Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2009 Júlí

30.07.2009 22:52

Hera fékk í skrúfuna á Skagafirði í dag

Dragnótabáturinn Hera ÞH 60 fékk nótina í skrúfuna þar sem hún var að veiðum á Skagafirði í dag. Eiður ÓF 13 sem einnig er á dragnótaveiðum var skammt undan og tók hann Heru í tog og dró hana til hafnar á Sauðárkrók. Fréttavefurinn Feykir greinir frá þessu og lesa má fréttina hér en nokkrar myndir fylgja henni.


67.Hera ÞH 67 ex Óli Hall HU. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

30.07.2009 20:39

Kafteinn Hrólfur Þórhallsson

Kafteinn Hrólfur Þórhallsson náði merkum áfanga í dag og hægt er að lesa um það hér 
Þeir sem ekki vita er Hrólfur kapteinn á hvalaskoðunarbátum Norðursiglingar og á myndinni hér að neðan er hann að ræða við feðgana Heimi Harðarson og Hilmar Sær Heimisson.


Hrólfur á tali við feðgana Heimi og Hilmar Sæ. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

30.07.2009 17:43

Strandveiðibáturinn Aron

Það sem heldur uppi umferð báta um Húsavíkurhöfn þessar vikurnar eru strandveiðar og hvalaskoðun. Hér kemur mynd af strandveiðibátnum Aron ÞH 105 koma ti hafnar í dag. Aron er í eigu Knarrareyrar ehf. á Húsavík líkt og Sædís ÞH 305 sem mynd af birtist hér í gær.


7361.Aron ÞH 105 ex Liljan RE 89. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

30.07.2009 13:45

Bátadagar á Breiðafirði

Dagana 11-12 júlí sl. voru haldnir bátadagar á Breiðafirði að frumkvæði Bátasafns Breiðafjarðar. Ferðin tókst mjög vel og yfir 20 súðbirtir trébátar voru með í för. Á heimasíðu Bátasafns Breiðafjarðar segir svo frá ferðinni þann 14. júlí:

Um síðust helgi fóru fram Bátadagar 2009 á Reykhólum.  Það er áhugamannahópur um stofnun Bátasafns Breiðarfjarðar sem stendur að Bátadögum og var fjölmenn þátttaka í ár.  Hópur yfir 100 manns hélt úr höfn frá Stað á um 20 trébátum.  Siglt var í blíðskapar veðri um Breiðafjörðinn eins og dagskrá sagði til um.   Hópurinn fékk frábærar móttökur í eyjunum og slegin var upp matarveisla í Skáleyjum að hætti þeirra og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.  Áhugamannahópurinn vill þakka öllum þátttakendum fyrir frábær viðkynni, yndislega siglingu og vonast til að sjá sem flesta aftur að ári.

Þá segir
heimasíða Reykhólahrepps líka vel frá Bátadögumm 2009.


Siglt innan skerja á Bátadögum 2009. © Sig. Bergsveinsson 2009.

Grýluvogur í Flatey. © Hermann B. Jóhannesson 2009.
Bátasafn Breiðafjarðar

30.07.2009 11:56

Nonni ÞH 9

Hér kemur einn strandveiðibáturinn til og heitir hann Nonni ÞH 9. Hann er í eigu Trausta Jónssonar á Húsavík. Trausti hefur verið á honum á skaki á sumrin svo það er engin nýlunda að sjá hann með rúllurnar um borð. Það ekkert fyrrum nafn í skipaskrá og ekki man ég hvaðan Trausti keypti bátinn. Kjartan sonur hans kemur kannski með það.


6709.Nonni ÞH 9. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

29.07.2009 18:29

Sædís ÞH 305

Hér gefur að líta handfærabátinn Sædísi ÞH 305 og ef þú hefur áhuga lesandi góður er meira af þessum bát að segja hér


6195.Sædís ÞH 305. © Hafþór Hreiðarsson.

28.07.2009 22:39

Rósa í Brún

Ég myndaði Rósu í Brún undir hádegi í dag þegar hún lét úr höfn á Húsavík. Ekki er ég með það á hreinu hver stendur að útgerðinni sem heitir Tryggvi Aðal ehf. en hef þó mínar hugmyndir þar um. Rósa í Brún er í strandveiðikerfinu og hét áður Guðný ST 179 með heimahöfn á Drangsnesi.


6880.Rósa í Brún ÞH 80 ex Guðný ST 179. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

27.07.2009 13:07

Snorri

Hvalaskoðunarfyrirtækið Norðursigling hefur haft eikarbátinn Snorra á leigu yfir hávertíðina í hvalaskoðuninni. Snorri er ekki með öllu ókunnugur húsvíkingum því á árunum 1964-1969 hét hann Svanur ÞH 100. Fyrst voru það Ingvar og Guðmundur Hólmgeirssynir sem gerðu hann út eða frá því desember 1964 og til ársins 1966. Það ár kemur Ingvar með bátinn inn í Vísisútgerðina en þá höfðu Hörður Þórhallsson og Dagbjartur Sigtryggson tekið við henni af feðrum sínum. Svanur var hét upphaflega Farsæll II EA 130 og var frá Hrísey. Hann var smíðaður hjá skipasmíðastöð KEA á Akureyri 1964 og útgerð hans frá Hrísey því ekki ýkja löng. (Heimild Saga Húsavíkur.)


950.Snorri EA 317 ex Fríða RE. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

950.Snorri EA 317 ex Fríða RE. © Hafþór Hreiðarsson 2009.


24.07.2009 11:24

Svanaug Elise

Andrés Kolbeinsson vélstjóri og skipasali brá sér á síldarvertíð í Norðursjó í sumar og hét fleytan sem hann var á Boanes Hav. Andrés sendi mér slatta af myndum sem ég mun birta á næstunni og hér kemur sú fyrsta. Hún er af nótaskipinu Svanaug Elise og hér má sjá helstu upplýsingar um skipið hér

Svanaug Elise er smíðuð árið 2001 og afhenti Eidsvik Skibsbyggeri AS Kolbjörn Ervik og Sönner AS skipið í desember það ár.


LLRD.Svanaug Elise ST-9-F. © Andrés Kolbeinsson 2009.

23.07.2009 11:18

Strandveiðibáturinn Galti

Enn eru það strandveiðibátar sem birtast hér og nú er það Galti ÞH 320 frá Húsavík. Þetta er nú ekki fyrsta myndin sem birtist af Galta á síðunni og engu við það að bæta sem fylgt hefur þeim myndum.


2385.Galti ÞH 320 ex Eydís HU. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

23.07.2009 00:29

Margrét HF 149

Hér kemur annar bátur til smíðaður hjá bátasmiðjunni Knerri á Akranesi en myndina tók ég á dögunum í Hafnarfirði. Þetta er Margrét HF 149 sem áður hét Anna Guðjóns ÍS og er báturinn í eigu Húnaflóa ehf.


2428.Margrét HF 149 ex Anna Guðjóns ÍS. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

22.07.2009 19:59

Kristín Ólöf ÞH 177

Nú skal hamra stálið meðan það er heitt, eða á maður kannski að segja plastið ? Alltsvo hér kemur mynd af plastbátnum Kristínu Ólöfu ÞH 177 sem áður hét Svanhvít HU. Þessi bátur var keyptur til Húsavíkur í vor í stað Hjálmars ÞH 5 en það er útgerðarfyrirtækið Maríuhorn ehf. sem gerir hann út. Sjaldan er góð vísa of oft kveðin svo ég segi aftur frá því að það eru hjónin Elsa Guðbjörg Borgarsdóttir og Ásgeir Hólm sem standa að útgerðinni. Kristín Ólöf er gerð út í strandveiðikerfinu nú um stundir.


2484.Kristín Ólöf ÞH 177 ex Svanhvít HU. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

2484.Kristín Ólöf ÞH 177 ex Svanhvít HU. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

22.07.2009 19:24

Ný Sæborg

Í síðustu viku kom ný Sæborg ÞH 55 til hafnar á Húsavík. Um er að ræða Gáskabát sem áður hét Ásdís Ólöf SI 24 en upphaflega Ólafur HF. Sæborg hefur verið í allsherjar yfirhalningu á siglufirði að undanförnu sem m.a. fólust í sér að ný Volvo Penta aðalvél var sett í hana. Það er Hraunútgerðin ehf. á Húsavík sem gerir bátinn út en að þeirri útgerð standa hjónin Karl Óskar Geirsson og Úlfhildur Sigurðardóttir. Sæborgin er gerð út í hinu nýja strandveiðikerfi  Steingríms Joð þessa dagana og tók ég þessar myndir í dag.


2069.Sæborg ÞH 55 ex Ásdís Ólöf SI 24. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

2069.Sæborg ÞH 55 ex Ásdís Ólöf Si 24. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

2069.Sæborg ÞH 55 ex Ásdís Ólöf SI 24. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

19.07.2009 12:33

Ársæll leggur úr höfn

Hér leggur Ársæll ÁR 66 úr höfn til humarveiða en hann er í eigu Atlantshumars ehf. í Þorlákshöfn. Ársæll hét upphaflega Ársæll en var Sigurðsson og með heimahöfn í Hafnarfirði. Síðar hét hann Arney KE, Auðunn ÍS, Steinunn SF, Ársæll SH, Dúi ÍS (pappírsnafn)  og loks Ársæll ÁR. Báturinn var smíðaður í Noregi 1966 og er því kominn á fimmtugsaldurinn.


1014.Ársæll ÁR 66 ex Dúi ÍS. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

18.07.2009 23:12

María Ár 61

Það lágu fleiri í "sundferðinni" til Þorlákshafnar og átti Hrímgrund ehf. tvo  af þeim sem ég náði. Sæunn Sæmunds hin gamla sem nú heitir María kom í land rétt á undan þeirri nýju og tók ég þessa mynd af henni. Keila GK hét hún upphaflega og ef rétt er munað hjá mér er hún af Hvalvikgerð.


2065.María ÁR 61 ex Sæunn Sæmunds. ÁR 60. © Hafþór 2009. 

Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 664
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 9254637
Samtals gestir: 1995063
Tölur uppfærðar: 24.8.2019 01:05:55
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is