Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2009 Apríl

30.04.2009 08:04

Glæsilegur Þór sjósettur

Hið glæsilega varðskip sem íslendingar eiga í smíðum í Chile var sjósett í gær og um leið gefið nafnið Þór. Lesa má frétt af þessari athöfn á heimasíðu Landhelgisgæslunnar  

Nýtt fjölnota varðskip Landhelgisgæslunnar stóreykur björgunargetu Íslendinga og myndar öflugan hlekk í björgunarkeðju á Norður-Atlantshafi


Þór rennur af stokkunum. © Landhelgisgæslan 2009.

Þór er glæsilegt skip. © Landhelgisgæslan 2009.29.04.2009 21:21

TAI-AN og Kvikk ÞH 112

Hér sjáum við mynd af 105 metra löngum togara frá Argentínu sem frændi minn Sigurgeir Pétursson er skipstjóri á. Ekki veit ég hvað þeir veiða á hann þarna syðra en hann mælist 2640 tonn að stærð. Á neðri myndinni er Sigurgeir ungur að árum að stýra trillu Hólmgeirs afa síns inn í Húsavíkurhöfn. Trillan sem nefndist Kvikk var talsvert minni en TAI-AN eins og sjá má.


TAI-AN frá Arfentínu. © úr safni Sigurgeirs Péturssonar.

Sigurgeir á Kvikk ÞH 112 í Húsavíkurhöfn. © Úr safni SP.

29.04.2009 20:57

Arngrímur Jónsson EA 363

Arngrímur Jónsson EA 363 er báturinn sem spurt var um hér að neðan. Upphaflega hét hann Magni EA 363 á íslenskri skipaskrá en í restina Gísli Kristján ÁR 35. Bátnum hefur verið gerð góð skil á síðunni svo ekki verður skrifað meira um hann nú.


378.Arngrímur Jónsson EA 363 ex Þór EA 363. © Óþekktur.

28.04.2009 23:47

Hver er báturinn ?

Ekki er ég alveg til í að gefa þennan upp á bátinn. En til glöggvunar eru myndinrnar teknar á Dalvík.

Eru kosningarnar eitthvað að standa í mönnum ? eru þeir úrvinda ? Enn er spurt hver er báturinn og ný mynd leidd fram í dagsljósið. Til glöggvunar segi ég að talsvert hefur verið fjallað um þennan bát á síðunni en hann var smíðaður í Noregi fyrir rúmri einni öld.Þá er spurt á kosningadegi hver er báturinn ?

28.04.2009 22:13

Sveinlaug háseti á Eyfjörð

Eins og sagt var frá í gær er Sveinlaug Friðriksdóttir í áhöfn grásleppubátsins Eyfjörð ÞH en hana vantaði á myndina í gær. Gundi reddaði því í dag þegar Eyfjörð kom að landi og tók mynd af frænku. Þó Sveinlaug sé klár að greiða grásleppuna úr netunum er hún öllu vanari að greiða og klippa hár grenvíkinga en skellti sér á grásleppuvertíð í ár.


Sveinlaug Friðriksdóttir háseti á Eyfjörð ÞH 203. © Gundi 2009.

27.04.2009 23:19

Eyfjörð

Hér sjáum við myndir sem teknar voru á Grenivík í dag þegar grásleppubáturinn Eyfjörð ÞH kom að landi. Þeir bræður Jón og Friðrik Þorsteinssynir gera Eyfjörð og Feng út til grásleppuveiða um þessar mundir og stýrir Friðrik, sem kallaður er Danni, Eyfjörð. Í áhöfn hjá Danna þetta árið er Þorsteinn sonur hans og Sveinlaug dóttir hans,sem reyndar var ekki með í dag, en við erum systrabörn.


6610.Eyfjörð ÞH 203. © Gundi 2009.

Þorsteinn Eyfjörð Friðriksson. © Gundi 2009.

25.04.2009 23:10

Fjölnir fékk drátt......

Eins og mörgum er kunnugt fékk Fjölnir drátt á dögunum og sendu strákarnir á honum mér slóð á myndband sem sýnir línuveiðar og dráttinn góða. hér gefur að líta það myndband


237.Fjölnir SU 57 ex Hrungnir GK 50. © Hafþór Hreiðarsson 2009

25.04.2009 16:29

Maggi ÞH 68

Hér gefur að líta trilluna Magga ÞH 68 sem var í eigu Þorgeirs Þorvaldssonar á Húsavík. Maggi var 4 1/2 brl. að stærð,smíðaður á Húsavík. Þorgeir keypti hana árið 1977 og átti til ársins 1993 er hann keypti Sigurpál ÞH 68 sem hann á í dag. Þetta fagra fley lenti eins og mörg önnur á bálkesti.


Maggi ÞH 68. © Hafþór Hreiðarsson.

25.04.2009 12:21

Galti

Hér kemur mynd af nýjasta bátnum í húsvíska flotanum, Galta ÞH 320, koma að landi á dögunum.
Aðalgeir Bjarnason á hann og gerir út til grásleppuveiða og með honum rær bróðir hans Sigurður sem alla jafna stýrir Jónu Eðvalds SF. Þriðji bróðirinn, Bergþór, var einnig með í þessum róðri.


2385.Galti ÞH 320 ex Eydís HU. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

Aðalgeir Bjarnason á Galta ÞH 320. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

Sigurður Bjarnason skipstjóri á Jónu Eðvalds. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

Bergþór Bjarnason. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

Bragi Sigurðsson útgm. á Árna ÞH 127 er eldri en tvævetra þegar kemur að grásleppuveiðum og hér tekur hann á móti fyrstu tunnunni sem landað var úr Galta ÞH 320. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

24.04.2009 12:07

Koralnes sökk við Norður Noreg í morgun

Einn maður fórst, en 16 var bjarga þegar rússneskur togari sökk undan Norður-Noregi í morgun. Neyðarkall barst frá skipinu um klukkan sex í morgun að staðartíma og hélt fjöldi skipa ásamt þyrlu á vettvang.

Þyrlan náði tveimur mönnum úr sjónum, öðrum látnum, en hinn er sagður illa haldinn og var flogið með hann á sjúkrahús í Tomsö. Annar rússneskur togari bjargaði hinum skipverjunum 15, en þeir höfðu komist í björgunarbáta.

Þessa frétt mátti lesa á vef Ríkisútvarpsins í morgun og við nánari eftirgrennslan á netinu mun þetta vera togarinn Koralnes sem áður hét Strembingur og var gerður út frá Skopun í Færeyjum.

Upphaflega hét togarinn Polar Harvester og var smíðaður í Moen slip A/S og gerður út frá Noregi. Hann var tæpir 34 metrar á lengd og mældist 519 BT að stærð.

Hér má sjá mynd af Koralnes sem nú liggur á hafsbotni við norður Noreg.

23.04.2009 20:39

Hvað hét hann þessi

Sigurður Tryggvason hafði það rétt. Þessi bátur hét Hamravík KE þegar hann var á íslenskri skipaskrá.

23.04.2009 12:44

Gleðilegt sumar

Ég óska öllum lesendum síðunnar gleðilegs sumars og þakka innlitin í vetur. Sumarið heilsaði húsvíkingum með gargandi blíðu í morgun hvað svo sem það varir lengi. Ég birti hér gamla síðsumarsmynd í tilefni dagsins en hún var tekin á Skjálfandaflóa í ágústmánuði 1992. Þá var ég ásamt öðrum á leið yfir flóann þar sem við fórum í land í Naustavík. Við sigldu fram úr þessari trillu sem Brynja hét og var í eigu Guðmundar Guðjónssonar á Húsavík á þessum tíma.


Síðsumarkvöld á Skjálfanda. © Hafþór Hreiðarsson 1992.

23.04.2009 00:30

José Manuel Reina Páez

José Manuel Reina Páez eða Pepe Reina heitir markmaður enska tuðrusparksliðsins Liverpool en myndin hér að neðan er ekki af honum. Myndin, sem Guðvarður vinur minn Jónsson vélstjóri á Blue Wave sendi mér, sýnir þó Reina. En hér er um að ræða flutningaskipið Reina sem Katla Seafood á og gerir út. Myndina tók Varði af skipinu þar sem það liggur á krók, eins og sagt er, fyrir utan Noukchott í Mauritaníu.
 


Reina. © Guðvarður Jónsson 2009.

22.04.2009 12:01

Grásleppukarlar á Grenivík

Hér birtast tvær myndir sem Gundi á Grenivík tók á dögunum. Þær sýna grásleppubátinn Hugrúnu ÞH 240 og áhöfn hennar.


6911.Hugrún ÞH 240. © Gundi 2009.

Kallarnir á Hugrúnu ÞH 240 pósa fyrir Gunda.

21.04.2009 22:04

Alltaf gaman á sjó í góðu veðri

"Það er alltaf gaman á sjó í góðu veðri". Sagði Hilmar Þór Guðmundsson bátsverji á grásleppubátnum Aþenu ÞH 505 í dag en bætti við að tíðin hafi verið erfið á vertíðinni. Aþena kom að landi með um 240 kg. af sulli en Knarrareyri ehf. gerir bátinn út auk Arons ÞH 105.


Hilmar Þór Guðmundsson glaðbeittur í vorblíðunni í dag. © Hafþór 2009.

2436.Aþena ÞH 505 ex Sigurvon BA. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 664
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 9254637
Samtals gestir: 1995063
Tölur uppfærðar: 24.8.2019 01:05:55
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is