Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2008 Október

21.10.2008 13:54

Hver er báturinn ?

Hver er hann þessi ?

20.10.2008 22:25

Fjölnir

Fjölnir SU 57 landaði hér á Húsavík í dag, fyrstur Vísisbáta á þessu kvótaári. Afli hans var um 70 tonn.


237.Fjölnir SU 57 ex Hrungnir GK 50. © Hafþór Hreiðarsson.

20.10.2008 21:36

Vardöjenta

Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi nú á dögunum nýjan Cleopatra bát til Vardø í Finnmerkurfylki í Noregi. Kaupandinn er Kent Are Esbensen sem jafnframt verður skipstjóri á bátnum. Báturinn hefur hlotið nafnið Vardøjenta. Hann mælist 15brúttótonn og er af gerðinni Cleopatra 36 sem er sérstök útgáfa af Cleopatra 38.

Aðalvél bátsins er af gerðinni Cummins QSM11 610hp tengd ZF V-gír. Báturinn er útbúinn fullkomnum siglingatækjum af gerðinni Furuno. Hann er með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu hans.
Báturinn er útbúinn til línu og netaveiða auk þess aðstunda veiðar á kóngakrabba hluta úr ári. Línubúnaður er fráBeiti og netabúnaður frá Rapp. Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking-björgunarbúnaði. Rými er fyrir 11stk 660 lítra kör í lest. Í bátnum er upphituð stakkageymsla og sturtuklefi. Borðsalur er í brúnni auk stóla fyrir skipstjóra og háseta.
Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.  Reiknað er með að báturinn hefji veiðar nú á næstu dögum.


Vardöjenta F-90-V. © Trefjar.

20.10.2008 21:20

Eldur í togara.

Á www.mbl.is segir frá því að í gærkveldi hafi komið upp eldur í frystitogara frá Nýfundnalandi sem fyrirtækið Ocean Choice International á og gerir út. Það fyrirtæki er að þriðjungshluta til í eigu Vísis hf. í Grindavík. Togari þessi, Newfoundland Lynx, var smíðaður í Frederikshavn í Danmörku árið 2004. Það var Örskov Christensen Staalskibsværft A/S sem smíðaði skipið


Newfoundland Lynx.

19.10.2008 22:16

Nýir eigendur að Þorsteini Gíslasyni

Samkvæmt heimildum mínum eru komnir nýir eigendur að vélbátnum Þorsteini Gíslasyni frá Grindavík. Þeir eru hinir sömu og eiga Kristbjörgu HF177 og Margréti HF 20 (samkvæmt vef Fiskistofu). Ég bara man ekki hvort ég hef fjallað um Þorstein Gíslason hér áður en til upprifjunar hét hann upphaflega Árni Geir KE 31 frá Keflavík. Hann var smíðaður 1959 í Þýskalandi og fyrsti eigandi hans var Guðfinnur sf. í Keflavík. 1965 kaupir Norðurvör sf. í Keflavík bátinn sem heldur nafni sínu og númerum. Aftur er hann seldur árið1970 og nafn og númer halda sér. Að þessu sinni voru það þeir Gísli J. Halldórsson í Keflavík og Kjartan Ásgeirsson í Garðinum kaupa hann. Þeir selja hann aftur árið 1975 og þá fær hann nafnið sem hann ber í dag, Þorsteinn Gíslason GK 2. kaupendur voru Jóhannes Jónsson og Halldór Þorláksson í Grindavík ásamt Bjarna Helgasyni í Reykjavík. Í ársbyrjun 1977 eru eigendur Jóhannes, Guðjón og Magnús Þorlákssynir í Grindavík en árið 1982 er það Selháls sf. sem er skráður eigandi.  Uppl. Íslensk skip
Skráður eigandi í dag er Selháls ehf.


288.Þorsteinn Gíslason GK 2 ex Árni Geir KE 31. © Hafþór Hreiðarsson.

19.10.2008 18:54

Sigurvin SH 107

Hér kemur mynd úr safni Vigfúsar Markúsonar af vélbátnum Sigurvin SH 107 frá Ólafsvík. Báturinn var smíðaður í Vestmannaeyjum árið 1947 og var 65 brl. að stærð. Hann hét fyrstu tuttugu árin eða svo Jón Stefánsson VE 49 og var í eigu Björgvins Jónssonar í eyjum. Upphaflega var í honum 193 hestafla Allen aðalvél en 1962 var sett í hann miklu mun stærri vél af Caterpillargerð, 380 hestafla. Í árslok 1966 er báturinn seldur Einari Sigurðssyni í Reykjavík sem nefnir hann Bjarnarey RE 46. Í desember 1970 er hann seldur Hraðfrystistöð Vestmannaeyja hf. og verður Bjarnarey VE 17. Ári síðar er hann svo seldur vestur í Ólafsvík þar sem hann fær nafnið Sigurvin SH 107. Hörður Sigurvinsson var kaupandinn en Sigurvin var talinn ónýtur og tekinn af skrá í ágúst 1979.
Heimild Íslensk skip.


621.Sigurvin SH 107 ex Bjarnarey VE 17. © Vigfús Markússon.

19.10.2008 16:40

Gullhólmi SH

Línuskipið Gullhólmi SH 201 landaði hér á Húsavík sl. föstudag og tók ég þessa mynd af honum. Vegna vítaverts myndaði ég hann ekki þegar hann fór. Þessi bátur hefur aðeins borið tvö nöfn um dagana, það fyrra var Þórður Jónasson. Fyrst var hann RE 350 en lengstum EA 350. Neðri myndina sendi Ólafur Gunnarsson mér og sýnir hún bátinn við löndunarbryggjuna í Krossanesi. Þarna er hann eins og hann var í upphafi. Nokkrar myndir á ég af honum á hinum ýmsu stigum þarna á milli.


264.Gullhólmi SH 201 ex Þórður Jónasson EA 350. © Hafþór Hreiðarsson.

264.Þórður Jónasson EA 350 ex Þórður Jónasson RE 350.

19.10.2008 14:28

Polonus verður Tunu

Nú hefur frystitogari sá sem eitt sinn bar nafnið Akraberg og var EA 410 fengið grænlenskt nafn, Tunu. Hann hefur heitið Polonus undanfarin ár og verið skráður í Póllandi. East-Greenland Codfish A/S í Tasiilaq er skráð eigandi hans. Hvort hann hefur verið seldur, leigður eða flaggað til Grænlands er ekki gott að segja en Síldarvinnslan er stór hluthafi í þessu grænlenska fyrirtæki. Samherji er svo meðal eigenda Síldarvinnslunnar en Samherji var eitthvað tengdur þessu pólska fyrirtæki sem gerði hann út sem Polonus. En sem sagt nú er hann skráður sem Tunu og með heimahöfn í Tasiilaq.

 Polonus GDY 3. © Hafþór Hreiðarsson

18.10.2008 20:56

Þorsteinn GK 16

Hér kemur mynd af Þorsteini GK 16 sigla út úr höfninni á Húsavík. Þetta var þegar rækjuveiðin var í blóma fyrir norðurlandi og rækjuskip- og bátar leituðu oft hafnar á Húsavík. Þorsteinn hét upphaflega Lómur KE 101 og var smíðaður í Molde í Noregi 1963 fyrir Brynjólf hf. í Keflavík. Báturinn var 202 brl. að stærð og búinn 660 hestafla Lister aðalvél. Hann var endurmældur 1969 og varð við það 178 brl. Haustið 1973 kaupir Kópanes hf. í Reykjavík bátinn og fær hann nafnið Kópur RE 175. Í ársbyrjun 1977 kaupa Guðmundur Þortseinsson og Jóhannes Jónsson í Grindavík bátinn sem heldur nafninu en verður GK 175. 1979 var skipt um aðalvél, 720 hestafla Mirrless Blackstone kom í stað Listersins. 1980 er skráður eigandi að bátnum Hóp hf. og hann fær nafnið Þorsteinn GK 16 sem hann bar þar til yfir lauk. Eins og menn vita sem áhuga hafa á bátum fékk Þorsteinn netin í skrúfuna undan Krýsuvíkurbjargi þann 10. mars 1997. Hann varð við það vélavana og rak upp í bergið eftir að akkerisfestar hans höfðu slitnað, en ekki tókst að koma aðalvélinni í gang. Áður en báturinn strandaði hafði þyrla Landhelgisgæslunnar bjargað tíu manna áhöfn hans. Veðrið var slæmt og Þorsteinn fylltist af sjó eftir að hann strandaði og valt síðan á hliðina. Ægir konungur var síðan ekki lengi að eyðileggja flakið þar sem það lá óvarið fyrir ágangi sjávar. Þorsteinn GK hafði verið yfirbyggður 1985 auk þess sem skipt hafði verið um brú á honum. Áður en hann var yfirbyggður að fullu var hann hálf yfirbyggður eins og svo margir grindavíkurbátar voru einnig.


145.Þorsteinn GK 16 ex Kópur GK 175. © Hafþór Hreiðarsson.


145.Þorsteinn GK 16 ex Kópur GK 175. © Vigfús Markússon.

Fleiri samskonar bátar voru smíðaðir í Molde fyrir íslendinga, hverjir voru þeir ?

17.10.2008 21:45

Siggi Valli farinn

Það er frétt af þessum inn á www.640.is í dag.


2376.Siggi Valli ÞH 44 ex Mávur SI. © Hafþór Hreiðarsson.

16.10.2008 23:36

5463.Vinur ÞH 73

Ég sá á síðu Þorgeirs vinar míns að maður að nafni Ívar er að spyrjast fyrir um það hvort til sé mynd af trillubát sem ber skipaskrárnúmerið 5463. Það vill svo til að ég á mynd af honum og meira að segja myndband líka en það er nú önnur saga. Þessi bátur hét Vinur ÞH 73 þegar myndin var tekin og eigandi hans Sigurður Sigurðsson aflakló. Bátinn hafði hann keypt til Húsavíkur vorið 1975 frá Hrísey en Vinur var smíðaður á Akureyri 1968.Þegar að Stýssi, eins og Siggi er oft kallaður, seldi Sigurði A. Hákonarsyni bátinn sumarið 1992 fékk hann nafnið Borg ÞH 55. Síðar var hann seldur úr bænum. Heimild Saga Húsavíkur.


5463.Vinur ÞH 73. © Hafþór Hreiðarsson.

16.10.2008 22:19

Hjalteyrin

Hér kemur skemmtileg mynd úr safni Trausta Ólafssoanr á Húsavík. Hún sýnir Hjalteyrina EA 310 í spænuroki við Grímsey í den. Hjalteyrin hét upphaflega Arinbjörn RE og var smíðaður í Stálvík.


1514.Hjalteyrin EA 310 ex Arinbjörn RE 54. © Trausti Ólafsson.

15.10.2008 19:44

Hulda ÍS

Hér kemur enn einn sem vestfirðingar keyptu til landsins og létu reyndar smíða þennan í Svíþjóð 1988. Þetta er Hulda ÍS 448 sem Arnór L. Sigurðsson á Ísafirði átti og gerði út á rækju. Ekki stóð sú útgerð mjög lengi og var báturinn seldur til Grindavíkur þar sem hans örlög urðu að stranda við Hópnestá að kvöldi 22. nóvember 1991. Þá sögu þekkjum við en báturinn sem þá hét Eldhamar GK 13 hafði verið lengdur stuttu áður.


1892.Hulda ÍS 448. © Hafþór Hreiðarsson.

14.10.2008 20:48

þessi var smíðaður fyrir flateyinga

Báturinn sem hér um ræðir var smíðaður á Akureyri fyrir Hermann Jónsson og syni hans Ragnar og Jón. Bátur hét Bjarmi TH 277 með heimahöfn í Flatey. Bjarmi sem síðar varð ÞH 277 var 6 brl. að stærð og smíðaður hjá Nóa bátasmið. Sumarið 1978 kaupa Ásgeir Þórðarson og Örn Arngrímsson bátinn og eiga hann til haustsins 1980 er þeir selja hann vestur á Patreksfjörð þar sem hann heldur nafninu en verður BA 277. Kaupendur voru Ólafur Bjarnason og Stefán Skarphéðinsson. Í ársbyrjun 1985 selja þeir bátinn Gunnlaugi I. Sveinbjörnssyni í Sandgerði og fær hann þá nafnið Logi og er GK 121. Hann mun hafa verið úreltur í maí 1993 eftir því sem Emil Páll skrifar á síðu Þorgeirs.

 330.Logi GK 121 ex Bjarmi BA 277. © Hafþór Hreiðarsson.

Ragnar og Jón Hermannssynir um borð í Bjarma á Akureyri. Myndina sendi mér Ólafur Gunnarsson á Akureyri.

14.10.2008 19:18

Bjössi Sör

Það er frétt þar sem þessi kemur við sögu á www.640.is í dag.


1417.Bjössi Sör ex Breiðdælingur SU. © Hafþór Hreiðarsson.

Flettingar í dag: 138
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 1100
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 9395879
Samtals gestir: 2007460
Tölur uppfærðar: 8.12.2019 03:04:45
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is