Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2009 Febrúar

28.02.2009 12:12

Veit einhver........

........hvaða bátur eða hverskonar bátur þetta var  ? Ríkarður Ríkarðsson húsvískur hafnarfjarðarbúi sendi mér þessa mynd sem hann tók við Elliðavatn. Annars segir svo á heimasíðu Rikka:

Tók myndir af þessum báti við Elliðavatn í dag, 26.02.2009.  Ég var þarna við annan mann og við veltum því fyrir okkur hvernig bátur þetta væri.  Nú er spurningin hvort þið getið aðstoðað okkur og sagt okkur hvernig bátur þetta er.
Hér eru fjórar myndir af bátnum.  Í bátnum eru krókar bæði í stefni og skut sem líklega hafa verið til að hífa bátinn upp.  Sjá má að með síðunni að innanverðu er eins og hilla eða bekkur.  Þá virtist okkur sem báturinn væri eins báðum megin, þ.e. báður endar gátu verið stefni.  Báturinn hefur verið vel smíðaður alla vegna er nóg af nöglum og skrúfum við stefnið.  Þá eru litlar lykkjur á síðum bátsins sem sjást m.a. á fyrstu myndinni en fellur svolítið inn í fyrsta grastoppinn hægra megin við bátinn.  Okkur datt í hug einhverskonar björgunarbátur sem hafi hangið á einhverju skipi.  Er einhver sem getur aðstoðað okkur við þennan bát, hvernig bátur er þetta?


Bátskrifli við Elliðavatn. © Rikki R 2009.

27.02.2009 23:05

Strandferðaskip skríður að bryggju

Hér kemur mynd úr safni Höskuldar Sigurgeirssonar á Húsavík sem sýnir strandferðaskip í eigu ríkissjóð skríða að bryggju á Húsavík. Hvort þetta er Esja eða Hekla er ég ekki dómbær á, kannski Hafliði sjái hvort skipanna þetta er. En hvað um það bæði þessi skip voru smíðuð í Danmörku á sínum tíma. Esja 1939 og var hún heldur minni en Hekla sem kom árið 1948.

Eftir smá yfirlegu yfir hinum stórmerkilegu bókum um Íslensk skip þá hallast ég á það að þetta sé Hekla.


Strandferðaskip í Húsavíkurhöfn. © Höskuldur Sigurgeirsson.

26.02.2009 23:26

Norðlendingar í Ólafsvík

Enn eru þeir til norðlendingarnir sem fara á vertíð á Breiðarfjörð og Sjöfn EA er einn þeirra báta. Alfons Finnsson tók þessa mynd af bátnum í Ólafsvíkurhöfn á dögunum og einnig mynd af áhafnarmeðlimum sem kannski birtist á morgun.


1848.Sjöfn EA 142 ex Sæbjörg EA 184. © Alfons 2009.

25.02.2009 23:01

Borðað upp á dekki

Dansað upp á dekki heitir gamalt lag sem ég man ekki í augnablikinu hver flutti, var það kannski hljómsveitin Fjörefni ? En hvað um það á myndinni hér að neðan er borðað upp á dekki og það í orðsins fyllstu merkingu því netaborðið er notað sem matarborð. Myndina tók Svafar Gestsson vélstjóri um borð í Siglunesi ÞH 60.


Borðað upp á dekki. © Svafar Gestsson. 

24.02.2009 22:36

Þessi er í fréttum á 640.is

Þessi er í fréttum á 640.is í kvöld.


7361.Kristófer GK 505 ex Linni SH. © Alfons Finnsson 2005

24.02.2009 20:49

Fyrsta slipptakan í Skipavík

Hér koma myndir af því þegar fyrsti báturinn var tekinn upp í slipp í nýrri dráttarbraut Skipavíkur í Stykkishólmi. Myndirnar sendi Sigurður Bergsveinsson mér en þær tók föðurbróðir hans Kristinn Breiðfjörð Gíslason í júní 1966. Báturinn sem er í brautinni er Straumnes SH 109 sem þarna var í eigu Þórsness hf. í Stykkishólmi. Bryggjustúfurinn sem  nefndur var í fyrradag er þarna vel sýnilegur til hægri við bátinn.

Straumnes SH hét upphaflega Jón Dan GK 341 og var smíðaður í Danmörku 1946. Eigendur hans voru Ólafur  Pétursson og Árni Kr. Hallgrímsson í Vogum á Vatnsleysuströnd, Einar Samúelsson Seltjarnarnesi og Gunnar Gunnarsson Hafnarfirði. Jón Dan var 36 brl. að stærð búinn 160hestafla Tuxham aðalvél sem var skipt út fyrir 150 hestafla Fairbanks Morse dieselvél 1952. Í apríl 1953 var báturinn seldur Hólmavíkurhreppi og fékk hann nafnið Hólmvíkingur ST 50.

Í október 1954 kaupa Helgi Guðmundsson, Haukur Bjarnason og Hrólfur Pétursson í Stykkishólmi bátinn og nefna hann Gissur hvíta II SH 160. Hann var seldur 1959, í febrúarbyrjun, Hraðfrystihúsi Kaupfélags Stykkishólms og fékk hann þá nafnið Straumnes SH 109. 10 desember 1960 kaupir Þórsnes hf. í Stykkishólmi Straumnesið  sem heldur nafni og númeri. Skipt hafði verið um aðalvél í bátnum 1959 og sett í hann 240 hestafla GM í stað þeirrar gömlu. Í september 1966, eða nokkru siðar en myndirnar hér að neðan voru teknar, keypti Frosti hf. í Stykkishólmi bátinn af Þórsnesi hf. en útgerð hans lauk rúmu ári síðar. 21 október 1967 sökk báturin á Breiðarfirði og bjargaðist áhöfnin, þrír menn, í gúmmíbjörgunarbát. Þaðan var þeim bjargað um borð í Felix SH 122.
Heimild Íslensk skip.


798.Straumnes SH 109 ex Gissur hvíti SH 160. © Kristinn Breiðfjörð Gíslason.

Straumnes SH 109 fyrsti báturinn sem tekinn var í slipp í nýrri dráttarbraut Skipavíkur.

24.02.2009 20:23

Ein í léttari kantinum

Hér kemur ein í léttari kantinum og spurt er hver er hann þessi skuttogari ? emoticon
Andenes RE heitir hann eins og kom fljótt fram. Togarinn bættist í flotann í ágúst 1996 og þá birtist eftirfarandi frétt í Morgunblaðinu:

ANDENES RE 43 heitir nýjasta skipið í íslenska togaraflotanum. Það er í eigu Atlantis Fisk ehf., nýstofnaðrar útgerðar þeirra Þórarins Guðbergssonar sem er stjórnarformaður, Vilhelms Annassonar, skipstjóra, Jens Hallgrímssonar, skipstjóra, og Halldórs Haraldssonar, vélstjóra.

Að sögn Þórarins var skipið keypt frá Noregi og hét það áður Andenes Fisk 1. Andenes er systurskip Sveins Jónssonar KE og Haraldar Böðvarssonar, smíðað árið 1973 en lengt um 5 metra árið 1986. Það er búið frystibúnaði fyrir bolfisk og rækju auk rækjusuðutækja.

Skipið kom til landsins 28. júlí og segir Þórarinn að til að byrja með sé ætlunin að gera það út á rækju á Flæmska hattinum en auk sé séu úthafskarfaveiðar inn í myndinni. Skipið kostaði tilbúið til veiða um 130 milljónir króna.


2271.Andenes RE 43 ex Andenesfisk I. © Útgerð 1996.
 

24.02.2009 19:00

Ein öllu þyngri = Þorgeir Skorargeir GK

Hér kemur ein öllu þyngri, kannski fyrir menn í eldri kantinum eins og t.a.m.Hafliða.
Ekki reyndist hún erfið þessi en Þorgeir Skorargeir GK 448 er togarinn á myndinni. Hann var smíðaður í Þýskalandi 1915 og var 269 brl. að stærð. 500 hestafla 3ja þjöppu gufuvél sá um að koma honum áfram. Fiskveiðahlutafélagið Ýmir í Hafnarfirði átti togarann sem bar sama nafn og fyrirtækið frá árinu 1915 til ársins 1928. Þá var hann seldur, í ágústmánuði,  Þórði Flyenring í Hafnarfirði sem gaf honum nafnið Eldey GK 448. Í lok október sama ár kaupir Fiskveiðihlutafélagið Kári, sem var skráð í Viðey, togarann og fær hann þá nafnið Þorgeir Skorargeir GK 448. Seldur í lok októbermánaðar 1932 Sameignarfélaginu Kópi í Reykjavík og varð hann þá Kópur RE 33. Í ársbyrjun 1937 er skráður eigandi Útvegsbanki Íslands sem selur hann í ársbyrjun 1940 til hlutafélagsins Asks í Reykjavík. Þá fékk hann nafnið Þorfinnur RE 33 sem hann hélt þegar hann var seldur til Ísafjarðar í mars 1942. Þorfinnur RE 33 var seldur til Færeyjar í nóvember 1945. Heimild Íslensk skip.


Þorgeir Skorargeir GK 448 ex Eldey GK 448.

23.02.2009 22:15

Bloogfærsla á vef Lundeyjar NS 14

Vil vekja athugli á magnaðri bloggfærslu Guðmundar heildsala og Lárusar skipstjóra á vefsíðu Lundeyjar NS. Þar um borð er Guðmundur vélstjóri og var myndin hér að neðan, sem fengin var að láni á umræddri síðu, tekin eftir fyrsta kast þeirra Lundeyjarmanna á loðnuvertíðinnni.
Bloggfærslan sem um ræðir ber titilinn Hugleiðingar um þéttleika loðnulóðninga.


Guðmundur Vilhjálmsson. © Lárus Grímsson 2009.

Guðmundur rekur fyrirtækið Vélaleigu Húsavíkur sem m.a. starfrækir netverslunina vélavörur.is

22.02.2009 21:11

Kristbjörgin glæný og falleg

Hér koma þrjár myndir af Kristbjörginni ÞH 44 úr safni Hreiðars Olgeirssonar. hann tók þó ekki myndirnar að þessu sinni, held að einhver maður í Stykkishólmi hafi tekið þær. En sem sagt þarna er Kristbjörg inn í húsi tilbúinn að fara á flot. Á þeirri næstu er hún enn á stokkunum en á þriðju myndinni liggur hún við eitthvað sem ég veit ekki hvað skal kalla. En þeir koma með það hólmararnir. Þessar myndir voru teknar í mars 1975.
1420. Kristbjörg ÞH 44. Úr safni Hreiðars Olgeirssonar.
21.02.2009 14:45

Geir ÞH að landa í Ólafsvík

Netabáturinn Geir ÞH 150 frá Þórshöfn var að landa afla sínum í Ólafsvík í morgun en honum er ekið til Húsavíkur þar sem hann er unninn  hjá GPG fiskverkun. Meira hér 


Landað úr Geir ÞH 150 í Ólafsvík í morgun. © Alfons 2009.

20.02.2009 22:58

Snæfell EA liggur við festar

Hér birtist mynd sem ég fékk senda á dögunum af Snæfelli EA 740. Á myndinni er Snæfellið við festar í höfn einhverss staðar og gaman væri að vita hvort einhverjir þekki til staðhátta. Um Snæfellið hef ég skrifað áður og bæti ekki við það hér.


195.Snæfell EA 740. Ljósmyndari ókunnur.

20.02.2009 20:14

Lucky Star

Þessi bátur lá á víkinni sem kennd er við Ólaf í gær og hinn skeleggi ljósmyndari skipamynda, Alfons Finnsson, smellti þessari mynd af honum. Hann fór að vísu bara út á bílaplan til þess og mundaði sína stærstu linsu. Lucky Star heitir báturinn og eftir þeim upplýsingum sem Alfons sendi var báturinn að bíða af sér veðrið áður en haldið var áleiðis til Grikklands. Fyrsti viðkomustaður skipsins, sem skráð er í Tanzaníu, er Færeyjar. Lucky Star (ekki finnst mér þetta nafn hæfa svo virðulegu skipi sem þessi bátur er) verður þjónustubátur túnfisveiðiskipa í framtíðinni. Eins og glöggir menn sjá er þetta Faxaborgin SH sem upphaflega hét Sléttanes ÍS.


Lucky Star ex 1023.Faxaborg SH. © Alfons 2009.

19.02.2009 20:56

Síðutogari við bryggju á Húsavík

Hér kemur önnur mynd til úr safni Höskuldar Sigurgeirssonar á Húsavík. Þarna tel ég að verið sé að byrja að fylla upp í höfnina þar sem kísilskemman var reist. Hafliði kemur sennilega með getgátur um að hver hafi átt Traderinn sem er að sturta en ef ég man rétt koma tveir til greina. Þá liggur síðutogari við bryggjuna sem við köllum Suðurgarðinn í dag. Reyndar heitir hún Suðurgarður. En ég ætla að Hafliði komi með nafn togarans og sögu hans.


Húsavík á sjöunda tug síðustu aldar. © Höskuldur Sigurgeirsson

18.02.2009 22:56

Nanna Ósk

Það má ekki gleyma plastinu þó fortíðin sé skemmtileg. Hér kemur mynd Sigmars Ingólfssonar af Nönnu Ósk ÞH 333 frá Raufarhöfn. Nanna Ósk er af Cleópötrugerð, 33 gerðin, og var smíðuð hjá Trefjum 1999. Nanna Ósk er í eigu Stekkjavíkur ehf. á Raufarhöfn.


2379.Nanna Ósk ÞH 333. © Sigmar Ingólfsson.

Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 664
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 9254637
Samtals gestir: 1995063
Tölur uppfærðar: 24.8.2019 01:05:55
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is