Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2008 Desember

31.12.2008 15:03

Ásgeir RE 60

Á eftir Ásbirni í Ísbjarnarstafrófinu kemur Ásgeir sem var RE 60. Þeir voru smíðaðir í Flekkufirði í Noregi, Ásgeir 1977 og Ásbjörn 1978. Ásgeir og Ásbjörn voru því systurskip og mældust 442 brl. að stærð. Búnir 2100 hestafla Wichmannaðalvélum. Þeir voru smíðaðir fyrir Ísbjörninn hf. en í viðskiptum árið 1986 voru þeir komnir í flota Granda hf.

Þegar Ögurvík hf. var með frystitogarann Vigra RE 71 í smíðum, í árslok 1991, höfðu Ögurvík hf. og Grandi skipaskipti. Ásgeir fór út fyrir hinn nýja Vigra en Grandi fékk skuttogarann Ögra RE 72 í staðinn.


1505.Ásgeir RE 60. © Sigtryggur Georgsson.

30.12.2008 19:22

Ásbjörn á leið til Þýskalands með fullfermi.

Ísfisktogarinn Ásbjörn RE er nú á leið til Þýskalands með fullfermi af fiski, um 150 tonn, sem fyrirhugað er að selja á fiskmarkaðnum í Bremerhaven 5. janúar nk. Að sögn skipstjórans, Ólafs Einarssonar, var mikið haft fyrir aflanum enda var nánast kolvitlaust veður megnið af veiðiferðinni og á aðfangadag var brugðið á það ráð að leita vars undir Hólsbergi í nágrenni Keflavíkur og þar varði áhöfnin aðfangadagskvöldinu.

,,Það er óhætt að segja að veðrið hafi verið slæmt. Við vorum tíu daga í veiðiferðinni og í þrjá daga var ekkert hægt að vera að veiðum. Hina dagana var þokkalegt kropp," sagði Ólafur er tíðindamaður heimasíðu HB Granda náði tali af honum. Ásbjörn RE var þá suður af Reykjanesi en skipið lét úr höfn í Reykjavík í morgun eftir að hafa tekið olíu og vistir. Að sögn Ólafs var hann að veiðum í Skerjadýpinu eða á heimaslóðum ísfisktogara HB Granda og uppistaða aflans var góður gullkarfi en einnig voru í lestinni um 20 tonn af ufsa.


Ásbjörn RE var eini togari landsmanna sem var að veiðum um jólin. Segja má að siglingin nú sé nokkuð merkileg því Ásbjörn RE fór síðast utan með afla á árinu 1994 eða fyrir bráðum hálfum öðrum áratug.  

Þessi frétt er tekin af heimasíðu Granda.


1509.Ásbjörn RE 50. © Hafþór Hreiðarsson.

30.12.2008 18:10

Um borð í Jóni Baldvinssyni.

Hér birtist aftur mynd Hauks Hallvarðssonar sem hann tók um borð í síðutogaranum Jóni Baldvinssyni RE 208. Nú hafa borist upplýsingar um mennina á myndinni. Sá sem spilar á munnhörpuna er Torfi Baldursson. Hann var 15 ára þegar myndin var tekin og hálfdrættingur um borð. Sá með gogginn er Ólafur Egilsson og við hlið hans Jón Ellert Guðjónsson sem þarna er 16 ára en. Jón Ellert sem nú er skipstjóri á Húna II sá myndina og þekktiu hana og þá sem á henni eru. Sá sem snýr baki í myndasmiðinn mun vera Sigurður Sigurðsson prests í Holti og svo er það Stefán en ekki er vitað um föðurnafn hans. Myndin er tekin sumarið 1953. Þorsteinn Pétursson á Akureyri sendi mér þesar upplýsingar og þakka ég honum fyrir þær.


Um borð í Jóni Baldvinssynir RE 208 sumarið 1953. © Haukur Hallvarðsson.

29.12.2008 22:00

Þórsnes SU 308

Hér kemur mynd af Þórsnesi SU 308 frá Breiðdalsvík. Báturinn var 69 brl. að stærð, smíðaður í Danmörku 1960 fyrir Þórsnes hf. í Stykkishólmi. Upphaflega voru tvær 240 hestafla G.M aðalvélar í bátnum en 1970 var skipt um og 375 hestafla Cummins sett í staðinn. Í janúar 1983 fær ba´turinn einkennisstafina SH 308 og í september sama ár er hann seldur austur á Breiðdalsvík. Kaupendur voru Hrafnkell Gunnarsson og Ingþór Indriðason. Báturinn hét áfram Þórsnes og varð SU 308. Í desember ári síðar kaupir Selnes hf. á Breiðdalsvík bátinn. Í byrjun septembermánaðar 1986 kaupir Aðalvör hf. í Hafnarfirði bátinn og hann verður Þórsnes HF 101. Síðar varð hann Helguvík ÁR 213 og spurning hvort það hafi verið hans síðasta nafn.


925.Þórsnes SU 308 ex Þórsnes SH 308. © Hafþór Hreiðarsson 1984.

29.12.2008 21:54

Atlantic Margaret

Hér kemur mynd af einum af þessum Smugutogurum sem komu hér um árið. Atlantic Margaret og spurning hvort þetta sé togarinn sem Hafliði er að tala um í álitum við myndirnar af Kull og Pistrik.


Atantic Margaret. © Hafþór Hreiðarsson.

29.12.2008 00:18

Kull og Pistrik

Hér koma myndir af skuttogurunum Kull og Pistrik sem komust í fréttirnar hér á landi í septemberlok 1994. Þá lönduðu þeir saltfiski til áframhaldandi vinnslu á Húsavík. Þetta voru 140 tonn af saltfiski sem fengust í Smugunni en skipin voru skráð á eyjunni Mön. Þau sigldu samt undir eistneskum fána og sagt í eigu fyrirtækisins Dagomar þar í landi. Skipin höfðu nýlega verið keypt frá Kanada þegar þarna var komið við sögu. Eftir því sem Hafliði togarasérfærðingur Óskarsson sagði mér eitt sinn voru þessi tvö skip þess valdandi að Smugan fylltist af skipum.


Kull EK 1441. © Hafþór Hreiðarsson 1994.

Pistrik EK 1442. © Hafþór Hreiðarsson 1994.

Kull í Húsavíkurhöfn. © Hafþór Hreiðarsson 1994.

28.12.2008 15:23

Skagfirðingar á toginu

Hér koma myndir af skuttogurunu Hegranesi og Drangey á toginu. Hegranesið var smíðað í Póllandi 1975 og mældist 453 brl. að stærð. Það var búið 1500 hestafla Crepellle aðalvél. Útgerðarfélag Skagfirðinga hf. keypti það til landsins árið 1977 og 1983 var það lengt. Við það mældist skipið 498 brl. að lengd. Þá var sett í skipið 1950 hestafla Crepelle aðalvél. Hegranesið varðs vo að lokum í eigu FISK. eftir einhverjar sameiningar við Skagafjörð. Endalok þess urðu á þessu ári þegar það var rifið við Krossanes í Eyjafirði.

Skuttogarinn Drangey SK 1 var smíðaður á Spáni 1974 fyrir Hraðfrystihús Keflavíkur hf. og mældist 451 brl. að stærð. 1700 hestafla Bazan aðalvél var í Aðalvíkinni KE 95 eins og skipið hét í upphafi og fram til ársins 1988. Þá var Aðalvíkin seld norður á Sauðárkrók og fékk Drangeyjarnafnið.Ef ég man sögu skipsins rétt var Drangey selt til Tanga hf. á Vopnafirði þar sem það fékk nafnið Eyvindur Vopni NS 70. Þorbjörn hf. í Grindavík keypti síðan Eyvind Vopna sem fékk nafnið Óseyri ÍS og síðan Skúmur GK. Þá kaupir Ingimundur hf. í Reykjavík skipið sem verður Helga II RE 373. Næst varð hann Jón Vídalín ÁR og því næst Vídalín SF 80. Þar með lauk veru togarans á íslenskri skipaskrá held ég.


1492.Hegranes SK 2 ex Rockall. © Hafþór Hreiðarsson.

1348.Drangey SK 1 ex Aðalvík KE 95. © Hafþór Hreiðarsson.

28.12.2008 14:43

Fragtari

Það er öðru hverju verið að spyrja mig hvort ég eigi ekki eitthvað af fragtaramyndum og hér kemur ein slík. Tekin við Miðjarahafið í haust. Ég spyr eins og maðurinn, kannast einhver við hann ?


Fragtskip á Miðjarðarhafi. © Hafþór Hreiðarsson 2008.

27.12.2008 20:39

Tvær fyrir Tryggva

Hér koma tvær myndir fyrir Tryggva Sig. Drullusokk nr. 1. Þær voru teknar í dag þegar nokkrir félaga í Náttfara fóru í hjólaferð austur á Kópasker.


Náttfaramenn á ferðinni í dag. © Hafþór Hreiðarsson.

25.12.2008 12:19

Náttfari RE 59

Hér kemur mynd af Náttfara RE 59 sem upphaflega hét Halkion VE 105. Síðar varð hann Álsey VE 502, þá Náttfari og að lokum Baldur Karlsson ÁR 6.


1652.Náttfari RE 59 ex Álsey VE 502. © Hafþór Hreiðarsson 2003.

25.12.2008 11:04

Gleðileg jólÓska öllum þeim sem heimsækja síðuna og þeim sem hafa lagt henni til myndefni gleðilegra jóla.

                Hafþór Hreiðarsson

25.12.2008 01:11

Grundar Geiri

Hér kemur skemmtileg mynd sem frændi minn Sigurgeir Pétursson sendi mér. Hún er tekin 1975 af vélbátnum Kvikk ÞH 112 sem Hólmgeir Árnason sem kenndur var við Grund í Flatey átti. Þarna er Grundar Geiri ístafni á leið frá Flatey upp á dal (Flateyjardal). Með honum í för eru þrír ungir drengir, dóttursynirnir Sigurgeir Pétursson við stýrið og við hlið hans Ævar Austfjörð. Í miðjunni situr sonarsonurinn Stefán Guðmundsson.

24.12.2008 17:46

Gideon og Halkion

Hér koma myndir af togskipunum Halkion og Gideon frá Vestmannaeyjum sem smíðuð voru fyrir Samtog hf. í Vestmannaeyjum. Það var árið 1984 og smíðalandið Pólland, þeir bræður voru 222 brl. að stærð búnir 840 hestafla Sulzer aðalvélum. Um mitt ár 1987 var skráður eigandi Höfn hf. í Vestmannaeyjum sem var að 99% í eigu Ísfélags Vestmannaeyja. Þar sem jólahátíðin er að ganga í garð verður þessum skipum gerð betur skil síðar.


1651.Gideon VE 104. © Sigtryggur Georgsson.


1652.Halkion VE 105. © Vigfús Markússon.

22.12.2008 21:07

Jón Bergkvistsson

Um daginn birti ég mynd mína af Bergkvist SU 409 og gat þess að eigandinn geymdi hann innan dyra á Fáskrúðsfirði. Jón Páll sendi mér síðan í framhaldinu mynd af eigandanum, sem heitir Jón Bergkvistsson, þar sem hann stendur við bátinn í skemmu á Fáskrúðsfirði.

Jón Bergkvistsson við Bergkvist SU 409. © Jón Páll Ásgeirsson 2006.

22.12.2008 19:53

Þrjár eyjur


44.Hafnarvík ÁR 113 ex Brimnes EA 14. © Vigfús Markússon.

233.Akurey RE 6 © Hreiðar Olgeirsson.

1030.Örfirisey RE 14. © Hreiðar Olgeirson.

Hvað er sameiginlegt útgerðarsögu þessara þriggja eyja, annað en að Einar ríki átti þær ?

Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 664
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 9254637
Samtals gestir: 1995063
Tölur uppfærðar: 24.8.2019 01:05:55
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is