Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2009 Janúar

31.01.2009 17:34

Sæbjörgin á strandstað við Stokksnes

Hér sjáum við myndir sem Bjarki Arnbjörnsson tók af flaki Sæbjargar VE 56 á strandstað við Stokksnes. Sæbjörgin strandaði þarna í desember árið 1984. Ég man það eins og þetta hefði skeð í gær. Ég var í byggingarvinnu eftir að hafa verið á síldveiðum á Geira Péturs. Þetta er nefnilega í eina skiptið sem ég hef unnið í byggingarvinnu. Reyndar fyrir utan nokkurra vikna í vinnu við að byggja kartöflugeymslu inn í Eyjafirði. Þar var einn vinnufélagi minn Árni heitinn Ingólfsson skipstjóri sem hafði verið með Sólfellið úr Hrísey. En hvað um það, það er allt önnur Ella.........

Á vef Björgunarfélags Hornafjarðar er þessu strandi gert góð skil. Þar segir:

Í viðtali við Svein Sighvatsson fyrrum formann Björgunarfélags Hornafjarðar bar ýmislegt á góma um starfsemi félagsins og útköll og þar á meðal strand Sæbjargar VE-56 við Stokksnes 1984. Það er einhver eftirminnilegasti björgunarleiðangur sem ég man eftir segir Sveinn og sú góða tilfinningin þegar búið var að bjarga allri áhöfninni 14 manns í land var ólýsanleg. Það var laust fyrir kl. 5 mánudaginn 17.des. að hringt var frá Slysavarnarfélagi Íslands og tilkynnt að Sæbjörg VE-56 eigi í erfiðleikum um 1,5 sm. út af Stokksnesi í slæmu veðri, skipið væri með bilaða vél og hefði Erling KE-45 komið taug á milli skipanna. Ákveðið var að kalla saman björgunarsveitina og yrði hún í viðbragðsstöðu ef á þyrfti að halda og einnig yrði strax haft samband við loftskeytastöðina á Höfn. Í því að haft var samband við loftskeytastöðina og hún hafði staðfest staðsetningu skipanna kom beiðni frá Sæbjörgu um að kalla út björgunarsveitina. Meira hér


                    989.Sæbjörg VE 56 ex Jón Garðar GK 475. © Bjarki Arnbjörnsson.
                                                               Fleiri myndir hér

Bjarki segir í póstinum til mín með myndunum að þær séu nokkuð merkilegar því þær voru teknar þegar verið var að reyna að snúa Sæbjörgu VE og draga hana betur upp á land til að hirða úr henni verðmæti.  "Skipið rak þarna upp í Hornvíkina og eins og sést á myndunum tókst að snúa henni og mjakaðist hún töluvert upp en þó nokkrar tilraunir voru gerðar en alltaf slitnuðu vírarnir.  Notast var við þungavinnuvélar við verkið og er á engan hallað þegar sagt er að þar hafi farið fremstur í flokki maður nokkur að nafni Jónas B Sigurbergsson verktaki á Hornafirði. Miklu var bjargað af allskyns dóti  sem ég kann nú ekki að sundurliða en aðrir gætu örugglega sagt frá." Sagði Bjarki og þakka ég honum fyrir myndirnar.

31.01.2009 15:03

Kolbeinsey hér og þar

Á dögunum birtust hér myndir af sjósetningu Kolbeinseyjar ÞH 10 sem Árni Vill. tók þann 7. febrúar 1981 þegar skipið hljóp af stokkunum hjá Slippstöðinni á Akureyri. Hér birtast tvær myndir af Kolbeinsey,teknar með 28 ára millibili. Þá efri tók Sigurgeir Smári Harðarson þegar Kolbeinsey kom ný til heimahafnar á Húsavík, þann 10. maí 1981. Þá síðari tók annar tveggja ljósmyndara Skipamynda í Færeyjum, Hörður Harðarson, í Miðvogi á Vogey sl. haust. Þar liggur Kolbeinsey, nú BA 123, og bíður örlaga sinna. 

Eftir 20-30 spyrja menn sig kannski, "af hverju var ekki einn skuttgari varðveittur, t.d. Kolbeinsey sem grotnaði niður í Færeyjum, hún var smíðuð á Akureyri og verðugt minnismerki um íslenska stálskipasmíði" ?
 Ha, Hafliði sagan er ekki bara síðutogarar ! emoticon 

1576.Kolbeinsey ÞH 10. © Sigurgeir Smári Harðarson 1981.1576.Kolbeinsey BA 123 ex Helterma. © Hörður Harðarson 2008.
 

29.01.2009 20:01

Quo Vadis frá Kopervik strandaði

Því var hvíslað að mér að nóta- og togskipið Quo Vadis frá Kopervik í Noregi hafi strandað í fyrrinótt. Skipið var undir farmi og er unnið að að því að létta skipið áður en reynt verður að losa það af strandstað. Skip þetta, Quo Vadis var eitt sinn í íslenska flotanum og bar nafnið Jón Sigurðsson GK 62.

Svona er fréttin fyrir þá sem eru sleipir í norskunni :

Hekktråleren "Quo Vadis" gikk på grunn i natt i Herøy nær Fosnavåg. RS "Emmy Dyvi" og en annen fiskebåt lyktes ikke å hjelpe havaristen av skjæret, så nå tømmes tråleren for fisk.

 

I påvente av flo sjø klokka 12.30 er en brønnbåt i ferd med å losse så mye fisk som mulig fra havaristen. I mellomtiden ligger Emmy Dyvi klar til å rykke ut med dykker for å besiktige skadene på tråleren fra Rogaland.

 

Ifølge NRK Møre og Romsdal var det klokka 02.30 i natt at tråleren gikk på Torvikholmane i Bøfjorden.

 


2275.Jón Sigurðsson GK 62 nú Quo Vadis R 86 K. © Pétur Helgi.

29.01.2009 18:11

Júpíter við Skrúð

Á dögunum birtist mynd af júpíter í ólgusjó og spurt var hvar myndin hefði verið tekin. Óskar Franz var ansi glöggur og sagði hana vera tekna fyrir vestan. Hún var nefnilega tekin í Látraröstinni. Hér kemur önnur mynd Kjartans Traustasonar af Júpíter og þessi er tekin við austfirði. Þarna er Júbbinn með Skrúð í baksýn.


130.Júpíter RE 161 ex gerpir NK. © Kjartan Traustason.

28.01.2009 22:36

Örvar SH 777

Hér kemur mynd sem Alfons Finnsson tók í fyrra þegar línuskipið Örvar SH 777 kom til heimahafnar á Rifi í fyrsta skipti. Allt svo undir þessu nafni því skipið hefur áður átt heimahöfn þarna þegar það hét Tjaldur II SH 370. Reyndar sýnist mér nú standa Hellisandur á skipinu en höfnin er á Rifi og samkvæmt skipaskrá er heimahöfnin Rif.

Örvar SH 777 er í eigu Hraðfrystihúss Hellisands hf. og kom í stað gamla Örvars sem í dag heitir Kristbjörg HF 177. Það gæti nú reyndar breyst fyrr en varir. Eins og áður segir hét Örvar áður Tjaldur II. Hann var smíðaður í Noregi á sínum tíma, nánar tiltekið 1992, fyrir KG fiskverkun á Rifi sem lét smíða tvö svona skip, Tjald og Tjald II.

Hann var síðan seldur úr landi og var á einhverju flakki minnir mig en hét nú síðast Vestkamp og var keyptur frá Noregi. Örvar er 688 brúttótonn búinn 1000 hestafla Caterpillar aðalvél.


2159.Örvar SH 777 ex vestkamp. © Alfons 2008.

28.01.2009 19:22

Kemur við sögu á 640.is

Þessi kemur við sögu á 640.is í dag.


Arnar Vilberg Ingólfsson með líka þessa glæsilegu húfu. © Hafþór 2009.

27.01.2009 22:34

Brimnes RE

Það eru ekk bara gamlir togarar sem koma fyrir augu síðulesara því hér kemur mynd af frystitogaranum Brimnesi RE 27. Hana tók Eiríkur Guðmundsson matsvein á Björgvin EA 311 á dögunum. Það sagði mér skipverji á Brimnesinu að þeir hefðu fiskað um 11 þúsund tonn á síðasta ári og er það bara helvíti gott fiskerí.


2770.Brimnes RE 27. © Eiríkur Guðmundsson 2009.

26.01.2009 22:23

Kolbeinsey sjósett

Í dag hafði samband við mig maður hér á Húsavík Árni Vilhjálmsson að nafni, alltaf kallaður Árni Vill. Kona hans hafði rekist á umslag með myndum sem Árni tók þegar skuttogarinn Kolbeinsey var sjósett á Akureyri. Árni vildi gefa mér þessar myndir ef ég vildi þiggja sem ég að sjálfsögðu gerði.

Myndirnar sýna þegar Kollan rennur af stokkunum og út á fjörðinn þar sem hún var tekin utan á annað skip með astoð litla hafnsögubátsins á Akureyri.

Kolbeinsey ÞH 10 sem var í eigu Höfða hf. á Húsavík var sjósett þann 7. febrúar 1981 og gefið nafn um leið. Hún kom svo til heimahafnar á Húsavík undir skipstjórn Benjamíns heitins Antonssonar þann 10 maí sama ár.

Hér birtast tvær myndir frá Árna Vill. en síðar mu ég skannaþær allar og setja inn í albúm.

En spurt er hvaða skip tók Kolluna á síðuna og kom henni upp að slippkantinum ?


1576.Kolbeinsey ÞH 10 rennur af stokkunum. © Árni Vilhjálmsson 1981.

1576.Kolbeinsey ÞH 10. © Árni Vilhjálmsson 1981.

25.01.2009 10:55

Fyrsti nýsköpunartogarinn

Hjörleifur RE 211 er togarinn sem spurt var um hér að neðan. Myndin kemur úr safni Kjartans Traustasonar. Hafliði grunar mig um að að hafa dekkt myndina er það er ekki rétt, einungis gerð svart-hvít. Myndin er tekin 1974.

Hjörleifur RE hét upphaflega Ingólfur Arnarson RE 201 og var fyrsti nýsköpunartogari íslendinga. Hann var í eigu BÚR frá 4. mars 1947. Hann var smíðaður í Englandi, einn átta systurskipa sem smíðaðir voru fyrir íslendinga. (Segir Hafliði). Í togaranum, sem mældist 654 brl. að stærð, var 1000 hestafla 3ja þjöppu gufuvél.

Togarinn var endurmældur í nóvemberbyrjun 1971 og mældist þá 610 brl. að stærð. BÚR óskar eftir nafnabreytingu á togaranum í júní 1972 og fékk hann þá nafnið Hjörleifur RE 211. Hjörleifur var seldur í brotajárn til Spánar og tekið af skrá 3. desember 1974.


121.Hjörleifur RE 211 ex Ingólfur Arnarson RE 201. © Úr safni KT.

24.01.2009 23:51

Fyrsta löndun Dagfara ÞH 70

Hér kemur nokkuð merkileg mynd úr safni Hreiðars Olgeirssonar sem sýnir Dagfara ÞH 70 við bryggju á Seyðisfirði. Aftan á myndinni stendur nefnilega fyrsta löndun úr Dagfara en myndin var tekin sumarið 1967. Það ár fékk útgerðarfélagið Barðinn hf. tvö skip frá Austur-Þýskalandi, Dagfara ÞH 70 og Náttfara ÞH 60. 1964 hafði útgerðin einnig fengið skip frá sama stað, Boizenburg, sem fékk nafnið Dagfari ÞH 40 en þegar sá nýji kom fékk hann nafnið Ljósfari ÞH 40.


1037.Dagfari ÞH 70. © Hreiðar Olgeirsson 1967.

24.01.2009 22:24

Hver togarinn ?

Hver er togarinn ?

24.01.2009 15:49

Júbbinn

Hér kemur mynd Kjartans Traustasonar af Júpíter RE 161. Við vitum allt um hann, svona tölulega, en kannski luma menn á sögum af honum. En það er kannski í lagi að skjóta að spurningunni hvar er myndin tekin (veit að Kjartan var um borð í Sigurði en hvar var Sigurður) ?


130.Júpíter RE 161 ex Gerpir NK 106. © Kjartan Traustason.

23.01.2009 22:06

Ólafsvíkurhöfn

Hér er mynd sem Alfons tók í Ólafsvíkurhöfn um árið. Sýnir hún hluta flota ólsara og nú er spurning hvort menn viti hvaða ár myndin sé tekin. Þekkja menn bátana ?


Ólafsvíkurhöfn á árum áður. © Alfons Finnsson.

22.01.2009 23:02

Frá komu Vilhelms

Hér gefur að líta mynd sem var tekin þegar Vilhelm Þorsteinsson EA 11 kom í fyrsta skipti til heimahafnar á Akureyri. Þetta var þann 3. september árið 2000. Baldvin Þorsteinsson EA 10 var einnig að koma til hafnar á sama tíma. 

Um Vilhelm Þorsteinsson EA var m.a. eftirfarandi skrifað í Morgunblaðið þann 5. september árið 2000

Vilhelm Þorsteinsson EA er eitt stærsta og glæsilegasta skip íslenska fiskiskipaflotans. Það er 79 metra langt, 16 metra breitt, og 5.520 kílówatta aðalvél. Það er búið bæði til nóta- og flottrollsveiða og um borð er fullkominn búnaður til frystingar og vinnslu á bolfiski, síld, loðnu og kolmunna. Frystigeta afla í vinnslu er um 120 tonn á sólarhring og burðargeta afla til bræðslu um 2.500 tonn. Frystilestir skipsins rúma um 650 tonn af frosnum afla og um 1.200 tonn af fiski í kælitönkum. Íbúðir eru fyrir 28 manna áhöfn og aðbúnaður allur eins og best verður á kosið. Ganghraði skipsins er 18,2 sjómílur og togkraftur 90 tonn við fullt átak. Áætlaður heildarkostnaður við nýsmíðina er um 1.500 milljónir króna.

Frumhönnun skipsins var í höndum starfsmanna Samherja og Skipatækni hf. en Teiknistofa Karls G. Þorleifssonar á Akureyri annaðist hönnun á vinnsludekki ofl. Skipasmíðastöðin Stocznia Polnocna í Gdansk í Póllandi annaðist smíði skrokksins og hófst verkið um mitt síðasta ár. Þar var skipinu hleypt af stokkunum í mars sl. Kleven Verft AS í Ulsteinvik í Noregi annaðist framhald smíðinnar.


Frá komu Vilhelms Þorsteinssonar EA 11 til Akureyrar. © Hafþór 2000.

21.01.2009 21:54

Hverjir eru mennirnir ?

Hér er mynd sem Kjartan Traustason sendi mér. Ég tel nú að menn þekkji þá sem á henni eru en gaman væri að ath. hvort menn séu með nöfnin. Þess vegna er spurt hverjir eru mennirnir ?

Flettingar í dag: 535
Gestir í dag: 81
Flettingar í gær: 771
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 9399629
Samtals gestir: 2008173
Tölur uppfærðar: 13.12.2019 12:41:15
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is