Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2009 Maí

09.05.2009 21:07

Kannast menn við þetta skip ?

Eins og kom fram um daginn var þetta víkingaskip á Hlíðarvatni á Snæfellsnesi 1964 nú koma myndir sem sýna hvað varð um prammann sem víkingaskipshótelið var byggt á. Sigurður bergsveinsson sendi mér þessar myndir sem Bergsveinn faðir hans, sem vann lengi sem verkstjóri hjá Vita- og hafnarmálastofnun, tók 1971. Þá vann hann við að koma prammanum fyrir sem flotbryggju í Hafnarfjarðarhöfn.
 

                    Flotbryggjan og Óseyrarbryggja í Hafnarfirði. © Bergsveinn 1971.

                                 Flotbryggjan gamla í Hafnarfirði.

Já þetta mjög svo séstaka skip var á Hlíðarvatni á Snæfellsnesi og myndin er tekin 1964 af föður Sigurðar Bergsveinssonar sem sendi mér þessa mynd ásamt fleirum sem sýna hvað varð um prammann sem víkingahótelið var byggt á. Nú spyr ég vita menn hvað varð um þennan pramma. Ég mun birta skemmtilegar myndir sem sýna það en fyrst skal reyna manninn.

Kannast menn við þetta skip og hver urðu örlög þess ?

08.05.2009 22:30

Þrándur í Götu

Tvennt er það sem kom þorpinu Götu í Færeyjum á kortið hjá mér. Í fyrsta lagi er það söngfuglinn Eivör Pálsdóttir og í öðru lagi fjölveiðiskipið Þrándur í Götu. reyndar ætti þetta að snúa öfugt því ég vissi um skipsnafnið Þránd í Götu löngu áður en ég heyrði Eivör fyrst nefnda. Ég hef hitt Eivör tvisvar hlustað á hana syngja og tekið af henni myndir en aldrei hef ég berum augum litið Þránd í Götu. Myndina hérna að neðan tók Sveinn Hreinsson vélstjóri á Jóni Kjartanssyni SU 111 af Þrándi í Götu suður af Færeyjum í vikunni.

OW 2416.Þrándur í Götu FD 175. © Sveinn Hreinsson 2009.

07.05.2009 20:56

Geir ÞH í slipp

Hér sjáum við Geir ÞH 150 í slipp á Húsavík. Myndir tekin í kvöldsól eins jafnan er á Húsavík yfir sumartímann. Geir ÞH sem hér birtist hét áður Eskey SF og næst á eftir Geirsnafninu kom GuðrúnBjörg ÞH 60. Saga þessa báts hefur komið fyrir augu lesenda síðunnar áður og verður ekki bætt við hana hér.


462.Geir ÞH 150 ex Eskey SF. © Hafþór Hreiðarsson.

06.05.2009 23:54

Þrjár Bjargir

Hér gefur að líta báta sem margir muna eftir úr Reykjavík. Þetta eru Aðalbjörg II RE 236, Aðalbjörg RE 5 og Guðbjörg RE 21. Þessi mynd var tekin í þá gömlu góðu daga þegar gaman var að koma niður að Reykjavíkurhöfn. Samt ekkert svo langt síðan.


Frá Reykjavíkurhöfn. © Hafþór Hreiðarsson.

06.05.2009 23:44

Straumur EA 18

Straumur EA 18 er einn þeirra grásleppubáta sem leggja upp á Kópaskeri í ár. Straumur er af Víking 800 gerð smíðaður í Hafnarfirði 1999. Upphaflega hét hann Viktoría BA, síðan Viktoría HF, þá Straumur SH og nú Straumur EA. Það eru Óskar og synir ehf. sem gera Strauminn út.
 


2331.Straumur EA 18 ex Straumur SH 100. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

06.05.2009 09:16

Aðalsteinn Jónsson á toginu

Hér birtist mynd af fjölveiðiskipinu Aðalsteini Jónssyni SU 11 þar sem hann er að toga á kolmunnamiðunum sunnan við Færeyjar í gær. Myndina tók Sveinn Hreinsson vélstjóri á Jóni Kjartanssyni SU 111 þegar þeir sigldu fram hjá skipinu. Aðalsteinn Jónsson SU 11 hét áður M.Ytterstad og var smíðaður í Noregi árið 2001. Eskja keypti hann síðla árs 2005 og kom hann til landsins í ársbyrjun 2006.


2699.Aðalsteinn Jónsson SU 11 ex M.Ytterstad. © Sveinn Hreinsson 2009.

05.05.2009 22:25

Steini Pé að dytta að Húna II

Bæjarprýði Akureyrar var sagt í útvapsþætti á Rás 1 í morgun og átt við Húna II. Eina eikarbátinn yfir 100 brl. sem varðveist hefur úr íslenska bátaflotanum og var þó af nokkrum að taka. Steini Pje sendi mér þessa mynd sem tekin var af honum á dögunum. Þá var Húni II í árelgum slipp vegna viðhalds og skoðunar. Steini Pje sagði að það hefði þurfti að slá í nokkur stuð í botni, hamþétta eð kalfakta eins og kallað var. Einnig að lagfæra betur við afturstefni og Steini Pje hnoðar deig úr tjöru og krít til að setja yfir hampinn. hann segir afleitt þegar menn eru að nota sílikon eða þess konar efni ætti algjörlega að taka fyrir slíkt.  Þeir sem vilja hlusta á viðtalið við Steina Pje geta gert það með því að ýta hér


Steini Pje dyttar að Húna II. © Hollvinir Húna II 2009.

04.05.2009 23:06

Nýr bátur til Kópaskers

Nýr bátur kom til Kópaskers á dögunum eftir heimsiglingu frá Vopnafirði. Þetta er Marvin NS 150 sem Garðar Birgisson skipstjóri og útgerðarmaður hefur fest kaup á. Garðar mun gera Marvin út á grásleppunet fyrsta kastið en þeir eru búnir að leggja netin. Síðan verður farið á línu eða jafnvel á handfæri ef Steingrímur J og guð lofa. Garðar, sem er ættaður frá Patreksfirði, segir bátinn fá nafnið Fróði ÞH 81 en hans fyrsta pláss var hjá föður hans á Fróða BA 81 sem upphaflega hét Búi EA 100.

7349.Marvin NS 150 ex Kristjana SH. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

Garðar Birgisson skipstjóri og Agnar Jónsson 1. stýrimaður á Marvin NS 150.
© Hafþór Hreiðarsson 2009.


04.05.2009 22:25

Björgmundur verður Hrólfur Einarsson

Ólafur Jens Daðason og Gunnar Torfason festu nýverið kaup á Björgmundi ÍS 49 en þeir  hyggjast gera hann út frá Bolungarvík og hefja útgerð í ágúst.
 
Á vikari.is segir að Ólafur Jens eða Jenni eins og hann er jafnan kallaður muni vera með bátinn og flytja vestur og eiga annað heimili hér vestra enda er hann mikill Bolvíkingur í sér.
 
Báturinn verður tekinn upp í sumar og dittað að honum og hann gerður klár fyrir sjósókn og beitningvél sem er um borð í bátnum verður tekin því beitt verður í landi. 
 
Reiknar Jenni með því að ráða þurfi sex beitningmenn til starfa við beitningu en alls er reiknað með að þessi útgerð beri með sér tíu störf í byggðarlagið með þeim sjómönnum sem verða um borð í bátnum. Engan eiga þeir kappar kvótann en þeir mun leiga hann en Jenni hefur mikla trú á sjávarútveginum og byggðarlaginu öllu og telur bjart yfir Bolungarvík.
 
Báturinn mun bera heitið Hrólfur Einarssson ÍS en hann er smíðaður í Hafnarfirði árið 2005 og er 14,9 brúttórúmlestir og var áður í eigu Útgerðarfélags Bolungarvíkur.

2690.Björgmundur ÍS 49 ex Karólína ÞH 111. © Hafþór Hreiðarsson 2008.

02.05.2009 20:08

Fyrsti rauði togarinnn af....

Hér sjáum við skuttogarann Betu 1 sem áður hét bara Beta og er í eigu Kötlu Seafood. Myndina tók ljósmyndari Skipamynda við Afríkustrendur Guðvarður Jónsson um hádegisbil í dag. Í póstinum frá Varða segir að þetta sé sennilega fyrsti togarinn af svokallaðri Monsundgerð sem fær rauðan lit.


V3DH3.Beta 1 ex Beta. © Guðvarður Jónsson 2009.

02.05.2009 19:53

Brimnesið á víkinni

Brimnes RE kom á Ólafsvíkina í gær og og var mönnum skutlað í land á slöngubát. Ljósmyndari Skipamynda Alfons Finnsson var á sínu svæði og tók þessa mynd sem sýnir Brimnesið gnæfa yfir brimvarnargarðinn og slöngubátinn á fullri ferð inn í höfnina.


2770.Brimnes RE 27 ex Vesttind. © Alfons 2009.

02.05.2009 18:06

Sisimiut kom til Keflavíkur

Þessar myndir sendi Karl Einar Óskarsson mér en þær tók hann í gær þegar grænlenski frystitogarinn Sisimiut kom þangað með veikan skipverja. Sisimiut var að koma úr Barentshafinu á leið til Grænlands þar sem mun veiða grálúðu. Græni liturinn fór þessu skipi betur en eins og margir lesendur Skipamynda vita hét Sisimiut áður Arnar HU 1.


OZIA.Sisimiut GR6-500 ex Arnar HU 1. © KEÓ 2009.

OZIA.Sisimiut GR-500 ex Arnar HU 1. © KEÓ 2009.

01.05.2009 12:24

Sigurbjörg SH 48

Hér kemur mynd af Sigurbjörgu SH 48 sem smíðuð var hjá Trésmiðju Austurlands á Fáskrúðsfirði 1970 fyrir Jóhann Guðmundsson. Báturinn hét alla tíð Sigurbjörg og meðan hann var á Hólmavík var hann ST 55. Báturinn var 17 brl. að stærð búinn 142 hestafla Kelvin aðalvél. 1983 var skipt um vél og kom 121 hestafla Thornycroft í stað þeirrar gömlu. Jóhann var skráður eigandi bátsins fram á mitt ár 1989 en þá var skráður eigandi Sigurbjörg Jónsdóttir. Í ársbyrjun 1994 er Páll Valdimar Stefánsson á Hellisandi orðinn eigandi bátsins og einkennisstafirnir SH 204. Hann gerir bátinn fram á árið 1996 er Auðbergur ehf. í Ólafsvík eiganst hann og þá verður hann SH 48. Í kringum aldamótin kaupir Gísli Hálfdán ehf. í Ólafsvík bátinn en þegar hann sekkur 13. maí 2004 er hann skráður sem Sigurbjörg KE 16. Hann sökk rétt norðan við Reykjanesröstina eftir að leki kom að honum og bjargaðist áhöfnin yfir í Mumma GK 121.
 


1148.Sigurbjörg SH 48 ex Sigurbjörg SH 204. © Hafþór Hreiðarsson.

Flettingar í dag: 294
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 691
Gestir í gær: 173
Samtals flettingar: 9397321
Samtals gestir: 2007773
Tölur uppfærðar: 10.12.2019 05:34:30
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is