

Guðmundur Jensson

Hér er það Guðmundur Jensson SH 717 sem siglir inn í höfnina í Ólafsvík. Alfons tók þessa mynd af þessum hollensksmíðaða bát sem upphaflega hét Hringur SI. Og hét Hringur lengi og bar m.a. einkennisstafina GK 18. Þá varð hann Fengur RE 77 og síðar Hólmaröst SH 108 áður en hann fékk Hringsnafnið aftur en það var þegar hann var keyptur til Ólafsvíkur. Í fyrra skiptið. Síðar varð hann Geir ÞH 150 en þegar nýr Geir var smíðaður hjá Ósey í Hafnarfirði var hann keyptur aftur til Ólafsvíkur og fékk það nafn sem hann ber á myndinni. Síðar bar hann nafnið Hannes Andrésson SH en ekki man ég hvort þau voru fleiri. Horfinn af skipaskrá.

582.Guðmundur Jensson SH 717 ex Geir ÞH 150. © Alfons Finnsson.

26.12.2010 18:23

Gústi í Papey

Sverrir Aðalsteinsson á Höfn tók þessa mynd af Gústa í Papey SF 188. Flott mynd að mínu áliti en eins og margir muna hét þessi bátur upphaflega Sunnutindur SU. Lengi vel var hann þó gerður út frá Vestfjörðum, fyrst Ísafirði og síðar Bolungarvík. Hét þá Guðný ÍS og var frægur línubátur auk þess sem hann komst í fréttirnar fyrirr annan veiðiskap. Gústi í Papey sökk eftir að leki kom að honum við Langanes þann 4. júní 2004. Þá var hann á leið til Húsavíkur að ná í rækjutroll og var áhöfninni  bjargað um borð í Árbak EA.
483.Gústi í Papey SF 188 ex Guðný ÍS. © Sverrir Aðalsteinsson.

26.12.2010 18:13

Stakkaberg

Þá kemur mynd Guðlaugs Albertssonar af Stakkabergi SH 117. Þennan bát eiga lesendur síðunnar að kannast ágætlega við, ekki svo langt síðan birtust af honum myndir en hann hét upphaflega Frosti ÞH 230.


1373.Stakkaberg SH 117 ex Ársæll Sigurðsson HF 80. © GA.

26.12.2010 17:56

Gunnar Bjarnason

Hér kemur mynd Alfons Finnssonar af Gunnari Bjarnasyni SH 122 . Hún er af diski sem ég var að skoða í dag en á honum má m.a. finna myndir sem ég fékk sendar frá ýmsum aðilum þegar ég var að safna myndum í Íslenska Sjómannalamankið í den. Fyrir Fiskifélag Íslands. Ég vona að menn sem þær eiga firrist ekki við þó ég birti þær.

Gunnar Bjarnason þessi hét upphaflega Harpa GK 111 en í dag heitir hann Blómfríður SH 422. Lengi hét hann þó Grundfirðingur SH 12.

1244.Gunnar Bjarnason SH 122 ex Grundfirðingur SH 12. © Alfons.

26.12.2010 00:49

Sævík

Hér er mynd sem sýnir línubátinn Sævík leggja úr höfn á Húsavík í nóvember árið 2002. Sævík hét upphaflega Guðrún Guðleifsdóttir ÍS og heitir það líka í dag. En hefur þó heitið nokkrum nöfnum í millitíðinni. Einn af 18 systkinum frá Boizenburg.

971.Sævík GK 257 ex Aðalvík KE 95. © Hafþór Hreiðarsson 2002.

26.12.2010 00:20

M

Hér siglir báturinn sem hafði skipaskránúmerið 1000 eða M ef maður notar rómversku tölurnar. Hann er á leiðinni til hafnar í Njarðvík að mig minnir, en ég hef ekki elt hann þangað því ekki finn ég fleiri myndir af honum svona. Hef sennilega verið að flýta mér í Sandgerði. En Eldhamar GK 13 er þarna á ferðinni og ég held að saga hans hafi komið það oft fyrir hér á síðunni að hér verður látið staðar numið.

1000.Eldhamar GK 13 ex Kristján RE 110. © Hafþór Hreiðarsson.

21.12.2010 22:27

Sighvatur kominn í jólafrí

Línubáturinn Sighvatur kom til hafnar á Húsavík í dag þar sem landað var úr honum. Sighvatur mun liggja hér yfir hátíðarnar og liggur við þvergarðinn með Heru utan á sér. Talsverðar forfæringar þurfti til að þetta gengi upp því ekki var hægt að setja vél Heru í gang. Það hafðist þó og hér eru tvær myndir frá því í dag en ég missti af bátnum koma fyrir Bökugarðinn. Han var örlítið fyrr á ferðinni en ég hafði heimildir um og þó ég færi tímanlega var hann kominn inn að bryggju þegar ég mætti á staðinn. Ég á svo sem nóg af myndum af honum koma fyrir garðinn en þó ekki með þessa fallegu jólaseríu uppi.

975.Sighvatur GK 57 ex Bjartur. © Hafþór Hreiðarsson 2010.

975.Sighvatur GK 57-67.Hera ÞH 60. © Hafþór 2010.

20.12.2010 23:06

Æfingin skapar meistarann

Æfinginn skapar meistarann segir einhversstaðar og á þessari mynd sem nú birtist eru björgunarsveitarmenn á Húsavík við æfingar. Myndin er tekin 21. ágúst árið 2000 en fimm dögum áður unnu félagar úr Björgunarsveitinni Garðari, ásamt fleirum, björgunarafrek þegar þeir björguðu ferðalöngum og landvörðum af þaki rútu sem festist í Jökulsá á Fjöllum.

En fyrir bátaáhugamenn þá er þetta Alli Júl ÞH 5 sem er þarna á legunni en upphaflega hét hann Ásbjörg ST 9. Í dag er hann Númi HF 62.

1487.Alli Júl ÞH 5 ex Ásbjörg RE 79. © Hafþór Hreiðarsson 2000.

19.12.2010 22:03

Fyrsta prentun uppseld

Fyrsta prentun uppseld segir oft í útvarpsaulgýsingum og það má einni segja um hið vinsæla dagatal Skipamynda. Fyrsta prentun er sem sagt uppseld og komnar fleiri pantanir í næsta upplag sem prentað verður sem fyrst. Áhugasamir ættu ekki að bíða lengi með að panta sér dagatal á netfangið korri@simnet.is
Fyrir þá sem eiga pantað úr fyrsta upplagi er hægt að segja að þeir eiga von á sendingu.

19.12.2010 21:05

Oddgeir

Þessa mynd fékk ég senda frá einum lesanda síðunnar og sýnir hún Oddgeir EA 600 við Eldey.

1039.Oddgeir EA 600 við Eldey.

18.12.2010 17:39

Núpur B&W

Þó Núpurinn sé fallega rauður er gamana að leika sér með myndir af honum og hér kemur ein slík.

1591.Núpur BA 69 ex Núpur SU. © Hafþór Hreiðarsson 2005.
Flettingar í dag: 313
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 691
Gestir í gær: 173
Samtals flettingar: 9397340
Samtals gestir: 2007773
Tölur uppfærðar: 10.12.2019 06:05:31
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is