Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2008 Nóvember

19.11.2008 23:03

Gullver NS 12

Guðjón Ólafsson á Egilsstöðum sendi mér nokkrar myndir í kvöld sem hann fann í foreldrahúsum. Meðal þeirra er þessi mynd hér að neðan af Gullver NS 12. Gullver var smíðaður í Danmörku árið 1959 fyrir Ólaf M. Ólafsson á Seyðisfirði. Báturinn var 70 brl. að stærð með 360 hestafla Lister aðalvél. Í janúarlok 1965 er Gullver seldur Fiskiðjunni hf. í Vestmannaeyjum. Hann fékk nafnið Ver VE 200. 1975 var skiptum aðalvél, 458 hestafla Cummins kom í stað Listervélarinnar. Í ágúst sama ár kaupa Árni Magnússon og Þorsteinn Sigtryggson í vestmannaeyjum Ver VE. Í janúar 1976 er Ver endurmældur og mælist þá 73 brl. að stærð.

Ver VE 200 fórst við vestmannaeyjar þann 1. mars 1979. Sex manna áhöfn var á bátnum og fórust fjórir þeirra. Tveir menn björguðust í gúmmíbjörgunarbát. Áhöfnin á vélbátnum Bakkavík ÁR 100 frá Eyrarbakka bjargaði síðan mönnunum úr gúmmíbjörgunarbátnum og flutti þá til Vestmannaeyja.           Heimild Íslensk skip.


497.Gullver NS 12. © Úr safni Guðjóns Ólafssonar.

19.11.2008 22:42

Dagstjarnan KE 3

Skuttogari þessi sem myndirn er af hér að neðan hét einhvern tímann C.S. Forrester og var smíðaður í Englandi árið 1969. Þá mældist hann 743 brl. að stærð og var búinn 1950 hestafla Werkspoor aðalvél. Gnoð hf. í Hafnarfirði keypti togarann til landsins árið 1980 og fékk hann þá nafnið Rán HF 342. 1982 kaupir Stjarnan hf. í Njarðvík Ránina og nefnir Dagstjörnuna KE 3 Haustið 1987 kaupir Útgerðarfélag Akureyrar togaranna sem fær nafnið Sólbakur EA 305. Í árslok 1991 var Sólbakur settur í úreldingu þegar ÚA yfirtók kaupsamning Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum á grænlenska togaranum Natsek. Þá var haffærisskírteini Sólbaks að renna út og ekki þótti svara kostnaði við að endurbæta hann, Natsek varð svo Árbakur EA.


1558.Dagstjarnan KE 3 ex Rán HF 342. © Hafþór Hreiðarsson.

19.11.2008 22:31

Ryðkláfur, fiskast á málninguna.

Menn hafa verið að skiptast á skoðunum um það hvort það fiskist eitthvað á málninguna. Ekki ætla ég að leggja dóm á það en held þó að mönnum hljóti að líða betur á vel máluðum bátum og hugarfarið við vinnuna eftir því. 


1558.Sólbakur EA 305 ex Dagstjarnan KE 3. © Hafþór Hreiðarsson.

19.11.2008 21:56

Dragnótabáturinn Grímsnes sem er á netum

Dragnótabáturinn Grímsnes GK, dragnótabátinn Grímsnes GK, Grímsnes GK er dragnótabátur. Þetta hefur komið margsinnis fram í flest öllum fréttamiðlum í dag vegna þess að Grímsnesið strandaði við suðsurströndina í nótt sem leið. Dragnótabáturinn Grímsnes GK 555 er reyndar á netum um þessar mundir og benti ég þeim á mbl.is á þá staðreynd í dag en það breytti engu. Landhelgisgæslan sagði í fréttatilkynningu snemma dags að Grímsnesið væri dragnótabátur og þá skal hann bara vera dragnótabátur. Hvað var hann að gera með dragnótina upp í fjöru spurði einn.
Grímsnesið er fiskibátur útbúinn til dragnóta- og netaveiða en hefur veitt í nót, troll og sennilega línu í gegnum tíðina. Sannkallað fjölveiðiskip.

89.Grímsnes GK 555 ex Sædís. © Hafþór Hreiðarsson 2008.


Skemmtilegar myndir á
vef LHG

19.11.2008 19:42

Hver báturinn ?

Elliðaey VE, Meta VE eða Ljósafell SU ? Þetta eru nöfnin sem komu upp. Ekki veit ég hvaða bátur þetta er. Held reyndar miðað við myndina í Íslensk skip að þetta sé ekki Meta VE. Og ekki heldur Elliðaey, það merki ég á klussinu Ljósafellið ekki heldur. Elliðaey var upphaflega Heimaskagi smíðaður á Akranesi. Meta var Freyfaxi NK og Ljósafell Otur RE og voru þeir smíðaðir í Svíþjóð. 

19.11.2008 18:31

Harpa RE 342

Harpa RE 342 hefur komið fyrir hér á síðunni áður, gott ef ekki í tvígang. Hér kemur mynd sem Jón Páll sendi mér fyrir nokkru. Þarna er Harpan eins og hún leit upphaflega út. Híun er greinilega í Norðursjónum, allt fullt af trékössum um borð. En bara svona til upprifjunar var Harpan smíðuð í Hollandi 1967.


1033.Harpa RE 342. © Jón Páll Ásgeirsson.

18.11.2008 22:35

Steinunn SH 167

Hér kemur mynd af aflaskipinu Steinunni SH 167 frá Ólafsvík. Steinunn hét upphaflega Arnfirðingur II GK 412 og var smíðaður í Stálvík í Garðabæ 1970. Eigandi Arnfirðings II frá því í ársbyrjun 1971 var Arnarvík hf. í Grindavík . Þegar Arnfirðingur II,sem var 105 brl. að stærð, var að koma úr róðri þann 20. desember sama ár hlekktist honum á í innsiglingunni í Grindavík og rak á land.
Bátnum var síðar bjargað af strandstað og í ágúst 1972 kaupa Gunnar Richter í Reykjavík og Jóhann Níelsson í Garðabæ bátinn og nefna hann Ingibjörgu RE 10. Í byrjun febrúar 1973 er hann seldur Stakkholti hf. í Ólafsvík og þá fær hann nafnið Steinunn SH 167. Upphaflega var í bátnum 565 hestafla Caterpillar aðalvél en í dag er í honum 715 hestafla vél sömu tegundar frá árinu 1990.
Steinunn var lengd og yfirbyggð 1982 en 1990 seldi stakkholt hf. báta sína. Núverandi eigendur Steinunnar stofnuðu þá útgerðarfélagið Steinunni ehf. og keyptu bátinn. Síðan þá er búið að gjörbreyta bátnum, m.a. setja á hann nýja brú, nýr skutur settur á hann auk perustefnis ofl. breytinga.

1134.Steinunn SH 167 ex Ingibjörg RE 10. © Alfons 2005.

17.11.2008 21:55

Einn hornfirðingurinn til-Akurey SF 31

Hér kemur mynd af einu fiskiskipi til sem gert hefur verið út frá Hornafirði. Þetta er Akurey SF 31 sem upphaflega og lengst af hét Þórkatla II GK 197. Þórkatla II var smíðuð í Rosendal í Noregi 1966 fyrir Hraðfrystihús Þórkötlustaða hf. í Grindavík. Hún var 256 brl. að stærð með 660 hestafla Stork aðalvél. Skipið var endurmælt 1971 og mældist þá 198 brl. að stærð. 1980 var sett í það ný Stork aðalvél, nú 800 hestafla Stork Werkspoor. 1984 var skipið yfirbygg og mældist þá 201 brl. að stærð. Þá var einnig skipt um brú á því.

Í október 1987 var Þórkatla II seld til Hornafjarðar. kaupandinn var Borgey hf. og fékk hún nafnið Akurey SF 31. Akurey náði ekki að vera tvö ár í flota hornfirðinga því í byrjun júní1989 kaupir nýstofnað fyrirtæki á Grenivík, Hlaðir hf., skipið og gefur því nafnið Sjöfn ÞH 142. Hlaðir hf. voru eigu frystihússins Kaldbaks hf. á Grenivík og útgerðarfyrirtækisins Sjafnar hf sem átti fyrir eikarbátinn Sjöfn ÞH 142. 

Þegar ný Sjöfn ÞH var keypt til Grenivíkur í desember 1999 var sú gamla seld yfir fjörðinn, nánar tiltekið á Árskógssand. Þar fékk skipið nafnið Sólrún EA 351 í eigu samnefnds fyrirtækis. Sólrún var gerð út frá Árskógssandi til ársins 2003 þegar Kambur á Flateyri kaupir skipið og gefur því nafnið Halli Eggerts ÍS 197. Í byrjun þessa árs var Halli Eggerts svo seldur til Noregs þaðan sem leiðin lá fljótlega til Danmerkur í brotajárn.


1013.Akurey SF 31 ex Þórkatla II GK 197. © Hafþór Hreiðarsson 1987.

17.11.2008 21:23

Haukafellið fast í Hornafjarðarós

Hér kemur mynd sem Þóroddur Sævar Guðlaugsson sendi mér á dögunum Hún sýnir Haukafellið fast í Hornafjarðarósnum í den.

108.Haukafell SF 111 ex Húni II. © Þóroddur Sævar.

16.11.2008 20:13

Valdi SH keyptur til Snæfellsbæjar

Arnar Laxdal í Snæfellsbæ hefur keypt stálbátinn Valda SH 27 frá Grundarfirði. Arnar tjáði Alfonsi að hann fái bátinn afhentann um næstu mánaðarmót. Arnar hyggst gera bátinn út til neta- og línuveiða. Sægarpur ehf. í Grundarfirði hefur gert Valda út til veiða á beitukóngi og eru þeir byrjaðir að taka gildrurnar upp.


1927.Valdi SH 94 ex Freyja GK 364. © Alfons 2007.

16.11.2008 15:20

Júpíter ÞH við Stykkishólm

Hér koma tvær myndir af Júpíter ÞH 363 sem Alfons tók í gær í Stykkishólmi. Þá var Júpíter að sigla þar rétt við bæjardyrnar. Eitthvað virðist nú vera komið í hann þarna en Alfons sagði að Júpíter hafi siglt fram hjá þeim á Kónanum í fyrradag, tómur.


2643.Júpíter ÞH 363 ex Jupiter. © Alfons 2008.

2643.Júpíter ÞH 363 við Stykkishólm. © Alfons 2008.

15.11.2008 23:01

Helga RE 49

Hér kemur enn ein myndin af norsksmíðuðu stálskipi, þetta er Helga RE 49 sem var í eigu Ingimundar hf. í Reykjavík. Fjallað var skipið á síðunni fyrir rúmum tveim árum og þá kom þetta fram:
Bátur vikunnar að þessu sinni er 199 brl. að stærð, smíðaður í Haugasundi 1956, og er því hálfrar aldar gamall um þessar mundir. Hann er í dag gerður út frá Hornafirði og er í eigu Skinneyjar-Þinganess  hf. Þetta er að sjálfsögðu Þórir SF 77 sem upphaflega hét Vico en þegar hann var keyptur til landsins 1958 fékk hann nafnið Haförn og einkennisstafina GK 321. Eigandi Jón Kr. Gunnarsson Hafnarfirði. Hann seldi Ingimundi hf. í Reykjavík bátinn árið 1961 og fékk hann þá nafnið Helga  RE 49 sem hann bar allt til fram til þess að Þinganes hf. á Hornafirði keypti hann árið 1996.

Þetta hefur ekkert breyst nema að því leyti að verið er að smíða nýjan Þóri SF í Taiwan og því styttist í þeim gamla. Hann er þó enn að og er á fiskitrolli samkvæmt Fiskistofu.


91.Helga RE 49 ex Haförn GK 321. © Trausti Ólafsson.

15.11.2008 15:26

Reynir AK 18

Hér kemur nynd af Reyni AK 18 sem Andrés Kolbeinsson sendi mér. Reynir hét upphaflega Sólfari AK 170 og var smíðaður í Noregi fyrir Þórð Óskarsson hf. á Akranesi. Hann var 182 brl. að stærð með 450hestafla Stork aðalvél. Í árslok 1971 er Sólfari seldur Þórarni Þórarinssyni, Jónasi Þórarinssyni og Magnúsi Þórarinssyni Í Keflavík. Báturinn fékk nafnið Bergþór GK 125. 1973 er skipt um aðalvél, 690 hestafla Callesen kemur í stað Storkvélarinnar. 1974 er nafnabreyting, Bergþór verður Arnþór GK 125. 1977, um mitt það ár, kaupir Reynir sf. á Akranesi bátinn aftur til Akraness. Báturinn fær nafnið Reynir AK 18. Hann er síðan seldur til Hornafjarðar 1981, eigendum Garðeyjar SF. Ekki var sú útgerð löng því Reynir AK sökk út af vattarnesi við Reyðarfjörð 19. október 1981. Níu manna áhöfn bjatgaðist um borð í Þinganes SF 25 eftir að hafa komist í gúmmínjörgunarbát. Heimild Íslensk skip.

Andrés Kolbeinsson sem sendi mér þessa mynd var einn af skipverja á Reyni AK 18 þegar hann sökk.


197.Reynir AK 18 ex Arnþór GK 125. © Andrés Kolbeinsson.

15.11.2008 12:55

Vísir SF 64

Andrés Kolbeinsson sendi mér nokkrar myndir og hér kemur sú fyrsta. Hún er af Vísi SF 64 sem smíðaður var í Stálvík í Garðahreppi eins og Garðabær hét þá. Þetta var 1967 og var skipið smíðað fyrir Braga hf. á breiðdalsvík sem gaf bátnum nafnið Hafdís SU 24. Hafdís var 196 brl. að stærð og 550 hestafla MWM aðalvél um borð. 1. febrúar 1972 kaupir Hjálmur hf. skipið sem fær nafnið Vísir ÍS 171. Vísir var endurmældur í júlí 1972 og mældist þá 149 brl. að stærð. Í lok maí 1981 kaupir Hornfirðingur hf. á Höfn skipið sem heldur nafninu en verður SF 64. Í ársbyrjun 1986 kaupa Jón Gunnar Helgason, Sólveig Edda Bjarnadóttir og Stefán Arngrímsson á Hornafirði bátinn. hann heldur nafni og númeri.  Heimild Íslensk skip.

1987 var Vísir SF yfirbyggður auk þess sem 650 hestafla Mitsubishi aðalvél ko í stað MWM vélarinnar. Þá var skipt um brú á skipinu. Síðar urður eigendaskipti á Vísi SF, hann fékk nafnið Sigurður Lárusson SF, aftur urðu eigendaskipti og þá fékk hann nafnið Akurey SF og loks var hann seldur til Þorlákshafnar. Hann fékk nafnið Jóhanna ÁR 206 og eigandi í dag er Hafnarnes VER hf. í Þorlákshöfn.


1043.Vísir SF 64 ex Vísir ÍS 171. © Andrés Kolbeinsson.

1043.Jóhanna ÁR 206 ex Akurey SF 41. © Hafþór Hreiðarsson.

14.11.2008 22:24

Ásver VE 355

Hér kemur mynd Vigfúsar Markússonar af skipi sem upphaflega hét Jörundur III RE 300. Þarna heitir hann Ásver VE 355. Jörundur III var smíðaður í Englandi 1964 fyrir Jörund hf. í Reykjavík. Hann mældist 267 brl. að stærð og átti sér systurskip, Jörund II RE 299. Aðalvélin var 800 hestafla Lister. Skipið var síðar endurmælt og mældist þá 233 brl. að stærð. Í desember 1972 kaupa Richard Sighvatsson og Sigurður Garðar Ásbjörnsson skipið og þá fær hann það nafn sem hann ber á myndinni hér að neðan. Á Þorláksmessudag 1976 kaupa skipið þeir Jakob Sigurðsson og Magnús Grímsson og nefna Sæborgu RE 20. Frá því í maí 1980 er skráður eigandi Sjófang hf. 1982 var sett í það 800 hestafla Mirrlees Blackstone aðalvél í stað Listervélarinnar. Heimild Íslensk skip.

1992 kaupir Vísir hf. í Grindavík Sæborgina sem verður GK 475. Hún sökk sumarið 1996 er hún var við síldveiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum. mannbjörg varð en Sæborg var á landleið með fullfermi.


254.Ásver VE 355 ex Jörundur III RE 300. © Vigfús Markússon.

Flettingar í dag: 155
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 1100
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 9395896
Samtals gestir: 2007465
Tölur uppfærðar: 8.12.2019 03:34:52
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is