Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2009 Mars

31.03.2009 16:34

Haförninn búinn að leggja

Hér kemur mynd af Haferni ÞH 26 komat til hafnar á Húsavík í dag. Þeir hafa verið að leggja netin kallarnir.


1414.Haförn þH 26 ex Gulltoppur ÁR 321. Hafþór Hreiðarsson 2009.

30.03.2009 22:47

Vetrarríki

Hér kemur mynd sem sýnir vetraríkið við Húsavíkurhöfn í dag. Í forgrunni er Árni ÞH 127 sem er í eigu Braga Sigurðssonar.


Vetrarríki við Húsavíkurhöfn. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

30.03.2009 11:59

Þorsteinn að kasta trollinu á Selvogsbanka

Hér sjáum við mynd af Þorsteini ÞH 360 frá Þórshöfn kasta trollinu á Selvogsbanka. Myndina tók Gundi skipverji á Frosta ÞH 229 frá Grenivík þann 22. mars sl. en þá var veður að ganga niður eftir brælu. Flott mynd og fleiri er hægt að sjá hér


1903.Þorsteinn ÞH 360 ex Þorsteinn EA 810. © Gundi 2009.

30.03.2009 09:42

Erlingur og Erlingur

Hér koma Erlingur SF 65 og Erlingur SF 65. Sá fyrri var smíðaður í Noregi 1968. Nánar tiltekið í JM Kleivset Batbyggeri í Bardset. Jón Guðónsson á Seltjarnarnesi kaupir bátinn til landsins 1972 og nefnir hann Arnarberg RE 101. Þá mældist hann 79 brl. að stærð en var lengdur í Hafnarfirði ári seinna og mælist þá 95 brl. að atærð. Upphaflega var í bátnum 375 hestafla Caterpillar aðalvél en henni er skipt út fyrir 580 hestafla Cummins 1975. Í byrjun nóvember 1976 kaupir Sveinn A. Stefánsson í Kópavogi bátinn og nefnir Erling RE 65. Sama ár var báturinn endurmældur vegna breytinga á yfirbyggingu hans og mælist þá 101 brl. að stærð. 1979 er aftur skipt um aðalvél, Cummins í stað Cummins en nú 700 hestafla. Í nóvember 1982 kaupir Eskey hf. á Hornafirði bátinn sem heldur Erlingsnafninu og verður SF 65. Ekki voru vélaskiptin alveg búin því 800 hestafla Cummins fór niður 1987. Spurning hvort afturendanum var breytt þá en það var gert hjá Ósey hf. í Hafnarfirði.

Einhvern tímann um aldamótin kaupir Eskey hf. Haförn EA 955 frá Hrísey sem verður Erlingur SF 65 og selur gamla Erling SF innan bæjar á Höfn. Hann fær þá nafnið Öðlingur SF 165 og er í eigu Sólhóls ehf. Öðlingur SF 165 er horfinn af skipaskrá og hefur að öllum líkindum endað í pottinum fræga sem danir bjóða upp á.

Erlingur sá seinni hét áður Haförn EA eins og fram kemur hér að ofan. Hann var smíðaður á Akureyri 1974 fyrir Mumma hf. í Sandgerði og bar hann nafn fyrirtækisins. GK 120 var hann og mældist 142 brl. að stærð. Í október 1976 kaupir Sigurður Þórðarson í Vestmannaeyjum bátinn og nefnir Ölduljón VE 130. Um mitt ár 1980 kaupir Þórður Rafn Sigurðsson bátinn sem fær nafnið Dala Rafn VE 508. Dala Rafn gekk í gegnum breytingar í Eyjum, var yfirbyggður og skipt um brú. Hann er enn með gömlu góðu Caterpillaraðalvélina sem sett var í hann nýjna og virðast þær endingabetri en Cummins miðað við upptalninguna á Erlingi hinum fyrri.

Dala Rafn fékk aftur nafnið Ölduljón um tíma á vormánuðum 1993 en í maí það ár kaupir Hvammur hf. í Hrísey bátinn. Hann er nefndur Haförn EA 955 og stundar rækjuveiðar fyrir norðurlandi allt til aldamóta að hann er seldur Eskey hf. á Höfn. Skinney Þinganesi hf. keypti Eskey hf. í lok árs 2002 og er eigandi Erlings SF 65 í dag.  Heimild Íslensk skip ofl.


1206.Erlingur SF 65 ex Erlingur RE 65. © Bjarki Arnbjörnsson 1996.

1379.Erlingur SF 65 ex Haförn EA 955. © Hallur Sigurðsson.

29.03.2009 20:56

Wilson fjölskyldan

Menn hafa verið að segja fréttir af Wilsonfjölskyldunni á sambærilegum síðum og þessari og ekki get ég verið minni maður. Í dag var einn fjölskyldumeðlimanna við bryggju á Húsavík. Wilson Heron heitir hann og losaði salt.


Wilson Heron í Húsavíkurhöfn í dag. © Hafþór Hreiðarsson.

29.03.2009 20:00

Halldór Jónsson SH 217

Halldór Jónsson sá er birtist hér nú var smíðaður á Ísafirði 1987 og hét upphaflega Siggi Sveins ÍS 29. Hann var 104 brl. og var seldur úr Ólafsvík, þangað sem hann var keyptur 1992, árið 1994 til Stykkishólms. Þar fékk hann nafnið Kristinn Friðriksson SH 3 sem hann hélt til ársins 2004. Þá var hann seldur úr landi, nánar tiltekið til Írlands. Birtist mynd af honum hér á síðunni undir írska nafninu fyrir all nokkru síðan.


1846.Halldór Jónsson SH 217 ex Siggi Sveins ÍS 29. © Alfons.

28.03.2009 17:34

Seyðfirðingar á Seyðisfirði

Hér koma nokkrar myndir af seyðfirðingum á Seyðisfirði. Þetta er um mánaðarmótin júní -júlí 1989 og var ég ásamt fleirum í sumarhúsi upp á Héraði. Ákváðum að heimsækja frænda okkar sem bjó á Seyðisfirði og var að þjálfa knattspyrnulið Hugins.

En hvað um það við sjáum út með firði norðanmegin nokkra báta og keyrðum sem leið lá þangað.
Þegar þangað var komið virtist þessi vera strandaður.


1922.Sigmar NS 5. © Hafþór Hreiðarsson 1989.

Þessi hér að neðan virtist ætla að draga hann á flot.....

1848.Helga Sigmars NS 6. © Hafþór Hreiðarsson 1989.

Sem hann og gerði.....

Á Seyðisfirði. © Hafþór Hreiðarsson 1989.

En þessi beið átektar og tilbúinn að veita aðstoð.

1921.Völusteinn NS 116. © Hafþór Hreiðarsson.

Þessir bátar áttu svo allir eftir að verða seldir til Grímseyjar. Helga Sigmars NS varð Sæbjörg EA, Sigmar NS varð Magnús EA og síðan Hafborg EA og Völusteinn varð Þorleifur EA.

27.03.2009 22:07

Harpa Sóley er hetja

Það er ekki oft sem færslur þessa vefs fjalla um eitthvað annað en skip og báta en kemur þó fyrir.
Harpa og Sóley eru þekkt bátanöfn og meira segja hefur a.m.k. einn bátur borið bæði þessi nöfn. Þó ekki í einu.

Tilefni þessarar færslu er viðtal við frænku mína í DV í dag og hvet ég alla til að lesa það.

Harpa Sóley Kristjánsdóttir er ung húsavíkurmær sem þjáist af MS sjúkdómnum og uppgvötaðist hann þegar hún var fimmtán ára en í dag er hún tvítug. Hún hefur beðið nokkurn tíma eftir nýju lyfi sem gefur MS sjúklingum von um bjartari framtíð í veikindum sínum. En á dögunum fékk hún símtal þar sem henni var tjáð að hún fengi ekki lyfið en til stóð að að hún færi í lyfjameðferðina á FSA. Eðlilega varð hún sár og reið og eins og hún segir í viðtalinu í helgablaði DV í dag "Hrædd um mig og mína framtíð".

Harpa Sóley er ekki sú eina sem stendur í þessum sporum , fleiri hafa fengið neitun og m.a. komu tveir sjúklingar fram í fréttum Ríkissjónvarpsins fyrir viku síðan. Harpa hefur sett sig í samband við þessa tvo sjúklinga og saman hyggjast þau berjast fyrir réttindum sínum.

Það er með ólíkindum að sjúklingar eins og í tilfelli þessara þriggja skuli ekki fá þau lyf sem sannanlega geta gefið þeim bjartari framtíð. Þó þau séu dýr hver andskotinn er það. Hvað kostar það síðar meir ef sjúklingar sem þessir leggjast inn á besta aldri og eiga kannski ekki afturkvæmt nema tíma og tíma. Hvað kostar það ? Er verið að reikna dæmið til enda ?

Þá er hægt að spyrja hverjir hafa svo mikil völd að þeir geta dregið sjúklinga með svona alvarlega sjúkdóma í dilka og segja við einn "þú færð að lifa sennilega þokkalegu lífi" en við annan, "þú heldur áfram að kveljast þar til þú deyrð". Maður spyr sig nú bara ?

En auðvitað hljóta það að vera stjórnvöld sem bera ábyrgðina, það er þeirra að skaffa fjármagnið.

Sem dæmi, laun skilanefndarmanna bankanna ? Ef þeirra laun væru bara 25% minni væru þá ekki til 50 milljónir einhversstaðar sem hægt væri að nota til góðra verka. 3 milljónir á mánuði er ansi vel í lagt hjá staurblankri þjóð en sjálfsagt vinna þeir fyrir hverri krónu drengirnir.

Harpa Sóley er dugleg stúlka og á góða að sem hjálpa henni í baráttunni fyrir betra lífi. Sú barátta er bara rétt að byrja og heldur áfram og skilar vonandi þeim árangri sem stefnt er að.

Þetta er eina færslan á þessum skipamyndavef í dag en morgundagurinn ber örugglega einhverjar skipamyndir fyrir augu lesenda.


Harpa Sóley Kristjánsdóttir. © Hafþór 2009.

26.03.2009 21:36

Keilir II og aðrir netaVíkingar

Það eru alltaf að berast fréttir þessa dagana af góðum aflabrögðum á vetrarvertíð. Netabáturinn Keilir II AK 4 sem rær frá Arnarstapa landaði t.d. um fjörutíu tonnum af þorski á rúmum 26 tímum. Hann landaði tvisvar sinnum þann 24. alls um þrjátíu tonnum. Um tvö leytið aðfaranótt þess 25. kom hann síðan með um tíu tonn að landi sem landað var um morguninn. Aðrir netaVíkingar hafa einnig verið áberandi á aflalista netbátanna hjá Gísla Reynissyni.


2604.Keilir II AK 4. © Alfons Finsson 2008.

2481.Bárður SH 81. © Alfons 2009

2457.Katrín SH 575 ex Katrín RE 375. © Alfons 2008.

2705.Sæþór EA 101. © Hafþór Hreiðarsson 2007.

26.03.2009 09:10

Togarakallar

Kannast einhverjir við þessa kalla og hvert skipið er ?

25.03.2009 20:18

Galti kominn

Þá er Galti ÞH 320 kominn til Húsavíkur en frá því segir hér . Eins og sjá má á myndinni er skyggnið ofl. grænt á Galta en eigandi hans er Aðalgeir Bjarnason sem var skipstjóri á Björgu Jónsdóttur ÞH 321. Eins og margir vita þá voru bátar Langaness hf. grænir að lit en með undantekningum þó. Því er spurt hve margir bátar fyrirtækisins voru ekki grænir og hverjir þeirra voru það ?


2385.Galti ÞH 320 ex Eydís HU. © Björn Sigurðsson 2009.

24.03.2009 21:14

Skipasmíðar

Hér gefur að líta skipasmíðatöð á Íslandi meðan enn voru byggð eikarskip á landi hér. Hér er einn í endurbyggingu og byrjað á nýsmíði. Nú er spurt hvaða bátar skyldu þetta vera ?


Í íslenskri skipasmíðastöð.

23.03.2009 21:10

Sævar SF á Lónsbugtinni

Hér kemur mynd Bjarka Arnbjörnssonar af dragnótabátnum Sævari SF 72 þar sem hann er á veiðum á Lónsbugtinni. Bjarki telur að myndin gæti verið  tekin 1998. Sævar hét upphaflega Síðu Hallur SF 72 og var smíðaður fyrir Eirík og Ara Jónsyni á Höfn. Hann var smíðaður á Seyðisfirði 1989 og heitir í dag Nökkvi ÁR 101.


2014.Sævar SF 72 ex Síðu Hallur SF 72. © Bjarki Arnbjörnsson 1989.

 

23.03.2009 20:39

Hvaða menn eru á myndinni ?

Nú er ekki spurt um hvaða skip er á myndinni heldur hvaða menn eru á myndinni ?

23.03.2009 19:33

Aron ÞH kemur að landi

Eins og komið hefur fram keypti Knarrareyri ehf. á Húsavík bát á dögunum og nefndi hann Aron ÞH 105. Báturinn stundar nú grásleppuveiðar frá Húsavík og kom hann að landi nú rétt fyrir kvöldmat. Aflinn var þrjár tunnur af sulli en fyrr í dag kom Aþena ÞH 405 sem Knarraeyri gerir einnig út á grásleppu með tvær tunnur.

En hér koma nokkrar myndir af Aron koma til hafnar.7361.Aron ÞH 105 ex Liljan RE 18. © Hafþór Hreiðarsson 2009.


7361.Aron ÞH 105 ex Liljan RE 18. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

7361.Aron ÞH 105 ex Liljan RE 18. © Hafþór Hreiðarsson.

Flettingar í dag: 568
Gestir í dag: 82
Flettingar í gær: 771
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 9399662
Samtals gestir: 2008174
Tölur uppfærðar: 13.12.2019 13:12:35
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is