Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2009 Janúar

20.01.2009 22:44

Húsavíkurhöfn 1970

Set hér inn mynd Þ.A. af Húsavíkurhöfn sem hann tók 1970. Þetta er myndin sem myndin hér að neðan er klippt úr og spurt var hvaða báta eru á henni. Hér sést hafnarsvæðið, Hafliði er 10 ára þegar þessi mynd var tekin af frænda hans. Við hafnargarðinn sem í dag heitir Norðurgarður liggur skip sem líklega hefur verið að taka kísilgúr og ætti Hafliða að vera í lófa lagið að upplýsa okkur um hvaða skip þetta er.

Húsavíkurhöfn 1970. © Þorgrímur Aðalgeirsson.

20.01.2009 22:23

Eitt sinn Bliki ávallt Bliki

Eitt sinn Bliki ávallt Bliki segja sjálfsagt einhverjir í Kópavoginum og það sama má segja um togskipið Blika. Upphaflega Bliki EA, síðan Bliki í Noregi og nú Bliki í Færeyjum.


Bliki TG 607. © Hörður Harðarson 2008.

19.01.2009 22:49

Húsavíkurhöfn á árum áður

Hér koma tvær myndir úr safni Þorgríms Aðalgeirsson sem hann tók við Húsavíkurhöfn á árum áður. Ég ætla ekkert að skrifa hvaða skip og bátar sjást á þessum myndum. Nú skulu menn ausa úr sínum viskubrunnum.
19.01.2009 18:33

Gulltoppur að draga

Línubáturinn Gulltoppur GK 24 hefur verið að fiska ágætlega á Breiðafirði og þessa mynd hér að neðan tók ljósmyndari síðunnar á Snæfellsnesi á dögunum. Þarna er Gulltoppur að draga línuna en hann er þriggja stærri báta sem róa með landbeitta línu. Gulltoppur var smíðaður á Seyðisfirði 1976 fyrir Langanes hf. á Þórshöfn. Hann hét Langanes ÞH321 og mældist 99 brl. að stærð búinn 425 hestafla Caterpillar aðalvél. Hann kom til Þórhafnar um mitt ár 1976 og rúmum tveim árum seinna var hann seldur til Grundarfjarðar. Reyndar voru höfð bátaskipti. Kaupandi var útgerð Farsæls SH 30 og fengu þórshafnarbúar 76 brl. eikarbát í stað Langaness ÞH. Farsæll var lengi gerður út frá Grundarfirði en þegar Farsælsmenn keyptu Klæng ÁR (áður Eyvind Vopna NS) keypti útgerð Ársæls SH í Stykkishólmi bátinn og nefndi hann Ársæl SH 88. Síðar kaupir Flói hf. bátinn og nefnir Egil Halldósrsson SH 2. Báturinn gengur í gegnum talsverða breytingar á meðan hann var í eigu Flóa hf. Yfirbyggður, ný brú ofl. En samkvæmt skipaskrá skip.is er sama vélin enn um borð en er sögð 431 hestöfl. Í dag er Stakkavík hf. eigandi bátsins sem eins og fyrr segir heitir Gulltoppur GK 24.


1458.Gulltoppur GK 24 ex Egill Halldórsson SH 2. © Alfons 2009.


1458.Farsæll SH 30ex Langanes SH 321. © Hreiðar Olgeirsson.

19.01.2009 14:18

Björnson frá Napp

Ný Cleopatra 35 til Lofoten

Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi nú á dögunum nýjan Cleopatra bát til Napp í Lofoten í Noregi. Kaupandinn er Bjørn Jakobsen sem jafnframt verður skipstjóri á bátnum. Báturinn hefur hlotið nafnið Bjørnson. Hann mælist 13.5brúttótonn og er af gerðinni Cleopatra 35 sem er sérstök útgáfa af Cleopatra 38.


Aðalvél bátsins er af gerðinni Cummins QSM11 610hp tengd ZF V-gír.  Báturinn er útbúinn fullkomnum siglingatækjum af gerðinni Raymarine og Simrad. Hann er með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu hans.
Báturinn er útbúinn til línuveiða auk þess aðstunda veiðar á krabba hluta úr ári.  Línubúnaður er frá Lorentzen.  Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking-björgunarbúnaði. Rými er fyrir 12stk 380 lítra kör í lest. Í bátnum er upphituð stakkageymsla og sturtuklefi. Borðsalur er í brúnni auk stóla fyrir skipstjóra og háseta.
Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.  Reiknað er með að báturinn hefji veiðar nú í janúar.

 


Björnson N-58-F. © Trefjar.is

18.01.2009 21:01

Úranus í reynslusiglingu

Hér kemur mynd sem tekin var um borð í Úranusi þegar togarinn fór í reynslusiglingu. Jens Hinriksson tók myndina en hann var vélstjóri á Úranusi. Jens var bróðir hins kunna athafnamanns Jósafats Hinriksson sem m.a. smíðaði Jósafatshlerana. Myndin kemur úr safni Hafliða nokkrus Óskarssonar sem viðað hefur að sér miklu efni varðandi nýsköpunartogarana. Á myndinni sést pokabóman sem verið hefur í umræðunni og mastrið fyrir kompásinn framan á brúnni.

215.Úranus RE 343. © Jens Hinriksson.

16.01.2009 19:47

Eik, eik ,eik og aftur eik.

Á þessari mynd er það eikin sem gildir. Haförninn búinn að landa og á leið í plássið sitt. Sæborgin, Þingey og hvalaskoðunarbátarnir (4 af 6) við bryggju og Garðar út á garði. Svona var Húsavík í dag.


Húsavík í dag. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

16.01.2009 18:00

Hafliði á símatali við Steina Pé

Þegar síðuritari hitti á viskubrunninn Hafliða í dag þar sem hann var á gögnu með félaga sínum Grétari Jónassyni hringdi síminn. Á hinum endanum var Þorsteinn Pétursson á Akureyri og eftir að við höfðum óskað hvor öðrum gleðilegs nýs árs og svona kom hann að erindinu við mig. Hann spurði hvort það væru ekki menn hérna á Húsavík sem vissu mikið um síðutogatrana og hefðu verið að safna efni um þá. Ég tjáði Steina að Hafliði Óskarsson væri annar þessara manna og hann stæði hér við hliðina á mér. Það varð því úr að við slitum símatali okkar og Steini hringdi í Hafliða og tók ég þessa mynd hér að neðan við það tækifæri.


Hafliði á símatali við Steina Pé. og Grétar bíður pollrólegur. © Hafþór 2009.

15.01.2009 21:59

Togararnir þrír sem....

Það er best að hamra járnið meðan það er heitt stendur einhverstaðar og því birti ég myndir af síðutogurunum þrem sem sjást á myndunum af Sólfara AK í færslunni hér að neðan.
Tryggvi Sig, man röðina á þessum togurum og eftir því sem hann segir er Neptúnus RE 361  innstur, þá Mars RE 261 og ystur er Úranus RE 343.


Þrír togarar Tryggva Ófeigssonar við bryggju í Reykjavík. © Þ.A.

14.01.2009 22:47

Sólfari AK brunnin við bryggju

Hér koma tvær myndir sem sýna Sólfara Ak við bryggju í Reykjavík eftir brunann. Þarna er búið að rífa brúnna ofl. af honum þetta virðist bara vera brotajárnsdrasl. En báturinn átti eftir að sigla um sæinn í mun fleiri ár en fyrir brunann.


93.Sólfari AK 170 ex Helgi Flóventsson ÞH 77. © Þ.A.

14.01.2009 19:59

Stígandi II VE 477

Hér kemur mynd úr safni Tryggva Sig. af Stíganda II VE 477 en um þennan bát hefur nokkuð verið fjallað hér á síðunni. Hann hét upphaflega Helgi Flóventsson ÞH 77 og var smíðaður í Risör 1962. Á þessari mynd er hann kominn með nýja brú en eldur kom upp í bátnum 1974 og eyðilagðist þá upphaflega brúin. Þá hét báturinn Sólfari AK og birtist mynd af því þegar dráttarbáturinn Magni dró  bátinn stórskemmdan inn í Reykjavíkurhöfn hér á síðunni í fyrra. Strandferðaskipið Esja hafði þá dregið hann til Reykjavíkur en áhöfn hennar hafði gengið vasklega fram við björgunarstörfin.


93.Stígandi II VE 477 ex Skjaldborg RE 40. © Úr safni Tryggva Sig.

13.01.2009 21:37

Hvanney SF er báturinn


469.Hvanney SF 51 ex Dan ÍS 268. © G.H

Hvanney SF 51 er báturinn sem upphaflega hét Guðbjartur kristján ÍS 268 og var smíðaður í Danmörku 1961. Annars koma nöfnin sem hann bar fram í áliti hér að neðan.

12.01.2009 22:16

Frigg VE 41

Hér kemur mynd Bjarka Arnbjörnssonar frá Hornafirði af Frigg VE 41 sem í dag heitir Frár VE 78 og er allsólíkur þeim bát sem sést hér. Ég ætla að tæpa hér aðeins á sögu hans fram að þeim tíma að hann fékk Friggjarnafnið. Báturinn var smíðaður í Campeltown í Skotlandi 1978 og mældist 149 brl. að stærð. Hann var búinn 685 hestafla Mirrles Blackstone aðalvél. Hann hét Vón þegar Jóhannes Kristinsson keypti hann frá Færeyjum í ágústmánuði 1981 og gaf honum nafnið Helga Jóh.  Í nóvemberlok 1982 var skráður eigandi Helga Jóh. hf. og var báturinn endurmældur ári síðar og mældist þá 155 brl. að stærð.

Annars segir svo frá á vef VSV um útgerð þessa báts:

Árið 1981 hóf Vinnslustöðin samstarf við Jóhannes Kristinsson skipstjóra við kaup á vélbátnum Helgu Jóh. VE. frá Færeyjum og átti Vinnslustöðin 35% hlut í bátnum. Rekstur bátsins gekk erfiðlega þrátt fyrir góð aflabrögð og var mjög stormasamt í kringum þessa útgerð. Nokkrum árum síðar óskaði Jóhannes eftir því að Vinnslustöðin keypti sinn hlut í bátnum sem 1987 varð alfarið eign Vinnslustöðvarinnar og dótturfyrirtækinu Gunnari Ólafssyni & Co hf. falin útgerð bátsins.

Ef ég man rétt kaupir Óskar Þórarinsson Frigg vorið 1993 en sú saga bíður betri tíma.
1595.Frigg VE 41 ex Helga Jóh. © Bjarki Arnbjörnsson.

11.01.2009 14:52

Meira frá Grindavík í den

Þá er ég komin með fleiri myndir frá Þ.A af bátum í Grindavíkurhöfn. Þá ætti kannski að skýrast hvaða bátur er með rauðu röndina.


Frá Grindavíkurhöfn. © Þ.A

1501.Þórshamar GK 75 ex Götunes.© Þ.A

1511.Jóhannes Gunnar GK 74 ex Sif ÍS 90. © Þ.A.

10.01.2009 18:22

Torfi Halldórsson ÍS var báturinn

Torfi Halldórsson ÍS 19 var báturinn og Óskar Franz var ekki lengi að koma með það. Ekki veit ég hvaða dag þessi mynd var tekin en Torfi Halldórsson ÍS kom í fyrsta skipti til heimahafnar á Flateyri hinn 21. maí 1971. Hann var í eigu Benedikts Vagns Gunnarsson skipstjóra og útgerðarmanns á Flateyri en sonur hans Bjarni sendi mér þessa mynd og fleiri til.

Á www.flateyri.is segir svo þegar 35 ár voru liðin frá komu Torfa Halldórssonar ÍS 19 til Flateyrar :

Hin 21. maí 1971 kom í fyrsta sinn til Flateyrar Torfi Halldórsson ÍS 19. Hann var í eigu Benedikts Vagns Gunnarssonar, skipsjóra og útgerðarmanns á Flateyri.

Torfi Halldórdsson var 111 brl. og smíðaður í skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði sem var Önfirðingur af Ingjaldssandi.

Torfi var lengdur í Noregi 1972 og mældist þá 134 brl. Hann var seldur frá Flateyri 6. mars 1974 og hét lengi Tjaldur og gerður út frá Rifi á Snæfellsnesi og var yfirbyggður 1982 og mæældist þá 137 brl.

Um tíma hét báturinn Þorsteinn og var gerður út frá Grindavík og þá var skipstjóri á bátnum Ásgeir Kristjánsson frá Flateyri.

Fyrsti skipstjórinn var Jón Guðröðarson og var með Torfa á togveiðum en síðan á línuveiðum var skipstjóri Gunnar Þór Ólafsson en Benedikt Vagn Gunnarssona var skipstjóri um tíma.


1159.Torfi Halldórsson ÍS 19. © Úr safni Bjarna Ben.

Flettingar í dag: 546
Gestir í dag: 139
Flettingar í gær: 595
Gestir í gær: 109
Samtals flettingar: 9396882
Samtals gestir: 2007674
Tölur uppfærðar: 9.12.2019 21:47:09
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is