Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2008 Nóvember

13.11.2008 21:56

Pétur Jacob II SH 337

Hér kemur mynd af bátnum sem Alfons ruglaði saman við Bylgjuna I GK hér að neðan. Þessi heitir Pétur Jakob II SH 337 og var í eigu Finns Gærdbo í Ólafsvík. Ég birti mynd af þessum bát 18 nóvember 2007 en á þeirri mynd heitir hann Sören ÞH 260 og var afturbyggður. Báturinn hét upphaflega Grettir SH  195 og var smíðaður í Stykkishólmi 1972. Smíðaefnið var eik og fura og 59 hestafla Lister aðalvél um borð. Eigendur voru Pétur Einar Jóhannesson og Guðmundur Valur Valtýsson í Stykkishólmi. Í lok febrúar 1973 var báturinn seldur Baldri Karlssyni og Geirfinni Svavarssyni á Húsavík. Þá fékk hann nafnið Sören ÞH 260. 1. desember 1975 kaupir Garðar Björgvinsson í Hveragerði bátinn. Í mars 1977 kaupir Kristján Vilmundarson í Neskaupsstað bátinn sem fær nafnið Siggi Villi NK 17. Vorið 1981 er báturinn seldur til Reykjavíkur, kaupandinn er Kristján Jakobsson í Reykjavík og Kristín Björg er nafnið sem báturinn fær. RE 116 eru einkennisstafir og númer. Í desemberbyrjun 1981 kaupir Jón Traustason á Hellisandi bátinn sem fær nafnið Stapavík SH 123. Í september 1985 er Stapavík seld Guðjóni Theódórssyni á Akranesi og verður þá Maron AK 67. Þar er hann skráður 1988. Heimild Íslensk skip.

Þá er það spurningin hvenær Finnur Gærdbo kaupir hann eða áttu fleiri hann í millitíðinni ? Nýja stýrishúsið á bátnum er svolítið Skagaleg, þ.e.a.s líkt stýrishúsum Knarrarbátanna.


1234.Pétur Jakob II SH 337. © Alfons.

12.11.2008 20:53

Bylgjan I GK 141

Fálki ÞH 260 hét þessi bátur upphaflega og var í eigu Garðars Björgvinssonar á Raufarhöfn. Fálki ÞH var smíðaður í Hafnarfirði 1978 og mældist 8 brl. að stærð. Hann var smíðaður úr eik og furu og aðalvélin, 108 hestafla, var af gerðinni Tornycroft. Í júní 1978 kaupir Ívar Baldvinsson í Ólafsvík bátinn sem fékk nafnið Bylgjan I SH 273. Heimild Íslensk skip.

Síðar fékk báturinn nafnið Bylgjan I GK 141. Ekki man ég afdrif bátsins en ef menn vita það er um að gera að skrifa það í álitin hér að neðan.

1519.Bylgjan I GK 141 ex Bylgjan I SH 273. © Alfons.

12.11.2008 20:03

Trefjar með glæsilega veislu

Grétar Þór segir á bloggsíðu sinni að veislan hjá Trefjum í dag hafi verið glæsileg. Þrefalt tilefni var til veisluhalda, í fyrsta lagi er fyrirtækið 30 ára, í öðru lagi, nýtt húsnæði og í þriðja lagi fyrsti báturinn sem smíðaður var í nýja húsinu fór út úr því. Grétar Þór sendi mér þessar myndir hér að neðan en fleiri myndir eru á síðu hans.


Einar Kr. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra flutti tölu. © Grétar Þór.

Einar Kr. og Auðunn Óskarsson stofnandi Trefja klipptu á borða. © Grétar Þór.

Veronica nýr bátur frá trefjum af Cleópatra 42 gerð. © Grétar Þór.

Við fáum betri fréttir af Veonicu innan skamms en þetta er stærsta Cleópatran sem
framleidd hefur verið hjá Trefjum til þessa.

11.11.2008 21:25

Smári ÞH 59

Ég fékk sendar myndir af Smára ÞH 59 í kvöld og þarna tel ég vera algjörar gullmolamyndir á ferðinni. Smári var smíðaður í Hafnarfirði 1949 og mældist 65 brl. að stærð. Var hann á þeim tíma stærsti báturinn sem gerður var út frá Húsavík. Eigandi Smára, sem bar í upphafi einkennisstafin TH 59, var Útgerðarfélagið Vísir hf. á Húsavík. Upphaflega var í Smára 200 hestafla Lister aðalvél en henni var skipt út árið 1956 fyrir 270 hestafla vél sömu gerðar. Um 1960 verður Smári ÞH 59 í stað TH 59  eins og aðrir bátar í Þingeyjarsýslum. Í febrúar 1966 er Smári seldur Haka hf. í Reykjavík. Hann heldur nafninu, sem hann bar reyndar alla tíð, en varð RE 59. Í nóvember 1969 kaupir Björgvin hf. í Stykkishólmi bátinn sem varð Smári SH 221. 1985 er sett í hann 270 hestafla  Mirlees Blackstone í stað Listervélarinnar. Þá eru skráðir eigendur að bátnum fyrirtækin Björgvin hf. og Rækjunes hf. 1988 er hann skráður í Stykkishólmi en afskráður upp úr því. Ætli hann hafi ekki verið úreldur upp í Örn SH 248. Annars eru þessar upplýsingar m.a. úr Íslensk skip.
Óskar Þórhallsson kenndur við Arney KE tók þessar myndir af Smára ÞH. Þórhallur Karlsson, faðir Óskar, var einn eiganda bátsins og skipstjóri hans til ársins 1959 er Sigurður Sigurðsson, síðar skipstjóri á Dagfara, Gísla Árna og Erninum, tók við bátnum. Í Sögu Húsavíkur segir að Smári ÞH hafi verið með fyrstu bátum af þessari stærð sem var með hvalbak.


778.Smári ÞH 59 að koma til hafnar á Húsavík. © Óskar Þórhallsson.

778.Smári ÞH 59 ex Smári TH 59. © Óskar Þórhallsson.

778.Smári ÞH 59 ex Smári TH 59. © Óskar Þórhallsson.

11.11.2008 17:23

Opna kaffistofu um borð.

Vikudagur.is segir frá því að Hollvinir Húna II opni kaffistofu í bátnum á morgun miðvikudag kl. 16.00. Opið er á milli kl. 16.00 - 18.00 eftir atvikum og verður þannig alla virka daga. Einnig er opið á laugardögum milli kl. 10 og 11. Boðið verður upp á Rúbín kaffi og rólegheit, þar sem allir eru velkomnir.

Hollvinir Húna II vilja með þessu sýna samborgurum sínum samstöðu og um leið þakka fyrir þann velvilja sem þeir hafa  notið með bátinn. Í þeim tilvikum þar sem vont veður er og báturinn á hreyfingu, getur farið svo að ekki verði opnað. Hollvinir Húna II hvetja sem flesta til að líta við.


108.Húni II HU 2 ex Sigurður Lárusson SF. © Hafþór Hreiðarsson.

11.11.2008 16:27

Góð aflabrögð í Bolungarvík

Alls hafa 244.585 kg. komið að landi í Bolungarvíkurhöfn það sem af er mánuðinum, þar af hefur Þorlákur ís komið með 42.812 tonn eftir einn róður, Sirrí Ís með 30.432 tonn eftir sjö róðra og Björgmundur Ís með 24.590 tonn eftir sjö róðra. Guðmundur Einars hefur komið með 21.521 tonn eftir sjö róðra, Snjólfur Ís með 21.271 tonn eftir sex róðra og Páll Helgi Ís með 18.440 tonn eftir sex róðra. Sæbjúguskipið Hannes Andrésson hefur komið með 18.874 tonn eftir tvo róðra, Einar Hálfdáns Ís með 16.163 tonn eftir fimm róðra, og Gunnar Leó Ís með 14.784 tonn eftir fjórar róðra. Jakob Einar hefur lagt 7.538 tonn að landi eftir fjóra róðra, Ásdís Ís hefur farið í tvær veiðiferðir og lagt upp 7.457 tonn og Egill var með 6.150 tonn eftir einn róður. Bensi var með 3.742 tonn efir tvo róðra, Séra Jón með 1.492 tonn eftir einn róður, og Sæbjörn með 3.870 tonn eftir tvo róðra. Frá þessu er greint á fréttasíðunni vikari.is


2446.Þorlákur ÍS 15. © Hafþór Hreiðarsson.

11.11.2008 10:12

Arnar SH 157 seldur úr landi

Enn einn báturinn hefur yfirgefið sviðið ef svo má segja. Útgerð Arnars ehf. hefur selt neta- og togbátinn Arnar SH 157 til Noregs. Samkvæmt heimildum Skipamynda sigldi hann af stað áleiðis til Noregs í fyrradag. Sömu heimildir herma að útgerðin hyggist kaupa minni bát. Arnar SH hét upphaflega Jón Helgason ÁR og var smíðaður á Ísafirði 1973.


1291.Arnar SH 157 ex Sæþór EA 101. © Alfons.

10.11.2008 23:05

Sóley ÁR 50

Hér kemur mynd úr safni Vigfúsar Markússonar af Sóleyju ÁR 50 frá Eyrarbakka. Þessu skipi hefur verið gerð góð skil hér áður en þeir sem muna það ekki þá hét hann Sóley ÍS 225, Sóley ÁR 50, Þuríður Halldórsdóttir GK 94, Kristbjörg II ÞH 244, Kristbjörg ÞH 44 og Röst SK 17 en það nafn ber skipið í dag. Sóley var smíðuð í Risör í Noregi 1966.

1009.Sóley ÁR 50 ex Sóley ÍS 225. © Vigfús Markússon.

10.11.2008 22:35

Siggi Valli ÞH kominn til Rúnavíkur

Eins og kom fram hér á síðunni á dögunum Var Siggi Valli ÞH 44 seldur til Rúnavíkur í Færeyjum á dögunum. Báturinn er nú kominn á leiðarenda og tók Hörður Harðarson fréttaritari síðunnar í Færeyjum þessa mynd af bátnum í Rúnavík.


Fyrrum Siggi Valli ÞH 44. © Hörður Harðarson.

10.11.2008 22:06

1053.Bára SH 27.

Hér birtist mynd af Báru SH 27, bátnum hefur verið gerð góð skil hér síðunni áður og því verður þetta ekki langur texti. Bára var smíðuð í Skipavík 1967 og hét upphaflega Kristjón Jónsson SH 77.
Þegar fréttir berast nánast daglega af niðurskurði á fjölmiðlamarkaði, nú síðast hjá Framtíðarsýn, er enginn bilbug að finna á þessari síðu. Samkomulag hefur náðst við Alfons Finnsson um birtingu skipamynda hans á síðunni og þessi mynd af Báru er sú fyrsta í röðinni.


1053.Bára SH 27 ex Ver NS 400. © Alfons.

09.11.2008 22:20

Ekki skipamynd

Hér kemur ekki skipamynd heldur er það flugþota sem rataði fyrir linsuna hjá mér. Hefði verið gott að eiga eina virkilega stóra linsu þarna.


© Hafþór Hreiðarsson 2008

09.11.2008 15:15

Smíðaður í Njarðvík 1946.

Hér kemur mynd sem ég fékk senda af Hafborgu GK 99 sem var í eigu Jóhanns Þórlindssonar. Hafborgin hét upphaflega Sæfari ÍS 360 og var smíðuð í Njarðvík árið 1946. Eigandi hans var Hlutafélagið Andvari í Súðavík. Sæfari var 36 brl. að stærð og sá 170 hestafla Buda aðalvél um að koma honum áfram. 1957 var skiptum vél og kom 220 hestafla GM í stað þeirrar gömlu. Í lok apríl 1960 kaupir Frosti hf. í Súðavík bátinn, sama nafn og númer. Í ársbyrjun 1963 kaupir Jóhann Þórlindsson í Vogum á Vatnsleysuströnd bátinn sem fær þá það nafn sem hann ber á myndinni hér að neðan. 1972 er aftur skipt um aðalvél, nú var það 200 hestafla Kelvin Dorman sem fór niður.
Hafborg GK 99 var talin ónýt og tekin af skrá í desember 1974. Heimild Íslensk skip.


516.Hafborg GK 99 ex Sæfari ÍS 360. © Aðsend mynd.

09.11.2008 13:40

640.is

lestu um þennan á 640.is 


Haukur Eiðsson. © Hafþór Hreiðarsson 2008.

08.11.2008 12:44

Einn að vestan

Hér kemur mynd af einum að vestan en þó tekin eftir að hann var seldur þaðan. Þetta er Kristbjörg II HF 175 sem upphaflega hét Guðbjartur Kristján ÍS 280. Báturinn var smíðaður í Flekkufirði í Noregi árið 1964 fyrir Eyr hf. á Ísafirði. Hann mældist þá 193 brl. að stærð og í honum 495 hestafla Lister aðalvél. 1967 varð nafnabreyting á bátnum sem eftir það hét Víkingur III ÍS 280, sömu eigendur. 1973 var sett ný 600 hestafla Lister í stað þeirrar gömlu. Báturinn var endurmældur í lok árs 1979 og mældist 149 brl. eftir það. Heimild Íslensk skip

Ég ætla að geta mér þess til að báturinn hafi verið seldur þegar Norðurtanginn lét smíða Hálfdán í Búð ÍS 19 í Svíþjóð. Hann fór til Sandgerðis og varð Sandgerðingur GK 280, Víkingur III GK um tíma, en stoppaði stutt þar. 1990 kaupir Fiskiðjan hf. á Sauðárkróki bátinn með kvóta og gerði út til línuveiða, þó ekki lengi því 1991 varð hann Tjaldanes ÍS 522. Eigandi Hólmgrímur Sigvaldason sem seldi hann svo aftur árið 1995. Þá koma einhver pappírsnöfn á hann svo sem Sæfaxi VE og Skussi en eftir það varð hann Kristbjörg II HF 175. Þegar myndin hér að neðan var tekin var skráður eigandi Skeljahöllin ehf. en þegar þeirri útgerð lauk fékk hann Valbergsnöfnin og fór í vaktþjónustu í Norðursjó. Heimild. Skipaalmanök og Morgunblaðið.


127.Kristbjörg II HF 175 ex Skussi. © Hafþór Hreiðarsson 2004.


07.11.2008 22:03

Jónas Hjörleifsson VE 10

Nú er röðin komin að Jónasi Hjörleifssyni VE 10 sem upphaflega hét Helgi ÍS 97. Helgi ÍS var smíðaður í Hafnarfirði 1962 úr eik og furu. Hann var 8 brl. að stærð og búinn 68 hestafla Bolinder aðalvél. Eigendur hans vour Haraldur Olgeirsson, Eggert Jónsson og Olav Oyahals. Báturinn var seldur í september 1970 Hannesi Oddsyni í Hnífsdal og Sveini Garðarssyni og Einari Jónssyni á Flateyri. Í maí kaupir Ólafur Helgi Gestsson í Ólafsví bátinn sem heitir þá helgi SH 144. Seldur Ásbirni Magnússyni í Kópavogi í janúar 1976. Í apríl 1977 kaupir Þormar V. Kristjánsson í Reykjavík bátinn en selur hann aftur í maí 1978. Þá kaupa Hjálmar Haraldsson og Sæþór Þórðarson í Grindavík hann og enn heldur hann nafni og númeri. Í maí 1980 kaupir Skúli Kristjánsson í Skálmarnesmúla Austur-Barðarstrandarsýslu bátinn og þar er hann skráður 1988.                                                                                        Heimild íslensk skip.

Ég gef mér ekki tíma til að fletta uppi frekari upplýsingum um bátinn að sinni. En það sem ég er með í kollinum er það að báturinn verður síðan Sílavík SF134, eigandi Melavík á Höfn, Jónas Hjörleifsson VE 10 í eigu Vorboðans í Vestmannaeyjum og að lokum Sleipnir KE í eigu Hellunefs í Njarðvík. .

560.Jónas Hjörleifsson VE 10 ex Helgi SH 144. © Hafþór Hreiðarsson.

Flettingar í dag: 138
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 1100
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 9395879
Samtals gestir: 2007460
Tölur uppfærðar: 8.12.2019 03:04:45
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is