Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2008 Nóvember

30.11.2008 23:20

Palli og Busi á Aron

Hér kemur mynd sem einn af velunnurum síðunnar sendi mér. Hún er tekin um borð í Aron ÞH 105 á vetrarvertíðinni 1989 er báturinn réri á Breiðafirði. Á myndinni eru Sigurpáll Sigurbjörnsson stýrimaður sem er aftan við trossuna og Hafþór Harðarson, eða Busi eins og við húsvíkingar þekkjum hann best. Þeir eru nú báðir búsettir suður eð sjó, Sigurpáll í Keflavík og Busi í Sandgerði að ég held.


Á netaveiðum á Breiðafirði. © Þorgeir Baldursson 1989.

30.11.2008 20:12

Bjössi á Stafnesi

Bjössi á Stafnesi var ekki einn á ferð þegar hann var að taka myndir af síldveiðiskipunum í dag. Sturla Högnason tók þessa myndir af Bjössa munda vélina og af Birtingi NK með Bjössa í forgrunni. Myndir þeirra félaga er hægt að skoða hér Bjössi og hér Sturla.


Bjössi á Stafnesi myndar síldveiðarnar. © Sturla Högnason 2008.

Bjössi og Birtingur. © Sturla Högnason.

30.11.2008 18:22

Síldveiðar við Keflavík

Arnbjörn Eiríksson eða Bjössi á Stafnesi eins og hann er kallaður sendi mér nokkrar myndir sem hann tók í dag. Þær eru af síldarskipunum sem voru við veiðar skammt undan landi við Reykjanesbæ. Það voru kallarnir á Súlunni og Margréti sem fundu síldina í nótt sem leið. Birtingur og Álsey bættust síðan í hópinn og voru þessi skip við veiðar í dag þegar Bjössi tók myndirnar.


Síldveiðar við Keflavík 2008. © Arnbjörn Eiríksson.

Síldveiðar. © Arnbjörn Eiríksson 2008.

1807.Birtingur NK 119 ex Áskell EA 48. © Arnbjörn Eiríksson 2008.

29.11.2008 23:46

Rauðinúpur ÞH 160

Hér kemur mynd Hreiðars Olgeirssonar af Rauðanúp ÞH 160. Það er gott að það eru til skip eins og Rauðinúpur, þ.e.a.s sem hafa sjaldan eða aldrei skipt um eigendur eða nafn og lítið verið breytt. bara smíðuð, gerð út og seld, punktur. Hvað er svo svo svona gott við það, jú þegar maður er latur er gott að henda inn myndum af þessum skipum. Þarf ekkert að vera að pæla í sögu þeirra. Nú kemur Hafliði vinur minn örugglega með það að það geti nú verið sögur á bak við Rauðanúp þó hann hafi aldrei skipt um nafn, Hafliði var nefnilega á honum.

En Rauðinúpur var smíðaður í Japan árið 1973, mældist 461 brl. að stærð búinn 2000 hestafla Niigata aðalvél. Hann var í eigu Jökuls á Raufarhöfn frá 29. júní 1973, þá var síðuritari 10 ára upp á dag, til ársins 1996 að hann var seldur til Rússlands. Þar fékk hann nafnið Vulkanniy.


1280.Rauðinúpur ÞH 160. © Hreiðar Olgeirsson.

28.11.2008 23:27

Jóhann Þorkelsson ÁR 24

Enn er það Vigfús Markússon sem leggur síðunni til mynd, nú af Jóhanni Þorkelssyni ÁR 24. Báturinn hét upphaflega Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 og var smíðaður í Danmörku 1957 fyrir Þorbjörn hf. í Grindavík. Bátuirnn var 56 brl. að stærð með 280 hestafla Alpha aðalvél. Í desember 1965 kaupa Sverrir Vilbergsson í Keflavík og Ólafur ragnar Sigurðsson í Grindavík og nefna hann Hrungnir GK 355. Í mars 1967 er Hrungnir seldur Bjarna og Jóhanni Jóhannssonum á Eyrarbakka. Báturinn fær sitt síðasta nafn, Jóhann Þorkelsson ÁR 24. 1975 var skipt um aðalvél, Alphan vék fyrir 425 hestafla Caterpillar. Jóhann Þorkelsson ÁR 24 strandaði í innsiglingunni til Eyrarbakka 21. júní 1981. Fimm manna áhöfn hans bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát til lands en Jóhann Þorkelsson ÁR eyðilagðist á strandstað. Heimild Íslensk skip.


575.Jóhann Þorkelsson ÁR 24 ex Hrungnir GK 355. © Vigfús Markússon.

27.11.2008 21:17

Á leið í slipp

Hér kemur mynd úr safni Vigfúsar Markússonar sem sýnir Þorstein Gíslason GK 2 á leið upp í slipp. Sýnist á öll að það sé Njarðvíkurslippurinn. Bátnum sjálfum hefur verið gerð ágæt skil hér á síðunni svo ég set punktinn hér.


288.Þorsteinn Gíslason GK 2 ex Árni Geir KE. © Vigfús Markússon.

26.11.2008 15:01

Oddur Sæmundsson kaupir Narfa VE 108.

Oddur Sæmundsson skipstjóri og útgerðarmaður sem lengi hefur verið kenndur við Stafnesið hefur keypt sér bát og hyggst gera hann út til netaveiða. Báturinn er Narfi VE 108 sem upphaflega hét Bára SU 526 frá Fáskrúðsfirði og var í eigu Árna Stefánssonar. Síðar var hann seldur 1972 Garðari Magnússyni í Ytri-Njarðvík og varð báturinn, sem smíðaður er í Noregi 1964, þá Bára GK 24. 1978 kaupir Silfurnes hf. á Hornafirði bátinn sem fékk nafnið Gissur Hvíti SF 55. Í nóvember 1985 kaupir Særún hf. á Blönduósi bátinn sem varð Gissur Hvíti HU 35 og var gerður út til rækjuveiða. Gissur Hvíti var seldur til Vestmannaeyja eftir aldamótin síðustu, árið 2002 nánar tiltekið. Bergur-Huginn keypti hann en seldi svo Narfa hf. bátinn sem fékk þá nafnið Narfi VE 108. Upphaflega var í bátnum 450 hestafla Stork aðalvél enn 1983 var sett ný vél í hann, 800 hestafla Callesen. Báturinn mældist upphaflega 216 brl. að stærð en var 1973 og mældist þá 165 brl. að stærð. Hann var yfirbyggður á Akureyri 1989 og þó nokkrum árum síðar var skipt um brú.


964.Narfi VE 108 ex Gissur Hvíti HU 35. © Tryggvi Sig.964.Gissur Hvíti HU 35 ex Gissur Hvíti SF 55. © Hafþór Hreiðarsson.

964.Gissur Hvíti SF 55 ex Bára GK 24. © Hreiðar Olgeirsson.

Skipasalan Álasund hafði milligöngu um kaupin á Narfa VE 108.

25.11.2008 20:12

Skálanes ÞH 190

Hér kemur ein mynd til úr safni Sigurðar Bergsveinssonar. Hann telur myndina vera tekna af Kristni Breiðfjörð Gíslasyni líkt og myndirnar af Ver KE hér að neðan. Þessi mynd er af Skálanesi ÞH 190 frá Þórshöfn. Útgerðarsaga þess varð ekki löng fremur en hjá Ver KE 45. Skálanes ÞH 190 var smíðaður í Skipavík í Stykkishólmi líkt og Ver KE 45. smíðaárið er 1970 og mældist báturinn 34 brl. að stærð. 240 hestafla Caterpilar aðalvél var í honu. Eigandi bátsins var Nes hf. á Þórshöfn á Langanesi. Skálanes ÞH 190 rak á land á Þórshöfn 13. febrúar 1973 og eyðilagðist með öllu . Heimild Íslensk skip.

Í þessu veðri ráku tveir bátar á land á Þórshöfn eftir að hafa slitnað frá bryggju. Hinn var stálbáturinn Fagranes ÞH 123 sem lá utan við Skálanesið í fjörunni en þeir höfðu legið saman við bryggjuna. Fagranesið náðist út en Skálanesið eyðilagðist eins og áður segir. Guðmundur Vilhjálmsson skrifaði hér eitt sinn álit við mynd af Fagranesinu að Skálanesið hafi verið rifið þarna í fjörunni.


1113.Skálanes ÞH 190. © Kristinn Breiðfjörð Gíslason 1970.

25.11.2008 16:04

Ver KE 45

Hér koma skemmtilegar myndir sem Sigurður Bergsveinsson sendi mér. Þær sýna Ver KE 45. Annars vegar frá sjósetningu hans í júní 1966 og síðan úr reynslusiglingunni. Eftir því sem fram kom í Morgunblaðinu á þessum tíma gaf Lillian Guðmundsson eiginkona Þorvarðar Guðmundssonar skipasmíðameistara Ver nafn og er myndin tekin við það tækifæri. Sigurður segist ekki vita hver það er sem stendur hjá Lillian en það sé ekki Þorvarður. Myndirnar tók Kristinn Breiðfjörð Gíslason í Stykkishólmi.

Í Íslensk skip segir að Ver KE 45 hafi verið smíðaður í Stykkishólmi 1966 og mældist hann 36 brl. að stærð. Um borð var 165 hestafla GM aðalvél. Eigendur bátsins voru Erlendur Sigurðsson, Þórólfur Sæmundsson og Sveinbjörn Eiríksson í Keflavík. Ver KE sökk í róðri út af Kóp þann 26. janúar 1968. Fimm manna áhöfn hans bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í varðskipið Albert.

Sagt er ítarlega frá þessu sjóslysi 17 bindi ritraðarinnar Þrautgóðir á raunastund. Þar kemur fram að Ver hafi verið gerður út frá Bíldudal og skipstjóri hans var Snæbjörn Árnason. Báturin fékk á sig brostsjó og sökk í norðan stórviðri. Röð atvika og eða tilviljana varð til þess að áhöfnin bjargaðist heil á húfi eftir miklar hrakningar.


Frá sjósetningu Vers KE 45 í júní 1966. © Kristinn Breiðfjörð Gíslason.

1008.Ver KE 45 á reynslusiglingu í júní 1966. © Kristinn Breiðfjörð Gíslason.

1008.Ver KE 45. © Kristinn Breiðfjörð Gíslason.

24.11.2008 22:48

Skúli fógeti

Hér kemur mynd af Skúla fógeta VE 185 sem upphaflega hét Fróði ÁR 33. Fróði var smíðaður árið 1969 í Skipavík í Stykkishólmi og mældist þá 49 brl. að stærð. Eigendur hans voru Jósep og Viðar Zophaníassynir, Hraðfrystihús Stokkseyrar hf. og Stokkseyrarhreppur. 1974 eru skráðir eigendur bátsins Hraðfrystihús Stokkseyrar hf. og Stokkseyrarhreppur og hann hefur fengið nafnið Hersteinn Ár 37. Í októberlok 1976 kaupa feðgarnir Óskar Ingibergsson og Karl Óskarsson í Keflavík Herstein sem fær nafnið Albert Ólafsson KE 39. Þeir eiga hann til ársins 1984 en í júní það ár kaupa þeir Sigurður Ólafsson og Haraldur Gíslason í Vestmannaeyjum bátinn sem fær nafnið Skúli fógeti VE 185. Heimild Íslensk skip.

1996 er hann enn skráður sem Skúli fógeti VE og upphaflega aðalvélin í honum, 240 hestafla Kelvin. Þá var búið að setja hvalbak á bátinn. Ekki man ég afdrif hans en held þó að hann hafi ekki skipt um nafn eftir þetta.


1082.Skúli fógeti VE 185 ex Albert Ólafsson KE 39. © Vigfús Markússon.

23.11.2008 22:09

Vísir ÍS 225

Hér kemur mynd úr safni Alfons af Vísi ÍS 225 sem smíðaður var í Neskaupsstað 1964. Báturinn, sem smíðaður var fyrir Þór hf. á Suðureyri, var 91 brl. að stærð búinn 375 hestafla Kromhout aðalvél. Hann hét upphaflega Sif ÍS 500 en í september 1971 er hann seldur Garðari hf. í Gerðum Gullbringusýslu. Sif varð við það GK 777 en sama ár var Sif endurmæld og mældist þá 83 brl. að stærð.

Í maí 1973 er Sif seld austur á Hornafjörð. Kaupandinn var Kristján Gústafsson og nefnir hann bátinn Sævald SF 5. Ekki stoppar hann lengi fyrir austan því september sama ár kaupir Hólmur hf. í Stykkishólmi bátinn sem aftur verður Sif. Nú SH 3. Í mars 1976 kaupir Fif sf. á Akranesi Sif sem verður við það AK 17. Í júlímánuði 1980 kaupir Hjallanes hf. á Flateyri Sif sem verður nú ÍS 225. 1983 er sett í bátinn ný aðalvél, 440 hestafla Mitsubishi. 1988 er Sif skráð á Flateyri en eigandinn er Útgerðarfélag Flateyrar hf. eða Hjálmur hf. segir í Íslensk skip.

Eftir þetta er ég ekki með söguna alveg á hreinu en hann varð Vísir ÍS 225, einnig SH 343 að ég held og BA 343. Hann er enn á skrá 1996 en mig minnir að hann hafi brunnið við bryggju á Brjánslæk.


956.Vísir ÍS 225 ex Sif ÍS 225. © Alfons.

22.11.2008 17:13

Smíðaður í Noregi 1906

Sigurður Bergsveinsson segist kannast við bátinn á myndinni frá Reykjavíkurhöfn hér að neðan. Þ.e.a.s eikarbátinn sem ber fyrir á miðri mynd. Hann telur þetta vera þann bát sem bar skipaskrárnúmerið 378 og hét á þessum tíma Dröfn KÓ. Bergsveinn faðir Sigurðar átti Dröfn við annan mann og sendi Sigurður mér myndir af bátnum.

Í Íslensk skip segir frá þessum bát sem smíðaður var í Noregi 1906. Þar segir að báturinn hafi verið 7 brl. upphaflega, byggður úr eik og furu og 16 hestafla Dan vél. Eigandi Árni Bergsson Ólafsfirði og báturinn heitir Magni EA 363. 1929 er eigandi Áskell Þorkelsson í Hrísey og komin 20 hestafla Scandia aðalvél í hann. Báturinn var umbyggður og lengdur á Siglufirði 1938 og mældist þá 16 brl. að stærð. Þá var enn skipt um vél og nú sett í hann 40 hestafla Scandia. Báturinn fékk um tíma nafnið Þór EA 363, sami eigandi en 1940 er hann seldur Jóni og Birni Arngrímssonum á Dalvík. Hann fékk nafnið Arngrímur Jónsson EA 363.

1943 fór fram stórviðgerð á bátnum og hann lengdur í annað sinn. Hann mældist þá 18 brl. að stærð og fjórða vélin fékk að fara um borð í bátinn í þessari klössun. Nú var það 100 hestafla Alpha. Í byrjun júnímánaðar 1953 er báturinn seldur Júlíusi Halldórssyni, Eðvari Júlíussyni og Brynjari Júlíussyni á Akureyri. Báturinn hét Gunnar EA 363. Rúmu ári síðar, eða í október 1954, kaupir Útgerðarfélag Hríseyjar hf. Gunnar EA. Báturinn fékk nafnið Dröfn EA 363. Dröfn er seld í ágúst 1960, Kaupendur eru Bergsveinn Br. Gíslason og Karl Sigurðsson í Kópavogi, báturinn heitir áfram Dröfn en verður KÓ 28. Þeir eiga hann til ársins 1964, í mars það ár selja þeir bátinn aftur norður í Eyjafjörð.

Kaupendur eru Helgi Jakobsson og Snorri Snorrason og báturinn verður Dröfn EA 81. Þá var sett í hann ný vél, 134 hestafla Scania. Í ársbyrjun 1966 kaupa þeir Árni og Sigurjón Guðbjartssynir bátinn sem fær nafnið Guðjón Árnason HU 12. Þeir eiga bátinn í 14 ár, 28 febrúar 1980 selja þeir Heimi B. Gíslasyni í Þorlákshöfn bátinn sem fær nafnið Gísli Kristján ÁR 35. Hann er síðan úreltur 1989 fyrir nýjan Gísla Kristján ÁR 35 sem keyptur var frá Svíþjóð. Heimild Íslensk skip.


378.Dröfn KÓ 28 ex Dröfn EA 363. © Úr safni Sigurðar Bergsveinssonar.

378.Gísli Kristján ÁR 35 ex Guðjón Árnason HU 12. © Hafþór Hreiðarsson.

20.11.2008 23:32

Reykjavíkurhöfn 1962

Hér kemur ein mynd til úr safni Guðjóns Ólafssonar. Hún er af Reykjavíkurhöfn og er myndin framkölluð í desember 1962 svo við gefum okkur að hún hafi verið tekin það ár.


Reykjavíkurhöfn 1962. © Úr safni Guðjóns Ólafssonar.

20.11.2008 17:20

Oddur V Gíslason með Grímsnesið í togi.

Grímsnes GK 555 komst aftur í fréttirnar í dag, nú varð skipið vélavana undan Stóru Sandvík á Reykjanesi. Björgunarskip Landsbjargar í grindavík og Sandgerði voru kölluð út ásamt því að nærliggjandi bátar voru beðnir að sigla á staðinn. Um 2,5 sjm. voru í land. Oddur V. Gíslason björgunarskip grindvíkinga tók síðan Grímsnes í tog en skipið var á leið til Njarðvíkur.


2310.Oddur V. Gíslason. © Hafþór Hreiðarsson.

20.11.2008 16:24

Guðrún Þorkelsdóttir SU 211

Hér kemur önnur mynd úr sendingunni frá Guðjóni Ólafssyni. Hér er það Guðrún Þorkelsdóttir SU 211 sem lent hefur fyrir linsunni. Guðrún Þorkelsdóttir var smíðuð 1959 í Noregi fyrir Jón Kjartansson hf. á Eskifirði. Hún var 103 brl. að stærð með 400 hestafla Wichmann aðalvél. 1966 var skipið lengt og mældist þá 186 brl. að stærð. Í marsbyrjun 1967 er Guðrún Þorkelsdóttir seld Hraðfrystihúsinu hf. í Hnífsdal sem nefnir skipið Ásgeir Kristján ÍS 103. Í desember 1970 er Mímir seldur austur á Hornafjörð. Kaupandinn er Kristján Gústafsson og skipið heitir Bergá SF 3. 1974 er skipt um aðalvél, 750 hestafla Brons kemur í stað Wichmanvélarinnar. Í ársbyrjun 1977 kaupir Stígandi hf. í vestmannaeyjum Bergá sem fær nafnið Stígandi VE 77. Í september 1980 er Stígandi seldur norður á Ólafsfjörð og fær hann nafnið Kristinn ÓF 30. Eigandi var Sædís hf. á Ólafsfirði. Í september 1983 kaupa Baldvin Njálsson og Bergþór Baldvinsson í Garði skipið sem fær nafnið Sigurður Bjarnason GK 100. Frá 11. júní er skipið skráð GK 136 og þann 26. sama mánaðr var það skráð ónýtt og tekið af skrá. heimild Íslensk skip. Við þetta má bæta að úreldingaréttur skipsins var nýttur þegar Geiri Péturs ÞH 344 var keyptur til landsins frá Noregi. Þeir feðgar í Garðinum keyptu Geira Péturs ÞH sem fyrir var og fékk hann nafnið Una í Garði GK 100.


Guðrún Þorkelsdóttir SU 211. © Úr safni Guðjóns Ólafssonar.

Flettingar í dag: 588
Gestir í dag: 85
Flettingar í gær: 771
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 9399682
Samtals gestir: 2008177
Tölur uppfærðar: 13.12.2019 13:46:29
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is