Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2009 Maí

20.05.2009 09:37

Herdís brann og sökk

Herdís SH 174, sex tonna plastbátur, brann og sökk í nótt úti fyrir Bjargtöngum. Tveir menn voru á bátnum og fóru þeir í gúmmíbjörgunarbát þaðan sem þeim var bjargða um borð í línuskipið Núp BA 69 frá Patreksfirði.

Fréttavefur ruv.is segir svo frá:

Tveimur mönnum var bjargað úti fyrir Bjargtöngum um fimmleytið í morgun. Eldur kviknaði í bát mannanna og sökk hann eftir að þeir voru komnir í björgunarbát.

Það var um fjögurleytið í nótt sem vaktstöð siglinga fékk neyðarskeyti frá sex tonna trillu, Herdísi BA 145. Vaktstöð náði ekki sambandi við bátinn og sendi neyðarkall til báta í nágrenninu. Um fimmleytið kom báturinn Núpur fyrstur að bátnum Herdísi sem var staddur sextán sjómílur  norðvestur af Bjargtöngum á Vestfjörðum. Þegar bátinn bar að logaði eldur í bátnum en mennirnir tveir sem höfðu verið um borð höfðu komið sér í björgunarbát. Þeir voru ekki í björgunargalla og fegnir að fá hjálp. Sól og gott veður var á staðnum.
 
Bjarni Guðmundsson, yfirstýrimaður á Núpi, segir að eldurinn hafi sennilega kviknað stjórnborðsmegin því báturinn hafi verið meira brunninn þar.
Þegar búið var að slökkva eldinn var ætlunin að setja bátinn í tog en hann sökk áður en til þess kom. 
 
Báturinn Birta BA kom svo og sótti mennina og sigldi með þá í land á Patreksfirði. Mennina sakaði ekki.

7204.Eiríkur rauði RE 204 síðar Herdís SH 145. © Hafþór Hreiðarsson.

19.05.2009 23:04

Sæbjörgin að leggja í ann

Hér kemur mynd af skólskipinu Sæbjörgu leggja úr höfn á Húsavík eftir námskeiðshald. Þetta skip átti eftir að koma til Húsavíkur aftur og varð þá fljótandi veitingahús. Sögu þessa skips þekkja allir og verður hún ekki rakin hér.


229.Sæbjörg ex Þór. © Hafþór Hreiðarsson.

18.05.2009 23:23

Hildur frá Gjögri

Þar sem ekki hefur birst mynd af plastbáti hér á síðunni síðan á afmælisdegi þeirra Hafliða Óskarsonar og Ólafs Ragnars Grímssonar hendi ég einni slíkri inn. Myndin sýnir handfærabátinn Hildi ST 33 frá Gjögri koma að landi á Arnarstapa í gær. Þaðan er fjöldi smábáta að róa þessa dagana og að sögn Alfons Finnssonar sem tók myndina var Hildur að fiska vel af góðum og fallegum þorski.


6094.Hildur ST 33 ex Reyr. © Alfons 2009.

17.05.2009 18:18

Á útleið

Hér mynd sem sýnir togarann Júlíus Havsteen ÞH 1 á útleið frá Húsavík. Saga þessa skips hefur komið fram hér áður og engu við hana að bæta.


2262.Júlíus Havsteen ÞH 1. © Hafþór Hreiðarsson.

16.05.2009 12:19

Snæfellið á torginu

Hér birtist mynd sem tekin var á Hampiðjutorginu í morgun og sýnir Snæfell EA 310 á toginu. Myndina tók Gunnþór Sigurgeirsson einn margra húsvíkinga í áhöfnum Guðmundar á Nesi RE 13.


1351.Snæfell EA 310 ex Akureyrin EA 110. © Gunnþór Sigurgeirsson 2009.

15.05.2009 23:50

CEC Future

Hér birti ég mynd sem ég tók þann 14 apríl 2007 kl. 17:22:06 af flutningaskipi á Skjálfandaflóa. skipið heitir CEC Future skip þessa félags voru græn að framan, en um miðbik skipanna var skipt yfir í bláan lit. CEC Future kom til Húsavíkur með bor Jarðboranna til Húsavíkur þaðan sem hann var fluttur á hátisvæðið Suður-Þingeyjarsýslu. Þegar myndin var tekin var skipið búið að losa farm sinn og farið frá bryggju.


CEC Future á Skjálfandaflóa. © Hafþór Hreiðarsson 2007.

14.05.2009 21:01

Bjössi Sör

Hvalaskoðunin frá Húsavík byrjar ágætlega og lofar góðu fyrir sumarið en þau eru mörg handtökin við undirbúning vertíðarinnar á Húsavík. Bátarnir þurfa sitt viðhald og t.a.m. var verið að undirbúa sjósetningu á Bjössa Sör í slippnum þegar ég átti leið um fjöruna í dag. Meðan beðið var eftir því að sjávarstaðan hækkaði var tíminn nýttur til ýmissa verka og Bjössi Sör, sem báturinn er einmitt nefndur eftir, sat í blíðunni og splæsti spotta í stuðpúða. Stuðpúðarnir eru nefnilega ómissandi þegar halda þarf bátunum í sem óaðfinnalegustu standi. Alltso útlitslega séð.

Bjössi heitir fullu nafni Sigurbjörn Sörensson og er gamall skipstjóri í húsvíska flotanum. Hann var skipstjóri og meðeigandi í Andvara ÞH 81 og Glað ÞH 150. Hann seldi sinn hlut í þeirri útgerð 1968, flutti í Mývatnssveit og starfaði í Kísiliðjunni. Þegar synir hans keyptu Knörrina og hófu siglingar með ferðamenn á hvalaslóðir Skjálfanda var karlinn þeirra fyrsti skipstjóri.


Sigurbjörn Sörensson. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

278.Andvari ÞH 81 ex Baldvin Þorvaldsson SI 70. © Hreiðar Olgeirsson.

459.Geir ÞH 150 ex Glaður ÞH 150. © Hreiðar Olgeirsson.

14.05.2009 16:00

Maríuhorn kaupir nýjan bát

Nýr bátur bættist í flota húsvíkinga í dag þegar Svanhvít HU 77 kom til nýrrar heimahafnar  á Húsavík. Báturinn er í eigu Maríuhorns ehf. sem hjónin Ásgeir Hólm og Elsa Borgarsdóttir standa að. Báturinn, sem er 8,5 brl. að stærð, var smíðaður á Akranesi árið 2000. Hann fær nýtt nafn, Kristín Ólöf ÞH 177 og að sögn Ásgeir verður haldið til grásleppuveiða á næstu dögum. Fyrir átti útgerðin minni og eldri bát, Hjálmar ÞH 5, sem gekk upp í kaupin á þeim nýja.


Elsa Guðbjörg Borgarsdóttir og Ásgeir Hólm með nýja bátinn í baksýn. © HH 2009.

2484.Svanhvít HU 77 ex Svanhvít ÍS. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

7230.Hjálmar ÞH 5 ex Hjálmar NS. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

Fyrir þá sem hafa áhuga á báta- og skipsnöfnum þá er Kristín Ólöf nefnd eftir tengdamóður Ásgeirs.

Fyrir þá sem ekki vissu þá rekur Elsa Guðbjörg gallerý á Húsavík þar sem hún selur vörur sem hún hannar og framleiðir. Ískelda heitir gallerýið og heimasíðu þess er hægt að skoða hér

12.05.2009 22:56

Örlátur á sunnanvindinn

Hann hefur verið örlátur á sunnanvindinn í síðustu tvo daga veðurguðinn. Hér er mynd sem ég tók í gær þegar Háey II kom fyrir Bökugarðinn á leið til hafnar eftir línuróður á Skjálfandaflóa.

2757.Háey II ÞH 275. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

12.05.2009 21:19

Grásleppubáturinn Ármann ÞH 103.

Einn minnsti grásleppubátur landsins, Ármann ÞH 103, er gerður út frá Kópaskeri og er útgerðin í höndum Óla Björns Einarssonar og sona hans. Þegar ljósmyndari Skipamynda var á Kópaskeri á dögunum voru þeir bræður, Einar og Agnar, að koma að landi eftir að hafa skotist út og dregið nokkur net.

Einar sagði föður sinn og Agnar aðallega hafa sinnt grásleppuveiðunum í vor. Hann sjálfur stundi nám við VMA á Akureyri og komi heim um helgar til að róa með þeim.

Aðspurðir um aflabrögð sögðu þeir bræður þau ekki hafa verið til að hrópa húrra fyrir hjá þeim frekar en mörgum öðrum en fjöldi grásleppubáta hefur verið gerður út frá Kópaskeri í vor. Þrátt fyrir það eru ekki söltuð hrogn þar í ár. Þau eru ýmist söltuð á Húsavík eða Raufarhafnar og fara hrognin af Ármanni til söltunar hjá Hólmsteini Helgasyni ehf. á Raufarhöfn.

 

Þeir feðgar keyptu Ármann af Fanneyju Sigtryggsdóttur á Hallbjarnarstöðum á Tjörnesi í fyrra vor og er þetta því annað vorið sem þeir gera hann út til grásleppuveiða. Einar segir þá ekki vita hvar né hvenær Ármann var smíðaður en hann var keyptur notaður í Hallbjarnarstaði árið 1965. Seljandinn var Hörður Þorfinnsson á Húsavík. Einar sagði Óla Austfjörð, son Harðar, hafa sagt þeim að faðir hans hafi flutt bátinn með sér úr Eyjafirði og til Húsavíkur og því mætti leiða líkum að því að hann væri smíðaður þar. Litlar upplýsingar virðast vera til um Ármann og ef einhver lumar á þeim væri gaman að sjá þærí athugasemdum.


Ármann ÞH 103. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

11.05.2009 21:25

Haförn á Skjálfanda

Hér sjáum við Haförn ÞH 26 koma að landi í dag en sunnastrekkingur var á Skjálfanda.

1414.Haförn ÞH 26 ex Gulltoppur ÁR 321. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

11.05.2009 11:03

Akurey RE 95

"Lokadagurinn" sem er í dag 11. maí var ávallt fjölmiðlaefni hér áður fyrr er vetrarvertíð lauk. Þá komu áhafnir skipa og báta oft saman og héldu upp á daginn og einnig slegið upp böllum. Þessi mynd hér að neðan af áhöfn Akureyjar RE 95  tengist að öllum líkindum ekki Lokadeginum en birtist nú samt. Hafliði nokkur Óskarsson sendi mér þessa mynd sem og myndina af togaranum sjálfum. Ekki fylgdi nafn ljósmyndara svo Hafliði kemur með það athugasemdarfæslu.


Áhöfn Akureyjar RE 95 á góðri stundu. Úr safni Rafns Kristjánssonar.

1.Akurey RE 95. Mynd úr safni Rafns Kristjánssonar.

10.05.2009 18:20

Hver skyldi hann vera þessi ?

Hver skyldi hann vera þessi ? og hvar er myndin tekin ? Ekki veit ég það né Sigurður Bergsveinsson en myndin er úr safni föður hans.

10.05.2009 15:43

Nýr togbátur til Siglufjarðar

Siglunes SI 70 skip Ráeyri ehf kom til heimahafnar á Siglufirði í gærkveldi, skipið er tæp 187 brúttótonn og rúmir 27 metrar og var smíðað 1971. Samkvæmt frétt á www.sksiglo.is er Pétur Bjarnason skipstjóri á Siglunesinu og stýrimaður Sæmundur Jónsson.

Siglunesið heldur til rækjuveiða í dag og mun landa hjá nýrri rækjuverkssmiðu Ramma hf.

Myndina hér að neðan fékk ég að láni hjá www.sksiglo.is og kann ég þeim bestu þakkir fyrir. Fleiri myndir frá komu Siglunessins má sjá hér

1146.Siglunes SI 70 ex Siglunes SH. © www.sksiglo.is 2009.

09.05.2009 21:14

Þingey á Öxarfirði

Hér sjáum við grásleppubátinn Þingey ÞH 51 koma að landi á Kópaskeri á dögunum. Þingey hefur alltaf heitið Þingey og nafnið farið henni vel. Hún er nú í eigu Sjóferða Arnars ehf. á Húsavík en Auðunn Benediktsson lét byggja hana á Akureyri 1983.


1650.Þingey ÞH 51. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

Vita menn hvað núpurinn í baksýn heitir ?

Flettingar í dag: 294
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 691
Gestir í gær: 173
Samtals flettingar: 9397321
Samtals gestir: 2007773
Tölur uppfærðar: 10.12.2019 05:34:30
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is