Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2009 Apríl

06.04.2009 21:43

Júlli Dan drekkhlaðinn af síld

Hér kemur mynd Þorgríms Aðalgeirssonar af Júlla Dan GK 197 sem hann tók á Vopnafirði. Þarna er báturinn drekkhlaðinn af síld en skipstjóri og jafnframt eigandi hans var tengdafaðir Þorgríms, Erling Kristjánsson. Saga þessa báts hefur verið rakin hér á síðunni enn upphaflega hét hann Akureyr RE. Í dag heitir hann Erling KE 140 og er í eigu Saltvers í Reykjanesbæ.


233.Júlli Dan GK 197 ex Barðinn GK 187. © Þ.A.

06.04.2009 10:30

Á grásleppu í Flatey

Þessar myndir koma úr safni Ingólfs H. Árnasonar skipstjóra á Húsavík en þær tók hann fyrir margt löngu eins og sjá má. Þá var hann á grásleppu á Ársæli EA með Jóhannesi Jónssyni á Akureyri sem fæddur er og uppalinn í Flatey.


403.Ársæll EA 74 og 739.Sigurbjörg ÞH 62 við bryggju í Flatey. © IHÁ.

Eitthvað hafa þeir fengið hér af þeirri gráu. © Ingólfur H. Árnason.

05.04.2009 21:52

Særós RE

Hér kemur mynd af bát sem ekki var lengi á skipaskrá. Hann hét í upphafi Særós RE 207 og var smíðaður af skipasmíðastöð Guðlaugs Einarssonar á Fáskrúðsfirði 1987. Eigandi hans var Kristinn S. Kristinsson í Reykjavík. í ársbyrjun 1989 kaupir Valur hf. bátinn sem fær nafnið Valur RE 7 og í desember sama ár er hann seldur vestur í Bolungarvík. Sigurður Bjarni Hjartarson var kaupandinn og nefndi hann bátinn Húna ÍS 211. Húni ÍS virðist hafa horfið af íslenskri skipaskrá í janúar 1995. Báturinn sem var úr furu og eik var 10 brl. að stærð með 180 hestafla Ford Mermaid aðalvél. 

Gaman væri ef einhver sem veit örlög hans myndu segja frá því í áliti hér að neðan.


1845.Særós RE 207. © Hafþór Hreiðarsson.

05.04.2009 13:59

Norðborgin verður Kristján í Grjótinu

Nú þegar ný Norðborg KG 689 kemur til Færeyja, um páskana eða upp úr þeim, mun gamla Norðborgin frá nafnið Kristján í Grjótinu KG 690. Þetta skip var um skeið í íslenska flotanum og hefur þessi mynd birst á síðunni. Þá hét hann Garðar EA EA 310 og var gerður út af Samherja hf.


2312.Garðar EA 310 ex Gardar. © Pétur Helgi Pétursson.

05.04.2009 13:49

Hafliði hver er hann þessi ?

Hafliði vinur minn Óskarsson vill sjá fleiri nýsköpunartogara á síðunni en ég verð nú að segja það að myndir af þeim vaxa ekki á trjánum. A.m.k. ekki þessum tveim hríslum í garðinum hjá mér. Set hér inn mynd af einum gömlum þó hann flokkist sennilega ekki undir nýsköpunartohara. Þó er ég alveg viss um það að einhver nýsköpun varð til við smíði hans. Enm hver skyldi hann vera þessi ? íslenskur eða erlendur ?

04.04.2009 21:33

Grásleppu-Gvendur

Grásleppu-Gvendur með Steina spil er fínt lag og upplagt að spila það í bílnum þegar maður er að mynda grásleppubátana líkt og ég gerði nú undir kvöld. Þá voru nokkrir þeirra að koma inn eftir að hafa byrjaða að draga netin eftir norðangarðinn sem hér gerði í vikunni. Lesa má um það hér en annars tala myndirnar sínu máli.


7449.Eyrún ÞH 2 kemur til hafnar.© Hafþór Hreiðarsson 2009.7361.Aron ÞH 105 farinn undan krananum. © Hafþór Hreiðarsson 2009.1790.Ásgeir ÞH 198 fer frá að löndun lokinni. © Hafþór Hreiðarsson 2009.


2450.Eiki Matta ÞH 301 siglir fyrir L-ið. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

Allt eru þetta eðal plastbátar.

04.04.2009 13:46

Kári kemur að landi

Hér er mynd sem tekin var í Grindavík fyrir allnokkrum árum og er ekki svona týpísk bátamynd. Þarna var ég að reyna að fanga fallegt veður á filmu og þetta er árangurinn. Kári gamli er að koma að landi eftir dragnótaróður og gerir ekkert nema skreyta myndina. Heyrði annars á dögunum að einhverjir hefðu verið að kaupa bátinn sem í dag ber nafnið Aggi afi og hefur legið í höfn á Rifi um nokkuð skeið.


Kári GK 146 kemur að landi. © Hafþór Hreiðarsson.

04.04.2009 13:16

Freyja RE 38

Hér birtist mynd af togbátnum Freyju RE 38 frá Reykjavík. Freyja var í eigu Gunnars I. Hafsteinssonar í Reykjavík frá árinu1980 til ársloka 1987 að hún var tekin af skipaskrá og seld úr landi. Freyja var smíðuð á Akranesi 1972 fyrir Þórð Guðjónsson þar í bæ. Fékk báturinn nafnið Sigurborg AK 375 en 1980 voru höfð skipaskipti, Þórður fékk Freyju RE sem upphaflega hét Sveinn Sveinbjönsson NK og Gunnar fékk Sigurborgina. Báturinn var 103 brl. að stærð með 500 hestafla Alpha aðalvél.

1223.Freyja RE 38 ex Sigurborg AK 375. © Hafþór Hreiðarsson.

04.04.2009 11:00

Nú er ég klæddur og kominn á ról

Nú er ég klæddur og kominn á ról (Vaknaði nú samt kl. 8:00) og lít á síðuna og sé að heilmikið hefur verið skrifað við síðustu færslu. Emil, (EJP), hefur sent mér útskýringar varðandi meinta bilun á klukkunni og tek ég þær trúanlegar. Finnst samt skrítið að klukkan sé biluð hjá einum en ekki öðrum, en EPJ sýnir mér svart á hvítu að svo sé.

Varðandi meinta afbrýðissemi mína í garð þeirra EPJ og Gogga þá vísa ég því á bug. Tölurnar tala sínu máli og mín síða er alla jafna meira sótt en þeirra sem er gaman en skiptir mig litlu máli. Það sem skiptir mig máli að þeir sem líta inn séu þokkalega ánægðir með það sem þeir sjá og lesa. Sumir vilja sjá báta, aðrir togarar og enn aðrir eldgamla togara en þessu reyni ég að blanda saman. Svo eru menn eins og Hafliði sem helst vilja bara sjá plastbátaemoticon

Viðurkenni þó að kannski hefur síðunni hrakað eitthvað eftir að ég byrjaði með 640.is þar sem mikill tími fer í þá síðu. Þá er gaman að sjá hve margir eru farnir að vera með bátasíður og því lítið mál að láta sig hverfa ef svo ber undir. Sakna þó að félagi Alfons opni ekki sína aftur.

Varðandi álit sem skrifuð eru hef ég haft það sem reglu að eyða þeim ekki nema menn séu farnir að hrauna allhressilega yfir nafngreinda menn. Í álitum við færsluna hér að neðan finnst mér sumir ganga fulllangt í að atyrða EPJ en það lýsir þeim betur en honum. Læt þær þó standa.

EPJ er að gera fína hluti með síðu þeirra Gogga, hver hefur sitt lag á hlutunum og fjölbreytnin verður meiri við það. Ég hef mitt lag við mína síðu og finnst það bara hið besta lag.


03.04.2009 20:54

Harðnandi samkeppni ?

Þessi færsla hér að neðan er tekin af síðu þeirra Þorgeirs og Emils Páls og greinileg samkeppni í ganga þar á bæ. Hvað finnst mönnum athugavert við færsluna ?

 

3.4.2009

Eigandaskipti á Guðrúnu Guðleifsdóttur ÍS

Aðalbjörn Jóakimsson við Guðrúnu Guðleifsdóttur ÍS 25.
Aðalbjörn Jóakimsson við Guðrúnu Guðleifsdóttur ÍS 25.

bb.is | 03.04.2009 | 16:27Dynjandi ehf. kaupir Guðrúnu Guðleifsdóttur ÍS 25

Dynjandi ehf. hefur keypt bátinn Guðrúnu Guðleifsdóttur ÍS 25 af Fiskara ehf. í Súðavík. Aðalbjörn Jóakimsson, einn eigenda Dynjanda ehf., segist ekki hafa getað sleppt tækifærinu þegar honum bauðst skipið til sölu en Guðrún Guðleifsdóttir er ömmunafn Aðalbjörns. "Ég var á skipinu sem ungur maður og þá var það í útgerð í Hnífsdal hjá föður mínum og félögum. Ég gat ekki hugsað mér að missa af þessum "díl" að kaupa skipið og missa af því. Nú verður lappað upp á skipið, því komið í gegnum skoðun og það sett í útgerð," segir Aðalbjörn. Hann segir ekki ljóst hvaðan skipið verður gert út en hugsanlega verði það frá Ísafirði. "Það gekk vel á sínum tíma og þjónaði fólkinu í bænum og sjómönnum vel. Það getur vel verið að það verði endurtekið aftur ef mögulegt er, en það hafa ekki verið tekin nein áform um það," segir Aðalbjörn.

Hann segir marga hafa góðar minningar um skipið sem hafi verið farsælt aflaskip lengi vel frá Hnífsdal. "Ég gat því ekki annað en tekið áskoruninni þegar hún kom, var snöggur til og er kominn hingað til að sýna þessu sóma," segir Aðalbjörn. HEIMILD: BB.IS

Guðrún Guðleifsdóttir ÍS-25
                    971. Guðrún Guðleifsdóttir ÍS 25 © mynd Þorgeir Baldursson 2007
    

Skrifað 3.4.2009 kl. 16:24 af Emil Páli

03.04.2009 18:16

Aflahæstu línubátarnir
Nokkuð skondin frétt á vef Víkurfrétta í dag þar sem segir m.a. :

Tveir línubátar Vísis í Grindavík eru meðal þriggja efstu á aflalista www.aflafretta.com yfir aflahæstu línubátana í mars. Það eru Páll Jónsson GK og Sighvatur GK. Páll er annar aflahæsti línubáturinn í mars með ríflega 442 tonn í fimm róðrum. Hann fékk mest 102 tonn í róðri.  Sighvatur er í þriðja sæti með rúm 377 tonn í fimm róðrum og mest 90,6 tonn í róðri.

Hér er engu logið en listi Gísla Reynis á aflafrettir.com yfir aflahæstu líonubáta í mars byrjar svona:

Sæti Sæti áður Nafn Afli Róðrar Mest
1 1 Kristín ÞH 442,266 5 90,6
2 6 Páll Jónsson GK 432,879 5 101,9
3 2 Sighvatur GK 377,151 5 90,6
4 4 Jóhanna Gísladóttir ÍS 346,208 4 99,1


Bátar Vísis hf. raða sér sem sagt í fjögur efstu sætin og sá fimmti, Fjölnir SU, er í 7. sæti.

Hefði ekki frétt Víkurfréttamanna frekar á að byrja svona:

Línubátar Vísis í Grindavík raða sér í fjögur efstu sætin á aflalista www.aflafretta.com yfir aflahæstu línubátanna í mars.

Sennilega er skýringin sú að Kristín sem er í fyrsta sæti er skráð á Húsavík og Jóhanna Gísladóttir á Þingeyri. En engu að síður báðir í eigu Vísis hf. eins stærsta sjávarútvegsfyrirtækis á Suðurnesjum sem er með starfstöðvar m.a. á Húsavík, Þingeyri og Djúpavogi auk Grindavíkur.

En hvað um það þetta er kannski bara nöldur sem enginn nennir að elta ólar við emoticon
Aðalatriðið í lista Gísla yfir aflahæstu línubátanna í mars er að mínu mati það að AFLAHÆSTI LÍNUBÁTURINN Í MARS ER FRÁ HÚSAVÍK emoticon

972.Kristín ÞH 157 ex Kristín GK 157. © Hafþór Hreiðarsson.

03.04.2009 17:47

Dynjandi ehf. kaupir Gurðúnu Guðleifs

Fram kemur á bb.is í dag að Dynjandi ehf. hafi keypt bátinn Guðrúnu Guðleifsdóttur ÍS 25 af Fiskara ehf. í Súðavík. Aðalbjörn Jóakimsson, einn eigenda Dynjanda ehf., segist ekki hafa getað sleppt tækifærinu þegar honum bauðst skipið til sölu en Guðrún Guðleifsdóttir er ömmunafn Aðalbjörns. "Ég var á skipinu sem ungur maður og þá var það í útgerð í Hnífsdal hjá föður mínum og félögum. Ég gat ekki hugsað mér að missa af þessum "díl" að kaupa skipið og missa af því. Nú verður lappað upp á skipið, því komið í gegnum skoðun og það sett í útgerð," segir Aðalbjörn. Hann segir ekki ljóst hvaðan skipið verður gert út en hugsanlega verði það frá Ísafirði. "Það gekk vel á sínum tíma og þjónaði fólkinu í bænum og sjómönnum vel. Það getur vel verið að það verði endurtekið aftur ef mögulegt er, en það hafa ekki verið tekin nein áform um það," segir Aðalbjörn.

Hann segir marga hafa góðar minningar um skipið sem hafi verið farsælt aflaskip lengi vel frá Hnífsdal. "Ég gat því ekki annað en tekið áskoruninni þegar hún kom, var snöggur til og er kominn hingað til að sýna þessu sóma," segir Aðalbjörn í samtali við bb.is á Ísafirði.


971.Guðrun Guðleifsdóttir ÍS 25 ex Valur ÍS. © Hafþór Hreiðarsson 2007.

02.04.2009 21:03

Galti ÞH 320

Hér er einn nýjasti báturinn í húsvíska flotanum á fleygiferð í dag. Þetta er Galti ÞH 320 sem Aðalgeir Bjarnason fyrrum skipstjóri á Björgu Jónsdóttur ÞH 321 keypti fyrr í vetur. Alli ætlar að gera hann út á grásleppu og síðar til línuveiða.


2385.Galti ÞH 320 ex Eydís HU. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

01.04.2009 22:30

Á skaki við Færeyjar

Hér sjáum við Silver Spray frá Þórshöfn á veiðum í Norðurhafi eins og færeyingar kalla þau mið sem báturinn er á þarna. Þau eru um 20sjm. norður af Eiði. Eins og glöggir lesendur síðunnar er þarna um Víking 800 að ræða og vita menn hvað hann hét hér heima ? þ.e.a.s hans síðasta nafn hér. Hafliði ? Ertu ekki kominn undan snjónum ?


Silver Spray. © Guðvarður Jónsson 2009.

Flettingar í dag: 219
Gestir í dag: 54
Flettingar í gær: 691
Gestir í gær: 173
Samtals flettingar: 9397246
Samtals gestir: 2007762
Tölur uppfærðar: 10.12.2019 04:47:52
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is