Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2009 September

17.09.2009 16:21

Rifsnes SH 44

Línuskipið Rifsnes SH 44 kom inn til löndunar á Húsavík á níunda tímanum í morgun og tók ég þá þessa mynd af skipinu. Það eru nokkur ár síðan Rifsnesið kom hingað síðast, sennilega ein 4-5 ár. Líkt og þegar Örvar SH 777 kom hér í byrjun vikunnar biðu bílar frá Ragnari og Ásgeir tilbúnir á bryggjunni að flytja aflann vestur á Snæfellsnes.


1136.Rifsnes SH 44 ex Örvar BA 14. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

16.09.2009 21:57

Á netum við..........

Hér kemur ein mynd úr safni Hreiðars Olgeirssonar af netabátum á Þistilfirði eða við Langanes. Þetta eru Þorsteinn GK 15 og Sæbjörg EA 184 sem er að draga netin en hvað Önundur skipstjóri var að gera þarna akkúrat þá stund sem myndin var tekin veit ég ekki. Myndin er tekin ca. 1989-1990.


926.Þorsteinn GK 15 og 1263.Sæbjörg EA 184. © Hreiðar Olgeirsson.

 

16.09.2009 16:35

Skátinn langt niðri

Skátinn GK var langt niðri í morgun eftir að hafa fyllst af sjó þar sem hann lá við bryggju á Akranesi. Þar sem þessi bátur var eitt sinn í húsvíska flotanum varð ég að birta þessa mynd sem ég fékk senda frá Skessuhorni. Þar er nefnilega einn gamall Völsungur við störf og var lítið mál að fá myndina lánaða til birtingar. Skátinn hét upphaflega Frosti ÞH 230 og var smíðaður hjá Vör á Akureyri fyrir Frostaútgerðina á grenivík. Pálmi Karlsson keypti síðan bátinn til Húsavíkur og gerði út í nokkur ár áður en hann flutti með hann til Reykjavíkur. Hét hann Helga Guðmunds ÞH, nefnd eftir móður Pálma sem er systir Óskars föður Hafliða nokkurs nýsköpunartogarasérfæðings.


1373.Skátinn GK í morgun. © Skessuhorn.is

15.09.2009 20:53

Línuskipið Örvar SH 777

Línuskipið Örvar SH 777 frá Hellisandi kom til löndunar á Húsavík í morgun og biðu flutningabílar frá Ragnari og Ásgeir til að flytja aflann vestur. Örvar hét áður Tjaldur II og er eins og flestir vita systurskip Tjalds SH 270. Þeir voru smíðaðir í Noregi fyrir KG fiskverkun á Rifi árið 1992. Tjaldur II síðan seldur úr landi nokkrum árum síðar en þetta hefur svo sem allt komið fram hér áður. Alltént var hann keyptur aftur til landsins í fyrra og heitir nú Örvar SH 777.


2159.Örvar SH 777 ex Vestkamp. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

2159.Örvar SH 777 ex Vestkamp. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

13.09.2009 18:31

Þekkja menn þennan ?

Þessi er nú kannski í auðveldari kantinum en þekkja menn bátinn ?

12.09.2009 18:33

Ásgeir ÞH 198

Hér kemur mynd af línu-og grásleppubátnum Ásgeir ÞH 198 frá Húsavík. Myndina tók ég á dögunum þegar ég fór út á flóann til að mynda dragnótabátanna. Þá mættum við Geira Dodda á Ásgeir sínum í hafnarmynninu.


1790.Ásgeir ÞH 198 ex Kristján EA 178. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

12.09.2009 18:07

Myndband af Þorleifi EA komið inn

Þá er myndband af Þorleifi EA 88 komið og hægt að sjá það hér til hægri á MYNDBÖND.


1434.Þorleifur EA 88 ex Hringur GK 18. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

12.09.2009 13:53

Myndband af Sæbjörgu EA 184

Var að setja inn myndbandsbút af Sæbjörgu EA 184 á Skjálfanda. Ef þú lesandi góður hefur áhuga á að skoða það ferð þú í MYNDBÖND hér til hægri á síðunni. Eða þú getur skoðað það hér

Þorleifur EA 88 kemur líka á myndabandi innan skamms en þetta tekur sinn tíma.


2047.Sæbjörg EA 184 ex Linni SH. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

11.09.2009 20:26

Tjaldur á útleið

Þegar maður reis úr rekkju í morgun lá línuskipið Tjaldur SH 270 frá Rifi við bryggju á Húsavík. Ekki veit ég erindi hans hingað en ekki var hann að landa enda skráð á hann löndun í Rifi þann níunda níunda núll níu. Ég náði í rassgatið á honum þegar han fór eftir hádegið og smellti þessari mynd sem birtist hér að neðan.


2158.Tjaldur SH 270. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

10.09.2009 23:00

Meira af Garðari

Menn vildu fá að sjá meira af Garðari og hér er hann. Tekið í dag.


260.Garðar ex Sveinbjörn Jakobsson SH 10. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

10.09.2009 21:50

Dragnótaveiðar á Skjálfanda

Í dag fór ég ásamt Birgi Mikalessyni mági mínum og dóttur minni Höllu Marín í siglingu út á Skjálfanda. Farkosturinn var skemmtibáturinn Geiri litli sem er í eigu föður míns. Tilgangurinn var að mynda dragnótabátana sem voru að veiðum í flóanum sem og aðra báta sem myndu verða á vegi okkar. Við náðum að sigla að Þorleifi EA 88 og Sæbjörgu EA 184 en Hafborg EA 152 slapp fram hjá okkur þar sem hún var miklu innar í flóanum en hinir. Ég tók svo margar myndir af þessum tveim rauðu að sennilega gæti ég verið með eina mynd á dag af þeim í eitt ár. Því miður náði ég Þorleifi aðeins á siglingu og þar sem hann er að kasta dragnótinni en það hefði verið gaman að taka myndir af köllunum hífa pokann inn. Ég náði aðeins að mynda þá á Sæbjörginni við þá iðju en aðeins síðasta pokann sem er ekki alvegfullur. En hér koma tvær myndir og örugglega fleiri síðar.


1434.Þorleifur EA 88 kastar dragnótinni á Skjálfanda í dag. © Hafþór Hreiðarsson.

2047.Sæbjörg EA 184 á Skjálfanda í dag. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

10.09.2009 20:57

Fróði ÞH 81

Hér kemur mynd af Fróða ÞH 81 sem ég tók í dag. Ég tók myndir í vor og birti af bátnum en þá hét hann Marvin NS og var nýkeyptur til Kópaskers. Garðar Birgisson útgerðarmaður Fróða var með hann á Húsavík þar sem skipt var um skrúfu á bátnum og tók hann hring fyrir mig þegar hann var kominn á flot.


7349.Fróði ÞH 81 ex Marvin NS. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

09.09.2009 21:56

Grímseyingar á Húsavík

Grímseyingarnir eru svolítið atkvæðamiklir við húsavíkurhöfn þessa dagana eins og áður hefur komið fram. Tók nokkrar myndir dag og hér koma tvær sem eru ekki af bátum eins og glöggir menn sjá strax.

Á efri myndinni eru þrír grímseyingar að ræða málin, þeir Guðlaugur Óli Þorláksson skipstjóri á Hafborgu, Árni Sigurðsson, föðurbróðir Óla, búsettur á Húsavík amk. síðan síðuritari fór að muna eftir sér og Gunnar Hannesson skipstjóri á Sæbjörgu.

Á neðri myndinni er hluti áhafnar Þorleifs EA og þekki ég þar Alfreð Garðarsson, Bjarna Gylfason og Árna Már Ólafsson. (Fékk nöfnin hjá einni af tengdadætrum Grímseyjar).


Guðlaugur Óli, Árni og Gunnar á bryggjunni í dag. © Hafþór Hreiðarsson.

Glaðbeittir áhafnarmeðlimir á Þorleifi EA koma að landi í dag. © Hafþór Hreiðarsson.

09.09.2009 20:11

Hildur komin á áfangastað

Bátur Norðursiglingar, Hildur, sem við höfum fylgst með að undanförnu er komin á áfangastað í Egernsund í Danmörku. Ferðin gekk vel í alla staði og báturinn reyndist vel en á það reyndi þegar þeir hrepptu vont veður milli Færeyja og Hjaltlandseyja. Vegna stormviðvörunar á Norðursjó, töfðust þeir í rúman sólarhring í Leirvík á Hjaltlandseyjum en eru eins og áður segir við bryggju í Egernsund þar sem Hildur bíður þess að verða breytt í skonnortu. Hér koma tvær myndir sem ég fékk sendar frá áhöfninni í dag. Í áhöfn eru Einar Ó. Magnússon skipstjóri, Gísli Arnar Guðmundsson vélstjóri, Heimir Harðarson stýrimaður og Hilmar Valur Gunnarsson kokkur/háseti. 

 


Siglt undir Stórabeltisbrú. Kafteinn Einar í brúnni.

Heimir Harðarson, Enar Ó. Magnússon, Gísli A. Guðmundsson og Hilmar V. Gunnarsson.


08.09.2009 23:05

Unnið að endurbótum á Garðari í Húsavíkurhöfn

Um þessar mundir eru unnið hörðum höndum að endurbótum á Garðari sem áður hét Sveinbjörn Jakobsson SH 10 í Húsavíkurhöfn. Eins og flestir sem sækja þessa síðu heim vita er báturinn nú í eigu hvalaskoðunarfyrirtækisins Norður-Siglingar á Húsavík. Öllum endurbótum fylgir niðurrif líkt og það sem átti sér stað þegar þessi mynd var tekin. Maðurinn sem mundar slaghamarinn held ég að sé kallaður "Nafni" meðal vinnufélaganna og ku vera nafni Harðar Sigurbjarnarsonar.


Unnið að endurbótum á Garðari í Húsavíkurhöfn. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

 
Flettingar í dag: 517
Gestir í dag: 137
Flettingar í gær: 595
Gestir í gær: 109
Samtals flettingar: 9396853
Samtals gestir: 2007672
Tölur uppfærðar: 9.12.2019 21:15:59
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is