Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2010 September

14.09.2010 22:04

Eyborg

Eyborgin kom til hafnar hér á Húsavík síðdegis í dag. Líklega vegna brælu en hann blés hressilega af norðvestri. Tók nú ekkert eftir henni fyrr en hún var komin að bryggju enda get ég ekki séð í gegnum holt og hæðir og hvað þá höfða. En hvað um það hún var komin og ekkert annað í stöðunni en að taka mynd af henni við bryggju. Og er svo sem ekki í fyrsta skipti, hún hefur komið hingað áður. Fyrst var hún lítil og sæt en svo óx hún úr grasi og ég segi ekki meir.

2190.Eyborg EA 59. © Hafþór Hreiðarsson 2010.

2190.Eyborg EA 59. © Hafþór Hreiðarsson 2010.

14.09.2010 17:30

Byr

Hér kemur mynd sem ég tók á Skagafirði á síðustu öld. Sennilega 1986. Þarna er dragnótabátur að veiðum og örugglega við litla hrifningu bænda og búaliðs í Sléttuhlíðinni. Byr heitir báturinn og er ÓF 58 þegar myndin var tekin. Áður hafði hann verið Byr NS en upphaflega Benedikt Sæmundsson GK. Svanur ÞH 100 hét hann síðan og var frá Húsavík og þar á eftir Aron ÞH 105. Einnig frá Húsavík. Önnur nöfn sem hann hefur borið eru Fiskines GK, Mæani ÍS, Jakob Valgeir ÍS og Jón forseti ÍS og ÓF.

992.Byr ÓF 58 ex Byr NS. © Hafþór Hreiðarsson.

11.09.2010 18:38

Kristina

Eiríkur frændi minn sendi mér þessa mynd í dag en hann er matsveinn á Björgvin EA. Myndirn sýnir Kristinu EA sem sigldi framhjá Börgvin í morgun, ekki km fram hvar en ég reikna með að það hafi verið austan við land.

2662.Kristina EA 410. © Eiríkur Guðmundsson 2010.

11.09.2010 00:34

Á útleið

Hér kemur mynd frá haustinu 2006 sem sýnir línubátinn Hrungni GK sigla út frá Húsavík.

237.Hrungnir GK 50 ex Reykjanes. © Hafþór Hreiðarsson 2006.

10.09.2010 14:11

Kambur fær nýja Steinunni

Útgerðarfélagið Kambur ehf í Hafnarfirði fékk nú á dögunum afhentan nýjan Cleopatra bát frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Að útgerðinni stendur Hinrik Kristjánsson en Ingimar Finnbjörnsson verður skipstjóri á bátnum.

Nýi báturinn, sem er af gerðinni Cleopatra 38, hefur hlotið nafnið Steinunn HF-108. Hann er 15 brúttótonn og er í krókaaflamarkskerfinu.  

Aðalvél bátsins er af gerðinni Volvo Penta D12 650hp tengd ZF gír.

Báturinn er útbúinn siglingatækjum af gerðinni Furuno.

Báturinn er einnig útbúin með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu bátsins.  Báturinn er útbúinn til línuveiða.  Línuspil og færaspil er frá Beiti.

Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking.

 Rými er fyrir 12stk 660lítra kör í lest.  Í bátnum er innangeng upphituð stakkageymsla.  Borðsalur er í brúnni auk stóla fyrir skipstjóra og háseta.  Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.


2763.Steinunn HF 108. © Trefjar.is 2010.

09.09.2010 19:18

Styttist í endalokin

Það styttist í endalokin hjá Sif HU sem lengst af hét Ólafur Magnússon. Á fréttavefnum Norðanátt segir frá því að í dag hafi farið í gang hreinsunaraðgerð í höfninni á Hvammstanga en það standi til að fjarlægja Sif-HU 39 sem hefur legið við norðurbryggjuna frá því seint í september árið 2008.

Sjá nánar á Norðanáttinni en hér að neðan er ein mynd sem sýnir þegar búið er að koma Sif upp með bryggjunni. Myndina tók Páll Sigurður Björnsson og kann ég honum bestu þakkir fyrir lánið.

711.Sif HU ex Ólafur Magnússon HF 77. © PSB 2010.

08.09.2010 20:25

Siglt út flóann

Hér siglir Keilir SI 145 út Skjálfandaflóann fyrir nokkrum árum. Hef lítið meira um þennan bát að segja núna svo ég læt staðar numið.

1420.Keilir SI 145 ex Keilir GK 145. © HH 2003.

07.09.2010 23:11

Argenova er skipið

Jæja hér kemur mynd sem var tekin um helgina og spurt er hvert er fleyið ? Svarið er línuskipið Argenova XXI sem áður hét Vestmannaey. Þannig að Hjalti var fyrstur með svarið. Sigurgeir Pétursson frændi minn sem er skiptsjóri á verksmiðjutogaranum Tai An sendi mér myndina sem tekin var um helgina eins og áður segir. Þá voru skipin inn á firði syðst í Argentínu í arfavitlausuveðri  og blindbyl eins og Geiri orðaði það.

06.09.2010 20:18

Blár og rauður

Hér eru tveir við bryggju, annar blár en hinn rauður. Báðir smíðaðir á Íslandi. Sá blái var einu sinni svipaður að stærð og sá rauði. Svo stækkuðu báðir en sá rauði bara miklu meira.

1611. Eiður ÓF 13-1434. Þorleifur EA 88. © Hafþór Hreiðarsson 2010.

04.09.2010 09:15

Eiður

Hér er það dragnótabáturinn Eiður ÓF sem kemur fyrir augu síðulesara. Ekki í fyrsta skipti en fyrir þá sem ekki vita var hann smíðaður í Hafnarfirði 1982 og hét upphaflega Valur RE 7. Hann hefur gengið í gegnum þó nokkrar breytingar s.s. breikkun og skutlengingu að ég held. Myndina tók ég þann 1. september sl. þegar Eiður kom til hafnar á Húsavík.

1611.Eiður ÓF 13 ex Guðlaug SH. © Hafþór Hreiðarsson 2010.

02.09.2010 23:02

Trollið rifið

Sigurborgin frá Grundarfirði kom inn til Húsavíkur með rifið rækjutroll í dag og fengu strákarnir aðstoð hjá Kára Páli í Ísneti við viðgerðina: Fáir betri en Kári Páll í rækjutrollunum. Sigurborgin athafnaði sig við Bökugarðinn og lagði ég leið mína þangað og smellti af nokkrum myndum.

Trollið komið upp á bryggju. © Hafþór 2010.

Og koma svo gæti Kári verið að segja. © HH 2010.

Húsvíkingurinn Gylfi Sigurðsson er í áhöfn Sigurborgar. © Hafþór 2010.

01.09.2010 19:37

Hera í aðgerð og Auður siglir hjá

Hér birtist mynd af dragnótabátnum Heru ÞH 60 þar sem báturinn lá í aðgerð framan við Húsavíkurhöfða síðdegisí dag. Handfærabáturinn Auður ÞH 1 kemur siglandi inn með höfðanum en nokkrir handfærabátar réru frá Húsavik í dag.

67.Hera ÞH 60 & 6223.Auður ÞH 1. © Hafþór Hreiðarsson 2010.
Flettingar í dag: 5
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 694
Gestir í gær: 121
Samtals flettingar: 9393930
Samtals gestir: 2007184
Tölur uppfærðar: 6.12.2019 00:17:22
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is