Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2009 Janúar

10.01.2009 13:27

Ein gömul úr Grindavík

Hér kemur ein gömul úr safni Þorgríms Aðalgeirssonar og er hún tekin í Grindavík. Þarna hefur sjávarstaða verið há ein sog sést en hvaða bátar eru þarna við bryggju ?


Frá Grindavík. © Þorgrímur Aðalgeirsson.

09.01.2009 20:26

Arnar í Hákoti SH 37

Þorsteinn Gíslason GK 2 hefur fengið nýtt nafn sem er Arnar í Hákoti. SH 37  eru einkennisstafir hans og númer. Ef aðeins er rýnt SH 37, hvaða bátar hafa borið SH 37 áður koma upp í hugann bátar í eigu Finns Gærdbo í Ólafsvík. Síðustu bátar sem hafa borið þessa einkennisstafi og númer hafa hins vegar verið í eigu Ástgeirs sonar hans. Svo mun vera með Arnar í Hákoti SH 37 en báturinn er nefndur eftir tengdapabba Ástgeirs. Að sögn Alfons Finnssonar mun Ástgeir róa honum til netaveiða frá Grundarfiði og Ólafsvík á komandi vetarvertíð.


288.Þorsteinn Gíslason GK 2 ex Þorsteinn Gíslason KE. © Hafþór Hreiðarsson.

08.01.2009 22:44

Siggi Gísla

Hér kemur mynd af fyrrum Sigga Gísla EA, sem reyndar hét svo Dagný SI um tíma. Myndina tók Magne Lystad eigandi bátsins í heimahöfn hans.


Fyrrum Dagný og Siggi Gísla. © Magne Lystad.

07.01.2009 20:55

Hagbarður TH 1

Hagbarður TH 1 er rétt svar og Tryggvi var fljótur að koma með það. Ívar Júlíusson gömul kempa hér á Húsavík hafði það einnig rétt enda man hann vel eftir bátnum.

Þessi mynd er úr safni Þorgríms Aðalgeirssonar en ljósmyndari óþekktur. Myndin er tekin einhvern tímann  á árunum á milli 1950 og 1960 þegar Hagbarður var þekkt aflaskip undir stjórn Þórarins Vigfússonar skipstjóra. Fjallað hefur verið um Hagbarð hér áður svo þetta dugar að sinni.

538. Hagbarður TH 1. © Úr safni Þorgríms Aðalgeirssonar.

Hver skyldi hann vera þessi ?

06.01.2009 21:28

Níutíu og þrír

Hér kemur mynd af Hrafni Sveinbjarnarsyni II GK 11 en menn hafa verið að spekúlrea í mynd hér að neðan þar sem báturinn heitir Helgi Flóventsson ÞH 77. Þessi mynd hér er tekin tuttugu árum eftir að báturinn var smíðaður og átján árum eftir að umrædd mynd var tekin í Húsavíkurhöfn.

Hér er búið að breyta bátnum talsvert, skipta um brú og hálfbyggja yfir hann að grindvískum sið. Stóra frammastrið er samt enn á sínum stað.


    93.Hrafn Sveinbjarnarson II GK  ex Stígandi II VE 477. © Hreiðar Olgeirsson 1982.

Eins og fram kemur í áliti hjá mér við myndina af Engey, Helga Fló og Arnfirðingi urður eigendaskipti á bátnum hér að ofan á smíðatímanum Í byrjun ágústmánaðar 1962 sökk síldarbáturinn Helgi Flóventsson ÞH 77 5 sjm. norðvestur af Langanesfonti. Áhöfnin, 11 manns,  bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát bátsins og þaðan um borð í Stíganda ÓF. Svanur hf. á Húsavík átti bátinn sem var ekki nema eins árs. Hann var 109 brl. smíðaður úr eik í Noregi. Nú voru Svansmenn skipslausir og þau lágu ekki á lausu. Í Risör í Noregi var skip í smíðum fyrir Útgerðarfélag Húsavíkur hf. og úr varð að félagið lét útgerð Helga Fló eftir smíðaréttinn og er það.  skipið hér að ofan.

06.01.2009 21:16

Gulliver V-18-L

Andrés Kolbeinsson hjá skipasölunni Húsanausti sendi mér þessa mynd og textann sem fylgir.

Siglufjarðar-Seigur afhenti þennan Seig 10,67 á sunnudaginn 04.01.2009. Eigandinn er Dagfinn Liebe í Larvik í Noregi
Nafn bátsins er Gulliver V-18-L og er hann með heimahöfn í Larvik Noregi.

 

Báturinn er 10,67 m á lengd og 3,88 m á breidd með Volvo Penta D-12 650 Hö vél með V-gír.

Hann er með vökvadrifinni hliðarskrúfu og fellikjöl. Línuspil er frá Beiti.

 

Svefnaðstaða er fyrir 3 menn, sturta og WC í lúkar, ásamt eldavél, örbylgjuofni og ísskáp. Borðsalur er í brú.

Ganghraði bátsins er 28 mílur með fulla olíutanka en hann verður gerður út á línu, neta og makrílveiðar.


Gulliver V-18-L © Siglufjarðar-Seigur 2008.

05.01.2009 18:35

Fékk á sig ólag

Lágey ÞH fékk á sig ólag þegar hún var á landleið í nótt. Var báturinn þá á leið fyrir Tjörnes til heimahafnar á Húsavík. visir.is sagði frá þessu strax í morgun og þar sagði jafnframt að mjög mikill halli hafi komið á bátinn, en hann náð að rétta sig við. Fjórir menn voru um borð og sakaði þá ekki og báturinn talinn óskemmdur.

Myndin hér að neðan var tekin af Lágey ÞH í dag.


2651.Lágey ÞH 265 ex Aron ÞH 105. © Hafþór Hreiðarsson.

05.01.2009 18:20

Hverjir eru bátarnir

Tryggvi kom með þetta. Engey, Helgi Flóventsson og Arnfirðingur eru bátarnir í þessari röð. Myndina tók Þorgrímur Aðalgeirsson á sjómannadaginn 1964. Á Húsavík.

44.Engey RE 11. 93. Helgi Flóventsson ÞH 77. 11.Arnfirðingur RE 212.  © Þ.A
En til að halda þessari mynd á lofti áfram er spurt hverjir voru skipstjórar á þessum síldarskipum á þessum tíma ?

Þá er það getraun handa lesendum að glíma við. Og spurt er hverjir eru síldarbátarnir þrír sem liggja saman ?

05.01.2009 14:32

Ný Cleópatra til Varangursfjarðar

Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi nú á dögunum nýjan Cleopatra bát til Nesseby í Varangursfirði í Finnmerkurfylki í Noregi. Kaupandinn er Edgar Olsen sem jafnframt verður skipstjóri á bátnum. Báturinn hefur hlotið nafnið Vesterelvjenta. Hann mælist 13.5brúttótonn og er af gerðinni Cleopatra 35 sem er sérstök útgáfa af Cleopatra 38.

Aðalvél bátsins er af gerðinni Volvo Penta D9 500hp tengd ZF V-gír.  Báturinn er útbúinn fullkomnum siglingatækjum af gerðinni Furuno og JRC. Hann er með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu hans.

Báturinn er útbúinn til netaveiða auk þess aðstunda veiðar á kóngakrabba hluta úr ári. Netabúnaður frá Rapp.  Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking-björgunarbúnaði. Rými er fyrir 12stk 380 lítra kör í lest. Í bátnum er upphituð stakkageymsla og sturtuklefi. Borðsalur er í brúnni auk stóla fyrir skipstjóra og háseta.

Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.  Reiknað er með að báturinn hefji veiðar nú í janúar.


Vestereljenta F 7 N. © Trefjar 2008

04.01.2009 22:56

Monica strandaði í Gauksstaðarvörinni

Línubáturinn Monica GK 136 strandaði í kvöld í Gauksstaðarvörinni í Garði. Eitthvað voru menn ekki með það á hreinu hvar þeir höfðu strandað eftir því sem segir í frétt á vef Víkurfrétta


2110.Monica GK 136 ex Múkki SU. © Hafþór Hreiðarsson.

03.01.2009 17:15

Vöttur SU 103

Hér kemur mynd úr safni Kjartans Traustasonar á Húsavík. Hún sýnir síðutogarann Vött SU 103 frá Eskifirði enhann var í eigu Austfirðings hf.þar í bæ. Upphaflega hét togarinn Keflvíkingur GK 197 og var í eigu Togaraútgerðar Keflavíkur í Keflavík. Keflvíkingur var smíðaður í Englandi 1948 og mældist 657 brl. að stærð búinn 1000 hestafla 3ja þjöppu gufuvél. Frá 1950 varð Keflvíkingu KE 19 allt þangað til hann var seldur Austfirðingi hf. í apríllok 1956. Vöttur SU var seldur Bæjarútgerð Hafnarfjarðar í nóvember 1960 og fékk hann nafnið Apríl GK 122. Apríl GK  var síðan seldur til Grikklands og tekinn af íslenskri skipaskrá 15. júlí 1965.


8.Vöttur SU 103 ex Keflvíkingur KE 19. © Úr safni Kjartans Traustasonar.

03.01.2009 16:59

Skemmtileg grein á Strandir.is

Vil benda lesendum á skemmtilega grein Guðbjarts Benediktssonar þar sem hann minnist Hilmis ST 1 og Guðmundar Guðmundssonar (Mumma) skipstjóra hans. greinin birtist á www.strandir.is
og er hægt að lesa hana hér


565.Hilmir ST 1. © Hafþór Hreiðarsson 1993.

02.01.2009 19:34

Ólafur Bjarnason á reknetum

Hér kemur skemmtileg mynd úr safni Vigfúsar Markússonar. Hún sýnir reknetabátinn Ólaf Bjarnason SH 137 frá Ólafsvík en þeir voru þó nokkrir ólsararnir sem fóru á reknetin. Mig minnir nú að saga þessa báts hafi komið fram hér á síðunni og því endar þetta hér.


1304.Ólafur Bjarnason SH 137. © Vigfús Markússon.

01.01.2009 14:04

Gullberg NS 11

Gullberg NS 11 var smíðaður í Noregi 1977 fyrir Fiskvinnsluna hf. á Seyðisfirði. Togarinn mældist 299 brl. að stærð búinn 1500 MAk aðalvél. Í desemberbyrjun 1984 var Gullbergið selt Ottó Wathne hf. á Seyðisfirði og fékk það nafnið Ottó Wathne NS 90.

Þegar Ottó Wathne hf. fékk nýjan (tæplega árs gamlan) frystitogara árið 1992 var Ottó Wathne seldur og nýja skipið fékk nafn hans og númer. Ekki er ég með það alveg á hreinu hvað varð um Ottó Wathne þegar sá nýji kom en eitthvað stóð til að hann yrði gerður út frá Þorlákshöfn. Hvort það varð úr og eða hver afdrif skipsins urðu man ég ekki.


1474.Gullberg NS 11. © Hreiðar Olgeirson 1983.

01.01.2009 02:27

Ásþór RE 10

Hér kemur fyrsta skipamynd ársins 2009 og er hún af skuttogaranum Ásþór RE 10 sem var í eigu Ísbjarnarins hf. og Jóns og Ingvars Vilhjálmssona. Ásþór RE var smíðaður í Noregi 1970 en keyptur til landsins á haustdögum 1981. Ásþór var 297 brl. að stærð búinn 1500 hestafla MWM aðalvél. Í mars 1986 er hann eins og Ásgeir og Ásbjörn kominn í eigu Granda hf. í Reykjavík. 1988 kaupir Þorbjörn hf. í Grindavík togarann sem fær nafnið Gnúpur GK og var m.a gerður út til að veiða í salt, pækilsaltað um borð. Skipstjóri Hilmar Helgason sem búsettur hafði verið á Húsavík og starfað sem stýrimaður á Júlíusi Havsteen ÞH 1. Gnúpur var fyrsti skuttogari Þorbjarnar hf. en þeir fylgdu fleiri í kjölfarið. Gnúpur þessi fór svo af skipaskrá þegar Þorbjörn hf. hafði skipti við skipasmíðastöðina í Flekkufirði sem var að smíða Guðbjörgina ÍS. Gamla Guðbjörgin sem átti að ganga upp í þá nýju endaði í Grindavík sem Gnúpur GK en gamli Gnúpur fór upp í Gugguna gulu.


1566.Ásþór RE 10. © Hafþór Hreiðarsson.

Flettingar í dag: 155
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 1100
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 9395896
Samtals gestir: 2007465
Tölur uppfærðar: 8.12.2019 03:34:52
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is