Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2009 Desember

31.12.2009 21:38

Albert GK 31

Það er ekki vitlaust að henda einni mynd af Albert GK 31 inn áður en maður fer í eftirréttinn. Þessa mynd tók Hreiðar Olgeirsson undan Selvoginum á vetrarvertíðinni 1982. Albert hét upphaflega Birtingur NK en síðar Oddeyrin EA.


1046.Albert GK 31 ex Birtingur NK 119. © Hreiðar Olgeirsson 1982.

31.12.2009 11:00

Húsvískir sjómenn héldu aðalfund sinn í gær- og ályktuðu

Aðalfundur sjómannadeildar Framsýnar var haldinn í gær í fundarsal félagsins. Fundurinn var mjög vel sóttur og miklar umræður urðu á fundinum en umræður stóðu yfir í tæpa fjóra tíma. Þrátt fyrir að formlegum aðalfundi lyki fyrr héldu menn áfram að ræða sín mál enda fundarmönnum mikið niðri fyrir.

Ef þú lesandi góður vil lesa meira um fundinn og ályktun hans skaltu ýta
hér

Frá aðalfundi sjómannadeildar Framsýnar í gær. © AÁB 2009.

30.12.2009 00:31

Svanur KE 90

Það er ekki úr vegi að birta mynd af vélbátnum Svan KE 90 sem mótmælti kröftulega meðferðinni á sér á dögunum og sökk í Njarðvíkurhöfn. Þessi annars fallegi bátur var smíðaður í Danmörku árið 1945 og mældist 38 brl. að stærð. Hann var keyptur til landsins árið 1947, hét Muninn II GK 343 og var búinnn 171 hestafla Buda aðalvél. Eigendur hans voru Ólafur, Sveinn og Axel Jónssynir í Sandgerði. 1960 var hann seldur Gísla J. Halldórssyni í Keflavík sem nefndi bátinn Þorstein Gíslason KE KE 90. 1966 var sett 240 hestafla GM aðalvél í hann og í árslok sama árs kaupir Hraðfrystihús Keflavíkur hf. hann og nefnir Sandvík KE 90. Í nóvember 1970 fær hann Svansnafnið þegar Ingólfur R. Halldórsson í Keflavík kaupir hann. 1987 er Karl Sigurður Njálsson skráður meðeigandi Ingólfs að bátnum. Ljósfiskur eignaðist bátinn í kringum aldarmótin og einhverjum árum síðan varð hann legudeild Suðurnesja að bráð.929.Svanur KE 90 ex Sandvík KE 90. © Hafþór Hreiðarsson.

29.12.2009 16:55

Völusteinn kaupir þrotabú Festar

Á dv.is kemur fram að skrifað hafir verið undir samning milli Jóns Auðunar Jónssonar, skiptastjóra þrotabús útgerðarfyrirtækisins Festar ehf. í Hafnarfirði og eigenda Útgerðarfélagsins Völusteins ehf., um að Völusteinn kaupi allan rekstur og eignir þrotabúsins, sex báta, fiskvinnslu og aflaheimildir. Kaupverðið er 3,2 milljarðar króna.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Landsbankanum.

Útgerðarfélagið Völusteinn ehf. er í eigu Ólafs Jens Daðasonar skiptstjóra og Gunnars Torfasonar sjávarútvegsfræðings.

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans annaðist sölu þrotabúsins í umboði skiptastjóra. Tilhögun sölunnar var kynnt með auglýsingu 4. desember og var mikill áhuga á eignunum enda óskuð 104 aðilar eftir gögnum um þær og bárust skiptastjóra 36 óskuldbindandi tilboð.

Þann 23. desember bárust fimm bindandi tilboð. Skrifað var undir kaupsamninginn í dag.

Hinir nýju eigendur hafa lýst því að reksturinn verði endurskipulagður strax í janúar, að fiskvinnslan verði áfram starfrækt í Hafnarfirði og að kappkostað verði að verja þau störf sem fyrir eru.

Fyrir gerir Útgerðarfélagið Völusteinn út línubátinn Hrólf Einarsson ÍS 255 frá Bolungarvík. Með kaupunum verða aflaheimildir fyrirtækisins 1.988 þorskígildi.

2690.Björgmundur ÍS nú Hrólfur Einarsson ÍS. © Hafþór 2007.

29.12.2009 15:46

Dagatalið á leiðinni

Það er gaman að segja frá því að dagatalið sem ég lét gera er þessa stundina á leiðinni frá Akureyri til Húsavíkur með rútunni og verður pakkað í kvöld.

29.12.2009 00:38

Kristbjörgin nýskveruð og flott.

Hér siglir Kristbjörgin nýskverðuð og flott, það gerir rauði liturinn. Myndin tekin á Akureyri. Hann er enn til þessi bátur þó hann sé nú ekki mikið brúkaður og heitir Röst SK 17 en upphaflega Sóley ÍS 225.


1009.Kristbjörg ÞH 44 ex Kristbjörg II ÞH 244. © Hafþór Hreiðarsson.

29.12.2009 00:31

Aron ÞH 105 kemur í höfn

Hér sjáum við Aron ÞH 105 koma til hafnar í den. Það er engu við þetta að bæta því það hefur margt og mikið verið skrafað um þennan bát hér á síðunni.


586.Aron ÞH 105 ex Fagranes ÞH 123. © Hafþór Hreiðarsson.

29.12.2009 00:30

Geiri Péturs lætur úr höfn

Hér lætur Geiri Péturs ÞH 344 úr höfn á Húsavík áleiðis á rækjumiðin. Þessa báts hefur áður verið getið hér á síðunni og litlu við það að bæta. Til upprifjunnar þó að þá var hann smíðaður 1984 í Noregi og keyptur hingað til Húsavíkur árið 1987. Seldur aftur til Noregs þegar GP keypti Skúm ÍS í hans stað.


1825.Geiri Péturs ÞH 344 ex Rosvik T-10-T. © Hafþór Hreiðarsson.


28.12.2009 21:06

Gamalt og gott

Þar sem erfiðlega hefur gengið að setja inn myndir með blogginu birtist hér mynd sem birst hefur áður og er inni í kerfinu. Hún er af Ólafi Magnússyni EA 250 drekkhlöðnum af síld.


161.Ólafur Magnússon EA 250. © Hreiðar Olgeirsson.

26.12.2009 20:15

Geiri Péturs kemur að landi

Hér sjáum við mynd af Geira Péturs ÞH 344 koma að landi á Húsavík eftir rækjuróður og minnir mig að myndin sé tekin í janúar 1985, eða 1986. En kannski er þetta bara misminni og hún tekin á allt öðrum árstíma og hann á fiskitrolli.


1207.Geiri Péturs ÞH 344 ex Sigurbergur GK 212. © Hafþór Hreiðarsson.

25.12.2009 13:58

Vigri RE 71

Hér kemur loksins mynd Gunnþórs Sigurgeirssonar af Vigra RE 71 en ég hitti kappann í gær og hann sagðist ekki senda mér fleiri myndir fyrr en Vigri birtist. Svo hér er hann kominn þannig að myndirnar frá honum fara að flæða í hús.

2184.Vigri RE 71. © Gunnþór Sigurgeirsson 2009.

24.12.2009 17:17

Gleðileg jól


Við Húsavíkurhöfn 22 desember 2009. © Hafþór Hreiðarsson.

24.12.2009 17:09

Kristbjörg ÞH 44

Hér kemur Kristbjörg í land á góðum degi við Skjálfanda.


1420.Kristbjörg ÞH 44. © Hafþór Hreiðarsson.

21.12.2009 22:07

Sighvatur kominn í jólafrí

Sighvatur GK landaði á Húsavík í dag og skelltu karlarnir upp þessari fínu jólaseríu áður en þeir héldu til síns heima í jólafrí. Mér sýnist á heimasíðu Vísis að hin fjögur línuskip fyrirtækisins verði í grindavík um jólin.


975.Sighvatur GK 57 ex Bjartur. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

Flettingar í dag: 5
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 694
Gestir í gær: 121
Samtals flettingar: 9393930
Samtals gestir: 2007184
Tölur uppfærðar: 6.12.2019 00:17:22
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is