Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2008 Október

13.10.2008 21:09

Sveinn Rafn SU

Hér kemur ein mynd til af togara sem vestfirðingar fluttu inn til rækjuveiða. Þetta er Sveinn Rafn SU 50 sem upphaflega hét Hafrafell ÍS 222 á íslenskri skipaskrá. Það var Básafell hf. sem flutti hann inn árið 1993 frá Grænlandi þar sem hann bar nafnið Perquk. Skipið var smíðað í Esbjerg í Danmörku árið 1978 og mældist það 272 brl. að stærð. Aðalvélin var af Grenaa gerð, 810 hestöfl.
Hafrafell var selt árið 1997 og fékk nafnið Hrannar HF 346 og var í eigu Hraunsvíkur ehf. og samkvæmt Sjómannaalmanaki Skerplu árið 1998 var honum breytt til línuveiða árið 1997. Hann var síðan seldur og fékk þá nafnið Sveinn Rafn SU 50 og var með heimahöfn á Fáskrúðsfirði. Andromeda ehf. var fyrst eigandi hans og síðar Svan-Fishing og jafnvel e-h fleiri. Þessa mynd tók ég af honum koma til Húsavíkur 13. ágúst 2003 og er mér til efs að hann hafi verið gerður út mikið lengur en það við Ísland.


2204.Sveinn Rafn SU 50 ex Hrannar HF 346. © Hafþór Hreiðarsson.

13.10.2008 20:42

Brimir ÞH 10

Hér kemur annar togari til sem vestfirðingar keyptu til rækjuveiða á sínum tíma. Þetta er Brimir ÞH 10 sem upphaflega hét Guðmundur Guðjónsson BA, þ.e.a.s. á íslenskri skipa skrá. Hann var keyptur til landsins árið 1991 en þá hét hann Niisa og miðað við það nafn hlýtur hann að hafa komið frá Grænlandi. Brimir var smíðaður í Frederikshavn í Danmörku árið 1979 og var 225 brl. að stærð, búinn 899 hestafla Grenaa aðalvél. Hann var með heimahöfn á Brjánslæk í upphafi ef ég man rétt en síðar var hann seldur Sigurnesi hf. í Reykjavík sem nefndi hann Brimi SU 383, heimahöfn Djúpivogur. Þaðan var hann seldur til Jökuls hf.á Raufarhöfn og fékk þá nafnið Sléttunúpur ÞH 110. Nokkir húsvíkingar keyptu hann kvótalausann af Jökli og fékk hann þá aftur nafnið Brimir en nú ÞH 10. Ekki urðu þeir ríkir af þeirri útgerð og var togarinn seldur úr landi, man ekki hvert en held til Noregs, a.m.k. sá ég einhvern tímann mynd af honum í norskri skipaskrá.


2155.Brimir ÞH 10 ex Sléttunúpur ÞH 110. © Hafþór Hreiðarsson.

12.10.2008 19:39

Guðmundur Péturs

Hér kemur mynd af rækjutogaranum Guðmundi Péturs ÍS 45 frá Ísafirði sem smíðaður var í Portúgal 1984. Hraðfrysthús Patreksfjarðar hf. keypti hann til landsins 1986 og þótti hann þá þegar ekki fallegasta skipið í flotanum. Patreksfirðingar misstu Þrym á uppboði 1989 þegar hann var sleginn Byggðastofnun. Ekki man ég nú alveg söguna eftir það nema hann var í eigu Básafells hf. á Ísafirði og síðar fékk hann nafnið Kópanes RE.


1753.Guðmundur Péturs ÍS 45 ex Þrymur BA 7. © Hafþór Hreiðarsson.

11.10.2008 17:38

Sigurvon SH

Hér kemur mynd Hreiðars Olgeirssonar af Siguvon SH 121 sem tekin var á Breiðafirði. Sigurvon hét upphaflega Arnfirðingur II RE 7 og var smíðaður í Þýskalandi 1961 og mældist þá 101 brl. að stærð. Eigandi bátsins var Arnarvík hf. í Reykjavík, síðar Grindavík, frá 8. mars 1961. Í sumarlok 1962 var báturinn seldur Miðnesi hf. í Sandgerði sem nefndi hann Sæunni GK 343. 1970 kaupir Snarfari hf. í Vestmannaeyjum bátinn, hann heitir áfram Sæunn en fær VE 60. Höfn hf. á Siglufirði kaupir svo bátinn í maí 1975 en skráir hann í Hafnarfirði, hann heitir Særún HF 60. Ingvi Rúnar Einarsson í Hafnarfirði kaupir hann svo í júlílok sama árs og Gunnar Sveinbjörnsson í Garðinum kaupir hann svo af honum í maí 1977. Í desember byrjun 1978 kaupir Hafnarey hf. á Breiðdalsvík bátinn sem fær nafn fyrirtækisins og verður SU 210. Rækjunes hf. og Sigurjón Helgason í Stykkishólmi kaupa bátinn snemma árs 1983 og þá fær hann það nafn sem hann ber á myndinni hér að neðan. 1985 eru skráðir eigendur bátsins Rækjunes hf. og Björgvin hf. í Stykkishólmi. Upphaflega var í bátnum 400 hestafla MWM aðalvél en árið 1977 var henni skipt út fyrir 620 hestafla Cummins. Þessar fróðlegu upplýsingar koma úr þeirrki merku ritröð Jóns Björnssonar, Íslensk skip. Ekki er ég með á hreinu afdrif þessa báts en tel að hann hafi nú ekki verið gerður út mikið lengur en til ársins 1990. En það hlýtur að koma fram.


210.Sigurvon SH 121 ex Hafnarey SF 210. © Hreiðar Olgeirsson.

09.10.2008 21:12

Skel

Hér kemur mynd af skelveiðiskipinu Skel ÍS 33 sem vestfirðingar gerðu út um árið. Skel var smíðuð 1984 á Flórída og mældist 275 brl. að stærð. Skel ÍS, sem var keypt í stað Æsu sem fórst, var seld aftur til Bandaríkjanna í ársbyrjun 2002.


2297.Skel ÍS 33. © Hafþór Hreiðarsson.

08.10.2008 18:32

Hvert fer 1262

Það er smáfrétt um þennan á www.640.is en eins og menn muna kom upp eldur í honum í byrjun september.

1262.Sigurpáll ÞH 130 ex Guðbjörg GK 517. © Hafþór Hreiðarsson 2007

07.10.2008 19:25

Rassmus Effersöe

Skuttogarinn Rassmus Effersoe sem er í fréttum í dag vegna vandræða við Grænland er íslendingum að góðu kunnur, a.m.k. þeim sem áhuga hafa á skipum og bátum. Þetta er togari sem gerður var út frá Sandgerði af valbirninum hf. og hét Haukur GK 25. Hann hét áður Snoddið og var keyptur frá Færeyjum árið 1991 en seldur þangað aftur um áratug síðar, er ekki með það alveg á hreinu. Togarinn var smíðaður í Langsten í Noregi 1984 og mælist 479 brl. að stærð.


2107.Haukur GK 25 ex Snoddið. © Hafþór Hreiðarsson

06.10.2008 22:47

Náttfari RE 75

Hér kemur skemmtileg mynd af Náttfara RE 75 sem Vigfús Markússon tók. Þessum bát hefur verið gerð skil hér áður, þá sem Sindri GK, og verður því punkturinn settur hér.


1213.Náttfari RE 75 ex Heimaey VE 1. © Vigfús Markússon.

04.10.2008 22:48

Svanur RE 45

Hér koma fjórar myndir af sama bátnum sem hefurt ekið breytingum í áranna rás. Upphaflega hét hann Brettingur NS 50 og síðar Esjar RE 400 um tíma en á þessum fjórum myndum heitir hann Svanur RE 29 . Hann var smíðaður í Noregi 1967 og var íslenska fiskiskipaflotanum í um 35 ár eða allt þar til hann var seldur til Arabíu eins og frægt var. Stýrimaðurinn komst alla vegna í fréttirnar.


1029.Svanur RE 29 ex Esjar RE 400. © Sigurgeir Harðarson.

1029.Svanur RE 45 ex Esjar RE 400. © Hreiðar Olgeirsson.


1029.Svanur RE 45 ex Esjar RE 400. © Sigfús Jónsson.

1029.Svanur RE 45 ex Esjar RE 400. © Sigfús Jónsson.

04.10.2008 21:30

Sigurður RE kemur við sögu...

Sigurður RE 4 kemur við sögu í frétt á www.640.is í gær en myndin hér að neðan kemur úr safni Kjartans Traustasonar á Húsavík.


183.Sigurður RE 4 ex Sigurður ÍS 33. Mynd úr safni Kjartans Traustasonar.

04.10.2008 20:13

Sléttbakur EA 304

Hér kemur mynd sem ég tók á Akureyri 1987 þegar Sléttbakur EA 304 var búinn í breytingunum í Slippstöðinni. Þar var skipið lengt og því breytt í frystiskip. Sléttbakur var smíðaður í Syvikgrend í Noregi 1968. Útgerðarfélag Akureyrar hf. keypti það til landsins árið 1973 ásamt systurskipi þess sem fékk nafnið Svalbakur EA 302. Sléttbakur, sem upphaflega hét Stella Kristina, var 781 brl. að stærð en eftir lenginguna mældist hann 902 brl. að stærð. Samherji hf. keypti Sléttbak árið 2002 og gaf honum nafnið Akureyrin EA 110.


1352.Sléttbakur EA 304 ex Stella Kristina. Ljósm. Hafþór Hreiðarsson

02.10.2008 21:32

1317.Grímsey ST 2

Það er spurt hér að neðan í færslunni um Ragnar Ben ÍS hvort ég eigi mynd af öðrum bát, smíðuðum á Skagaströnd líkt og Ragnar Ben. Um er að ræða bát með skipaskránúmer 1317 sem hét upphaflega Engilráð ÍS 60. Hér að neðan er mynd sem ég tók þegar hann hét Grímsey ST 2 og var gerður út frá Drangsnesi. Engilráð ÍS var smíðuð árið 1973 eins og Jörvi sem síðar varð Ragnar Ben. Fjarkinn hf. var eigandi Engilráðar til ársins 1981 er hann var seldur Friðgeir Höskuldssyni á Drangsnesi. Friðgeir gerði Grímsey út til ársins 1997 en þá kaupir hann þá Grímsey sem hann gerir út í dag. Grímsey ST 2 sem hér um ræðir var þá seld og fékk nafnið Röst SH 134með heimahöfn í Stykkishólmi. Röst SH sökk þann 19. mars un eina sjómílu sv. af Svörtuloftum við Snæfellsnes. Tveir menn, sem að mig minnir voru að sigla bátnum til Reykjavíkur, björguðust um borð í gúmmíbjörgunarbát þaðan sem áhöfnin á grænlenska loðnuskipinu Siku bjargaði þeim. 


                 1317.Grímsey ST 2 ex Engilráð ÍS 60. Ljósm. Hafþór Hreiðarsson 1993

01.10.2008 23:12

1310.Ragnar Ben ÍS 210

Hér kemur mynd úr safni Vigfúsar Markússonar og sýnir hún bátinn sem hafði skipaskrárnúmerið 1310. Hann var smíðaður á Skagaströnd fyrir þá feðga Þórarinn Vigfússon og Hinrik Þórarinsson. Félag þeirra hét Hagbarður hf. og fengu þeir bátinn, sem var 30 brl. að stærð, afhentann á vormánuðum 1973. Hann hét Jörvi ÞH 300 og gerðu þeir hann út fram á mitt ár 1977 er þeir selja hann vestur á Ísafjörð. Kaupendur voru Kristinn Haraldsson og Ólafur Guðmundsson og nefndu þeir bátinn Ragnar Ben ÍS 210. Eigendaskipti verða á bátnum 1980 en þá eru skráðir eigendur Kristinn Haraldsson og Ragnar Á. Kristinsson. Í nóvember 1983 strandar báturinn á skeri við Brimnes,rétt vestan Hellisands, og sökk á svipstundu. Fjögurra manna áhöfn bátsins komst við illan leik upp á skerið og var síðan bjargað heilum á húfi til lands. Þessar upplýsingar eru m.a. fengnar úr bókinni Íslensk skip.


1310.Ragnar Ben ÍS 210 ex Jörvi ÞH 300. Ljósm. Vigfús Markússon.

Í fréttum af strandinu segir að Ragnar Ben ÍS hafi verið frá Ólafsvík og því geri ég ráð fyrir því að nýbúið hafi verið að kaupa hann þangað. Ekki man ég eftir honum þar á vertíðinni 1983.

Flettingar í dag: 110
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 1100
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 9395851
Samtals gestir: 2007457
Tölur uppfærðar: 8.12.2019 02:29:52
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is