Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2009 Desember

21.12.2009 20:07

Vigfús Þórðarson ÁR 34

Eins og segir í færslunni hér að neðan um Pétur Jónsson TH 50 rak hann á land á Stokkseyri árið 1977 og hét þá Vigfús Þórðarson ÁR 34. Hér sjáum við mynd Vigfúsar Markússonar af bátnum í fjörunni við Stokkseyri þar sem báturinn rak upp ásamt þrem öðrum.723.Vigfús Þórðarson ÁR 34 ex Pétur Jónsson. © Vigfús Markússon 1977.

21.12.2009 19:38

Pétur Jónsson TH 50

Hér birtist mynd, sem reyndar birtist á síðu þeirra Lundeyjarmanna á dögunum, af Pétri Jónssyni TH 50. Myndirna tók Gunnar Jónsson bátsverji á Pétri úr snurpubátnum út undir Kolbeinsey á sínum tíma.

Pétur Jónsson TH 50 var smíðaður í Danmörku árið 1955. Hann var í eigu  Útgerðarfélagsins Barðans hf. á Húsavík sem þeir Borgarhólsbræður Þór og Stefán Péturssynir stýrðu og er báturinn nefndur eftir föður þeirra.

Pétur Jónsson, sem var 53 brl. að stærð búinn 296 hestafla Buda aðalvél, var seldur Hraðfrystihúsi Stokkseyrarhrepps hf. og Stokkseyrarhreppi í nóvember 1969. Báturinn nefndist Vigfús Þórðarson ÁR 34 en nokkrum árum fyrr hafði verið sett í hann 330 hestafla G.M aðalvél.

Bátinn rak á land á Stokkseyri 14. desember árið 1977 og eyðilagðist. Tekinn af skrá 1. apríl 1980.
 
                                                           Heimild Íslensk skip.

723.Pétur Jónsson TH 50. © Gunnar Jónsson.

20.12.2009 18:37

Máni GK 36

Hér kemur mynd af Mána GK 36 koma til hafnar í Keflavík einhverntímann upp úr aldamótunum. Máni var eins og mörgum er kunnnugt um, smíðaður í Danmörku 1959 fyrir Hraðfrystihús Grindavíkur. Þegar þarna var komið var hann búinn að vera á einhverju flakki og hét m.a. Haförn ÁR 115 um tíma en síðar Máni aftur. BA og svo GK 257 áður en hann varð GK 36 aftur. Það minnir mig alla vega.671.Máni GK 36 ex Máni GK 257. © Hafþór Hreiðarsson.

20.12.2009 10:28

Ver RE 112

Hér kemur mynd af eikarbátnum Ver RE 112 sem lengi hét Þorsteinn KE 10. Hann var smíðaður árið 1955 í Danmörku og mældist þá 28 brl. að stærð. Hann hét þá Breiðfirðingur SH 101 og var í eigu Arnars Sigurðssonar, Kristjáns Guðmundssonar og Rögnvaldar Ólafssonar á Hellisandi. Þeir seldu hann árið 1963 og hefur hann heitið eftirtöldum nöfnum eftir það: Breiðfirðingur RE 262, Þorkell Árnason GK 262, Oddrún RE 126, Þorsteinn KE 10 og þá það nafn sem hann ber á myndinni, Ver RE 112.


357.Ver RE 112 ex Þorsteinn KE 10. © Hafþór Hreiðarsson.

19.12.2009 20:19

Hvað eiga þessar myndir sameiginlegt

Hvað eiga þessar myndir sameiginleg annað en að vera af bátum ?


13.Gulltoppur ÁR 321 ex Snætindur ÁR 88. © Hafþór Hreiðarsson 2006.


1030.Páll Jónsson GK 7 ex Goðatindur SU. © Hafþór Hreiðarsson 2003.


1371.Bergur Vigfús GK 100 ex Guðfinnur KE 19. © Hafþór Hreiðarsson.


76.Guðrún Björg HF 125 ex Tjaldur RE. © Hafþór Hreiðarsson 2006.

19.12.2009 13:40

Gulltoppur ÁR 321

Hér kemur enn ein myndin af 1269 sem á þessari mynd ber nafnið Gulltoppur ÁR 321 en er eins og menn vita Aðalbjörg II RE 236 í dag.


 1269.Gulltoppur ÁR 321 ex Stakkavík ÁR 107. © Hafþór Hreiðarsson.

18.12.2009 22:18

Mypmah 2

Guðmundur Aðalsteinsson eða Brói Alla eins og við húsvíkingar þekkjum hann sendi mér þessa mynd af uppsjávarveiðiskipinu Mypmah 2 og varpa ég nú fram síglidri spurningu, hvað vita menn um þennan ?


Mypmah 2. © www.123.is/broialla

18.12.2009 21:14

Tóku forskot á sæluna..

Þórarinn Höskuldsson vélstjóri starfar hjá Vísi hf. á Húsavík og í dag tóku stafsmenn forskot á sæluna og ef þú lesandi góður vilt vita meira um það skaltu ýta hér

Þórarinn Höskuldsson © Víðir Svansson 2009.

17.12.2009 21:47

Krossanes og Adólf Sigurjóns

Hér koma tvæ myndir af sama bátnum, teknar með nokkurra ára millibili. Þetta er báturinn sem ber skipaskrárnúmerið 177 og var smíðaður í Noregi 1960 fyrir Björgu hf. á Eskifirði. Hann hét Seley SU 10 upphaflega ogg til ársins 1965 en eftir það mörgum nöfnum og m.a. þessum tveim sem hann ber á myndunum. Krossanes SU 5 og Adólf Sigurjónsson VE 182.

177.Krossanes SU 5 ex Bergvík VE 555. © Hafþór Hreiðarsson.

177.Adólf Sigurjónsson VE 182 ex Krossanes SU 5. © Hafþór Hreiðarsson.

16.12.2009 20:24

Stjáni Ben

Hér kemur mynd af Stjána Ben sem ég tók árið 2005 og er Guðvarður Jónsson við stjórnvölinn á bátnum. Stjáni Ben hét áður Náttfari ÞH 200 en ef ég man rétt keypti Hilmar Þór Guðmundsson hann að vestan. Suðureyri kannski.

6287.Stjáni Ben ex Náttfari ÞH 200. © Hafþór Hreiðarsson 2005.

15.12.2009 22:21

Gamli Grindvíkingur í Svíaríki

Gísli Arnar Guðmundsson var staddur í Svíþjóð á dögunum þeirra erinda að  þykktarmæla gamla Grindvíking sem nú er í eigu norskrar útgerðar. Þar sem okkur íslendingum finnst gaman af því að fylgjast með því hvað verður um skipin okkar fannst Gísla tilvalið að senda mér nokkrar myndir af Grindvíkingi auk nokkurra lína um sögu skipsins í Svíaríki.

"Skipið lítur afar vel út enda var alltaf hugsað vel um skipið hér heima. Mér skilst að það hafi verið á leið í pottinn þegar sænskur læknir keypti það og kom því fyrir á einu stærsta stöðuvatni svía en þar á kallinn bústað og einhverja mynd af bryggju. Það var íslensk áhöfn á skipinu og sögðu þeir mér að það
hefði verið afar súrrelískt að ná í skipið, keyra heillengi í gegnum skóga og þröngar stíga. Hitta þar fyrir lækni sem átti víst að vera Svía langyngsti útskrifaði læknir, en nú var hann á milli 40-50 ára og ætlun hans hafði verið að nota skipið í timburflutninga. Hann var búin að vinna heilmikið í skipinu við málun og slíkt enn það lá s.s við bryggju ætluð árabátum víðsfjarri söltum sjó. Það tók nokkra daga að fá öll leyfi og skipið í function en nú er það í dokk í Gautaborg og skipta þurfti út nokkru plötum í coffedam og ballast tönkum". Sagði Gísli Arnar en eftir slipp fer gamli Grindvíkingur í flutninga á fiski og jafnvel á selveiðar.

1512. Grindvíkingur GK 606 síðar Skarfur GK 666. © Gísli Arnar Guðmundsson 2009.

14.12.2009 15:07

Enn eitt metár hjá Berki NK

Á heimasíðu Síldarvinnslunar segir í dag að Börkur NK hafi komið inn til löndunar í gærmorgun með 1.300 tonn af síld.  Þar segir jafnfrmat:
Síldarvertíðin hefur gengið vel hjá þeim Barkarmönnum og er aflinn kominn yfir 9 þúsund tonn á vertíðinni og hefur nánast allur afli skipsins farið í manneldisvinnslu.  Veiðar hafa gengið vel þótt vissulega sé langt að sækja aflann eða 36 tíma stím.  Til gamans má geta þess að skipið hefur farið í 9 veiðiferðir á vertíðinni og hefur tíminn skipt skipst þannig að u.þ.b. 650 tímar hafa farið í stím, 330 tímar í löndun og aðeins hefur verið stoppað í 75 tíma á miðunum.  Auk þess sem skipið hefur lagt af mörkunum 8 sólarhringa í síldarrannsóknir.

Aflaverðmæti skipsins á árinu er 1.330 milljónir króna sem er 60 milljónum betra en á árinu 2008 þrátt fyrir að loðnuvertíðin hafi dottið uppfyrir.  Skipið hefur veitt 52 þúsund tonn og vegur veiði úr norsk-íslenska stofninum mest.  Útflutningsverðmæti þess afla sem skipið hefur borið að landi er komið yfir 3 milljarða króna.

Nú tekur við vélarupptekt og viðhald til að búa skipið undir verkefni næsta árs en það ríkir mikil óvissa með loðnuvertíðina sem ætti að byrja uppúr áramótum.1293.Börkur NK 122 ex Devonshire Bay. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

13.12.2009 15:12

Kartöfluskrælari

Eftirfarandi barst mér um helgina en þar sem ég hef verið önnum kafinn þá birtist þetta ekki fyrr en nú.

Sæll vertu, Hafþór.
Kartöfluskrælararnir hafa verið til umfjöllunar í dag eins og þú veist. Þú sýndir mynd af b.v. Ásþóri ER 10 þann.1.Janúar síðastliðinn og þar sést vel lúgan undir "skrælaranum." En skrælararnir voru "felldir" inn í borðið sem sést vel á myndinni sem ég sendi þér núna. Nánast beint undir kýrauganu t.h. á myndinni. Startarinn er svo upp á þilinu.

Þessi mynd var tekin um borð í b.v. Ásþóri ER 10 um sumarið 1987 og má á henni sjá netamanninn á bátsmannsvaktinni aðstoða brytann við störf sín, þó ekki unnið að kartöfluflysjun. Skipið hafði fyrr þennan dag sem myndin var tekin verið statt í Bolungarvík þar sem tekinn var meiri ís til kælingar á afla en skipið var fullfermt, eftir góða veiði á Kögurgrunni og vorum við á
leið til Reykjavíkur þegar þessi mynd var tekin. Ekki man ég dagsetningu en man það að kirkjan á Ísafirði brann þennan sama dag.

Ekki skrifaði sendandinn undir þetta en hann er enginn annar en Hafliði Óskarsson sem einmitt er þessi netamaður sem var á bátsmannsvaktinni og er að aðstoða brytann þegar myndin var tekin. Þó ekki við kartöfluskrælingu.


Bátsmaðurinn aðstoðar brytann við störf sín. © Úr safni H.Ó.


 

10.12.2009 18:50

Gunnar Bjarnason SH 25

Hér kemur mynd úr safni Hreiðars Olgeirssonar sem ég hef nú kannski birt áður en það verður að vera svo ef er. Þetta er Gunnar Bjarnason SH 25 á síldarvertíð austanlands, sennilega 1983. Gunnar Bjarnason var smíðaður í Noregi 1963 fyrir Aðalstein Loftsson á Dalvík. Hann nefndi bátinn Loft Baldvinsson EA 124. Síðar hét hann Baldur EA 124, Baldur RE 2, Hagbarður KE 116 og loks Gunnar Bjarnason SH 25.


144.Gunnar Bjarnason SH 25 ex Hagbarður KE 116. © Hreiðar Olgeirsson.


09.12.2009 22:56

Ekki of seint að panta dagatal

Að gefnu tilefni vil ég benda á það að ekki er of seint að panta Skipamyndadagatalið sem búið verður til á næstunni. Er að velja myndir og þyrfti að hafa fleiri mánuði í árinu.Dagatalið er hægt að panta á korri@simnet.is

Flettingar í dag: 342
Gestir í dag: 62
Flettingar í gær: 1100
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 9396083
Samtals gestir: 2007488
Tölur uppfærðar: 8.12.2019 08:08:00
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is