Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2008 Október

31.10.2008 23:23

Krossvík AK 300

Hér kemur mynd af skuttogaranum Krossvík AK 300 sem var í eigu samnefnds hlutafélags á Akranesi. Krossvík var smíðuð í Noregi 1972 og mældist 296 brl. að stærð, búin 1500 hestafla Wichmann aðalvél. Hlutafélagið Krossvík hf. var stofnað af HB & Co, Akraneskaupstað, Síldar- og fiskimjölsverksmiðju Akraness, Þórði Óskarssyni og Haferninum. Ekki er ég nú alveg með það á hreinu hvernig saga Krossvíkur hf. var en alla vegna var skuttogarinn Krossvík AK notaður sem fysrta greiðsla þegar HB keypti frystitogarann Polarborg II frá Færeyjum sem síðar fékk nafnið Höfrungur III AK 250.  Heimild: haraldarhus.is


1339.Krossvík AK 300. © Vigfús Markússon.

30.10.2008 19:09

Myndaði Emil í gær

Loksins loksins náði ég að mynda Emil............sjá hér

29.10.2008 22:57

Ágúst og Ágúst Guðmundssynir

Hér fáum við að líta augum tvo báta sem eitt sinn voru í eigu Halkotsbræðra á Vatnsleysuströnd. Þetta er Ágúst Guðmundsson GK 95, einn fjögurra báta sem báru þetta nafn, og Ágúst Guðmundsson II GK 94. Ágústi Guðmundssyni þessum hefur verið gerð góð skil hér áður og eins hefur hinn komið við sögu á síðunni.


262.Ágúst Guðmundsson GK 95 ex Klængur ÁR 2. © Hafþór Hreiðarsson.

262.Ágúst Guðmundsson GK 95 ex Klængur ÁR 2. © Vigfús Markússon.

963.Ágúst Guðmundsson II GK 94. © Vigfús Markússon.

28.10.2008 22:39

Þorsteinn GK 16

Um daginn birti ég mynd af Þorsteini GK 16 sem endaði undir Krísuvíkurbjargi þann 10 mars 1997. Um mánuði síðar var kominn nýr Þorsteinn í stað hans og tók ég þessa mynd af honum í Grindavík. Eins og sést þá er íslenski fáninn við hún í afturmastrinu en áhöfnin á fullu við að græja bátinn enda sjálfsagt búnir að missa nógu mikið af vertíðinni á þeimtíma sem liðinn var frá því sá gamli strandaði.


1159.Þorsteinn GK 16 ex Svanur SH 111. © Hafþór Hreiðarsson.

27.10.2008 22:02

Mótor og segl

Hér kemur mynd sem ég tók sl. fimmtudag eða daginn fyrir bræluna sem verið hefur yfir helgina. Þá var Sæborgin að koma að landi eftir róður á Skjálfanda og lítill árabátur undir seglum mætti henni í hafnarkjaftinum.
 

1475.Sæborg ÞH 55 ex Eyvindur KE. © Hafþór Hreiðarsson.

26.10.2008 10:36

Tveir fimm níu

Hér koma tvær myndir af sama bátnum sem hét Súlan EA 300 í upphafi. Þessar myndir gætu verið teknar með c.a. 20 ára millibili en þá fyrri tók Vigfús Markússon en Tryggvi Sigurðsson þá neðri.


259.Stígandi RE 307 ex Stígandi ÓF 30. © Vigfús Markússon.


259.Valdimar Sveinsson VE 22 ex Jarl KE 31. © Tryggvi Sig.

25.10.2008 20:33

Trausti

Nú mun Trausti ÍS 111 vera kominn til Foarnes í Danaveldi þar sem hann verður brytjaður í spað. Trausti, sem er einn austur þýsku stálbátanna, var smíðaður 1961 fyrir Hraðfrystihús Stöðfirðinga. Hann mældist í upphafi 101 brl. en var endurmældur síðar og mælist í dag 93 brl. að stærð. Kambaröst SU 200 var það nafn sem stöðfirðingar völdu bátnum sem þeir gerðu út þangað til  að hann var seldur í lok nóvember 1965. Kaupandinn var Norðurvör hf. í Þorlákshöfn og nefndu þeir bátinn Bjarna Jónsson ÁR 28. Í árslok 1967 kaupir Eyri hf. í Sandgerði bátinn sem verður við það Álaborg GK 175. Í lok mars 1971 kaupir Fiskiver hf. á eyrarbakka bátinn sem fær ÁR 25 á kinnunginn. Upphaflega var 400 hestafla MWM aðalvél í bátnum en árið 1981 var sett í hennar stað 520 hestafla Caterpillar. Ný Álaborg ÁR leysti þessa af hólmi í ársbyrjun 1997 og fékk sú gamla þá nafnið Trausti ÁR 80. Eigandinn var Spillir ehf. í Reykjavík sem síðar skráði bátinn fyrir vestan, í Súðavík. Uppl. eru úr Íslensk skip ásamt því sem fannst í kolli síðuritara.


133.Trausti ÁR 80 ex Álaborg ÁR 25. © Hafþór Hreiðarsson.

133.Álaborg ÁR 25 ex Álaborg GK 175. © Vigfús Markússon.

25.10.2008 19:47

Smábátum fækkar

Smábátarnir streyma úr landi líkt og þeir stærri og hafði ég samband við Andrés Kolbeinsson hjá Húsanausti og forvitnaðist örlítið. Andés sagði að frá því september í fyrra hafi þeir selt átján báta úr landi, þar eru tvær nýsmíðar frá Seiglu. Sautján þeirra fóru til Noregs en einn til Grænlands. Fyrirtækið stendur að vefnum www.findvessel.com þar sem hægt er að kaupa og selja báta. Ef Andrés og félagar hafa selt sextán notaða smábáta úr landi hvað skyldu hinar skipsölurnar hafa selt ? Hvað ætli smábátum hafi fækkað mikið frá því síðasta skipaalmanak kom út ? Það verður fróðlegt að sjá.

2485.Björgmundur ÍS 49 ex Auður Þórunn ÞH 344. © Hafþór Hreiðarsson.

25.10.2008 18:43

Mikð tjón á hafnarmannvirkjum

Mikið tjón varð við Húsavíkurhöfn í gærkveldi og nótt þegar há sjávarstaða ásamt miklu brimi olli miklum fyllum sem skullu á hafnarmannvirkjum. Hægt er að lesa nánar um þetta á www.640.is Þá er komið inn albúm með myndum sem teknar voru í dag.


Bökugarðurinn í dag. © Hafþór Hreiðarsson.

24.10.2008 20:11

Ólafur HF

Þessi ku vera seldur. Hafa menn einhverja vitneskju um hver kaupandinn er ? Vonandi er han hér innanlands.


2605.Óafur HF 200. © Hafþór Hreiðarsson.

23.10.2008 22:29

Víðir II á toginu

Hér er Víðir II á toginu í den. Að mig minnir hefur saga þessa báts komið fram hér áður og verður ekki endurtekin nú. Að vísu hefur hann skipt um eigendur nýlega en útgerðamaður Portlands VE keypti hann í sumar.


219.Víðir II GK 275. © Vigfús Markússon.


23.10.2008 19:49

Keflavíkurhöfn árið 1966

Þessa mynd fékk ég senda í morgun en hún er tekin yfir höfnina í Keflavík í apríl árið 1966. Það mun hafa verið hermaður í herstöðinni á Miðnesheiðinn sem hana tók. Þarna má sjá hve blómleg útgerð var í Keflavík á árum áður og þar á ég við fjölda báta. Veit ekkert hvort menn voru að reka þetta yfir eða undir núllinu, sjálfsagt misjafnt eins og gengur en allavega sköffuðu þeir sér og sínum vinnu.


Keflavíkurhöfn í apríl 1966.

22.10.2008 22:29

Libas hinn norski

Hér kemur mynd af einum stórum og glæsilegum. Þetta er hinn norski Libas, flaggskip norðmanna, sem smíðaður var í Fitjar Mek Veksted í Noregi árið 2004. Ég er nú ekk með miklar upplýsingar um hann en hann er tæpra 100 metra langur með ríflega 8000 hestafla aðaðlvél. Myndirnar fékk ég á heimasíðu áhafnarinnar á Margréti EA en tengill á hana er hér til hægri á síðunni. Fleiri myndir er hægt að skoða á síðunni hjá þeim en þær voru teknar á dögunum þegar Leibbi Manna og hans menn lönduðu í Noregi. Kann ég þeim Margrétarmönnum bestu þakkir fyrir afnotin og leyfið til að nota myndir frá þeim.


Libas. © www.123.is/margretea

Hér sést stærðarmunurinn á Libas og Margrétinni. © www.123.is/margrétea

22.10.2008 16:01

Helga RE 49

Helga RE 49 er þekkt nafn í íslenska flotanum og nokkur skip hafa borið það. Hér er mynd af þeirri stærstu, 1066 brl. frystitogara sem smíðaður var í Slipen Mek. Verksted A/S í Sandnesöjen í Noregi. Það var árið 1996 sem skipið hljóp af stokkunum, nánar tiltekið  þann 4. maí en skrifað var undir smíðasamninginn þann 20 febrúar 1995. Helga, sem norskum skipasmiðum þótti eitt best búna  fiskiskip veraldar, kom til landsins í byrjun septembermánaðar 1996 og fór fljótlega upp úr því til rækjuveiða. Helga RE 49 var gerð út til rækjuveiða af Ingimundi hf. í rúm þrjú ár en haustið 1999 var hún seld til Grænlands. Kaupandinn, grænlenska útgerðarfyrirtækið PolarSeafood Trawl, fékk það afhent í Reykjavíkurhöfn um mánaðarmótin október-nóvember. Helga RE var, og er sennilega enn, með 4590 hestafla Wartsila aðalvél en mesta lengd skipsins er 60,4 metrar. Breiddin er 13 metrar og eins og áður segir er það 1066 brl að stærð en BT mælingin segir um 2000 tonn.


2249.Helga RE 49. © Birgir Mikaelsson.

21.10.2008 19:41

Sigurþór GK 43

Hér kemur mynd úr safni Vigfúsar Markússonar af Sigurþór GK 43 við bryggju. Sigurþór hét upphaflega Gylfi EA 628 og var í eigu Valtýrs Þorsteinssonar í rauðuvík við Eyjafjörð. Gylfi var smíðaður á Akureyri 1939 úr eik og beyki. Upphaflega var í honum 100hestafla Alpha aðalvél en 1944 var skipt um vél og kom 240 hestafla GM í stað Alphavélarinnar. Í árslok 1965 er báturinn seldur suður til Reykjavíkur, Guðmundur Ragnarsson er kaupandinn og nefnir hann bátinn Fróða RE 44. Í júnímánuði 1971 er báturinn aftur kominn norður í Eyjafjörð. Nú Þingeyjarsýslumegin, nánar tiltekið á grenivík. Þangað keyptu þeir Svavar og Guðlaugur Gunnþórssynir bátinn og nefndu hann Eyfirðing ÞH 39. Í ársbyrjun 1974 er hann aftur seldur suður þar sem hann fær Fróðananfið að nýju en verður RE 111. Kaupandinn Sigurjón Jónsson á Seltjarnarnesi. Í marsmánuði 1975 skiptir báturinn aftur um eigendur þegar Steinþór Þorleifsson í Grindavík kaupir hann. Hann fær nafnið Sigurþór GK 43 sem hann ber á myndinni hér að neðan. Sigurþór GK 43 var talinn ónýtur og tekinn af skrá síðla októbermánaðar 1983. Heimildir fékk ég að þessu sinni í bókinni Íslensk skip 1. bindi.


509.Sigurþór GK 43 ex Fróði RE 111. © Vigfús Markússon.

Flettingar í dag: 568
Gestir í dag: 82
Flettingar í gær: 771
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 9399662
Samtals gestir: 2008174
Tölur uppfærðar: 13.12.2019 13:12:35
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is